29.02.1972
Sameinað þing: 43. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1212 í D-deild Alþingistíðinda. (4935)

173. mál, virkjun Jökulsár á Fjöllum

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Hv. þm. spyr, hvort ríkisstj. hafi ákveðið að láta gera fullnaðaráætlun um virkjun Jökulsár á Fjöllum við Dettifoss og hvenær líklegt sé, að þeirri fullnaðaráætlun verði lokið.

Ríkisstj. tók um það ákvörðun í haust, að gerð skyldi fullnaðaráætlun um virkjun við Dettifoss, og var raunar greint frá því opinberlega þá þegar. Sérfræðingar álíta, að þessu verki muni verða lokið eftir svo sem tvö ár. En mér þykir rétt í tilefni þessarar fsp. að gera nánari grein fyrir því, hvar þetta mál er á vegi statt samkv. vitneskju, sem rafveitudeild Orkustofnunar hefur látið mér í té.

Fyrir um það bil tíu árum hófust nokkuð umfangsmiklar virkjunarrannsóknir við Dettifoss, m.a. með jarðborunum, kortlagningu virkjunarsvæðis, gerð frumáætlana um virkjanir, jarðfræðikönnun í Jökulsárgljúfrum og annars staðar á yfirborði og fleiri atriðum. Þessar rannsóknir stóðu í sambandi við samanburðaráætlanir, sem gerðar voru um virkjun á Jökulsá á Fjöllum við Dettifoss, er vera skyldu til samanburðar við sams konar áætlanir um virkjun á Þjórsá hjá Búrfelli. Rannsóknum þessum við Jökulsá var haldið áfram, unz sýnt þótti, að ódýrari orka væri fáanleg með virkjun Þjórsár hjá Búrfelli.

Fyrir nokkrum árum voru þessar rannsóknir hins vegar teknar upp að nýju, og hefur þeim verið haldið áfram að meira eða minna leyti síðan. Fyrri rannsóknir við Dettifoss voru við það miðaðar, að virkjunin yrði neðanjarðar og vatn leitt frá henni út í Jökulsárgljúfur eftir frárennslisjarðgöngum. Eftir því sem rannsóknum hefur miðað áfram, hefur jarðfræðingum litizt æ verr á þá virkjunarhugmynd vegna ýmiss konar jarðfræðilegra aðstæðna, sem ekki er rúm til að rekja hér í smáatriðum. Því var það, þegar rannsóknir voru teknar upp aftur við Jökulsá fyrir nokkrum árum, að megináherzlan var lögð á að kanna möguleikana á virkjunartilhögun, þar sem yrði komizt hjá þeim helztu örðugleikum, sem samfara voru neðanjarðarvirkjun. Eru þær rannsóknir, sem síðan hafa verið framkvæmdar, miðaðar við slíka tilhögun.

Það er skemmst frá að segja, að því betur sem virkjunarstaðurinn við Dettifoss hefur verið rannsakaður, því fleiri jarðfræðilegir annmarkar hafa komið í ljós. Má þar til nefna, að jarðfræðingar telja sig hafa rökstuddan grun um, að jarðlög kunni að vera á smágerðum hreyfingum við Dettifoss, og mun það vera nær einsdæmi um virkjunarstað hérlendis. Ef um slíkar hreyfingar á jarðlögum er að ræða, hljóta þær að hafa margháttuð áhrif á tilhögun og gerð mannvirkja, og verður að taka fullt tillit til þeirra, þegar virkjunartilhögun er ráðin. Í því skyni að kanna, hvort um slíkar hreyfingar á jarðlögum við Dettifoss er að ræða eða ekki, voru á s.l. sumri gerðar nákvæmar hallamælingar við Dettifoss og Hafragilsfoss og annars staðar á virkjunarsvæðinu. Þessar mælingar eru áþekkar þeim, sem sums staðar annars staðar hafa verið gerðar hér á landi í vísindalegum tilgangi einvörðungu til þess að finna hræringar jarðskorpunnar. Áformað er að endurtaka þessar mælingar á næsta sumri, 1972, og þá fyrst fæst hugsanlega vitneskja um, hvort þarna er um hræringar að ræða eða ekki. Þó er rétt að taka fram, að neikvæð niðurstaða næsta sumar sannar út af fyrir sig ekki, að engar hræringar séu fyrir hendi. Þær gætu komið fram síðar, en þó má ætla, að mikilvægar vísbendingar fáist þegar á næsta sumri.

Gerð hefur verið frumáætlun um virkjun við Dettifoss, bæði með neðanjarðartilhögun og eins með virkjun ofanjarðar. Þessi síðarnefnda frumáætlun um ofanjarðarvirkjun bendir eindregið til þess, að þarna sé um hagkvæma virkjun að ræða, svo framarlega sem ekki komi í ljós nein þau atriði við frekari rannsóknir, sem raska þeim forsendum, sem lagðar voru til grundvallar við áætlanagerðina. Það er t.d. augljóst, að ef í ljós kemur við rannsókn, að jarðlög á virkjunarsvæðinu eru á hreyfingu, er viðbúið, að það kunni að hafa veruleg áhrif á niðurstöðurnar. Þess vegna verður að taka niðurstöður frumáætlana, sem út af fyrir sig eru mjög jákvæðar til þessa, með talsvert mikilli varúð enn sem komið er.

Á vegum Orkustofnunar er nú unnið að gerð fullnaðaráætlunar um virkjun við Dettifoss. Vegna þess hve jarðfræðilegar aðstæður á virkjunarsvæðinu eru flóknar, er viðbúið að gera þurfi ítarlegar rannsóknir á svæðinu, áður en viðunandi fullnaðaráætlun getur orðið tilbúin. Fyrsta skrefið í þeim rannsóknum eru þær rannsóknir, sem fyrr voru nefndar, á hugsanlegum jarðhræringum. Næsta skref í rannsóknunum yrðu jarðboranir. Það þykir nauðsynlegt að fá fyrstu niðurstöður af mælingum á hugsanlegum jarðlagahreyfingum, áður en lagt er í boranir. Að öðrum kosti er hætt við, að miklu fé kynni að verða sóað til einskis í borholur, sem mælingarnar á jarðlagahræringunum kynnu að leiða í ljós að hefðu verið óþarfar.

Áform Orkustofnunar í þessu efni er í stuttu máli á þá leið, að á sumrinu 1972 verði gerðar áðurnefndar mælingar á jarðlagahræringum. Á grundvelli þeirra verði síðan ráðgerð virkjunartilhögun endurskoðuð og á grundvelli þeirrar endurskoðunar verði rannsóknir með jarðborunum skipulagðar og þær boranir síðan væntanlega framkvæmdar á árinu 1973. En jafnframt þessu er nú sem stendur unnið að endurskoðun á frumáætlun, þar sem dregin er inn öll sú vitneskja, sem þegar er tiltæk, og er áformað að gera eins nákvæma virkjunaráætlun og tiltæk gögn frekast leyfa. Hér er um að ræða eins konar millistigsáætlun milli frumáætlunar og fullnaðaráætlunar, en slík áætlun er mikilvæg, til þess að hægt sé að skipuleggja betur þær rannsóknir, sem nauðsynlega verða að fara fram sem undanfari fullnaðaráætlunar. Reiknað er með því, að niðurstöður þessarar millistigsáætlunar liggi fyrir næsta vor eða næsta sumar.

Samhliða áðurnefndum jarðfræðirannsóknum og áætlanagerð um virkjun við Dettifoss hafa farið fram aðrar tegundir virkjunarrannsókna á svæðinu, svo sem vatnamælingar, og hafa þær staðið yfir í fjölda ára. Enn fremur hefur verið gerð könnun á því með eftirlíkingu á rafreikni, hvernig samstarfi Dettifossvirkjunar við aðrar virkjanir á Norðurlandi yrði bezt komið fyrir og hvaða orka yrði fáanleg í slíku samstarfi. Er niðurstaðan á þá lund, að frá Dettifossvirkjun væru fáanlegar um 1200 gígawattstundir á ári af raforku og hæfileg stærð virkjunarinnar væri um 160 mw. Er þá reiknað með aðeins takmarkaðri miðlun ofan við stíflu á Selfossbrún, en örðugleikum er bundið að gera á þeim stað mjög stóra miðlun sökum þess hve jarðlög öll á þessum svæðum eru sundurskorin og lek. Ef hugsað er um stærri miðlun þar, má því búast víð mjög miklu vatnstapi úr lóninu um sprungur og gjár fram hjá virkjuninni.

Þá er þess enn að geta, að gerðar hafa verið áætlanir um orkuflutningslinu til þess að flytja orku Dettifossvirkjunar til Akureyrar og enn fremur um linu frá Akureyri suður yfir Sprengisand að Sigöldu, þannig að unnt væri að flytja þann hluta af orku Dettifossvirkjunar, sem ekki nýtist norðanlands, á markað sunnanlands. Þessar línuáætlanir eru um tveggja ára gamlar og þurfa því endurskoðunar við með tilliti til verðlags, og er sú endurskoðun áformuð nú á næstu mánuðum. Tekið skal fram, að hér er þó um frumáætlanir að ræða, og er mikil þörf á að kanna betur línuleiðir og annað því máli viðvíkjandi, áður en fullnaðaráætlanir eru fram lagðar. Að slíkri könnun er nú unnið, og er nýlokið við rækilega könnun á línuleiðum milli Suðurlands og Norðurlands. Er skýrsla um þá könnun væntanleg nú eftir nokkra daga.

Í sem stytztu máli er því rannsókn á virkjunaraðstæðum við Dettifoss þannig á vegi stödd, að unnið er að fullnaðaráætlun um virkjun við Dettifoss, en sökum mjög örðugra jarðfræðilegra aðstæðna er viðbúið, að rannsóknir þær, sem eru nauðsynlegur undanfari slíkrar fullnaðaráætlunar, taki næsta sumar, 1972, og hið þar næsta, 1973, þannig að þess er vænzt, að unnt verði að ganga frá fullnaðaráætlun eftir u.þ.b. tvö ár.