29.02.1972
Sameinað þing: 43. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1217 í D-deild Alþingistíðinda. (4939)

173. mál, virkjun Jökulsár á Fjöllum

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Mig langar aðeins að leggja fáein orð í belg varðandi athugun á virkjun Dettifoss, sem hefur verið talsvert umrætt mál á Norðurlandi um lengri tíma, en alltaf strandað, eins og hér kom fram áðan, á því, að ekki hefur verið litið svo á m.a., að markaður væri fyrir það rafmagn, sem þar yrði að virkja, svo að virkjunin væri hagkvæm. Nú hefur komið fram, eða svo hefur það komizt inn í minn hug, að í raun og veru væri búið að ákveða virkjun á Suðurlandi, Sigölduvirkjun, án þess að fyrir lægi, að markaður væri fyrir alla þá orku, sem þar ætti að virkja, nema því aðeins að það yrði horfið í miklu ríkari mæli en verið hefur að húshitun. Nú skilst mér, að hér á Suðurlandi liggi málin yfirleitt þannig fyrir, að jarðvarmi, sem farið er að kalla nú, jarðhiti, sem áður var oftast nefndur, sé í það ríkum mæli á Suðurlandi og Suðvesturlandi, að ekki séu líkur til þess, að mikið verði horfið að því að taka rafmagn til upphitunar á því landssvæði, þar sem þó meginþungi landsbyggðarinnar er nú. En á Norðurlandi er a.m.k. einn kaupstaður, sem ekki horfir þannig fyrir, eins og sakir standa, og kannað hefur verið, að ódýr jarðvarmi liggi á lausu, Akureyri, þannig að það sé a.m.k. stærsti kaupstaðurinn, sem ætla mætti, að það lægi fyrir að taka upp rafhitun í stórum stíl eða verulegum mæli. Hefur þá hæstv. iðnrh. ekki hugleitt þann möguleika, þar sem mjög vantar nú raforku á Norðurlandi, að hverfa frá Sigölduvirkjuninni í bili, en taka Dettifossvirkjunina fyrir á undan og leysa þar með þau miklu vandamál, sem eru nú einmitt varðandi raforku þar? Það má kannske segja, að það sé orðhengilsháttur, eða ég veit ekki, hvað á að kalla það, hjá okkur Norðlendingum að vilja endilega fá virkjun þar fremur en fá það, sem hér hefur stundum verið kallað í skopi „hund að sunnan“, en það er margt í kringum þetta, sem ég ætla ekki að gera hér svo mikið að umtalsefni, en það er litið svo á, að það sé ákaflega þýðingarmikið varðandi það, sem við köllum oft jafnvægi í byggð landsins, að virkjunin fari fram norðanlands, en ekki sunnan. Það valdi enn þá meiri köllun á það, að fólk flytji suður, ef þar fara flestar framkvæmdir fram, eins og t.d. virkjanirnar, og ákaflega mikið atvinnuspursmál, að virkjunin fari fram fyrir norðan fyrir það byggðarlag.

Ég kasta þessari hugmynd fram. Hún er ekki mín. Ég hef heyrt ýmsa nefna þetta, að þetta væri e.t.v. réttmæt hugmynd.

Varðandi þær rannsóknir, sem hafa farið fram við Dettifoss, þá er vafalaust ekkert nema gott um þær að segja, en þó grunar mig, að það hefðu nú kannske þurft að fara fram betri rannsóknir á jarðlögum og ýmsu í kringum Búrfellsvirkjunina, en það hefði ekki þótt ástæða eins til, af því að endilega þurfti nú að flýta því og menn höfðu ákveðið það, að þarna skyldi fara fram virkjun.

En eina virkjun langar mig enn að nefna og spyrjast fyrir um, hvort ekki sé neitt í athugun, ef ekki þykir hægt að fara í svo stórfellda virkjun sem Dettifossvirkjunin er, hvort ekkert sé í gangi að athuga minni virkjun við Skjálfandafljót. Það hefur verið bent á það af ýmsum, að leiða megi Skjálfandafljót vestur í Íshólsvatn og það væri tiltölulega hagkvæm lausn á þessum málum, þar megi virkja miklu minni virkjun en Dettifossvirkjun, sem kannske hentaði okkur á Norðurlandi betur í bili, ef ekki finnst markaður fyrir orkuna frá Dettifossvirkjun. Ég kasta því hér fram, hvort þetta sé ekki í athugun líka.