29.02.1972
Sameinað þing: 43. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1218 í D-deild Alþingistíðinda. (4941)

173. mál, virkjun Jökulsár á Fjöllum

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Orð þau, sem ég segi hér, voru nú meira ætluð til þess að svara hæstv. iðnrh. örlítið, en hann er því miður ekki við, og mun ég þó leyfa mér að bera fram þær aths., sem ég hafði hugsað mér.

Iðnrh. sagði, að Sigölduvirkjunin hefði verið ákveðin af síðasta Alþ. m.a. með atkv. mínu, sem nú tala. Það er alveg rétt. En á bak við þá samþykkt hjá meiri hl. Alþ. hygg ég að hafi legið hugmyndin að halda áfram þeirri iðnvæðingu, sem lá að baki og komið hefur á eftir Búrfellsvirkjuninni. Hins vegar veit ég ekki annað en það sé yfirlýst stefna hæstv. iðnrh., að slík iðnvæðing eða iðnaðaruppbygging í landinu komi ekki eins til greina og var skoðun og hugmynd fyrri ríkisstj., heldur virðist hann hugsa sér, að markaður sá eða orka sú, sem kemur til aukningar með Sigölduvirkjun, fari að svo og svo miklu leyti til húshitunar. Nú er það ekki svo, að ég sé ekki einn af þeim, sem telji það mjög æskilegt og hef áhuga á, að rafmagn sé notað í auknum mæli til húshitunar. En mér leynist þó ekki, að það er verulegur skilsmunur á því að framleiða orku, sem er fram yfir þann markað, sem er fyrir hendi, framleiða þá orku og hugsa upp á markað, sem er fyrst og fremst til aukinna þæginda, en ekki til atvinnuuppbyggingar, eins og þegar er verið að hugsa um orkufrekan iðnað. Á þessu tel ég vera töluverðan skilsmun, og því finnst mér dálítið hjárænulegt að vera að leggja í stóra virkjun sunnanlands byggjandi á húshitun kannske sem verulegum hluta markaðarins og það komi þó fram, að sá markaður sé að verulegu leyti fyrir norðan fjöll. Það var þetta, sem ég vildi koma til skila, að mér fyndist engan veginn fráleitt að hugleiða það, sem ég drap á áðan, að hverfa frá Sigölduvirkjun í bili og halla sér að Dettifossvirkjun eða einhverri virkjun í Skjálfandafljóti, sem mettaði húshitunarmarkaðinn á Norðurlandi, sem er áreiðanlega hlutfallslega verulega meiri en sunnanlands.

Ég held, að það sé rétt skilið hjá mér, að það er ekki allur munurinn á því, hvað eftir er að rannsaka undir Sigölduvirkjun og Dettifossvirkjun, ef þar væri unnið fljótt og vel að hvað Dettifoss snertir. Ég er ekki viss um, að það séu frambærileg rök, að eftir sé tveggja ára athugun á því. En í leiðinni langar mig til að koma því að, að það er ekki sérstaklega hlýlegt, sem hefur andað til okkar á Akureyri, sem höfum húshitun; frá núv. ríkisstj. Þegar söluskattur var lækkaður eða afnuminn á húsaolíu og jarðvarma, þá var skilin eftir rafhitunin og því borið við, að það væri ekki hægt að fella þar niður söluskatt vegna vandkvæða í töxtum eða athugun á mælum, sem varðandi Akureyri er ábyggilega rangt og ég hygg, að það sé líka varðandi bændur landsins, sem eru mikið með rafhitun. Ég vil því benda á, að það er ekki uppörvandi fyrir menn að nota rafhitun nú til húsa, ef núv. ríkisstj. breytir ekki um afstöðu í því máli. 33. Lóðaskrár.