14.03.1972
Sameinað þing: 48. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1220 í D-deild Alþingistíðinda. (4952)

116. mál, lóðaskrár

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Svarið við fsp. verður á þessa leið:

Í 32. gr. skipulagslaga frá 1964 er að finna heimild fyrir félmrh. til þess að ákveða, að sveitarstjórnir á skipulagsskyldum stöðum skuli láta gera lóðaskrá á kostnað sveitarsjóðs, þar sem tilgreind séu öll lönd og lóðir innan sveitarfélagsins eða tiltekins hluta þess. Ætlunin var að gefa út reglugerð um frágang og fyrirkomulag lóðaskrárinnar á næstu árum eftir að lögin voru sett. Við nánari athugun komu í ljós ýmsir annmarkar á framkvæmd málsins og jafnvel ágreiningur milli þeirra aðila, sem um þetta mál fjölluðu, einkum um það, hversu ítarleg eða nákvæm lóðaskráin skyldi vera, og komu m.a. fram þau sjónarmið, að ófullkomin lóðaskrá gæti hæglega orðið til þess að tefja fyrir gerð fullkomnari lóðaskrár síðar og bæri því frekar að keppa strax að fullkomnari lóðaskrá ásamt tilheyrandi lóðauppdráttum, svo sem gengur og gerist annars staðar í Evrópu. En slík lóðaskrá ásamt tilheyrandi nákvæmum lóðauppdráttum mundi óhjákvæmilega kosta stórfé og því vera flestum hinna skipulagsskyldu sveitarfélaga ofviða í framkvæmd. Með hliðsjón af þessu og einkum þar sem nýtt og mjög ítarlegt aðalfasteignamat var einmitt á döfinni um þessar mundir samkv. lögum um fasteignamat og fasteignaskráningu frá 28. apríl 1963, þar sem beinlínis er ákveðið, að fasteignamat ríkisins skuli koma upp skráningu fasteigna í landinu og jafnframt heimilað að verja til þess verks fé úr ríkissjóði, þá þótti réttara að fresta að nota heimild þá, sam um getur í 32. gr. skipulagslaganna, en hætta á, að ella gæti orðið um tvíverknað að ræða. Raunin hefur einnig orðið sú, að fasteignamat ríkisins, sem er sérstök deild í fjmrn., hefur nú komið sér upp álitlegu safni lóðauppdrátta og mjög ítarlegri fasteignaskrá, sem er í véltæku skýrsluformi. Verður því ekki séð eins og nú er komið, að nein þörf sé fyrir það, að félmrn. notfæri sér heimildarákvæði þau, sem ég gat um í upphafi, sem eru í 32. gr. skipulagslaganna, því að ef sú heimild væri einnig notuð, þá væri þar greinilega verið að vinna sama verkið í þremur rn. Það finnst mér nú næstum því ofrausn.