14.03.1972
Sameinað þing: 48. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1221 í D-deild Alþingistíðinda. (4955)

193. mál, staðsetning vegagerðartækja

Fyrirspyrjandi (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. á þskj. 369 til hæstv. samgrh., svo hljóðandi:

1. Hvenær má vænta þess, að veghefill verði staðsettur á utanverðu Snæfellsnesi, þ.e. í Ólafsvík?

2. Verða stórvirk vegagerðartæki, svo sem fullkomin grjótmulningsvél til framleiðslu á efni í slitlag á vegi, send á Snæfellsnes á þessu ári?

3. Hvenær má vænta framkvæmda við endurbætur á flugvellinum að Gufuskálum við Hellissand og bættrar þjónustu í sambandi við hann?

Í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu hafa til þessa aðeins verið tveir vegheflar af eldri gerð, annar staðsettur í Stykkishólmi, en hinn sunnan fjalls, að Vegamótum. Þessir tveir vegheflar hafa hvergi nærri komizt yfir að hefla vegi í allri sýslunni og staðsetning þeirra þannig, að útnesið hefur orðið út undan. Á þessu svæði er Búlandshöfðavegur og vegurinn fyrir Ólafsvíkurenni. Á báðum þessum leiðum hagar svo til, að grjóthrun og skriðuhlaup eru oft daglegur viðburður svo og snjóskriður og klakahrun á vetrum. Mjög mikil umferð er á þessu svæði. Þarna fara fram daglegir mjólkurflutningar, fiskflutningur milli útgerðarstaða og áætlunarferðir daglega til og frá Reykjavík. Það gefur því auga leið, að á þessu svæði er mest þörf fyrir kraftmikinn veghefil, sem daglega er til nota á þessu svæði.

Það er ekki ofmælt, að óvíða á landinu er vegakerfið lélegra en einmitt víða á Snæfellsnesi, frá Hítará og vestur úr. Kemur þar margt til, sem ég ætla ekki að rekja hér, en alger skortur á hæfu, sterku slitlagi á vegina veldur hér miklu. Þess vegna er stórvirk grjótmulningsvél á þetta svæði aðkallandi nauðsyn. Hafa allir getað fylgzt með þeim miklu umskiptum, sem orðið hafa, t.d. á Hvalfjarðarvegi, Kjalarnesi og víðar, eftir að farið var að framleiða efni í slitlag með slíkum tækjum. Jafnframt gætu slík tæki orðið til að auðvelda varanlega gatnagerð í öllum kauptúnum á norðanverðu Snæfellsnesi. Hreppsnefnd Ólafsvíkurhrepps, sýslufundur Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu svo og samtök sveitarfélaga á Vesturlandi hafa hvað eftir annað sent frá sér ákveðnar áskoranir til yfirstjórnar samgöngumála um staðsetningu þessara vegagerðartækja, sem hér er rætt um, en án árangurs til þessa.

Flugvöllurinn að Gufuskálum við Hellissand er mikil samgöngubót og öryggi fyrir utanvert Snæfellsnes, ekki sízt í sambandi við sjúkraflug, en mjög brýnt er að endurbæta hann svo og að koma upp öryggistækjum við völlinn og gera þjónustu við flug mögulega.

Herra forseti. Þessar fsp. eru gerðar með það fyrir augum að ýta á eftir nauðsynlegum úrbótum, sem er brýnt hagsmunamál fyrir íbúa þessa landshluta.