14.03.1972
Sameinað þing: 48. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1222 í D-deild Alþingistíðinda. (4956)

193. mál, staðsetning vegagerðartækja

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þó að segja megi, að það hafi þýðingu fyrir hin ýmsu byggðarlög, að stórvirk vegagerðartæki séu þar staðsett, þá finnst mér nú fsp. um það varla eiga erindi inn á Alþ. og hefði verið eins hægt að koma þeim á framfæri með símtali við vegamálastjóra eða ráðh. En þessum fsp. verður samt svarað hér á þessa leið:

Þá er fyrst spurningin: „Hvenær má vænta þess, að veghefill verði staðsettur á utanverðu Snæfellsnesi, þ.e. í Ólafsvík?“

Um nokkurt árabil hafa tveir vegheflar verið staðsettir á Snæfellsnesi og þá annar í Stykkishólmi, en hinn á Vegamótum í Miklaholtshreppi. Vegna vaxandi umferðar milli verstöðvanna á utanverðu Snæfellsnesi seinustu árin hafa komið ákveðnar óskir úr þeim byggðarlögum um, að þriðji veghefillinn yrði staðsettur þar. Vegagerð ríkisins á nú í pöntun nokkra veghefla, sem væntanlegir eru á vori komanda, og er gert ráð fyrir, að þá muni rýmkast það mikið um veghefilskost hjá Vegagerðinni, að unnt verði að staðsetja veghefil á utanverðu Snæfellsnesi, eins og óskir hafa komið fram um.

Hin spurningin er á þessa leið: „Verða stórvirk vegagerðartæki, svo sem fullkomin grjótmulningsvél til framleiðslu á efni í slitlag á vegi, send á Snæfellsnes á þessu ári?“

Undanfarin ár hefur vél til hörpunar á möl í slitlag vega unnið um tíma árlega á utanverðu Snæfellsnesi. Á s.I. sumri var þar einnig staðsett grjótmulningsvél um tíma. Áætlanir um staðsetningu slíkra véla er eigi unnt að gera endanlega fyrr en fyrir liggur, hver fjárveiting verði til vegaviðhalds á árinu, þar sem rekstrarkostnaður þessara véla er að mestu leyti greiddur af viðhaldsfé þjóðvega.

Þriðja spurningin er um það, hvenær vænta megi framkvæmda við endurbætur á flugvellinum að Gufuskálum við Hellissand og bættrar þjónustu í sambandi við hann. Það eru mörg aðkallandi verkefni, sem bíða að því er snertir umbætur og endurbætur á hinum ýmsu flugbrautum um landið, og eru umbætur á flugbrautinni að Gufuskálum við Hellissand ekki á framkvæmdaáætlun að sinni, þar sem margt fleira kallar að, sem að áliti allra, sem um þessi mál fjalla, er enn þá brýnna og meira aðkallandi.