15.12.1971
Sameinað þing: 25. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í B-deild Alþingistíðinda. (496)

1. mál, fjárlög 1972

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Ég er 1. flm.till., sem lögð var fram hér á þingi fyrir um það bil tveimur vikum og fjallar um nákvæmlega sama efni og brtt. sú, sem hér er greitt atkv. um. Þegar ég samdi þessa þáltill., bauð mér nú raunar ekki í grun, að ég væri að semja rullu handa hv. 8. landsk. þm. til að leika hér í drama gærkvöldsins. Hann lék ágætlega og við ágætar undirtektir áhorfenda. Sem höfundur verksins hef ég því undan engu að kvarta í því efni. Hann tók líka fram, að till. sín væri tekin nákvæmlega orðrétt upp eftir okkar till. Hann kallaði þetta stuðning. Ég hygg, að þetta hátterni gæti líka flokkazt undir ritstuld og ef hv. 8. landsk. vill styðja rithöfunda, þá verður hann að gæta þess að gera sig ekki sekan um slíkt.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Ég hygg, að bæði rithöfundar og þm. eigi rétt á því, að þetta stórmál rithöfunda fái rétta afgreiðslu á þingi, þannig að þeir fái lausn sinna mála til frambúðar. Ég vil einnig láta þess getið hér, að ég tel, að listamannalaun í því formi, sem þau eru nú, eigi tvímælalaust að falla niður, og vænti þess, að eftír jól muni málefni rithöfunda verða tekin til endurskoðunar frá grunni. Af þessum ástæðum segi ég nei. (Forseti: Þetta var nú í lengsta lagi, en þm. segir nei.)