14.03.1972
Sameinað þing: 48. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1224 í D-deild Alþingistíðinda. (4960)

922. mál, endurskoðun hafnalaga

Fyrirspyrjandi (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. samgrh. á þskj. 369, sem hljóðar þannig:

1. Verður endurskoðun hafnalaga lokið það tímanlega, að hægt verði að leggja þau fyrir yfirstandandi Alþ. til afgreiðslu?

2. Hefur verið tekin ákvörðun, hvernig létta megi hina erfiðu fjárhagsstöðu hafnarsjóða, sérstaklega hvað varðar þær hafnir, sem eiga í mestum fjárhagserfiðleikum, sbr. samþykkt ársfundar Hafnasambands sveitarfélaga 15. nóv. 1971, er send var ríkisstj.?

Ný hafnalög tóku gildi 1. jan. 1968. Þótt þau lög væru til bóta miðað við eldri lög, kom strax í ljós, að þau voru stórgölluð og óljós varðandi mikilvæg atriði, t.d. hvað varðar skiptingu stofnkostnaðar milli ríkissjóðs og sveitarfélaga, sbr. 6. gr. og 7. gr. laganna. Reglugerð um framkvæmd laganna var aldrei gefin út. Hafa samskipti og reikningsskil milli Hafnamálastofnunarinnar annars vegar og hafnarsjóða hins vegar verið með óeðlilegum hætti. Sífelldir árekstrar og deilumál eru uppi um framkvæmd laganna víðs vegar um landið.

Eftir að Hafnasamband sveitarfélaga var stofnað 1970 hefur eitt aðalverkefni þess verið að vinna að því að fá því framgengt, að hafnalögin verði endurskoðuð og gerðar á þeim veigamiklar breytingar, svo að eðlileg uppbygging hafna verði möguleg á Íslandi, án þess að viðkomandi byggðarlög stefni fjárhag og sjálfstæði í algjöra sjálfheldu. Jafnframt þessu hefur Hafnasamband sveitarfélaga framkvæmt ítarlega athugun á rekstrarafkomu og greiðslustöðu hafnarsjóða í landinu svo og athugun á gjaldskrám hafna. Í skýrslu, er gerð var um þessa athugun og lögð var fyrir aðalfund samtakanna s.l. haust og afhent fulltrúum þingflokkanna, kemur m.a. í ljós, að hafnirnar eiga við mikla greiðslu- og rekstrarerfiðleika að stríða og víða hrökkva rekstrartekjur ekki fyrir beinum rekstrargjöldum og vaxtagreiðslum. Greiðslujöfnuður flestra hafna miðað við allar vaxtagreiðslur svo og afborganir af föstum lánum er neikvæður sem nemur um eða yfir 1 millj. og allt upp í 10 millj. hjá nokkrum höfnum á ári. Auk þessa nema stutt lán hafnanna í árslok 1970 121 millj. Heildarskuldir hafna í árslok 1970 námu tæplega 900 millj. Þar af eru skuldir landshafnanna þriggja 190 millj. og Reykjavíkurhafnar 135 millj. Það vantaði 111 millj. upp á, að hafnir gætu staðið undir vaxtagjöldum öllum og afborgunum af föstum lánum í árslok 1970, sem skiptist þannig, að hjá 42 höfnum, sem gerð var könnun hjá vantaði 49.7 millj., hjá þremur landshöfnum 47.8 millj. og hjá Reykjavíkurhöfn 13.5 millj. Þessi óhagstæða staða er nokkuð mismunandi eftir landshlutum, en alls staðar neikvæð. Hjá tveimur höfnum, Rifshöfn og Eyrarbakkahöfn, eru vaxtagjöld og afborganir fastra lána meira en tífaldar rekstrartekjur eða yfir 1000%. Tvær hafnir, Bolungarvík og Borgarfjörður eystri, bera vaxtagjöld og afborganir fastra lána, sem eru í heild sex-áttfaldar rekstrartekjur. Átta hafnir hafa sams konar hlutfall á bilinu þre-sexfaldar rekstrartekjur, en aðeins 18 hafnir af þessum 46 hafa rekstrartekjur, sem eru meira en vaxtagjöld og afborganir fastra lána.

Það var gerð könnun á því, hvernig þetta kemur út á hinum ýmsu stöðum, og er fróðlegt að líta á það, að aðeins afborganir af föstum lánum plús vextir á hvern íbúa á hverjum stað 1970 nema allt upp í 5 300 kr. Hjá sex sveitarfélögum nemur þessi kostnaður á íbúa á bilinu 4000–5 300 kr. og hjá 15 höfnum á bilinu 2000–4000 kr. á íbúa.

Í sambandi við þessa endurskoðun er ljóst, að það verður að gera ráðstafanir nú þegar. Ég ætla ekki að fara meira út í þetta mál, en til að lagfæra greiðslustöðu fjölmargra hafna verður að koma til aðgerð frá því opinbera, og ég vonast til þess, að það svar, sem hér mun koma á eftir, leiði í ljós, að tekið verði á þessu máli á þann veg, að hafnirnar geti við unað.