11.04.1972
Sameinað þing: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1233 í D-deild Alþingistíðinda. (4987)

921. mál, efling landhelgisgæslu

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 353 svo hljóðandi fsp. til hæstv. dómsmrh.:

Hvaða ráðstafanir hefur ríkisstj. gert til eflingar landhelgisgæzlunnar vegna fyrirhugaðrar útfærslu fiskveiðilandhelginnar í 50 sjómílur?

Ég tel ekki þurfa langt mál til skýringar þessari fsp. Það liggur í augum uppi, að útfærsla fiskveiðilögsögunnar úr 12 sjómílum í 50 hlýtur að kalla á aukna gæzlu þessarar miklu stærri landhelgi. Og þar sem nú eru aðeins röskir 41/2 mánuður þar til útfærslan á að taka gildi, þá tel ég eðlilegt og sjálfsagt, að þingheimur fái skýrslu um, hvaða ráðstafanir hæstv. ríkisstj. hefur gert til eflingar landhelgisgæzlunnar vegna fyrirhugaðrar útfærslu fiskveiðilögsögunnar hinn 1. sept. n.k. Ég er þess fullviss, að allir Íslendingar hafa fagnað því innilega, að alger samstaða og eining ríkti hér á Alþ. varðandi afgreiðslu landhelgismálsins fyrr í vetur, en í áframhaldi af því er eðlilegt, að menn velti því fyrir sér, á hvern hátt við getum sem bezt tryggt gæzlu þessara miklu auðæfa okkar. Fsp. er því fram borin, til þess að Alþ. og þjóðin öll fái vitneskju um, hvað fyrir hæstv. ríkisstj. vakir varðandi þennan þátt landhelgismálsins.