11.04.1972
Sameinað þing: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1233 í D-deild Alþingistíðinda. (4988)

921. mál, efling landhelgisgæslu

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég les hér svar, sem Landhelgisgæzlan hefur tekið saman við þessari fsp., og svarið er dagsett 18. marz 1972.

„Ljóst er, að vegna útfærslu íslenzku fiskveiðimarkanna 1. sept. n.k. er nauðsynlegt að bæta getu Landhelgisgæzlunnar til gæzlu hins stóraukna svæðis, bæði með útgerð fleiri varðskipa og flugvéla en venja er, aukinni starfsemi í landi og kaupum á nýjum tækjum eða endurbótum á hinum eldri eftir því, sem henta þykir. Í grg. til hæstv. forsrh. dags. 28. ágúst 1971 um gæzlu 50 sjómílna fiskveiðilandhelgi við Ísland var greint frá hinum helztu þessara atriða, og eru sum þeirra þegar ákveðin, en önnur í undirbúningi eða til athugunar. Í aðalatriðum er hér um þrennt að ræða:

1. Varðskip. Gera verður ráð fyrir, að það þurfi að halda úti öllum varðskipunum fimm frá 1. sept. n.k. Í tillögum Landhelgisgæzlunnar fyrir árið 1972 var gert ráð fyrir útgerð allra varðskipanna allt árið. Í meðförum Alþ. var gerð sú breyting, að einu skipanna skyldi leggja, en tvö skipanna fengu aðeins fjárveitingu til sex mánaða. Samkvæmt þessu er fjárveiting til tveggja skipa allt árið, tveggja hálft árið og einu skipinu skal leggja. Auk þess voru svo veittar 20 millj. kr. til almennrar notkunar vegna útfærslunnar 1. sept. n.k.

Nú hefur verið ákveðið, að varðskipið Þór, sem átti að gera út hálft árið, fer á miðju sumri í þriggja mánaða endurbyggingu vegna endurnýjunar á aðalvélum og síðan beint í notkun vegna útfærslunnar. Þarf varðskipið Þór því fjárveitingu fyrir allt árið. Varðskipið Árvakur þarf sömu aukningu vegna vitaþjónustunnar síðari hluta sumars og þar á eftir vegna útfærslunnar 1. sept. Um varðskipið Albert gegnir hins vegar nokkuð öðru máli. Það er sem stendur að gæzlustörfum í staðinn fyrir varðskipið Ægi, en mun verða lagt, þegar viðgerð varðskipsins Ægis lýkur. Varðskipið Albert þarf því ekki nema um fimm mánaða aukafjárveitingu vegna útfærslunnar. Miðað við verðlag eins og það var, áður en fjárlög þessa árs voru afgreidd, þarf því vegna aukinnar útgerðar varðskipanna: vegna Þórs 13 millj. 941 þús. kr., vegna Árvakurs 8 millj. 721 þús. og vegna Alberts 6 millj. 850 þús. eða samtals 29 millj. 512 þús. kr. Þá er nú unnið að undirbúningi að því að geta lengt úthald þriggja stærri varðskipanna með því að fækka legudögum þeirra í heimahöfn, en þá þarf að hafa fleiri menn til skiptanna, svo að áhafnirnar geti fengið eðlileg fri. Af slíku fyrirkomulagi leiðir aukakostnað bæði vegna fleiri starfsmanna, meiri brennslu olíunotkunar o.fl. Endanleg ákvörðun liggur ekki fyrir enn þá. Loks er hafinn undirbúningur að kaupum á ýmsum nauðsynlegum siglinga- og radiótækjum svo og æskilegum neyðar- og öryggisútbúnaði fyrir skipin umfram það, sem íslenzk lög krefjast, og er sumt þegar keypt eða pantað, en verið að leita tilboða í annað. Stærri atriðum, eins og um vatnsþétt skilrúm í vélarúmi Óðins o.fl., væri rétt að gera ráð fyrir á fjárveitingu næsta árs, þar sem of skammur tími er til undirbúnings og framkvæmda þess í sumar. Skrá yfir hið helzta þessa nauðsynlega búnaðar ásamt kostnaðarverði er að finna á fskj. 1 og 2.“

Eins og þessi liður svarsins ber með sér, þá skortir allmikið á, að þær 20 millj., sem samkv. fjárlögum eru til ráðstöfunar 1. sept., muni duga til þess að standa straum af kostnaði við þau atriði, sem þarna eru talin, og verður auðvitað að sjá fyrir fjárveitingu til þess, því að ég geri ekki ráð fyrir því, að neinn hv. alþm. telji það eftir, að gerðar séu nauðsynlegar ráðstafanir í þessu efni, og því býst ég við, að það verði út af fyrir sig engin fyrirstaða á því, að nægilegt fé fáist til þess að framkvæma það, sem Landhelgisgæzlan telur nauðsynlegt og óhjákvæmilegt vegna útfærslunnar.

„2. Fluggæzlan. Áratugareynsla Landhelgisgæzlunnar hefur áþreifanlega sannað, hve hagkvæmt er að nota flugvélar í samvinnu víð varðskip við almenn gæzlustörf, og mun hið stóraukna gæzlusvæði frá 1. sept. sízt draga úr þörfinni á slíku skipulögðu samstarfi. Engin ein flugvélategund hentar þó til allra verka, og er því ábyggilega heppilegast að nota bæði flugvélar af venjulegri gerð og þyrlur eftir aðstæðum. Í breytingu á fjárhagsáætlun þessa árs, dags. 5. nóv. 1971, er gert ráð fyrir rekstri einnar venjulegrar tveggja hreyfla frekar lítillar flugvélar í stað TF-Sif, sem var seld í nóv. 1971, og meðalstórrar þyrlu, sem gert var ráð fyrir, að tekin yrði í notkun á þessu ári. Ekki var gert ráð fyrir fjárveitingu til þyrlu í stað TF-Eir, sem eyðilagðist í lendingu í okt. s.l., en vátryggingarfé hennar er geymt til kaupa á annarri svipaðri þyrlu. Búið er að ganga frá kaupum á stærri þyrlunni, sem ætti að vera komin í gagnið hér í vor. Enn fremur er unnið að útvegun á venjulegri tveggja hreyfla flugvél í stað TF-Sif, og er líklegt, að fyrir valinu verði flugvél af gerðinni Fokker Friendship, sem er mjög vel kunn flugvélategund hér. Fjárhagsáætlun þessa árs til reksturs gæzluflugvélanna ætti að duga til 1. sept., en frá þeim tíma má gera ráð fyrir, að fluggæzlan þurfi á meira fé að halda vegna aukinnar starfsemi, sem krefst bæði fleiri flugtíma, aukins mannahalds, eftir- og næturvinnu o.fl.

Vegna áætlaðra aukinna umsvifa fluggæzlunnar frá 1. sept. er enn fremur óhjákvæmilegt að bæta aðstöðu í flugskýli Landhelgisgæzlunnar á Reykjavíkurflugvelli fyrir þá, sem við flugið starfa. Þar er nú verkstæði, varahlutageymsla og snyrtiherbergi fyrir flugvirkja, en engin aðstaða fyrir aðra starfsmenn, eins og skipherra, stýrimenn, flugmenn, loftskeytamenn o.fl., og því nauðsynlegt að bæta við herbergjum vegna þeirra. Er hafinn undirbúningur að því.

3. Aðstaða í landi. Í fyrrnefndri grg. um gæzlu 50 sjómílna fiskveiðilandhelginnar er sérstaklega á það bent, að starfsemi loftskeytastöðvar þeirrar, sem Landhelgisgæzlan hefur rekið í síðastliðin 18 ár, sé henni mjög mikils virði, ekki aðeins til gagnaöflunar og almennra viðskipta við varðskipin og gæzluflugvélarnar, heldur sem raunveruleg stjórnstöð og muni sú þýðing hennar sízt minnka við gæzlu hinna nýju fiskveiðimarka. Þrátt fyrir þýðingu sína hefur þessi stöð hingað til búið við mjög þröngan kost, bæði hvað snertir húsnæði og allan tækjabúnað og því bráð nauðsyn að endurbæta hvort tveggja.

Við undirbúning fjárlaga fyrir þetta ár var, eins og kemur fram í tillögum Landhelgisgæzlunnar og í bréfi til hæstv. dómsmrh. dags. 1. júlí 1971, gert ráð fyrir því, að skrifstofa og loftskeytastöð Landhelgisgæzlunnar flytti úr núverandi húsnæði og á efstu hæð lögreglustöðvarinnar nýju síðari hluta þessa árs. Ekki var gert ráð fyrir sérstakri fjárveitingu vegna flutnings, en hins vegar hefur undanfarin ár verið unnið allmikið að undirbúningi að flutningi loftskeytastöðvarinnar í fyrirhugað húsnæði vegna hagstæðra aðstæðna á meðan á byggingu hússins stóð, m.a. lagnir á leiðslum, jarðnets, loftnets og fleira, svo og frumdrög lögð að samvinnu Landhelgisgæzlunnar og lögreglunnar í Reykjavík og Almannavarna ríkisins um sem hagkvæmasta notkun þar á aðstæðum hvers annars. Nú mun hins vegar afráðið að ráðstafa þessu húsnæði til annarra aðila, og verður því að gera aðrar ráðstafanir í þeim efnum.

Ég hef áður bent á, að góð loftskeyta- og stjórnstöð geti sparað varðskipum og gæzluflugvélum marga óþarfa snúninga, því að meiri upplýsingar mætti fá með aukinni hlustunarvörzlu og betri notkun tilkynningaskyldunnar en nú er hægt að gera. Auk þess væri eðlilegt, að leyfi allra rannsóknaskipa, innlendra sem erlendra, sem stunda vísindastörf á landgrunninu, væri bundið því skilyrði, að þau tilkynntu sig a.m.k. tvisvar á dag til Landhelgisgæzlunnar og loks, að íslenzku rannsóknaskipin tilkynntu um leið, eins og varðskipin, hvaða erlend skip þeir hefðu orðið varir við eða væru í námunda við. Myndi vafalaust verða að því mikil bót og án verulegs aukakostnaðar.“

Þetta svar, sem ég nú hef lesið, er frá forstjóra Landhelgisgæzlunnar. Að sjálfsögðu hefur verið leitað eftir því við Landhelgisgæzluna, hverjar ráðstafanir hún teldi nauðsynlegt að gera vegna fyrirhugaðrar útfærslu 1. sept. 1972, og eins og ljóst er af þessu svari, þá hefur hún út af fyrir sig ekki gert tillögur um aukinn skipakost að svo stöddu, heldur að þeim skipum, sem nú eru, sé öllum haldið úti og enn fremur gerðar þær ráðstafanir varðandi flugvélakaup og aðstöðu í landi, sem ég hef lesið hér upp.

Ég vil enn fremur bæta við þetta því, að það fer fram athugun á því nú, hvort ekki sé rétt að festa kaup á tveimur tiltölulega litlum þyrlum til viðbótar því, sem greint er frá í svari forstjórans. Þá vil ég loks geta þess, að nefnd hefur verið skipuð, nefnd þriggja ráðuneytisstjóra, þeirra, sem mest hafa með þessi málefni að gera, ráðuneytisstjórans í dómsmrn., ráðuneytisstjórans í utanrrn. og ráðuneytisstjórans í sjútvrn., og þeim m.a. falið að gera tillögur um eflingu landhelgisgæzlunnar eða réttara sagt, hvaða ráðstafanir væri nauðsynlegt að gera með tilliti til útfærslunnar 1. sept. n.k.

Herra forseti. Ég hef reynt að svara þessari fsp. eins og reyndar fsp. endranær, þannig að upplýsingar kæmu fram um það, sem spurt er um, en hef ekki farið út í og tel ekki rétt að fara út í neinar sérstakar umr. um þetta málefni fram yfir þær upplýsingar, sem ég hef gefið. Þannig álít ég, að eigi að haga fsp. og er því sammála hæstv. forseta að því leyti til, en verð hins vegar að taka fram, að sé þannig haldið á, að komið sé fram með miklar aths. eftir að svar hefur verið gefið, þá sé ekki nema sanngjarnt, að leyft sé að svara þeim um leið.