11.04.1972
Sameinað þing: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1237 í D-deild Alþingistíðinda. (4994)

206. mál, varnir gegn sígarettureykingum

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Sú þál., sem hv. þm. Jón Skaftason vitnaði til, var mjög víðtæk, eins og menn gátu heyrt, þegar hann las hana hér upp áðan, og greip inn á svið bæði heilbrigðismála og kennslumála. Ríkisstj. hafði ekki tekið þessa þál. til afgreiðslu sem heild, þegar hún lét af starfi, og núv. ríkisstj. hefur ekki heldur tekið hana til fullnaðarathugunar eða afgreiðslu.

Í fyrsta lið ályktunarinnar var skorað á ríkisstj. að beita sér fyrir því, að víðtæk upplýsingastarfsemi um skaðvænlegar afleiðingar sígarettureykinga væri hafin í dagblöðum, hljóð- og sjónvarpi. Að því er þetta atriði varðar, ber að minna á, að sígarettuauglýsingar í blöðum, fjölmiðlum og utanhúss voru bannaðar frá 1. jan. s.l., en þess í stað var á síðasta þingi gerð breyting á lögum nr. 63 frá 28. maí 1969, um verzlun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf, þess efnis, að Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins væri skylt að verja 2%o af brúttósölu tóbaks til greiðslu auglýsinga í hljóðvarpi, sjónvarpi, blöðum, kvikmyndahúsum og víðar, þar sem varað er við hættu af tóbaksreykingum. Lagabreytingin gerði ráð fyrir því, að um alla framkvæmd þessa máls yrði haft samráð víð stjórn Hjartaverndar og stjórn Krabbameinsfélags Íslands.

Framkvæmd þessa máls hefur verið sú, að fjmrn. hefur verið framkvæmdaaðili ásamt forstjóra Áfengisog tóbaksverzlunar ríkisins, en heilbr.- og trmrn. hefur hins vegar útvegað frá Norðurlöndum, Englandi og Bandaríkjunum vitneskju um það, hvernig upplýsingastarfsemi og auglýsingum um skaðsemi tóbaksreykinga er háttað í þessum löndum og hvaða aðferðir hafa þar reynzt haldbeztar í þessu efni. En um það, hvernig herferð af þessu tagi verður síðar háttað, get ég ekki gefið upplýsingar, þar sem framkvæmdaaðilinn er, eins og fyrr segir, fjmrn.

Í öðrum og þriðja lið þál. er fjallað um skóla og gert ráð fyrir því, að þar verði hafin reglubundin kennsla um heilsufarslegar hættur sígarettureykinga og haldin verði regluleg fræðsluerindi fyrir kennara og kennaraefni um þessi mál. Mér er kunnugt um, að um þessi atriði er fjallað í sambandi við kennslu um heilbrigðismál í skólum, en að öðru leyti leiði ég hjá mér að lýsa því, hvað gert kann að hafa verið í þessu skyni í skólum landsins, þar sem það heyrir undir menntmrn.

Í fjórða lið ályktunarinnar er gert ráð fyrir því, að athugaðir verði möguleikar á að stofna „opnar deildir“ (poliklinik), sem stjórnað sé af sérfróðum læknum, og þar geti reykingamenn fengið aðstoð til þess að hætta reykingum. Á vegum heilbrmrn. hefur slík athugun verið framkvæmd á þann hátt, að rn. hefur aflað sér gagna um reynslu af slíkum deildum erlendis. En það er vitað, að meðferð af þessu tagi hefur verið reynd á Norðurlöndum, Bretlandi og í Bandaríkjunum. Hins vegar hefur það komið í ljós, að í engu þessara landa hefur verið lýst góðum árangri af þessari starfsemi, enda þótt slíkar deildir hafi verið til á þessum stöðum allt upp í 12–15 ár. Ríkisstj. hefur því ekki enn tekið ákvörðun um það, hvort reynt verði að koma á slíkum deildum hér á landi, enda hafa mörg verkefni á svíði heilbrigðisþjónustu verið talin enn þá brýnni og krefjast enn þá skjótari úrlausnar.

Í fimmta lið ályktunarinnar er gert ráð fyrir því, að stofnað verði sérstakt ráð lækna og leikra, sem m.a. safni upplýsingum um það, hversu víðtækar reykingar séu, m.a. meðal skólabarna, og stjórni vísindalegum rannsóknum um áhrif reykinga, en sé þar að auki yfirvöldum til aðstoðar eða til ráðuneytis um þessi mál. Í þessu sambandi er vert að geta þess, að allmiklar athuganir hafa verið gerðar og eru gerðar á tíðni reykinga meðal skólabarna og unglinga. Aðallega hefur þetta verið gert á vegum borgarlæknisembættisins í Reykjavík og skólayfirlæknis. En að því er varðar vísindalegar rannsóknir um áhrif reykinga, þá er það alkunna, að mjög víðtækar rannsóknir á þessu sviði hafa verið framkvæmdar bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum undanfarna áratugi. Og það er löngu orðið viðurkennd staðreynd samkv. þessum rannsóknum, að tíðni ýmissa sjúkdóma, svo sem krabbameins í lungum, langvarandi berkjubólgu í lungum og kransæðasjúkdóma í hjarta, sé mun meiri hjá þeim, sem reykja, og einkum þeim, sem reykja mikið, en hinum, sem ekki reykja.

Ég tel það afar ólíklegt, að sjálfstæðar vísindarannsóknir á vegum okkar Íslendinga geti bætt nokkru við þá vitneskju, sem fengizt hefur við þessar umfangsmiklu rannsóknir í nágrannalöndum okkar, þar sem að sjálfsögðu er kostur á miklu meira fjármagni en við getum lagt til slíkra hluta. Hins vegar eru stöðugt framkvæmdar athuganir hér á sjúkrahúsum á sjúklingum í þessu sambandi, og það sama er að segja um sjúklinga, sem komið er með til rannsókna og aðgerða á ríkissjúkrahús. Þá hefur Hjartavernd einnig tekið þessar rannsóknir upp sem einn þátt þeirra athugana, sem hún gerir á því fólki, sem þar er nú í hóprannsókn. Af þessum ástæðum hefur ríkisstj. ekki enn talið tímabært að stofna það ráð, sem gert er ráð fyrir í þál. En að sjálfsögðu hefur ríkisstj. fullan vilja á því að koma í kring þeim vörnum gegn sígarettureykingum, sem tiltækar eru, þótt ekki hafi verið talið tímabært að ráðast enn í meiri framkvæmdir en þær, sem ég hef gert grein fyrir í þessu svari.