11.04.1972
Sameinað þing: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1239 í D-deild Alþingistíðinda. (4995)

206. mál, varnir gegn sígarettureykingum

Fyrirspyrjandi (Jón Skaftason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir þau glöggu svör, sem hann gaf við fsp. um þál., sem ég var að spyrja um framkvæmd á hér áðan. Ég gat þess, þegar ég talaði fyrir þessari þáltill. á hv. Alþ. 1970, að till. þessi væri runnin undan rifjum og reyndar samin af nokkrum áhugasömum læknum í Reykjavík, sem kunnáttu sinnar vegna vissu gjörla, hvað þeir voru um að fjalla. Þó að framkvæmdum á þál. þessari sé ekki lengra komið en svar hæstv. ráðh. ber vott um, þá get ég þó eftir atvikum og miðað við, hvað tíminn er stuttur frá því að þál. var samþ. og að orðið hafa stjórnarskipti síðan, verið sæmilega ánægður með það, sem þegar er búið að gera. Ég gef þá yfirlýsingu í fullu trausti þess, að hæstv. heilbrmrh. og þeir aðrir ráðh., sem nú sitja í hæstv. ríkisstj., muni gera sitt til þess í framtíðinni að hrinda þeim öðrum þáttum þál., sem ekki er farið að framkvæma, í framkvæmd við fyrsta tækifæri.