11.04.1972
Sameinað þing: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1250 í D-deild Alþingistíðinda. (5022)

225. mál, Egilsstaðaflugvöllur

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Efnislega hefur flugmálastjóri gefið upplýsingar þær, sem hér fara á eftir, út af fsp. Sigurðar Blöndals varaþm.

Fyrst var spurt: „Er búið að gera áætlun um endurbyggingu Egilsstaðaflugvallar?“ í öðru lagi: „Ef svo er, hvenær er þá gert ráð fyrir, að framkvæmdir geti hafizt?“ Og í þriðja lagi: „Er ekki mögulegt að sameina þá endurbyggingu þörfinni fyrir alþjóðlegan varaflugvöll?“

Í jan. 1970 var gerð áætlun um jarðvegsskipti í núverandi flugbraut á Egilsstöðum. Áætlað var þá, að kostnaður við þetta yrði um 151/2 millj. kr., og hefur sú upphæð að sjálfsögðu hækkað verulega síðan miðað við núgildandi verðlag. Í þessari upphæð var malbikun á flugbrautinni ekki innifalin, og mundi því vegna þeirrar framkvæmdar enn fremur bætast við allhá upphæð. Það er því gefinn hlutur, að þarna yrði um að ræða 20–30 millj. kr. upphæð við endurbyggingu flugbrautarinnar.

Áður en ráðizt verður í svo mikla og dýra framkvæmd, hefur flugráð samþykkt að láta kanna, hvort annar staður á Héraði kæmi frekar til greina sem flugvallarstæði, þar sem jarðvegur er mjög gljúpur á nokkrum hluta flugbrautarinnar, en það hefur komið í ljós við boranir, sem framkvæmdar hafa verið til þess að kanna undirstöðu flugvallarins. Þá þykir og rétt að hafa jafnframt í huga möguleika á því, að þar gæti í framtíðinni komið varaflugvöllur fyrir utanlandsflugið, og hefur verið samþykkt að verja 1/2 millj. kr. til frumathugunar á legu nýrrar flugbrautar, og verða þær athuganir framkvæmdar nú í sumar, en ef það yrði niðurstaðan, sem ekki gæti orðið fyrr en að lokinni rannsókn, þá kæmi jafnvel til mála að færa flugvöllinn á Egilsstöðum alveg úr stað á annað svæði á Héraði.