18.04.1972
Sameinað þing: 57. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1254 í D-deild Alþingistíðinda. (5033)

929. mál, sandgræðsla á Vestfjörðum

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Fsp. hv. 5. þm. Vestf. vil ég leyfa mér að svara með álitsgerð frá landgræðslustjóra, sem barst landbrn. þann 12. apríl s.l. En þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Fjárhæð sú, sem varið hefur verið til landgræðslu á Vestfjörðum síðan lög nr. 17 1965 voru sett, hefur numið 200–400 þús. kr. árlega eða sem næst 300 þús. kr. að meðaltali á ári.

2. Allt að 90% af ofangreindum fjárhæðum hefur verið varið til landgræðslu í Barðastrandarsýslu, einkum á Sauðlauksdalssöndum svo og í Breiðuvík og Kollsvík. Sáralitlu, eða 10% af þessum sömu fjárhæðum, hefur verið varið til landgræðslu í Bolungarvík og við Þórustaði í Önundarfirði, en þessi tvö síðastnefndu landgræðslusvæði eru að mestu gróið land.

3. Í þessu sambandi leyfi ég mér að vísa til bréfs míns dags. 31. jan. s.l. til hins háa rn., en í því bréfi er frá því greint, að Landgræðslan hefur engin tök á að taka fyrir sandfok á Sauðlauksdalssöndum. nema til komi sérstök fjárveiting. Samtímis má minna á, að landgræðslustöðvarnar eru orðnar 70 talsins og eru sumar þeirra mjög fjárfrekar. Má þar nefna t.d. svæðið á Landmannaafrétti, allt að 40 þús. ha. lands að stærð.“

Í sambandi við þetta vil ég geta þess, að landbrn. barst í kringum áramótin bréf frá sýslumanninum í Barðastrandarsýslu með ályktun, sem gerð hafði verið á fundi sýslunefndar Vestur-Barðastrandarsýslu, og var hún svo hljóðandi:

„Sýslunefnd Vestur-Barðastrandarsýslu harmar aðgerðaleysi hins opinbera um heftingu sandfoks á Sauðlauksdalssöndum, þar sem eyðing jarða í nágrenninu blasir nú við af völdum sandfoksins. Skorar sýslunefndin á landbrh. og Landgræðslu ríkisins að hefjast þegar handa um að slétta sandana og græða þá upp, en með því væri einnig komið í veg fyrir spjöll á vegum og flugvelli. Treystir sýslunefndin því, að á þessum framkvæmdum verði ekki frekari dráttur en orðinn er.“

Þetta bréf var sent Landgræðslu ríkisins, og barst landbrn. svar Landgræðslunnar, sem var dags. 31. jan. s.l., en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Sandfok á nefndu svæði var á sínum tíma að mestu stöðvað. Það eru einkum þrjár meginástæður fyrir því, að sandfok hefur aukizt aftur seinustu árin:

1. Fok úr fjörunni hefur alltaf verið til staðar, einkum 3–5 seinustu árin, sökum ríkjandi austanáttar.

2. Þetta hefur haft í för með sér, að melgrashólarnir hafa hækkað upp fyrir eðlileg takmörk, svo að úr þeim hefur blásið, sem ævinlega á sér stað, þegar hæð hólanna fer upp fyrir 4–5 m.

3. Flugvallargerðin á Sauðlauksdalssöndum hefur einnig átt drjúgan þátt í hinu nýja sandfoki, og má þá einnig geta um fjórðu ástæðuna, þ.e. að umsjónarmenn flugvallarins hafa oftsinnis rutt um koll melhólunum, sem myndazt hafa meðfram flugbrautinni, sem svo hefur orsakað sandfok.“

Þetta er svar við þessari fsp. og skýringar þær, sem á bak við svarið liggja. Ég vil svo bæta því við, að á þessum fjárlögum var hækkuð verulega fjárveiting til landgræðslunnar frá því, sem áður hefur verið. Hins vegar treystir landgræðslustjóri sér ekki til þess að taka þetta mál til framkvæmda á þessu ári, en um aukafjárveitingu vegna þess getur ekki orðið að ræða. Hins vegar vildi ég treysta því, að fyrirspyrjandi og aðrir, sem hafa að sjálfsögðu áhuga fyrir því, að þetta mál verði tekið til framkvæmda, beiti áhrifum sínum um það, að þegar næsta fjárhagsáætlun verður gerð, þá verði einnig hugsað að taka þetta land til þeirrar meðferðar, sem hér er lagt til.