21.03.1972
Sameinað þing: 51. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1259 í D-deild Alþingistíðinda. (5043)

926. mál, lausn Laxárdeilunnar

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Sú fsp„ sem hér liggur fyrir, er svo hljóðandi:

„Hvað líður samningi um lausn Laxárdeilunnar á þeim grundvelli, sem ríkisstj. hefur gert samþykkt um?“ Ríkisstj. hefur aðeins gert eina samþykkt um þetta mál, sem hv. fyrirspyrjandi reyndar las upp áðan, en ég vil leyfa mér einnig að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta. Hún var gerð 16. des. 1971 og er svo hljóðandi:

Ríkisstj. samþykkir, að haldið skuli áfram sáttatilraunum í Laxárdeilu. Við sáttatilraumr skal byggt á eftirfarandi meginatriðum:

að ekki verði stofnað til frekari virkjunarframkvæmda í Laxá en nú hafa verið leyfðar nema til komi samþykki fyrirsvarsmanna landeigenda og Náttúruverndarráðs;

að niður verði felld málaferli þau, sem risið hafa í sambandi við virkjunarframkvæmdir;

að ríkið greiði deiluaðilum hæfilega fjárhæð vegna þess kostnaðar, sem þeir hafa haft af málaferlum í sambandi við þetta deilumál;

að gerður skuli fiskvegur fram hjá virkjununum við Brúar í Aðaldal upp í Laxárgljúfur, og verði stuðzt við álit vísindamanna um þá framkvæmd;

að settar verði reglur um verndun Laxár- og Mývatnssvæðisins. Jafnframt hefur iðnrn. ákveðið að láta nú þegar kanna skipulega virkjunaraðstæður norðanlands. Verður lögð sérstök áherzla á að vinna að undirbúningi fullnaðaráætlunar um virkjun við Dettifoss, en forsenda slíkrar virkjunar er samtenging orkuveitusvæða.“

Eins og ég áðan sagði, er þetta sú eina samþykkt, sem ríkisstj. hefur gert um þetta mál. Það skjal, sem hv. fyrirspyrjandi las upp úr áðan, er ekkert samkomulag af þeirri einföldu ástæðu, að það er skrásett aðeins af öðrum aðila, þeim, sem á hlut að þessari deilu. Það verður náttúrlega ekki samningur, sem einn aðili þannig gerir uppkast að.

Á grundvelli þessarar samþykktar, sem ég las upp áðan, skipaði ég samdægurs tvo menn í sáttanefnd til þess að reyna sættir með deiluaðilum á þeim grundvelli, sem í þessari samþykkt ríkisstj. segir. Það eru þeir Egill Sigurgeirsson hrl. og Ólafur Björnsson prófessor. Og í erindisbréfum þeirra er þeim gefin sú leiðsögn, að sátta eigi að leita á þessum grundvelli, sem í samþykkt ríkisstj. segir. En það er auðvitað mál, að hér er um flókið mál að ræða að ýmsu leyti, þannig að auðvitað geta komið til greina fleiri atriði, sem þyrfti að semja um og leita sátta um, ef sættir gætu tekizt. Og um slík atriði hefur ríkisstj. út af fyrir sig ekki sagt neitt ákveðið, heldur eru það aðeins þessi atriði, sem hún nefnir í samþykkt sinni, sem hún telur, að eigi að vera grundvöllur fyrir sáttum í þessu máli.

Þessir sáttamenn hafa síðan haldið nokkra fundi með aðilum þessa máls. Það er mat þeirra sáttamannanna, að þar hafi nokkuð þokazt í samkomulagsátt. Sáttir hafa hins vegar ekki enn tekizt, en sáttatilraunum verður haldið áfram. Ég tel á þessu stigi og þar sem sáttatilraunir standa enn yfir, sem ég geri mér nokkrar vonir um að muni bera árangur, ekki ástæðu til þess að fara nánar út í þetta mál eða einstök atriði þess.