18.04.1972
Sameinað þing: 57. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1263 í D-deild Alþingistíðinda. (5049)

926. mál, lausn Laxárdeilunnar

Benóný Arnórsson:

Herra forseti. Þegar ég bað um orðið út af þessu máli, þá var það eiginlega út af því, sem hv. fyrirspyrjandi, Stefán Jónsson varaþm., sagði, þegar hann ætlaði að segja okkur söguna af baráttu fólksins fyrir lífi sínu þarna fyrir norðan. En barátta fólksins út af þessu deilumáli hófst með því, að það var áformað að virkja Laxá, eins og allir vita, með 57 metra stíflu og vatnaflutningum úr Suðurá. Þessu mótmæltu heimamenn, svo sem búnaðarsamband, sveitarstjórnir og sýslunefnd. Hins vegar þróuðust málin þannig, að fram kom tillaga, er nefnd hefur verið Laxá III, með 20–23 metra stíflu, og var hún mjög í samræmi við það, sem heimamenn höfðu áður látið í ljós, að þeir gætu fallizt á, 18–20 metra stíflu. Ég var einn af þeim, sem mótmælti Gljúfurversvirkjun með vatnaflutningum og fleiru. Hins vegar fagnaði ég þessari tillögu, því að ég taldi hana renna mjög í þá átt, sem við höfðum gert okkur í hugarlund um virkjunina.

En svo skeður það, að þá er stofnað landeigendafélag, — deilan hófst ekki upphaflega milli landeigenda sem slíkra, — þá er stofnað landeigendafélag og þeir telja sig ekki geta fallizt á neina stíflugerð. Spurningin er þá sú í dag, eigum við að taka mið af hagsmunum fjöldans eða ímynduðum hagsmunum nokkurra sérhyggjumanna? Ég vildi láta það koma fram sem mína skoðun, að mér þætti það furðulegt ráðslag á okkar hálfsósíalíseraða þjóðfélagi, ef hagsmunir einstaklinga ættu að sitja í fyrirrúmi fyrir hagsmunum fjöldans.