20.12.1971
Sameinað þing: 27. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 690 í B-deild Alþingistíðinda. (505)

1. mál, fjárlög 1972

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér fjórar till. við 3. umr. fjárlaga. Ég hafði við 2. umr. flutt þrjár af þessum till. og þá gert grein fyrir þeim, og þykir mér ekki ástæða til þess að endurtaka það hér við þessa umr. Ég vil þá láta það koma í ljós, að ég harma það mjög, að hv. fjvn. skyldi ekki sjá sér fært á milli umr. að gera breytingu á framlagi til vatnsveitu Vestmannaeyja. Þar er um að ræða fyrirtæki, sem ég vona, að allir hv. þm. hafi gert sér grein fyrir, að mjög eðlilegt væri að styrkja allverulega og helzt með hærri upphæð en hér er um að ræða á fjárlögum.

Ég flyt nýja till. varðandi framlag til flugmála, þar sem ég legg til, að liðurinn verði hækkaður um 5 millj. kr. og af liðnum verði veittar 11.2 millj. til flugbrauta í Vestmannaeyjum. Ég kannaði það hjá réttum aðila, hve mikil upphæð af heildarfjármagni til framkvæmda við flugvelli í landinu mundi vera áætluð til flugvallarins í Vestmannaeyjum, og fékk þá þær upplýsingar, að til verklegra framkvæmda mundu af heildarupphæðinni verða áætlaðar 5 millj. til þessarar flugvallargerðar og 1.2 millj. til tækjakaupa eða samtals 6.2 millj. kr. Ég vil geta þess í sambandi við þetta, að á síðasta ári var gert verulegt átak við flugbrautirnar og þá aðallega norður-suðurbrautina, hún lengd verulega, en eftir er að ganga endanlega frá þeirri braut og einnig frá eldri brautinni, og mun það að mínum dómi kosta a.m.k. þá upphæð, sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv., og ég hygg nokkuð meira. Þar við bætist, að ég tel, að það megi ekki draga það lengur að gera a.m.k. tilraunir með slitlag á brautirnar í Vestmannaeyjum úr varanlegu efni. Það hefur komið hér fram áður, og því verið lýst, að aðstaða á þessum stað er orðin þannig í sambandi við ofaníburð í flugbrautina, að það getur borið að hvenær sem er, að ekki verði um neitt tiltækt efni að ræða, því að ef það verður stöðvað, eins og kannske mætti segja, að eðlilegt væri að gera, að taka möl úr Helgafelli og rífa það ágæta og fagra fjall niður og bera það ofan í flugbrautina, þá er ekki í nein önnur hús að venda, og því tel ég, að það verði að leggja alla áherzlu á einmitt að koma varanlegu slitlagi á flugbrautirnar á þessum stað. Þetta hefur eðlilega nokkuð tafizt fyrir mönnum, því að fram að þessu hefur alltaf verið talað um malbikun flugbrauta, og var á sínum tíma hafizt handa um það verk með því að malbikaður var á hvorum enda eldrí flugbrautarinnar um 100 m langur kafli og um 40 m breiður, og kemur það sér mjög vel við flugtak.

Nú liggur það hins vegar ljóst fyrir, að í stað malar, eins og nú er borin ofan í völlinn, sem er mjög létt efni í sér og getur horfið að miklum hluta úr brautinni, ef um mjög slæmt veður er að ræða, þá mun það kostnaðarins vegna vera miklu auðveldara að gera tilraunir með olíumöl. Ég hef kannað það mál. og mér skilst, að kostnaður við slitlag á hvora flugbraut fyrir sig mundi ekki vera nema um 6–7 millj. kr. Þá er reiknað með 1000 m löngum brautum og 30 m breiðum. Malbik hefur hins vegar verið lauslega áætlað og talið, að það kosti tugi millj., að mér er tjáð, sennilega um 50 millj. Ég tel því, að það sé mjög eðlilegt og beinlínis mjög nauðsynlegt vegna allra aðstæðna að gera þegar á næsta sumri tilraun með að bera olíumöl ofan í aðra brautina og sjá, hvort það muni ekki geta leyst þetta aðkallandi vandamál. sem þarna er um að ræða í sambandi við slitlag brautanna. Verkfræðingar tjá mér, að þeir geti í sjálfu sér ekki séð annað en þetta mundi leysa þetta mál alveg, að olíumöl væri nægjanlega sterkt slitlag, en þar sem hér er um nýmæli að ræða að bera slíkt slitlag á flugvelli, þá vilja þeir að sjálfsögðu ekki fullyrða um það nema reynslan sýni, að þessi niðurstaða þeirra sé rétt. Ég vil því fara fram á það við hv. Alþ., að það sæi sér fært að verða við þessum tilmælum og hækka heildarframlagið um 5 millj. kr., og áætla þar af til verklegra framkvæmda við flugbrautirnar 10 millj. og 1.2 millj. til tækjakaupa. Ég mundi telja, að þá væri ekki mikið átak eftir við flugbrautirnar í Vestmannaeyjum, flugbrautirnar sjálfar. Flugvallarbygging er þar engin og er framtíðarspurning, en ef í þetta yrði ráðizt, mundi það a.m.k. þoka þessum málum mjög mikið áfram og koma þeim í mun betra horf en nú er, og sérstaklega teldi ég þetta nauðsynlegt af þeim ástæðum, eins og ég hef sagt áður, að það er komið í algjört þrot með ofaníburð í slitlag á flugbrautunum á þessum stað.

Ég skal láta þetta nægja um þær till., sem ég hef hér flutt og fram koma á þskj. 249. En ég vildi bera fram eina fsp. til hæstv. fjmrh. Það er varðandi XI. lið, þar sem gert er ráð fyrir verulega hækkuðu framlagi til kaupa á dagblöðum. Þar segir svo í till., sem borin er fram af þm. úr öllum flokkum, og reikna þeir með, að hún verði samþ., en þar segir svo:

„Til kaupa á dagblöðum og aðalmálgagni Samtaka frjálslyndra og vinstri manna, svo og til kaupa á kjördæmismálgögnum stjórnmálaflokkanna, samkv. nánari ákvörðun ríkisstj.

Ég spyr um sérstakt atriði í sambandi við þetta. Bæði á Suðurlandi og að ég hygg á Norðurlandi, — mér er nú ekki kunnugt um, hvort það er víðar, — hagar svo til, að stjórnmálaflokkarnir, a.m.k. Sjálfstfl. og Framsfl., gefa út reglulega vikublöð á tveimur stöðum í kjördæmi, annars vegar á Selfossi og hins vegar í Vestmannaeyjum. Þetta hefur verið svo um áratugaraðir og ég hygg, að það sé svipað ástatt í Norðurl. e., þar sem blöðin eru gefin út á Siglufirði og Akureyri. Og þá er fsp. mín til hæstv. ráðh. sú, hvort það mundi ekki verða talið, að blöð á báðum þessum stöðum, — á ég þar við Suðurland, — bæði blöð stjórnmálaflokkanna á Selfossi og eins í Vestmannaeyjum, hvort þau mundu ekki bæði falla undir þá grein fjárlaga, sem þarna er um að ræða, með því að af þeim yrði þá keypt hin tiltekna tala eintaka af blöðunum.

Ég vænti þess, að hæstv. fjmrh. geti orðið við tilmælum mínum um nánari skilgreiningu á þessum sérstaka lið.