20.12.1971
Sameinað þing: 27. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í B-deild Alþingistíðinda. (506)

1. mál, fjárlög 1972

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem ég þarf að mæla hér fyrir þremur brtt., sem ég flyt við fjárlögin. Þessar brtt. er að finna á þskj. 249. Það er I. brtt. á þskj., sú 8. og 12. Ég hygg, að hv. þm. sé líkt farið og mér, þegar þeir líta yfir till. hv. fjvn., að þeir muni ekki finna þar margar sparnaðartillögur. Ég hef þó rekið augun í eina, því að n. hefur lagt til, að gjaldfærður stofnkostnaður vegna húsmæðraskóla verði lækkaður úr 8 millj. 823 þús. í 6.5 millj. Það er sýnilegt, að húsmæðraskólarnir eiga ekki upp á pallborðið hjá hv. fjvn., og ég verð að segja það, að mér finnst hafa orðið leiðinleg breyting á þessari góðu n., því að meðan ég var í n. var það svo, að okkur stóð fremur hlýr hugur til kvennaskólanna. 1. brtt., sem ég flyt, varðar húsmæðraskólana í Norðurl. v., Húsmæðraskólann á Blönduósi og Húsmæðraskólann á Löngumýri, og legg ég til, að till. fjvn. til skólans á Blönduósi verði hækkuð úr 500 þús. kr. í 1 millj. Ég vil taka það fram, að ég er ekki að fara fram á fjárveitingu til nýrra framkvæmda. Hér er um að ræða fjárveitingu til þess að greiða skuldir ríkissjóðs við þennan skóla, en þar hefur í undanfarin ár verið staðið í framkvæmdum, byggingu kennarabústaða o.fl., og þessar framkvæmdir hafa verið leyfðar bæði af menntmrn. og samþykktar af fjvn. með því að leggja fé til þeirra. En það skortir á, að skólinn sé búinn að fá það, sem hann á að fá af ríkisfénu, og þess vegna er það, að ég flyt þessa brtt.

Það gegnir kannske örlítið öðru máli um skólann á Löngumýri. Honum hefur verið veitt undanfarin ár smávegis upphæð á fjárlögum til undirbúnings kennaraíbúða, en frá þessum fyrirætlunum er horfið og í stað þess fékk skólinn heimild til þess frá rn. að leggja í heitavatnsleiðslu nú á s.l. sumri frá Reykjahólshverum að Löngumýri. Hér er raunar ekki að ræða um nýja framkvæmd, því að þarna var áður heitavatnsleiðsla. Hún var gerð fyrir allmörgum árum, þegar fröken Ingibjörg Jóhannsdóttir var skólastýra á Löngumýri. Hún réðist í þessa framkvæmd af miklum dugnaði og af fátækt sinni, vil ég segja, og því miður var þessi leiðsla ekki varanleg, og hefur nú verið gagnslaus í ein tvö ár. Þess vegna var ráðizt í þessa nýju framkvæmd. Ég get getið þess, að stjórn Varmahlíðar samþykkti það á sínum tíma, að meðan Ingibjörg Jóhannsdóttir stóð að þessum skóla, skyldi ekki vera tekið gjald af henni fyrir heita vatnið, og átti það að vera virðingarvottur við Ingibjörgu fyrir frábæran dugnað hennar og fórnfýsi. Og enn hefur ekkert gjald verið tekið af Löngumýratskólanum fyrir afnot af þessu vatni. Húsakynnin á Löngumýri eru því miður ekki góð, og upphitunarkostnaður þeirra er mikill. En einmitt þessi framkvæmd, sem nú vat verið að gera í sumar, mun áreiðanlega stuðla að því, að lækka rekstrarkostnað þessa skóla um tugi þús. á ári.

Þá flyt ég brtt. við 4. gr. frv., er snertir byggingu sjúkrahúsa, og legg til, að á eftir 8. lið í sundurliðun komi: Sauðárkrókur með upphæð 430 þús. Eins og ég veit, að ýmsir hv. þm. muna, þá vildi það til, að sjúkrahúsið á Sauðárkróki skemmdist allverulega í jarðskjálfta, sem varð fyrir norðan í marzmánuði 1963, bæði veggir og þak hússins skemmdist verulega. Það var gert við þessar skemmdir, sérstaklega á veggjum, þá strax og Alþ. veitti nokkurn styrk til þessara framkvæmda þá á næsta ári. En þá var ekki gerð nema bráðabirgðaviðgerð á þaki hússins, og þakinu var ekki komið í viðunandi horf fyrr en á árunum 1970–1971. Til þessara framkvæmda hefur verið varið 714 þús. kr. Ég sem sagt mælist til þess, að Alþ. geri það sama nú og það gerði 1964, að styrkja sjúkrahúsið eða veita því fé upp í þennan kostnað, sem varð vegna þessara óhappa, og hef ég lagt til, að lagt verði til sjúkrahússins 430 þús. kr. eða um 60% af kostnaðarupphæðinni. Hér er um mjög litla till. að ræða, og ég þykist þess fullviss, að hæstv. forsrh. muni samþykkja þessa till. og leggja því lið, að hún verði samþ., því að þó að hæstv. ráðh. sitji nú í landsföðursæti, þá veit ég það, að hugur hans til okkar Skagfirðinga er jafnvel hlýrri en til annarra byggðarlaga.

Í þriðja lagi legg ég svo til, að höfnin á Hvammstanga fái 2.1 millj. fjárveitingu í stað 1.1, sem fjvn. leggur til, að höfnin fái. Framkvæmdir við höfnina í sumar munu hafa kostað 2.8 millj. kr. og fjárveiting til þessarar framkvæmdar á því að vera, eftir því sem ég kemst næst, 2.1 millj. Hvammstangahreppur mun þegar hafa lánað mikið fé til þessarar framkvæmdar, og það er að sjálfsögðu augljóst og öllum skiljanlegt, að svo litlu sveitarfélagi er það örðugt að eiga inni hjá ríkinu stórar fjárhæðir um lengri tíma. Og annað er það líka, sem ég legg áherzlu á í sambandi við þessa fjárveitingu, að verði hún ekki veitt, þá þýðir það, að það er ekki hægt að halda áfram á næsta sumri þessum framkvæmdum, en það þarf að gera, til þess að aðstaða við bryggjuna á Hvammstanga verði viðunanleg. Hún hefur ekki verið það, og svo léleg hefur hún verið, að Samband ísl. samvinnufélaga eða skipadeild þess hefur þráfaldlega skrifað hreppsnefndinni á Hvammstanga og tilkynnt henni, að hún sæi sig nauðbeygða til þess að hætta því, að láta skip Sambandsins sigla til Hvammstanga.

Ég þarf, held ég, ekki frekar að mæla fyrir þessum litlu brtt., ég vil ekki fara að angra hæstv. fjmrh. núna rétt fyrir jólin, það verða nógir til þess. En ég vil aðeins segja það, að nú er sköpum skipt. Þessi hæstv. ráðh. hefur haft það hlutverk á hendi hér í mörg undanfarin ár að gagnrýna fjármálastjórnina. Við, sem stóðum að síðustu ríkisstj., vorum skammaðir þrotlaust fyrir það, að fjárlög hækkuðu frá ári til árs, en nú skilst mér, að fjárlögin hækki um rúma 5 milljarða frá fjárlögum þessa árs. Þeir fara nú ekki að verða stórir karlar, fjmrh. Sjálfstfl., í samanburði við þennan hæstv. fjmrh. núv. En ég vil aðeins benda á það, að mér finnst, að það megi segja það um hæstv. fjmrh., að það, sem helzt hann varast vann, varð þó að koma yfir hann.