25.04.1972
Sameinað þing: 61. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1272 í D-deild Alþingistíðinda. (5067)

931. mál, hækkun á verðlagi

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég vil láta í ljós sérstakt þakklæti til hæstv. viðskrh. fyrir ítarleg svör hans við þessum yfirgripsmiklu spurningum. Ég hafði rætt það við hæstv. ráðh. og hæstv. forseta Sþ. áður, hvort ekki væri rétt að svara fsp. einmitt í þessu formi, þ.e. að dreifa skriflegu svari meðal þm., og mér þykir vænt um, að við þeirri ósk skyldi hafa verið orðið. Það sparar þingheimi tíma og gerir svarið miklu aðgengilegra en ella mundi eiga sér stað. Ég vona, að þetta geti orðið til fyrirmyndar framvegis varðandi meðferð fsp. hér á hinu háa Alþingi og læt í ljós eindregna von um, að svo megi verða.

Ég ætla að sjálfsögðu ekki að ræða efni málsins við þetta tækifæri. Ég vildi í tilefni af ræðu hæstv. ráðh. aðeins vekja athygli á, að sá listi, sem þm. hafa fengið lagðan fyrir sig, er ófagur. Hann ber þeirri þróun, sem íslenzka þjóðin er nú að upplifa, ófagurt vitni, og hlýtur að setja ugg að mörgum mönnum í tilefni af þessu, jafnvel við fljótlegan lestur yfir listann. Ég skal ekki heldur ræða þær skýringar, sem hæstv. ráðh. gaf á því, hverjar hann teldi vera meginorsakir þeirra miklu verðhækkana, sem dunið hafa yfir og eru enn að dynja yfir. Ég er ekki sammála skýringum hans á því, að hér sé fyrst og fremst um að ræða afleiðingar af einhverjum svonefndum fyrri syndum eða eldri ákvörðunum og mun síðar gera nánari grein fyrir því á réttum og eðlilegri vettvangi en hér er um að ræða. Hér vildi ég aðeins segja, að auðvitað hlaut öllum vitibornum mönnum að vera ljóst, að í haust mundi verða mikill vandi á höndum í verðlagsmálum eftir langt verðstöðvunartímabil. Þetta var öllum mönnum ljóst og hefur öllum mönnum verið ljóst undanfarin ár, í raun og veru allt verðstöðvunartímabilið.

Það, sem nú er að koma í ljós, er, að núv. hæstv. ríkisstj. hefur ekki reynzt þessum vanda vaxin. Hún hefur ekki reynzt geta leyst þennan vanda með sama hætti og hún taldi sig geta í baráttunni fyrir kosningarnar, og það hlýtur að valda öllum almenningi hinum mestu vonbrigðum.

Ég vek athygli á því, sem hæstv. ráðh. raunar sjálfur tók skýrt fram, enda kemur það fram í skýrslunni, að fram til 1. maí er gert ráð fyrir því, að vísitala framfærslukostnaðar hækki um hvorki meira né minna en 8 stig og kaupgjaldsvísitala komi til með að hækka um tæp 6 stig, sem er sannarlega mjög alvarleg þróun fyrir atvinnuvegina og fyrir þjóðarbúskapinn yfir höfuð að tala. En á því vildi ég að síðustu vekja athygli, að hér er ekki vikið að því, að í raun og veru eiga launþegar enn þá inni í kaupgjaldsvísitölunni 4 stig vegna þeirrar aukningar á niðurgreiðslum, sem gerð var og þeirrar hækkunar á landbúnaðarvörum, sem af þeim hlauzt, en hefur ekki fengizt bætt í kaupgjaldsvísitölu. Það dæmi er enn óuppgert í kauplagsnefnd. Afgreiðslu þess var frestað á sínum tíma, og enn sem fyrr hef ég fulla trú á því, að kauplagsnefnd muni fella réttlátan dóm í því máli, þ.e. dæma neytendum rétt til launahækkunar, vegna þess að í stað skatta, sem þeir auðvitað munu spara, munu þeir koma til með að greiða aðra skatta nákvæmlega jafnháa og þess vegna eiga þeir ekki að bera þá hækkun, sem orðið hefur á landbúnaðarvörum í þessu sambandi bótalaust. Það væri ranglát niðurstaða, og ég treysti því, að til hennar muni ekki koma. En sá vandi, sem af því hlýzt, kemur til viðbótar þeim mikla vanda, sem lýst er í þessu skjali.

Svo endurtek ég enn þakkir mínar til ráðh. fyrir ítarleg svör.