25.04.1972
Sameinað þing: 61. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1273 í D-deild Alþingistíðinda. (5068)

931. mál, hækkun á verðlagi

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs út af því, sem stendur á bls. 12 í þessari skýrslu, en þar segir, að nokkrir aðilar hafi lagt fyrir verðlagsyfirvöld beiðni, þ.e. í c-lið skýrslunnar, um hækkun, sem ekki hefur verið tekin fyrir enn þá. Í c-lið stendur: Flutningsgjöld af vörum frá útlöndum (Eimskip, Hafskip og SÍS, Samband ísl. samvinnufélaga, skipadeild). Mér er kunnugt um það hins vegar, að Eimskip hefur byrjað að innheimta verulega verðhækkun á vörum frá Íslandi og allt upp í fjórðung. Og ég vildi nota þetta tækifæri til að spyrja hæstv. viðskrh., hvort hann hafi fengið um þetta beiðni eða hvort það sé Eimskip alveg í sjálfsvald sett að setja þá taxta, sem þeir kæra sig um, á vörur frá landinu, því að það kemur sannarlega niður á vöruverði með öðru móti, þ.e. hráefnisverði til sjómanna. Ég hef þegar í höndunum ljósrit af reikningi, er sýnir allt að fjórðungshækkun hjá Eimskip í þessu tilfelli.