25.04.1972
Sameinað þing: 61. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1276 í D-deild Alþingistíðinda. (5071)

931. mál, hækkun á verðlagi

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Fsp.- tíminn er að sjálfsögðu ekki til almennrar umr., og ég get fallizt á þau sjónarmið, sem fram hafa komið og ekki sízt hjá hæstv. forseta Sþ. nú. Það er þó stundum þannig, að ekki er hægt að komast hjá því að gera nokkrar aths. við það, sem sagt er, og það ætla ég að leyfa mér að gera núna.

Hæstv. viðskrh. sagði, að þeir, sem stofnuðu til vandans og geymdu verðhækkanirnar með verðbreytingum, með verðstöðvun, vilji nú skjóta sér undan vandanum og ekki láta leyfa verðhækkanir, en eins og áðan var vikið að, þá var þáv. ríkisstj. atyrt fyrir það að hafa leyft of miklar verðhækkanir. Ég lagði fram svipaða skýrslu um verðhækkanirnar í umr., sem þá fóru fram og síðar á þinginu um þetta mál, og sýndi hún, að verðhækkanir höfðu verið leyfðar oft með shlj. atkv. og stundum a.m.k. miklum meiri hl. og engum mótatkv. í verðlagsnefndinni, og þetta átti sér stað um iðnaðinn líka. Það er svo rétt, að það munu einhver iðnfyrirtæki, sennilega örfá, hafa orðið þannig út undan, að þau hafa ekki verið búin að biðja um þessar verðhækkanir fyrir verðstöðvunina. Það kom fram á sínum tíma og var ekkert leyndarmál. Þess vegna er það afar einkennilegt, þegar því er haldið fram nú, að verðstöðvunin hafi valdið vanda í iðnaðinum, vegna þess að hann hafi ekki fengið verðhækkanir. Það kom líka fram í ræðu formanns Félags ísl. iðnrekenda, að þetta væri geymdur vandi. En þá spyr ég: Hvernig hefði íslenzkur iðnaður staðið, ef verðstöðvun hefði ekki orðið og komið 7–10% kauphækkun í iðnaðinn 1. des., sem var komizt hjá, og síðan líklega á einu ári svona um 20% kauphækkun, ef ekkert hefði verið að gert? Þegar ég segi um 20% kauphækkun, þá miða ég við, að það mun nálgast það að verða upp undir 20% kauphækkun. A.m.k. mun vísitalan hjá þessari hæstv. ríkisstj. væntanlega á þessu ári, einu árstímabili, hafa hækkað um sem nemur 20 stigum. Það eru allar líkur, sem til þess benda. Hvernig hefði þá íslenzkur iðnaður staðið og hvernig átti þá að leysa vandann? Var það ekki nokkru meiri vandi, sem þá var við að etja, ef kaupið hefði á eins árs tímabili hækkað um upp undir 20% hjá iðnaðinum í samkeppni við innfluttar vörur og í sambandi við möguleika þeirra til útflutnings en þó að einhverjar greinar iðnaðarins hefðu ekki fengið þær verðhækkanir, sem þær óskuðu eftir haustið 1970? En það er staðreynd, að iðnaðurinn hefur ekki blómstrað meira á öðrum tíma en á árunum 1970 og 1971. Hann jók framleiðslu sína um 10–11 % fyrra árið og 13–14% síðara árið, og þegar um slíka framleiðsluaukningu er að ræða, þá ætti að mega búast við því, að slíkur atvinnurekstur gæti þolað það, að eitthvað væri hamlað á móti verðhækkunum, sem hann kannske mjög gjarnan hefði viljað fá, en bæði framleiðsluaukningin og framleiðniaukningin gefa honum meira í aðra hönd. Það er þess vegna fráleitt, og ég vísa því algerlega á bug, að fyrr. ríkisstj. hafi stofnað þarna til vanda fyrir þá, sem nú eru að biðja um verðhækkanir. Þvert á móti varð hún mikil bjargvættur íslenzks atvinnurekstrar með þeirri verðstöðvun, sem hún stofnaði til og leiddi til þess, að kauphækkanir urðu litlar sem engar á tímabilinu frá því að verðstöðvunin tók gildi og þar til núv. ríkisstj. tók við.