25.04.1972
Sameinað þing: 61. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1279 í D-deild Alþingistíðinda. (5074)

931. mál, hækkun á verðlagi

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég skal halda örstutta tölu. Það er í sambandi við það, sem ég benti á, og vil bara árétta það, svo að mönnum skiljist það alveg, að varðandi atvinnureksturinn fengu sumar greinar við verðstöðvunina ekki verðlagshækkanir eins og þær vildu. En þær fengu á móti það, að kaupið hækkaði ekki eins og var ráðgert, að það mundi hækka, og það var ráðgert, að það mundi hækka í desember einhvers staðar á milli 7 og 10 stig, sem stöðvuð voru, 7.5 eða 8, ef ég man þetta nógu rétt nákvæmlega. Ef verðstöðvunin hefði ekki orðið, þá hefði bæði iðnaður og aðrar atvinnugreinar, sem voru í samkeppni við innflutning, þurft að greiða þetta miklu meira í kaupgjald og samkeppnisaðstaðan þar af leiðandi versnaði. Þetta sluppu þeir við, fengu að vísu ekki verðhækkanir, og urðu svo að keppa við innfluttar vörur og borga eitthvað meira — sáralítið — fyrir aðfluttu vöruna. Ég held, að það hafi tvímælalaust verið miklu hagstæðara fyrir atvinnureksturinn, sem losnaði við víxlhækkanir kaupgjalds og verðlags, sem gat orsakað upp undir 20% kauphækkanir á skömmum tíma, ef ekki var að gert, en þær litlu verðlagshækkanir, sem neitað var um og hann hafði beðið um. Valkosturinn liggur þar á milli, og mér þætti vænt um það, ef formaður Félags ísl. iðnrekenda, sem hefur spunnizt inn í umr. okkar, vildi gera grein fyrir því á opinberum vettvangi, hvorn valkostinn hann heldur vildi. Hann á ekki að segja bara: Við erum í vandræðum, af því að við fengum ekki allar þær verðhækkanir, sem við vildum. — En hvaða valkost vildi hann? Að sleppa við kauphækkanirnar með stöðvuninni og missa af nokkrum verðhækkunum, sem eftir voru? Þetta er spurningin, sem ekki er svarað í hinni ágætu ræðu hans að öðru leyti.

Varðandi svo síðara atriðið, sem þeir hafa rætt um, hv. 2. þm. Norðurl. e. og ráðh., hvernig kauplagsnefndin á að reikna út kaupgjaldsvísitöluna, þá finnst mér, að það standi upp á ríkisstj. Það hef ég áður sagt hér. Hún getur ekki sagt: Þetta kemur okkur ekki við. Ef hún breytir lögunum, eins og hún gerir, breytir almannatryggingalögunum og tekjuskattslögunum, og ef hún sér fram á það, hún sér kannske ekki fram á það, en ef hún sér fram á það, að þetta skapi launþegunum ranglæti, að vísitöluútreikningurinn, vísitalan, sem á að mæla öllum almenningi kaup, verði með þessu skert, þá hefur ríkisstj. í hendi sér að breyta lögunum um útreikning kaupgjaldsvísitölunnar, og það er það, sem hún á að gera, ef hún sannfærir sjálfa sig um það, að hún komi hér fram með rangindum gagnvart launþegastétt landsins.