09.05.1972
Sameinað þing: 65. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1288 í D-deild Alþingistíðinda. (5090)

265. mál, stofnun Leiklistarskóli ríkisins

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Fsp. hv. 7. þm. Reykv. hljóðar svo:

„Hyggst ríkisstj. leggja fyrir Alþ. frv. um Leiklistarskóla ríkisins, sbr. álit nefndar, sem menntmrn. skipaði 15. júli 1969?“

Svar mitt er á þessa leið: Með bréfi dags. 20. sept. 1968 fór Félag ísl. leikara þess á leit við þáv. menntmrh., dr. Gylfa Þ. Gíslason, að sem fyrst yrði samin löggjöf um leiklistarnám hér á landi og stofnaður einn leiklistarskóli fyrir allt landið rekinn af ríkinu. Leiklistarskólinn skyldi vera sjálfstæð stofnun og óháður leikhúsum höfuðstaðarins. Eins og kunnugt er, höfðu verið starfandi hjá leikhúsum höfuðstaðarins tveir leiklistarskólar. Með bréfi dags. 20. jan. 1969 ritaði menntmrn. Félagi ísl. leikara, Þjóðleikhúsinu, Leikfélagi Reykjavíkur og fjmrn. og lýsti þeirri ákvörðun sinni að skipa nefnd til þess að athuga möguleika á því að sameina leikskóla þá, sem reknir voru í Reykjavík, í einn skóla, sem væri t.d. rekinn á hliðstæðum grundvelli og tónlistarskólar. Nefndin skyldi gera áætlun um stofnkostnað og rekstrarkostnað slíks skóla. Voru nefndir aðilar beðnir að tilnefna fulltrúa í fyrirhugaða nefnd. Fjmrn. svaraði þessu bréfi 31. jan. 1969 og taldi sér ekki fært að svo stöddu að fallast á aðild að fyrirhugaðri nefnd menntmrn. Segir fjmrn. orðrétt:

„Rn. telur nefndarskipun af þessu tagi vera vísbendingu um vilja af hálfu ríkissjóðs til að taka þátt í að standa straum af starfsemi eins og leikskólum að einhverjum hluta. Slíka ákvörðun lítur rn. á sem verulega stefnuákvörðun, sem nauðsynlegt sé að hyggja nánar að en rn. er kunnugt um, að gert hafi verið.“

Varð það að samkomulagi milli þáv. menntmrh., dr. Gylfa Þ. Gíslasonar, og þáv. fjmrh., Magnúsar Jónssonar, að fyrirhuguð nefnd skyldi skipuð án fulltrúa frá fjmrn. Hinn 3. marz 1969 hafði borgarstjóranum í Reykjavík verið skrifað frá menntmrn. með beiðni um, að Reykjavíkurborg tilnefndi fulltrúa af sinni hálfu í nefndina. 15. júli 1969 var nefndin skipuð, þannig: Af hálfu Þjóðleikhússins Guðlaugur Rósinkranz þjóðleikhússtjóri, af hálfu Leikfélags Reykjavíkur Sveinn Einarsson leikhússtjóri, af hálfu Félags ísl. leikara Klemens Jónsson leikari, af hálfu Reykjavíkurborgar Jón G. Tómasson skrifstofustjóri. Formaður var skipaður án tilnefningar Vilhjálmur Þ. Gíslason formaður þjóðleikhúsráðs. Sveinn Einarsson óskaði þó ekki að starfa í nefndinni. Tilnefndi Leikfélag Reykjavíkur engan í hans stað þrátt fyrir beiðni rn. um það í bréfi 30. sept. 1969. Nefnd þessi skilaði svo áliti til rn. 9. febr. 1970, en ekki var það í frv.-formi. Ritaði rn. nefndinni 23. marz 1971 og fór fram á, að nefndin felldi till. sínar í frv.- form og sendi rn. Nefndin hefur ekki skilað slíku frv. til rn.

Á Alþingi 1968–1969, á 89. löggjafarþingi, fluttu þeir þm. Einar Ágústsson, Páll Þorsteinsson og Ólafur Jóhannesson frv. til l. um Leiklistarskóla ríkisins, þskj. 247, Ed. Frv. þessu var vísað til ríkisstj. samkv. till. í nál. meiri hl. menntmn. á þskj. 340, þar sem upplýst var, að menntmrh. hefði 20. jan. 1969 beðið um tilnefningu í nefnd til þess að athuga um sameiningu leiklistarskólanna og áætlun um stofn- og rekstrarkostnað. Með bréfi 6. febr. 1970 skipaði þáv. menntmrh. nefnd til þess að endurskoða lög og reglugerðir um þjóðleikhús, og áttu sæti í henni Birgir Thorlacius ráðuneytisstjóri, formaður, dr. Þórður Eyjólfsson fyrr. hæstaréttardómari og Baldvin Tryggvason framkvæmdastjóri. Þessi nefnd skilaði frv. til l. um þjóðleikhús 23. marz 1971 og var það lagt fyrir Alþ. sem stjfrv. skömmu fyrir þinglok 1971, en varð ekki útrætt og síðan flutt á því þingi, sem nú situr, þá af menntmn. Ed. Alþingis að beiðni menntmrh.

Í 20. gr. frv. þessa til laga um þjóðleikhús segir svo: Komið skal á fót sérstökum leiklistar-, sönglistar- og listdansskóla ríkisins, og setur menntmrn. nánari ákvæði um hann í reglugerð. Í grg. segir, að það sé mjög aðkallandi framkvæmd að koma á fót slíkum skóla. Þjóðleikhúsið hafi á undanförnum árum rekið leiklistarskóla og ballettskóla, en sjálfsagt virðist, að slíkur skóli sé sjálfstæð stofnun. Nefndin taldi rétt, segir í grg., að setja í þetta frv. ákvæði um stofnun slíks skóla, þótt reynslan kynni að leiða í ljós, að réttara væri að setja um hann sérstaka löggjöf síðar. Ef frv. til l. um þjóðleikhús verður samþ. á þessu þingi með ákvæðinu um leiklistarskólann, er fengin nægileg heimild til þess að koma skólanum á fót og láta hann þróast smátt og smátt. En eins og í grg. frv. er tekið fram, kann reynslan svo að leiða í ljós, að réttara væri að setja um skólann sérstaka löggjöf síðar meir.

Megintillögur nefndar þeirrar, sem menntmrn. skipaði 15. júli 1969 og áður er um getið, eru þær, að ríkið reki leikistarskóla í Reykjavík óháðan leikhúsum og undir yfirstjórn menntmrn. og setji honum 3–5 manna stjórn, þar sem tekið yrði tillit til þess, að sérfræðileg listþekking og þekking og reynsla á fjármálum njóti sin. Tilgangur skólans yrði sá að veita nauðsynlega undirbúningsmenntun á eins víðtækum grundvelli og unnt er þeim, sem stunda vilja íslenzka leiklist. Telja nm., að skólinn ætti að vera í nánu samræmi við evrópska og einkum norræna leiklistarskóla um skipulag og námskröfur, eftir því sem íslenzkar aðstæður krefjast eða leyfa. Skólinn verði þriggja ára skóli og möguleiki til fjögurra ára skóla að fenginni reynslu, ef ástæða þykir til eða fé er veitt til sérstaks framhaldsnáms, t.d. fyrir leikstjóra. Skólinn starfi átta mánuði á ári með venjulegum leyfum að undangengnu inntökuprófi. Hverju námsári ljúki með prófi og síðast fullnaðarprófi. Inntaka í skólann verði bundin við 17–25 ára aldur að undangengnu t.d. gagnfræðaprófi, landsprófi eða áþekkum prófum. Einnig telur nefndin, að strangari inntökuskilyrði kæmu til greina þegar í upphafi. Með hliðsjón af kröfum annarra Norðurlandaskóla á þessu sviði og reynslunni hérlendis segir nefndin, að námsgreinar ættu að vera þessar: Taltækni, framsögn, leiktúlkun á sviði, í útvarpi, sjónvarpi og kvikmyndum, sviðshreyfingar, látbragðsleikur, leiksköpun, leiktúlkun, andlitsgervi, skylmingar, dans, leikfimi, leiklistarsaga, söngur og e.t.v. einhver hljóðfæraleikur. Að því er varðar húsnæði fyrir skólann telur nefndin, að vel sé fyrir því séð með 775 fermetra flatarmáli, en unnt mundi þó að komast af með minna, það yrði tekið til notkunar í áföngum. Tekur nefndin fram, að húsnæði sænska leiklistarskólans sé 3500 fermetrar fyrir 40 nemenda skóla. Að því er varðar rekstrarkostnað, þá er um að ræða laun skólastjóra, ein kennaralaun, stundakennaralaun, Laun til fyrirlesara, ljós, hita, ræstingu, umsjón o.fl. Samtals hefur nefndin áætlað stofnkostnað um 14 millj. kr. miðað við verðlag á árinu 1970 og árlegan rekstrarkostnað miðað við sama tíma um það bil 1.3 millj. kr. Þess skal getið, að fulltrúi Reykjavíkurborgar í nefndinni tók fram í nál., að hann telji ekki, að tónlistarskólar og leiklistarskóli yrðu reknir á hliðstæðum grundvelli fjárhagslega, þannig að bæjarfélagið greiddi þriðjung kostnaðar af rekstri leiklistarskóla eins og tónlistarskóla. Sé þátttaka sín í undirbúningi málsins háð fyrirvara um þetta efni.

Eins og þegar hefur verið tekið fram og öllum þingheimi er kunnugt, er heimild í frv. til l. um þjóðleikhús til þess að koma á fót leiklistar-, sönglistar- og listdansskóla ríkisins, og er sú heimild í þessu frv. miklu víðtækari en í þmfrv. um leiklistarskóla frá 1969. Ég mun, ef þessi heimild verður samþ., leggja kapp á, að leiklistar-, sönglistar- og listdansskóli ríkisins komist á fót sem fyrst, eftir því sem fé verður til þess veitt af Alþingi.