16.05.1972
Sameinað þing: 71. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1292 í D-deild Alþingistíðinda. (5099)

932. mál, leiguhúsnæði á vegum ríkisins eða ríkisstofnana

Fyrirspyrjandi (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. sérstaklega fyrir góð og glögg svör. Það kemur í ljós, að hér er um verulegar upphæðir að ræða, og ef við lítum á það, að áhugi er nú nokkur á því að flytja vissar stofnanir frá Reykjavík út á landsbyggðina, þá er sýnilegt, að byggingarþörf er þar fyrir hendi fyrir þessar stofnanir. Engu að síður er mjög athyglisvert, hversu leigan hér í Reykjavík er mikil og hversu ríkið sjálft eða ríkisstofnanir eru í miklu húsnæðishraki og verða að leigja víða. Það er athyglisvert, að skrifstofuhúsnæði, sem er leigt, er tæplega 20 þús. fermetrar, 19 500 fermetrar, þannig að stofnkostnaðurinn við að byggja fyrir ríkið yrði mjög mikill, ef eftirspurn yrði fullnægt. Ég held, að þegar maður lítur á þessa skýrslu, þá sé eðlilegt, að gerð yrði áætlun um byggingu á húsnæði fyrir hina margvíslegu starfsemi, skrifstofustarfsemi, geymsluhúsnæði, kennslustarfsemi og þjónustustarfsemi, sem ríkið innir af hendi. Í dag leigir það 37 600 fermetra, þannig að hér er um mikla fjárfestingu að ræða, ef fullnægja ætti eðlilegri eftirspurn. Það dettur auðvitað engum í hug, að það yrði gert á stuttum tíma, en nauðsynlegt er að móta hér ákveðna stefnu í þessum málum.