16.05.1972
Sameinað þing: 71. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1299 í D-deild Alþingistíðinda. (5108)

275. mál, menntaskólar í Reykjaneskjördæmi

Fyrirspyrjandi (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Á síðasta þingi fluttu þm. Reykn. till. til þál. um menntaskóla í Reykjaneskjördæmi. Ályktunin, sem var samþ., hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela menntmrn. að láta nú þegar hefja athugun á því, hvar og hvenær stofnsetja skuli menntaskóla á þéttbýlissvæðum Reykjaneskjördæmis. Verði sérstaklega athugað við bæjarstjórn Hafnarfjarðar um stofnsetningu menntaskóla í Hafnarfirði á næsta ári.“

Frá því hefur verið skýrt á opinberum vettvangi, að hæstv. núv. menntmrh. skipaði nefnd til þess að gera þá athugun, sem þessi till. fór fram á. Ég hef því sem 1. flm. þessarar till. leyft mér að flytja fsp. á þskj. 703 til hæstv. menntmrh., svo hljóðandi:

Hefur nefnd sú, er skipuð var til að athuga, hvar og hvenær stofnaðir skuli menntaskólar á þéttbýlissvæðum Reykjaneskjördæmis samkv. ályktun Alþingis frá 5. apríl 1971, lokið störfum? Ef svo er, hverjar eru niðurstöður nefndarinnar?