16.05.1972
Sameinað þing: 71. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1299 í D-deild Alþingistíðinda. (5109)

275. mál, menntaskólar í Reykjaneskjördæmi

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Svar mitt við fsp. hv. 1. þm. Reykn. er á þessa leið: Nefnd sú, er um ræðir í fsp., var skipuð með bréfi menntmrn. dags. 13. okt. 1971. Í nefndina voru skipaðir Jónas Pálsson skólastjóri, formaður, Guðmundur Arnlaugsson rektor samkv. tilnefningu samstarfsnefndar menntaskólastigsins og Jóhann Einvarðsson bæjarstjóri samkv. tilnefningu Sambands sveitarfélaga í Reykjanesumdæmi. Nefndin hefur með bréfi dags. 24. apríl s.l. skilað áliti til menntmrn. Í bréfi nefndarinnar er þess getið, að hún hafi m.a. haldið sérstakan fund með stjórn Samtaka sveitarfélaga í Reykjaneskjördæmi og annan með nokkrum forustumönnum Hafnfirðinga í skóla- og bæjarmálum. Í áliti sínu gerir nefndin fyrst grein fyrir nokkrum atriðum, er tekin hafa verið mið af við nefndarstörfin. Síðan eru settar fram tillögur í þrennu lagi og tekið fram, að líta megi á hverja tillögu sem valkost, er vega beri og meta út frá forsendum, sem fyrir hendi eru og skilyrðum til framkvæmda. Þær þrjár leiðir, sem nefndin telur þannig koma til greina, eru sem hér segir:

1. Stofnaður verði fyrir Reykjaneskjördæmi menntaskóli, sem í meginatriðum fylgi hefðbundnu sniði. Staðsetning hans er álitamál. Er það látið liggja á milli hluta, hvernig rætist úr þörf Reykjavíkur fyrir menntaskóla næstu árin.

2. Stofnaðir verði eingöngu sameinaðir framhaldsskólar í Reykjaneskjördæmi sunnan Reykjavíkur. Æskileg stærð sameinaðs framhaldsskóla er talin 1000–1500 nemendur. Nemendafjöldi á einstökum þéttbýlissvæðum sunnan Reykjavíkur og fjarlægðir þeirra á milli mundu ráða staðsetningu slíkra skóla á umræddu svæði.

3. Stofnaður verði sameinaður framhaldsskóli fyrir Suðurnes, staðsettur í Keflavík–Njarðvík, en menntaskóli í Kópavogi, sem jafnframt taki við nemendum úr Reykjavík og nágrannabyggðum. Gert er ráð fyrir, að Hafnarfjörður og Garðahreppur móti skólakerfi sitt á næstu árum í átt til sameinaðs framhaldsskóla. Sama þróun gæti átt sér stað um menntaskóla, sem hér er lagt til, að staðsettur væri í Kópavogi. Síðan segir í áliti nefndarinnar:

Till. 3 er eins konar millileið og felur í sér flest í till. 1 og 2. Hún gæti bætt úr bráðum vanda og jafnframt gefið tækifæri til þróunar og aðlögunar í samræmi við reynslu af nýjum gerðum framhaldsskóla. Nm. eru sammála um að mæla helzt með till. 3. Sú afstaða er þó háð ýmsu í framkvæmd skólamála á svæðinu og hvernig heildarstefna verður mótuð af fræðsluyfirvöldum ríkisins í þessum efnum. Tekið skal fram, að þegar rætt er um sameinaðan framhaldsskóla í nál., er átt við skóla af því tagi, sem fyrirhugað er að setja á stofn í reynsluskyni í Breiðholti í Reykjavík með samstarfi ríkisins og Reykjavíkurborgar, sbr. frv., sem ríkisstj. hefur nýlega lagt fyrir Alþ. um heimild til stofnunar slíks skóla. Um þess háttar skóla, sem í nál. er m.a. kallaður fjölbrautaskóli, segir þar á þessa leið:

Skóli af þessu tagi mundi bjóða upp á nám í málum, stærðfræði og náttúruvísindum og nemendur gætu valið á milli námsbrauta, til að mynda tæknibraut, viðskiptabraut, heimilisfræðabraut, félagsfræðabraut, iðnaðarog iðjubraut, þar með talin fiskiðnfræði, og myndlistarog handiðabraut. Þeir, sem hefðu hug á háskólanámi, gætu annaðhvort lokið stúdentsprófi á staðnum eða bætt við sig 1–2 lokaárum í menntaskóla á öðrum stað, ef sú námsbraut, sem þeir óska eftir, er ekki til við skólann.

Hér lýkur tilvitnun í álit nefndarinnar. Í tillögu þeirri, sem nefndin mælir aðallega með, er gert ráð fyrir, að skipun framhaldsmenntunar yfirleitt renni í átt til sameinaðs framhaldsskóla, þótt sú þróun muni eðlilega taka þó nokkurn tíma. Telur nefndin, að sú lausn, sem felst í till. 3, sé eðlileg leið til að leysa úr þeirri þörf, sem að kallar varðandi bætt skilyrði til framhaldsmenntunar á umræddu svæði, án þess að torvelduð sé sú framtíðarþróun, sem telja megi sennilega og æskilega. Eru rök fyrir þessari afstöðu nánar rakin í grg. nefndarinnar.