16.05.1972
Sameinað þing: 71. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1302 í D-deild Alþingistíðinda. (5116)

936. mál, hrygningarsvæði

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Sem svör við þeim fsp., sem hv. þm. hefur hér gert grein fyrir, hef ég fengið bréf frá Hafrannsóknastofnuninni, sem er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Varðandi bréf rn. dags. 9. maí 1972 vegna fsp. til sjútvrh. um athugun á hrygningarsvæðum o.fl.

1. Það er alkunna, að hitastig sjávar ræður miklu um hrygningu fiska. Athuganir Hafrannsóknastofnunarinnar sýna, að hlýindi í sjónum eru nú meiri en undanfarin ár. Þetta hefur í för með sér, að það svæði, þar sem skilyrði til hrygningar eru fyrir hendi, er nú talsvert víðáttumeira en oft áður. Það er skoðun mín, að hrygningarsvæðin sunnanlands og suðvestan hafi ekki breytzt neitt, enda var talsverð hrygning á þeim, heldur hafi hrygningin verið miklu dreifðari nú af áðurnefndum ástæðum. Fiskur, sem undanfarin ár hefur leitað allt suður fyrir land til hrygningar, hefur nú í ár ekki þurft að halda sunnar en á Breiðafjarðarmið. Í þessu sambandi má geta þess, að vegna hlýindanna í vor hefur nokkur hrygning átt sér stað norðanlands, t.d. á Skjálfanda, þannig að hrygning nú hefur verið talsvert dreifð. Hér er í raun og veru ekki um neinn nýjan sannleika að ræða, því að oft áður og einmitt þegar tiltölulega hlýtt var í sjónum hefur átt sér stað hrygning víðar en sunnanlands og suðvestan. T.d. var talsverð hrygning á Breiðafirði árið 1966.

2. Ef árlegur þorskafli s.l. tvo áratugi er borinn saman, kemur í ljós, að mestur var aflinn árið 1954, 547 þús. lestir, sem er jafnframt mesti þorskafli, sem nokkurn tíma hefur aflazt á Íslandsmiðum. En minnstur var aflinn 345 þús. lestir árið 1967. Meðalaflinn hefur verið um 400 þús. lestir. Miðað við aðrar fisktegundir eins og ýsu, ufsa, skarkola og síld, þar sem hámarksafli er oft tvisvar til þrisvar sinnum meiri en lágmarksaflinn, eru sveiflurnar í okkar þorskstofni frekar litlar. En hámarksaflinn á umræddu tímabili er aðeins 60% meiri en minnsta veiði. Aflasveiflurnar standa í nánu samhengi við stærð stofnsins hverju sinni. Aflinn hefur alltaf aukizt, þegar stórir árgangar koma inn í veiðina. Þannig eru aflahámörkin árin 1954, 1964 og 1970 öll byggð á sterkum árgöngum. Þá hafa göngur þorsks af Grænlandsmiðum oft haft talsverð áhrif á gang vertíðarinnar, og hafa stórir árgangar við Austur-Grænland nær alltaf skilað talsverðum afla hér á land, nú síðast vertíðarnar 1969 og 1970, þegar árgangurinn frá 1971 leitaði hingað til hrygningar. Sóknin hefur farið vaxandi í stofninn, og er árleg heildardánartala í kynþroska hluta stofnsins nú næstum 70%.

Eins og oft hefur verið drepið á að undanförnu, hefur aukning dánartölunnar haft ýmiss konar áhrif á stofninn. T.d. hefur hrygningargeta hans minnkað um helming s.l. aldarfjórðung, og þeim þorskum fer stöðugt fækkandi, sem ná háum aldri. Heildardánartalan í ókynþroska hluta stofnsins hefur farið vaxandi og er nú 50% á ári. Af þeim árgöngum, sem nú eru mest áberandi í vertíðaraflanum, er 1964 árgangurinn sá stærsti. Hann mun vera stærsti árgangurinn, sem klakizt hefur undanfarna tvo áratugi, en vegna talsverðrar sóknar í hann sem ókynþroska fisks kemur hann til með að gefa minna af sér en t.d. 1961 árgangurinn, þó að sá árgangur hafi í upphafi verið minni. Sem dæmi um sóknina í 1964 árganginn má nefna, að þegar 1961 árgangurinn var 4–5 ára gamall, voru drepnar 50 millj. af honum, en af 1964 árganginum í sömu aldursflokkum voru drepnar hvorki meira né minna en 80 millj. Aðrir árgangar, sem við vitum um og koma inn í veiðina í nánustu framtíð, eru í meðallagi eða undir meðallagi. Ekki bætir það úr skák, að við Austur-Grænland hefur klak brugðizt síðan 1963, og er því engra verulegra gangna að vænta þaðan. Má því búast við, að þorskaflinn af Íslandsmiðum muni fara aftur minnkandi. Það er samdóma álit fiskifræðinga, að íslenzki þorskstofninn sé nú fullnýttur og aukin sókn muni ekki skila sér í auknum afla. Þvert á móti mun afli á sóknareiningu minnka við aukna sókn, þ.e. að minni afli kemur í hlut hvers og eins. Talið er, að minnka mætti sóknina um helming, án þess að þorskaflinn minnki að ráði. Mundi það stuðla að hagkvæmari veiðum.

Virðingarfyllst,

Sigfús Schopka,

fiskifræðingur.“

Þannig er sem sagt það svar, sem rn. hefur borizt frá Hafrannsóknastofnuninni við þessum fsp., sem hér liggja fyrir, og vænti ég, að með þessu bréfi sé fsp. fullsvarað.