16.05.1972
Sameinað þing: 71. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1304 í D-deild Alþingistíðinda. (5120)

934. mál, tilraunastöð Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins á Akureyri

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. e., Ingvar Gíslason, hefur á þskj. 703 borið fram fsp. til hæstv. landbrh. varðandi tilraunastöð Rannsóknastofnunar landbúnaðarins á Akureyri. Tilraunastöð þessi, sem nú er nefnd svo, tók við af Gróðrarstöðinni á Akureyri, sem var ein fyrsta tilraunastöð landsins fyrir jarðræktar- og skógræktartilraunir. Stofnuð var hún af Ræktunarfélagi Norðurlands rétt um aldamótin. Helzti hvatamaður að þessu var Sigurður Sigurðsson síðar búnaðarmálastjóri. Það, sem fólk á Akureyri nefnir í daglegu tali enn Gróðrarstöðina, er fyrsta hús tilraunastöðvarinnar og fallegur trjágarður þar í kring. Þetta er í senn minnisvarði um jarðræktartilraunir og trjáræktar á Norðurlandi.

Nú þrengir Akureyrarbær óðum að landi tilraunastöðvarinnar, og er hann þegar farinn að taka það til nota að einhverju leyti. Fyrir dyrum stendur að gera nýtt skipulag fyrir Akureyri, og virðist því ljóst, að ekki er til frekari setu boðið fyrir jarðræktartilraunastöð innan bæjarlandsins. Eins mun flestum finnast, að Gróðrarstöðina gömlu eigi að varðveita, og hafa ýmsir látið sér detta í hug annað hlutverk fyrir hana, sem tengt er hinni margrómuðu garðmenningu Akureyrar og hugmynd um garðyrkjuskóla á Norðurlandi. Þess vegna eru hér með á þskj. 703 lagðar fram svo hljóðandi spurningar:

1. Er fyrirhugað að flytja tilraunastöð Rannsóknastofnunar landbúnaðarins frá Akureyri?

2. Ef svo er, hefur stöðinni verið ákveðinn nýr staður og séð fyrir nægu landrými?

3. Hver eru hugsanleg framtíðarafnot af gömlu Gróðrarstöðinni á Akureyri?

Umr. frestað, og var málið ekki á dagskrá tekið framar.