20.12.1971
Sameinað þing: 27. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (523)

1. mál, fjárlög 1972

Björn Pálsson:

Herra forseti. Við höfum hér fjarskalega fá tækifæri til að ræða fjármálin, þm., fyrr en við 3. umr. 1. umr. er hagað þannig, að fjárlagafrv. er lagt fram og svo er einn maður frá hverjum flokki, sem heldur ræðu í útvarpið, og svo er því vísað til n. En ef þm. ræða eitthvað að gagni um fjármálin, þá þurfa þeir að hafa tækifæri til að ræða um þau við 1. umr. þannig, að ef þeir vilja gera ábendingar um eitthvað, þá geti fjvn. tekið það til greina við meðferð mála. Ég vona, að það verði breyting á þessu og við getum rætt um fjárlagafrv. við 1. umr. eins og önnur mál, og þá gætum við gert okkar ábendingar, ef okkur sýndist, að einhverju mætti breyta til hins betra. Ég er á engan hátt að deila á störf fjvn., því að ég efast ekki um, að fjvn. hefur unnið sin verk eftir beztu getu nú. En hitt vissum við, að við 2. umr. var erfitt að ræða um fjármálin, vegna þess að þá lá alls ekki fyrir tekjuáætlunin. Það var hægt að segja ýmislegt um þau, en ekki þannig, að það væri byggt á traustum grunni. Það hafa orðið allmiklar deilur hér milli hv. 11. landsk. þm. og fjmrh. um, hvort væntanleg breyting á skattalögunum mundi verða neikvæð fyrir skattgreiðendur eða ekki. Ég trúi sjálfum mér bezt og fór til skattanefndar Reykjavíkur, fékk hana til að reikna út með mér nokkur atriði viðvíkjandi þessu. Við tókum t.d. einhleypan mann með 500 þús. kr. tekjur á ári og reiknuðum út, hvað hann hefði haft eftir gamla kerfinu og mundi fá eftir nýja kerfinu, og við fengum, að einhleypur maður hefði átt að greiða eftir fyrra árs kerfi í heildargjöld 207 þús. 253 kr., en eftir því kerfí, sem nú er, 212 þús. eða 5 þús. kr. hærra. Þess ber þó að gæta, að við tókum ekki tillit til útsvarsfrádráttar, sem hafði orðið hjá honum á fyrra ári, og það er ákaflega erfitt þess vegna að fullyrða um samanburð, vegna þess að útsvör eru dálítið í sveiflum, því að þegar dregið er frá mikið útsvar, þá eðlilega kemur lægri skattur. Þess vegna er ómögulegt að fínna þetta út nákvæmlega nema fyrir einn og einn í hverju tilfelli. En ef það hefði t.d. lækkað hann um 25 þús. kr., þá hefði hann fengið samkv. gamla kerfinu um 30 þús. kr. lægra á fyrra ári. Aftur var þessu ekki eins farið með fjölskyldumann. Ef hann hafði 500 þús. kr. í nettótekjur þá fengum víð, að hann hefði í heildargjöld 153 þús. 995 kr. á fyrra ári en nú 135 þús. Hann lækkaði um 18 þús. kr. Þá þarf að draga frá, hvað útsvarið hefði lækkað, sem hefði verið dregið frá árið áður, og hann hefði þá undir öllum kringumstæðum komið út eins hagstætt samkv. þessu nýja kerfi eins og gamla kerfinu. Við tókum lægri tekjur og hærri tekjur, og þessi maður, sem reiknaði út fyrir mig, hafði haft 520 þús. í nettótekjur í fyrra. Hann var búinn að reikna út sín útgjöld og hann sagði, að þau yrðu svipuð, hann á 2 eða 3 börn, þannig að ég held, að þetta verði ekkert óhagstæðara fyrir flesta skattgreiðendur. Hitt virtist okkur, að þegar tekjurnar væru komnar í milljón eða hálfa aðra, þá væri það lítið eitt óhagstæðara fyrir skattgreiðandann. En aftur hagstæðara fyrir þá, þegar þeir eru með mjög lágar tekjur, þannig að ég held, að fólkið þurfi ekki að vera mjög órólegt út af þessu. Ég hef enga ástæðu til þess að vera hlutdrægur í þessu máli og er það ekki, enda getur hver og einn reiknað þetta út sjálfur. Ég held, að þetta breyti ekki miklu. Hitt get ég vel skilið, að núv. stjórnarandstaða undrist þá snilli hjá núv. stjórn að geta hækkað útgjöldin um 46% og látið gjöld og tekjur standast á, án þess að búa til neina nýja skatta, því að þeir voru að basla við að hækka um einn milljarð á ári og þóttust vel gera og þurftu alltaf að vera að búa til nýja og nýja skatta, bæði á atvinnuvegina og á þjóðina, svo að ég er ekkert hissa á, þótt þeir undrist og skilji ekki þessa snilli.

Hitt er ég ekki alveg viss um, hvort þessi breyting, sem gerð hefur verið, verði til neinna hagsbóta fyrir sveitarfélögin. Það efast ég um. Sveitarfélögin eru losuð við allmikið af gjöldum, en það er líka tekinn einn aðalgjaldstofninn frá þeim, þar sem er álagning á nettótekjur. Um þetta vil ég ekki fullyrða, en ég er í miklum vafa um, að það verði auðveldara fyrir sveitarfélögin að ná nægum tekjum framvegis. Vera má, að þetta sé af klóksskap hjá núv. stjórn, því að hún er skipuð vitrum mönnum, að þeir ætli ekki að láta þessa oddvita og bæjarstjóra hafa allt of mikið úr að spila, og kenna þeim ráðdeild, og er það vel farið.

Nú er það svo með þessa skatta, að þó að það hafi tekizt í ár að ná saman endum, þá er óvíst, hvernig þessi tekjuáætlun stenzt, ég skal ekkert fullyrða um það, það má vera, að þeir séu of bjartsýnir. En þá er það verk þeirra manna, sem fyrrv. stjórn hefur komið í þessar trúnaðarstöður. Þeir hafa þá reiknað eitthvað skakkt eða þessi tölva hefur reiknað vitlaust, sem þeir hafa uppi í háskóla. Annars legg ég ekki allt of mikið upp úr henni. Það var einu sinni, þegar var verið að telja í kosningum, þar sem ég var í kjöri, að hún spáði mér dauða, en ég lifði, og síðan hef ég aldrei haft trú á tölvu. Ég held, að það sé ekki mikið gerandi með þessar tölvur, því að það fari eftir því, hvernig þær eru mataðar, þannig að ef bjáni lætur vitleysu í þær, þá kemur út vitleysa. Ef spekingur lætur það, sem rétt er, í þær, þá kemur rétt út, en hann getur þá alveg eins reiknað þetta án tölvu. Við höfum ekki svo háar tölur hér á Íslandi, þannig að ég legg ekki allt of mikið upp úr þessum tölvum.

Satt að segja hefur mér oft fundizt vera fullmikið lagt á atvinnuvegina og jafnvel einstaklinga. Þeir hafa verið að berjast við að hækka launin sín, opinberir starfsmenn og stytta vinnutímann. Ég tel ekki eftir kaupið, en ég tel vafasamt, hvort menn eigi að ganga allt of langt í því að vilja vinna lítið. Ég talaði oft um það meðan ég var í stjórnarandstöðu, sérstaklega á fyrri árum mínum, að ég vildi halda vel á hlutunum. Ég var nú vanur því að eyða ekki of miklu, þegar ég var að alast upp og hef jafnvel haft þá reglu hingað til. Það voru þessar gömlu dyggðir að vera vinnusamur og sæmilega sparsamur, en nú eru þær útdauðar. Það væri hægt að taka undir með séra Sigurði, sem hélt fyrirlesturinn, „Farið heilar, fornu dyggðir“. Nú vilja menn helzt hafa hátt kaup og vinna lítið. Eigi er nema gott um það að segja að vissu marki, ef það gengur. En þó að þetta hafi tekizt fyrir núv. ríkisstj. að ná saman endum, þá er ekki víst, að það gangi alltaf með hliðstæðum útgjöldum, því að það getum við gert okkur ljóst, að ef ekki væri dæmalaust árferði og verðlag á sjávarafurðunum, þá væri þetta ekki möguleiki. Boginn er spenntur til hins ýtrasta, svo að ég held, að það sé full ástæða fyrir ríkisstj. að athuga það í framtíðinni, hvort ekki er hægt að halda betur á fjármálunum og eyða minnu en nú er gert. Ég skal játa það, að núv. ríkisstj. hefur enga aðstöðu til þess að endurskoða kerfið eða gera verulegar sparnaðarráðstafanir, því að það er ekki hægt nema með lagabreytingum. Þess vegna er ekki hægt að ætlast til þess af henni, að hún geti gert miklar breytingar hvað eyðslu snertir í þetta sinn. Hitt skulum við líka gera okkur ljóst, að nær þriðjungur af öllum útgjöldum ríkisins nú er til tryggingamála. Það er búið að stórhækka þann lið. Svo er búið að taka verulegar fjárhæðir, á annan milljarð af sveitarfélögunum, hvort tveggja þetta á drjúgan þátt í að hækka útgjöldin. Auk þess var búið að semja um launahækkanir opinberra starfsmanna, áður en núv. stjórn tók við, þannig að við megum nú ekki eigna henni meiri heiður af þessum hækkunum heldur en hún á skilið. En tryggingagjöldin hafa hækkað verulega hjá henni og ég greiddi atkv. með þeim. Var búinn að lýsa yfir, að ég mundi gera það. Ég gerði það með allgóðu geði. Mín skoðun á þessu er sú, að við eigum að hafa sameiginlegan lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn og láta eitt ganga yfir alla. Það má deila um, hvort þau eigi að vera mishá, en við eigum að hafa eitt kerfi. Og þetta lífeyrissjóðskerfi, sem nú er, er fyrir neðan allar hellur. Sumir hafa þreföld eftirlaun. Að verja núna til tryggingamála 5.5 milljörðum og taka svo beint og óbeint af fólkinu og atvinnuvegunum um 3 milljarða í viðbót, það er ofrausn. Og það er engin þjóð í heiminum, sem gerir svona vitleysu. Þess vegna þarf að taka allt þetta kerfi til endurskoðunar. Nú er dollarinn fallinn um líklega 8%. Ég get ekkert sagt um, hvað ríkisstj. ætlar að gera, hvort hún ætlar að láta krónuna fylgja dollaranum, en myndarlega væri það nú gert af henni í ofanálag á þessa snilli í fjármálunum að geta aukið útgjöldin um 46%, án þess að finna upp á neinum nýjum sköttum, ef hún gæti látið krónuna halda gildi sínu, þó að dollarinn dalaði. Við stæðum okkur þá betur en Bandaríkjamenn og ólíkt væri það eða hjá fyrri stjórn. Það mátti aldrei heyrast nefnd gengislækkun úti í löndum, þá hljóp hún til og lækkaði meira heldur en lækkað var þar. En ef ríkisstj. væri nú svo vitur að afnema þessa lífeyrissjóðsvitleysu alla, þá gæti hún á þann hátt sparað útveginum 10% eða sem því svarar, sem dollarinn lækkar, þannig að þá þyrfti hún ekki að elta dollarann. Ég er ekki að leggja ríkisstj. ráð, en ég segi, að mér hefði dottið þetta í hug, ef ég væri ráðh., að koma með þessa till. í ríkisstj., en ég leyfi mér ekki að vera að ráðleggja henni. Ég dáist of mikið að henni fyrir lausn hennar á þessum fjármálum.

Þá er það, hvort eitthvað er hægt að spara. Við höfum verið allrausnarlegir við sjálfa okkur að skammta okkur gott kaup og auk þess ákvað fyrrv. ríkisstj., — það var ákaflega góð stjórn og mild í okkar garð, vildi fara vel með okkur, bæði hækka laun okkar og láta okkur helzt ekki hafa of mikið að gera, — þá var það ákveðið í fyrra, að hver flokkur fengi aðstoðarmann, þannig að það eru fimm aðstoðarmenn til að hjálpa þessum vellaunuðu þm. Þetta eru allt ágætir menn, vel menntaðir og greindir, prýðilegir menn á allan hátt. En satt að segja, þá held ég, að við ættum ekkert að basla við að vera á þingi, ef við þurfum alltaf að fá lánsvit til að semja einhverja smátillögu og þar að auki er lítið gert með þessar till. Yfirleitt vöndumst við því nú í stjórnarandstöðunni, að allt væri drepið, sem við komum með, og þegar maður er kominn í stjórnaraðstöðu, þá má helzt ekki koma með neitt nema með leyfi ríkisstj., svo að ég satt að segja held, að þessir aðstoðarmenn hljóti að hafa heldur létt eða þá við erum með fádæmum miklir skussar. Ég hef aldrei óskað eftir aðstoðarmanni.

Hitt er svo annað mál, að í fjármálakerfinu er ýmislegt að gera, ef einhverja ráðdeild á að nota. Nú ætlar ríkisstj. að bæta á sig allmiklum störfum. Þar á meðal er hún búin að taka helming af sjúkrasamlagsgjöldunum og lögregluþjónustuna út um landsbyggðina. Það er orðið fullt af lögregluþjónum. Þetta er allmikil atvinnubót út um sveitirnar. Ég held, að það séu 10–11 í sumum héruðunum, sem mæta, þegar böll eru, og eru þá að taka í lurginn á mönnum, ef þeir haga sér eitthvað illa, og það er ekkert um það að segja. Ég held, að þeir séu bara óþarflega margir, og ég held, að það mætti spara töluvert á þessum lið, ef ráðdeild væri notuð. Svo eru þeir að taka að sér sjúkrasamlögin meira og minna. Það hefur verið þannig, að ef ríkið tekur eitthvað að sér, þá hefur það oftast nær orðið heldur dýrara. Það urðu breytingar á þessum sjúkrasamlagslögum fyrir skömmu. Einingarnar voru gerðar stærri. Út af fyrir sig er ekki nema gott um það að segja að vissu marki, en það brá hara svo við, að þá flugu sjúkrasamlagsgjöldin upp, a.m.k. í minni sveit. Vera má, að fleira hafi komið til heldur en ill stjórn. En þegar þetta var komið í eitt kerfi, hvert hérað, þá voru það læknirinn og sýslumaðurinn, sem höfðu með þetta allt að gera. Bændurnir voru settir út í horn í þeim málum og gjöldin flugu upp, og eru orðin veruleg byrði á héruðunum. Það er ekkert nema gott um það að segja, að ríkisstj. vill létta þessum byrðum af okkur. Við skiljum ekki fullkomlega, hvað mikill munur er á kostnaðinum hjá okkur í sjúkrahúsum úti á landi og hér í höfuðborginni. Það var eitthvað hátt á 3. þúsund, kostnaðurinn við mann á dag á Landsspítalanum, en hjá okkur norður á Blönduósi eitthvað 1 100–1 200.

Ég hygg, að það væri ærið starf svona í 1–2 mánuði og væri ekki vitlaust að taka einhvern af þessum aðstoðarmönnum, sem eru að hjálpa okkur hér í þingflokkunum, til að athuga það, hvort ekki væri hægt að reka þetta af meiri hagkvæmni. Einn maður var úr mínu héraði á spítala hér s.l. ár, og það kostaði milljón að borga með honum. (Gripið fram í.) Já, hann er víst lifandi enn. Ég held því, ef ríkisstj. ætlar að fara að sjá um þessa hluti, að henni veitti ekkert af að fá einhverja aðstoðarmenn til þess að líta eftir þessu öllu saman, og er ég ekki að gera neitt lítið úr henni, en fjmrh. getur ekki snúizt í öllu og félmrh. hefur mikið að gera líka.

Þá er nú blessað skólakerfið, sem er orðið alldýrt. Háskólinn stækkaði óðfluga hjá fyrrv. menntmrh., sem eðlilegt er, því að það er hámenntaður maður og fjölgáfaður og vill gera okkur Íslendinga sem allra vitrasta. Mér er sagt, að lektorar og prófessorar, það eru alls konar vegtyllur, sem þeir hafa þarna, séu orðnir eitthvað 250—260 og kenni einn tíma á dag eða eitthvað 4-5 tíma í viku. Eðlilegt að erfiðismennirnir vilji stytta vinnutímann. Enda er það nú svo, að það var aðalástæðan fyrir vinnustyttingunni, að þessir menntamenn, þessir með hvíta flibbann, ynnu ekki lengur og þá vildu hinir, sem voru með skóflu og gaffal í hendinni, eðlilega ekki vinna lengur heldur. Hitt er mín reynsla, að það líffæri, sem fyrst þreytist, sé heilinn, þannig að ég vil heldur vinna 10 tíma með höndunum heldur en 8 tíma með heilanum. Þetta er ákaflega fíngert líffæri sem er vandfarið með, þessi heili.

Vera má, að mér hafi orðið yfirsjón á að vera einn á móti þessum viturlegu lögum um, að menn ættu ekki að vinna nema 37 tíma og 5 mínútur á viku, en ég hitti einn mann, ég hitti marga, ég borða á veitingastöðum og er ræðinn og mannblendinn og ræði oft við vinnuveitendur, ef ég hitti þá og verkamenn líka. Ég var nú að tala við einn, sem hefur málningarverksmiðju hér. Hann flytur málningu til Rússlands eða hans verksmiðja. Hann sagði mér, að nú ætlaði fólkið hjá sér að fara að vinna 4 daga í viku, og konurnar væru farnar að kvíða því að hafa mennina heima 3 daga vikunnar, enda sér það hver heilvita maður, að hjónaböndin fara út um þúfur með slíku, því að hjón, sem ekkert hafa að gera í 3 daga vikunnar, vitanlega fara að jagast og svo fer maðurinn út og drekkur sig fullan og þar fer fjögurra daga kaupið, svo að ég get nú vel trúað því, að núv. ríkisstj. hafi allmarga hjónaskilnaði á samvizkunni eftir tvö ár.

Ég hitti vin minn norðan af Skagaströnd, við borðuðum saman. Hann var lítið hrifinn af þessari vinnustyttingu og sagði, að fólk fyrir norðan væri engan veginn þakklátt fyrir þetta. Það hefði heldur viljað 10% hærra kaup, svo að það getur nú kannske farið eins og oft áður, að ég hafi rétt fyrir mér, en þið hafið sofið á verðinum.

Hvað sem þessu líður, þá er ákaflega æskilegt að geta sparað eitthvað. Það eru tvenn útgjöld, sem mér líkar sérlega illa á núv. fjárlögum. Það er í fyrsta lagi launaskatturinn, og ef atvinnurekendur slyppu við hann, þá væru þeir hólpnir, þó að krónan væri ekki lækkuð í samræmi við dollarann. Hann er nú orðinn 21/2%. Fyrrv. ríkisstj. á heiður af því að hafa komið honum á. Hann var hækkaður um 11/2% í fyrra og ekkert lækkaður nú. Þar eru teknar af atvinnuvegunum 700–800 millj. Það væri gott hæði fyrir launþega og atvinnurekendur, ef hægt væri að losa þá við þetta. Ég álít enn fremur, að óhagkvæmt sé fyrir launþega að fá ekki að draga frá útsvar og skatta frá fyrra ári. Þeir þurfa að borga þessa skatta og maður með meðallaun, við skulum segja 500 þús., þarf að taka þetta af tekjum sínum. Þetta gerir manni ekkert til. sem hefur 1 000–1 500 þús. kr. í nettótekjur, en það gerir manni til, sem kemst rétt af. Satt að segja veit ég ekki, hvernig maður með stóra fjölskyldu kemst af með 350 þús. kr., þó að hann sé búinn að borga útgjöldin þar fyrir utan. Ef hægt væri að gera þessar umbætur á skattalögunum, þá álít ég, að launþegar mættu vel við skattana una. En þetta verður ekki gert nema með því að draga eitthvað úr útgjöldunum. Ég hafði hér framsögu með þessa báta, og þær eru eigi stór liður af útgjöldunum, en ég var að finna að því, að ég taldi, að hægt væri að reka tvo þeirra á annan og hagkvæmari hátt heldur en gert var. Ég varð fyrir aðfinnslum, að ég hefði verið að mæla á móti mínum eigin tillögum. Þetta var ég engan veginn að gera. Ég álít t.d., að það hefði verið æskilegt, að núv. formaður fjvn., hefði tekið fjárlögin í gegn og bent á allt, sem betur hefði mátt fara, ekki í þeim tilgangi, að það væri hægt að breyta því nú, heldur í framtíðinni. Við vitum, að það er ekki hægt að breyta þessu á svipstundu, það þarf að breyta lögum og undirbúa málið. Það hefði verið æskilegt, að hann hefði haldið ræðu yfir okkur í hálfan eða heilan dag um það, hverju hægt væri að breyta og við mundum hlusta á það með athygli, þannig að ég álít, að ég hafi verið þarna á réttri leið að benda á það, sem ég og aðrir í n. álitum, að hægt væri að breyta til bóta. Ég veit, að það eru margir liðir, sem má koma fyrir á annan og hagkvæmari hátt en gert er. Það hefur verið hamazt við t.d. að byggja heimavistarskóla fyrir börn í ýmsum héruðum. En það getið þið séð, ef þið viljið reikna vexti af upphæðinni, sem lögð er í þessa heimavistarskóla, að þetta er mun dýrara heldur en farskólarnir. Vextir af 40 millj. kr. heimavistarskóla eru 3–4 millj. og þar að auki er sízt betri kennsla í þessum heimavistarskólum heldur en var í gömlu farskólunum, þannig að það er ýmislegt, sem við höfum gert í þessum menntamálum okkar, sem við græðum ekki peninga á. Svo er Háskólinn. Ég er ekki viss um, að það sé svo hagnýtt allt, sem kennt er þar. Hins vegar erum við í vandræðum úti á landsbyggðinni að fá hæfa menn til að stjórna okkar atvinnumálum. Það væri ákaflega gott og væri mikið stórvirki í viðbót við öll önnur stórvirki, sem okkar ágæta ríkisstj. hefur unnið, að hún sendi svona 60–70 af þessum herrum þarna í Háskólanum út á landsbyggðina til þess að manna okkur og kenna okkur, hvernig við ættum að reka okkar atvinnuvegi, t.d. ef við fengjum fáeina hagfræðinga og viðskiptafræðinga til að gera út fyrir okkur bátana og stjórna sveitarfélögunum og þeir gætu kannske eitthvað leiðbeint okkur hændum við heyskapinn. Þetta væri ekki lítil menning fyrir okkur úti á landsbyggðinni. En hins vegar mundi það létta á útgjöldum ríkissjóðs, ef breyting yrði á þessu. En ég er ekki í vafa um það, að það mætti fjölmargt spara þjóðinni að skaðlausu í útgjöldum ríkissjóðsins. T.d. voru tveir af okkar ágætustu mönnum að deila um þessa heiðursrithöfunda eða hvers konar menn voru þetta þarna á skjalinu. Það eru einhverjir ritsnillingar, sem eiga að fá heiðursverðlaun. Satt að segja held ég, að það vaxi nú enginn af því, þó það sé verið að gefa honum 100–200 þús. kr. Ég ætla að greiða atkv. á móti þessari till. Sumt af þessu eru stórríkir menn og ég held, að þeir séu nógu frægir og verði lítið frægari, þó að við látum hvern þeirra fá 175 þús. Hvað ætli Kiljan verði frægari fyrir það, heimsfrægur maður, og á vafalaust margar millj. í góðri mynt úti í löndum? Og svo eru þessir fátæklingar hér, sem hafa rétt að éta, að reyta úr sinni pyngju í hans sjóð. Ég sé ekki, að það sé nokkur ástæða til þess. Það mætti skera margt niður og margt mætti betur fara. En það yrði of langt mál að fara út í það nú. Við gætum fyrst og fremst sparað þessa aðstoðarmenn okkar, þessir þingflokkar. Svo gætum við sparað þessi blessuð heiðurslaun. Við erum að ausa tugum milljóna í skógrækt, þó að það sé vitað mál, að það muni aldrei þrífast skógur á Íslandi. Það er allt í lagi, að menn dundi við að rækta garðholu í kringum bæinn sinn og héruðin geta haft gaman af þessu og það getur verið mannrækt svolítil í þessu, ef þetta yrði héraðsmál. En alveg er ástæðulaust fyrir ríkið að vera að basla við að ausa tugum milljóna í þetta. Kaupa jarðir og leggja þær í eyði og þykjast ætla að rækta skóg, sem aldrei verður neinn skógur.

Klak fór ríkið að reka hér uppi í Kollafirði og ég veit ekki, hvað það er búið að kosta marga tugi millj. Það hefði áreiðanlega verið hægt að gera þetta ódýrara, ef einstaklingur hefði verið styrktur til þess. Svo hefur verið ausið í ýmislegt beint og óbeint frá ríkinu, sem er ekki nógu góð stjórn á. Svona má fjölmargt telja. Ég ætla ekki að vera að fara út í það nú, en ég held, að það væri miklu meiri þörf fyrir það, að fjmrh. fengi einn snjallan aðstoðarmann til þess að líta eftir fyrirtækjum og öðrum rekstri, hvort það gæti ekki verið gert á eitthvað hagkvæmari hátt en gert er, heldur en hafa 5 aðstoðarmenn hjá okkur, 7 menn í stjórn Framkvæmdastofnunar til þess að útdeila 150 millj. á ári eða 200 í mesta lagi, og svo 3 menn til að undirbúa, hvernig þeir eigi að úthluta því í þeirri stofnun, alls 10 fyrir utan allt þetta blessað starfslið og sjálfsagt tölvu líka, sem þeir eiga að láta reikna út. (Gripið fram í.) Já, já, ég tel það meira jákvætt en neikvætt, en ég tel, að þessu hefði einnig mátt haga á annan veg, — þannig að ég vona, að þegar við komum saman á næsta þingi, fáum við fyrst að ræða frv. við 1. umr. og að öðru leyti verði það vel rannsakað, hverju hægt væri að koma fyrir á hagkvæmari hátt. Hins vegar er ég búinn að lýsa því yfir í mínum flokki, en ég er nú að halda þessa ræðu, af því að ég næ ekki til nema míns flokks inni í flokksherberginu, en við erum þrír, flokkarnir, sem styðjum þessa ágætu stjórn, og þess vegna fór ég að halda þessa ræðu m.a. hérna. En ég var búinn að lýsa því yfir inni í flokksherberginu, að í þetta sinn mundi ég greiða atkv. með fjárlögunum hvað vitlaus sem þau væru og ég stend við það.