20.12.1971
Sameinað þing: 27. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 728 í B-deild Alþingistíðinda. (526)

1. mál, fjárlög 1972

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að mæla fyrir tveim litlum brtt., sem ég flyt á þskj. 245 og þskj. 275. Á þskj. 245 er till. um heimild til að verja allt að 15 millj. kr. til byrjunarframkvæmda við byggingu skólaíþróttahúss við Hamrahlíð í Reykjavík. Það, sem fyrir mér vakir með þessum tillöguflutningi, er í stuttu máli betri nýting á almannafé um leið og bætt er úr brýnni þörf tveggja skóla fyrir íþróttahúsnæði.

Það má segja, að mér renni blóðið til skyldunnar, er ég flyt þessa till., þar sem ég hef um skeið samtímis átt sæti í stjórn Foreldrafélags Hliðaskóla og foreldraráði Hamrahlíðarskóla. Þess vegna er það e.t.v., sem mér hefur komið í hug, að leysa mætti mál beggja þessara skóla samtímis og þess konar lausn gæti e.t.v. orðið til þess að flýta fyrir því, að báðir skólarnir fengju einhverja úrlausn sinna mála að þessu leyti. Hlíðaskóli, sem er barna- og gagnfræðaskóli við Hamrahlíð, hefur verið starfræktur í Reykjavík um margra ára bil, og allan þann tíma hafa nemendur hans sótt íþróttir, leikfimikennslu, í íþróttahús Vals, sem er sunnan við Reykjanesbraut, hættulega umferðargötu. Þarf ekki að orðlengja það, að ekki er fýsilegt að senda lítil börn til leikfimikennslu við þessar aðstæður oft í illviðri og myrkri yfir mikla umferðaræð. Í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar — í frv. til fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar er nú lagt til, að 10 millj. kr. verði varið til byggingar íþróttahúss Hlíðaskóla. Í Menntaskólanum við Hamrahlíð voru nemendur síðasta ár um 700 talsins. Í þeim skóla hefur leikfimi ekki verið á stundaskrá nemenda frá því, er hann tók til starfa, vegna þess að húsnæði skorti til þess. Í næsta áfanga Hamrahliðarskóla átti að reisa íþróttahús. Till. um 41 millj. kr. fjárveitingu til þess áfanga var fram borin af hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasyni við 2. umr. fjárlaga og felld. Nú langar mig til að gera ýtrustu tilraun til að þoka þessum aðkallandi málum áleiðis með sem skjótustum hætti. Ég hef í hyggju að flytja þáltill. ásamt fleiri hv. þm. um sameiginlegt íþróttahús fyrir Hliðaskóla og Hamrahlíðarskóla. Um er að ræða tvo skóla hlið við hlið. Báðir hafa aðkallandi þörf fyrir íþróttahús, en annar er rekinn af ríki og hinn af borg. Báðir eiga rétt á íþróttahúsi, en frá sjónarmiði hins almenna skattborgara virðist það vera einkennileg niðurstaða að byggja tvö íþróttahús hlið við hlið, aðeins vegna þess að annar skólinn sé rekinn af ríki, en hinn af borg.

Í þessu tilviki hagar svo til, að þarna er kjörið tækifæri til samstarfs ríkis og borgar um hagkvæma lausn aðkallandi máls fyrir báða aðila. Sýnist sú stærð íþróttahúss, sem fullnægði þörf beggja skólanna, einnig hafa þann kost að nýta mætti húsíð til kappleikjahalds utan skólatíma. Ætti að vera unnt að hafa í slíku húsi tvo samliggjandi sali með lausu, færanlegu skilrúmi, þannig að auðvelt væri að breyta leikfimisölum beggja skóla í einn sal. Vitanlega mundi svo Reykjavíkurborg taka að sínu leyti og lögum samkv. þátt í kostnaði í þeim hluta hússins, sem yrði hennar eign í þessari stofnun. Ég hef rætt mál þetta við skólastjóra beggja þessara skóla, sem vonast til þess, að till. geti orðið til þess að þoka málum þessum til raunhæfrar lausnar sem fyrst.

Ég veit það, að ég þarf ekki að færa rök fyrir því hér í þingsölum, að enn er í fullu gildi hið forna spakmæli „heilbrigð sál í hraustum líkama“, og ég vonast til þess, að með samþykkt þessarar till. geti hv. þm. stuðlað að því, að nemendur Menntaskólans við Hamrahlíð verði hressari og hraustari og djarfari til átaka við verkefni komandi ára. Með því að samþykkja þessa till. verður fyrr hægt að hefjast handa, ef fróðustu aðilar telja það hagkvæmt, að þessir tveir aðilar, ríki og borg, hafi samstarf um að leysa þetta mál. Ég legg áherslu á, að þessi till. er sparnaðartillaga í þessum fjárlögum, sem hér eru um rædd, og vonast til, að hæstv. fjmrh. hafi það í huga, þegar til atkvgr. kemur á morgun.

Ég hef leyft mér að flytja aðra brtt. á þskj. 275. Hún er við 20. lið á þskj. 243, fyrir 1 500 komi 1 800 þús. Það er um styrk til Sumargjafar. Till. mín er um það, að við liðinn bætist einnig, að 1 500 þús. verði varið til Fóstruskóla Sumargjafar og 300 þús. verði rekstrarstyrkur til Sumargjafar. Þegar þessar brtt. frá fjvn. komu inn í þingsali nú fyrir nokkrum dögum með þeirri till., að kr. 1 500 þús. verði veitt til Sumargjafar, var mér tjáð, að þá mundi hafa verið sinnt að fullu erindi félagsins varðandi Fóstruskólann. Það er hins vegar á misskilningi byggt eða máske, að ég hafi misskilið þær upplýsingar. Hvort heldur er, þá er það einsýnt, að nauðsynlegt er fyrir Fóstruskóla Sumargjafar að fá þá lágmarksfjárhæð, sem hann telur eðlilega til rekstrar skólans á næsta ári. Og ekki þarf að orðlengja, að það er tómt mál að tala um fjölgun dagvistarplássa, byggingu fleiri dagheimila, bæði í Reykjavík og úti um allt land, ef við höfum ekki á að skipa nægilega mörgum menntuðum starfskröftum til að annast þetta starf, sem við ætlum, að fram fari í þeim stofnunum.

Ég tek fram, að Reykjavikurborg leggur helming á móti framlagi ríkisins í þessu skyni, og þó eru í Fóstruskóla Sumargjafar menntaðar fóstrur fyrir allt landið. Og vitanlega þarf heldur ekki að taka fram, hvílíkan skerf Reykvíkingar leggja til í framlagi ríkisins, sem veitt er til þessa máls eins og annarra á fjárlögum. 300 þús., sem við upphæðina í till. bætast, eru svo hinn fasti rekstrarstyrkur til Barnavinafélagsins Sumargjafar, en ef hann gengur inn í upphæðina, sem fjvn. lagði til, þá verður framlagið til Fóstruskólans lægra heldur en sú lágmarksfjárhæð, sem stjórn Sumargjafar telur nauðsynlega til rekstrar Fóstruskólans. Þar við bætist, að í erindi menntmrn. til fjvn. var fram á það farið, að tekið væri tillit til rekstrarhalla, sem hefur verið allmikill á undanförnum árum og fer vaxandi, en með þessari fjárveitingu ætti nauðsynlegri fjárþörf Fóstruskólans að vera fullnægt í bili.