20.12.1971
Sameinað þing: 27. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 732 í B-deild Alþingistíðinda. (529)

1. mál, fjárlög 1972

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það eru nú aðeins örfá orð vegna ummæla, sem féllu hjá hæstv. menntmrh. hér í kvöld. Út af fyrir sig var það mikils virði, að hann kom hér upp í pontuna og gaf yfirlýsingu um það, hvaða skilning bæri að leggja í þessa till., sem hann hér hefur flutt, vegna þess að till. er það óljós, eins og hún er, að það er ekki hægt að átta sig vel á því, hvað átt er við. En hæstv. ráðh. hefur sagt, að það væri alls ekki meiningin, að menntmn. gerðu till. til hans, til menntmrh., heldur til Alþ. Hæstv. ráðh. sagði, að það væri venjan, að nefndir gerðu till. til Alþ., en ekki til ráðh. Það er algengt, að nefndir Alþ. geri till. til ráðh. Um það þurfum við ekki að þræta. Og þess vegna er það, að eins og þessari till. er varið, þá var eðlilegt að skilja hana þannig, að menntmn. ættu að gera till. til ráðh. Ef þessi till. verður samþ., er ákveðið, hversu margir skulu vera í heiðurslaunaflokknum. Það hefur einnig verið ákveðið, hversu miklu fjármagni skuli verja í þessu skyni. Það, sem eftir stendur, er það, að menntmn. eiga að gera till. um nýjan mann í þennan flokk, ef einhver fellur út. Það er algengt, að Alþ. samþykkir fjárveitingu í einu lagi, sem á að skipta á milli nokkurra aðila. Það, sem menntmn. ættu að gera samkv. þessari till., ef hún verður samþ., er það að gera till. um, hvaða menn skuli fara í heiðurslaunaflokkinn. Þegar Alþ. hefur gengið frá fjárveitingunni og gengið frá, hversu margir eiga að vera í flokknum, þá er eðlilegt samkv. till., eins og hún nú er orðuð, að menntmn. sendu till. sínar til menntmrh. og hann úrskurði svo, hvaða maður skuli vera tekinn helzt af þeim, sem till. eru gerðar um, en samkv. orðanna hljóðan væri ráðh. ekki bundinn við það. Þetta ætla ég, að þm. sé alveg ljóst, eins og till. er orðuð, ef enginn skýring hefur komið.

Nú hefur hæstv. ráðh. gefið skýringu á því, hvernig beri að skilja þetta, og þau orð verða skráð í þingtíðindum. Af því leiðir, að ég tel alveg ótvírætt, að það liggi nú ljóst fyrir, hvernig beri að skilja þetta, og tel ég þá, að till. sé miklu skárri heldur en ef hún hefði átt að skiljast á annan veg. Eigi að síður tel ég till. mjög gallaða og miklu lakari heldur en að hafa það fyrirkomulag, sem gilt hefur alla tíð, að Alþ. ákveði beinlínis með atkvgr., án þess að till. komi fyrst frá menntmn., hvaða menn skuli teknir þarna inn.

Ég skal viðurkenna það, að það væri eðlilegt, að þessar brtt. væru fyrr á ferðinni, og samkv. þingsköpum væri ekki óeðlilegt, að þeim till., sem einstakir þm. flytja um listamenn, sem óskað er, að verði teknir inn, það væri ekkert óeðlilegt, að þeim till. væri vísað til menntmn. til athugunar, en því er nú ekki að heilsa. Það hefur alltaf verið þannig við fjárlagaafgreiðslu, að slíkar brtt. hafa komið á síðustu stundu. Og við erum nú komnir fram á þennan dag, án þess að illa hafi farið, og ég held, að við hefðum getað haldið alveg áfram á sömu braut, án þess að stofna fjármunum í hættu eða sæmd okkar í hættu. En eins og ég sagði áðan, þá er vitanlega engin ástæða til þess að vera að væna núv. hæstv. menntmrh. um slæmar hvatir í þessu. Mér virðist hann vera hinn prúðasti maður, og ég efast ekkert um, að hann hefur haft þann skilning, þegar hann skrifaði till., sem hann lýsti hér áðan, að mín orð hafi ekki breytt neinu þar um. En ég tel, að mín aths. hafi verið alveg nauðsynleg til þess að fá ótvíræða yfirlýsingu um þetta, ef svo illa skyldi fara, að þessi till. hæstv. ráðh. yrði samþ.