16.12.1971
Neðri deild: 27. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í B-deild Alþingistíðinda. (558)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir til umr. um breytingu á skattalögunum, gera örlitla grein fyrir þeim vinnubrögðum, sem áður voru viðhöfð, og bera þan saman við þau vinnubrögð, sem nú eru viðhöfð af hæstv. ríkisstj.

Það eru um 21/2 ár liðin, síðan þáv. hæstv. fjmrh., Magnús Jónsson, skipaði nefnd embættismanna til þess að endurskoða skattalögin. Í þessari nefnd voru hinir færustu embættismenn, sem störfuðu á vegum hins opinbera, og þeir unnu að breytingu á skattalögunum og lögðu till. sínar fyrir þáv. ríkisstj. Þáv. hæstv. ríkisstj. flutti frv. hér á Alþ. vorið 1970, sem þá var ekki útrætt, en aðeins lögfest bráðabirgðaákvæði í sambandi við álagningu skatta og útsvars fyrir árið 1969.

Við þær umr., sem hér fóru fram á hinu háa Alþ., kom fram ósk um það frá þáv. hv. stjórnarandstöðu, núv. stjórnarflokkum, að ekki væri óeðlilegt við athugun og endurskoðun á svo viðamiklu máli sem endurskoðunin á tekju- og eignarskattslögunum væri, að fjmrh. skipaði nefnd þingmanna til þess að gefa þeim tækifæri til að fylgjast með gangi þessara mála, koma fram sínum aths., fá skýringar og skýrslur, þannig að þegar málið lægi fyrir Alþ., væru þessir þm. mun kunnugri málinu en ella. Þáv. hæstv. fjmrh. varð við þessari beiðni og skipaði nefndina vorið 1970. Það voru fulltrúar þingflokkanna, sem sæti áttu í fjhn. beggja d., og starfaði þessi nefnd ásamt með embættismannanefndinni að áframhaldandi endurskoðun skattalaganna frá vorinu 1970 og fram til vorsins 1971, að samþ. var hér á Alþ. frv. að lögum um breytingu á skattalögunum.

Ég hefði haldið, að núv. hæstv. fjmrh. mundi hafa sama hátt á, einmitt til þess að þm. og fulltrúum þingflokkanna væri betur kunnugt efni frv. þess, sem hér liggur nú fyrir, en raun ber vitni, því að í þeim önnum, sem ævinlega eru á Alþ. rétt fyrir jólaleyfi, og þær virðast ekki ætla að verða minni nú en áður, þó að það hafi oft verið gagnrýnt af núv. stjórnarflokkum, þá hefðu menn með því móti haft mun betri aðstöðu til þess að fjalla um þessi mál heldur en að hafa í höndum frv. um svo flókið mál sem endurskoðun skattalaga ævinlega er aðeins í 2–3 daga. Ég held, að ég hafi jafnvel orðið var við það í ræðu hæstv. fjmrh. hér áðan, að sumir þættir frv. voru honum ekki fullkomlega ljósir. Það er líka ofur skiljanlegt, þegar nefnd manna situr og vinnur að slíkum frv., sem koma svo seint fram, að ráðh., sem mikið hafa að gera, og þá ekki sízt fjmrh., þegar verið er að afgreiða fjárlög, hafa ekki tækifæri til þess að setja sig inn í þessi mál eins og þyrfti.

Fjárlagafrv. það, sem hér liggur fyrir, er lagt fyrir alþm. einfaldlega vegna þeirrar neyðar, sem hér hefur verið hent á áður, en afgreiðsla fjárlaga mun nú fara fram með alveg sérstökum hætti, eins og hér hefur verið hent á. Ég mun ekki fara lengra út í þá sálma, heldur aðeins undirstrika, hversu óvenjulegt það er, að fjárlagafrv. skuli byggt á frv. um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem gert er ráð fyrir, að tekjur ríkissjóðs tvöfaldist, ef ekki þrefaldist. Ég mun þó freista þess að gera aths. við það frv., sem hér er fram komið. Ég geri ráð fyrir því, að það fáist betri tækifæri í fjhn. þessarar hv. d. til að skoða frv. og koma þar fram með þær breytingar, sem talið yrði rétt og æskilegt að ná fram, en vil samt sem áður við þessa umr. vekja athygli á nokkrum atriðum, sem mér finnst með þeim hætti, að athygli skuli á þeim vakin nú þegar.

Ráðh. gerði grein fyrir því í ræðu sinni, að hér væri um að ræða stefnubreytingu frá því, sem verið hefur. Það er að vissu leyti rétt í sambandi við afnám persónuskatta. Sú nefnd embættismanna, sem hafði unnið á vegum fyrrv. hæstv. fjmrh., hafði m.a. í aths. sínum til ríkisstj. bent á ýmsar leiðir til breytinga á skattakerfinu og m.a. bent á þá leið, sem hér hefur verið tekin upp að einhverju leyti, þ.e. afnám persónuskatta. Hér er því byggt á vinnu og athugunum, sem þessir ágætu embættismenn höfðu gert, en hæstv. núv. ríkisstj. sá ekki ástæðu til þess að leita ráða þeirra áfram að undanskildum ráðuneytisstjóranum í fjmrn., sem mun hafa setið í þeirri nefnd, sem undirbúið hefur þetta frv.

Þá er rétt að vekja athygli á því í þessu sambandi, að hæstv. fyrrv. fjmrh. hafði tilnefnt í þá nefnd, sem starfaði á hans vegum, fulltrúa atvinnurekenda og sveitarfélaga, en hæstv. núv. ríkisstj. sá ekki heldur ástæðu til þess að leita til þessara aðila og njóta þeirrar þekkingar, sem þeir höfðu yfir að ráða, við undirbúning þessara frv.

Ég vil þá fyrst víkja að skattlagningu félaga og þeim breytingum, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, að þar verði á, en hæstv. fjmrh. benti hér á ýmis atriði með aths., sem ég vil gera að umræðuefni.

Hann benti m.a. á það, að upp væri tekin aftur samkv. þessu frv. skattlagning á sameignarfélögum. En hann gleymdi að geta þess, að með þeirri breytingu, sem gerð er á skattlagningu félaga, verður sameignarfélagsformið ekki með þeim hætti, sem það var áður. Áður fyrr giltu þær reglur um skattlagningu sameignarfélaga, að þau höfðu varasjóðsfrádrátt og sömu skattlagningu og hlutafélög, en eigendur þeirra gátu síðan tekið höfuðstól félaganna út án nokkurrar skattlagningar hjá þeim sjálfum. Þessu er breytt nú, þó að í veðri sé látið vaka, að horfið sé til þess, sem áður var, því að samkv. frv. verða sameignarfélög skattlögð eins og hlutafélög með 53% skatti, og er þá komið mjög nærri því marki, sem einstaklingar greiða til hins opinbera samanlagt í útsvar og skatta, en þeir aðilar, sem reka sameignarfélög, hafa ekki heimild nú, eins og var áður, ef þeir greiða í varasjóð í félögum sínum, til þess að taka höfuðstólinn út. Geri þeir það, þurfa þeir að greiða til viðbótar 20%. Hér er geysimikill munur á því, sem var, og því, sem lagt er til í þessu frv.

Þá er lagt til í frv., að hin svo kölluðu A-hlutafélög samkv. núgildandi skattalögum verði lögð niður. Og því fylgir að sjálfsögðu, að heimild til þess að leggja fé í arðjöfnunarsjóð fellur niður um leið, og þá er einnig lagt til, að arður af hlutafé verði ekki lengur skattfrjáls hjá viðtakanda, eins og gert var ráð fyrir í þeim lögum, sem samþ. voru í vor.

Hæstv. ráðh. bar saman t.d. þá aðila, sem legðu fjármagn sitt til landbúnaðar, og þá aðila, sem legðu fjármagn sitt til kaupa á hlutabréfum, og taldi, að ekki væri ástæða til þess, að þessum mönnum væri mismunað. Þær hugmyndir, sem lögfestar voru í vor í sambandi við skattfrjálsan arð af hlutafé, voru fyrst og fremst gerðar vegna þeirrar ábendingar fjölmargra manna, sem við atvinnulífið starfa og fjármálalíf þjóðarinnar, að það yrði mjög til að auka eigið fé hlutafélaga að snúa þessu við í vissum tilfellum, þannig að hluthafarnir fengju arðinn skattfrjálsan, í stað þess að hann yrði undanþeginn skatti hjá félögunum sjálfum, eins og gert er ráð fyrir að haldist í þessu frv.

Þetta var mikill þyrnir í augum núv. stjórnarflokka, og ég held, að þar sé um mikinn misskilning að ræða. A.m.k. er ekki lagt til, að öll sú gr., sem samþ. var í vor, verði felld niður, og arður af því fé, sem einstaklingar eiga og þá var lagt til, að skattfrjáls yrði, yrði nú skattskyldur, því að í frv. er gert áfram ráð fyrir því, að vextir af stofnfjársjóðsinnistæðum hjá einstaklingum í samvinnufélögum verði skattfrjálsir. Þar til í vor, sem leið, voru þessir vextir skattskyldir. En það var talið eðlilegt, að um leið og arður af hlutafé yrði skattfrjáls, yrði einnig arður af stofnfjársjóðsinnistæðum samvinnufélaga skattfrjáls hjá viðtakanda. Og það er m.a.s. í frv. gert ráð fyrir því, að félög, sem eru aðilar að öðrum samvinnufélögum, fái vexti af stofnfjársjóðsinnistæðu sinni skattfrjálsa. Og ekki er gert ráð fyrir því í þessu tilfelli, að hér verði um neitt takmark að ræða, eins og er þó í sambandi við vexti af sparifé. Þar er gert ráð fyrir því, að aðilar megi ekki skulda nema ákveðna upphæð til þess að hljóta skattfrelsi af sparifé. Gildir það ákvæði í skattalögunum nú, að við lán Húsnæðismálastofnunar ríkisins er miðað, en þau munu í dag vera um 600 þús. kr. Hér er því hersýnilega mismunað félagsformum, og tel ég það miður, fyrir utan það, að sú breyting, sem núv. hæstv. ríkisstj. leggur til, að gerð verði, et að mínum dómi í þá átt að draga úr vilja einstaklinga til þess að leggja fjármagn sitt í atvinnulífið, en ég held, að það sé hverju þjóðfélagi nauðsynlegt, að fyrir hendi sé sá vilji og sá skilningur, að einstaklingar leggi fram fjármagn sitt til þess að auka atvinnulífið.

Ég vil þá vekja athygli á þeim breytingum, sem lagt er til að gera á fyrningarákvæðunum. Fyrningarákvæðin voru tekin til endurskoðunar í vor, sem leið, og gerðar voru á þeim töluverðar breytingar og samræmingar, og var þar einmitt stuðzt við þá flýtifyrningu, sem lagt var til af embættismannanefndinni, að tekin yrði upp. En slík flýtifyrning hafði áður verið tekin upp í skattalög hér hjá nágrannaþjóðum okkar og henni m.a. ætlað að vega upp á móti þeim verðhækkunum, sem verða, þannig að fyrirtækin fái tækifæri til þess að fyrna á tiltölulega réttu verði, miðað við það verðlag, sem gilti, þegar hlutir, sem um er að ræða í fyrningunni, voru keyptir. Hér er lagt til, að flýtifyrningin 30% verði ekki heimiluð nema að 1/5 á ári, þ.e. 6%. Þetta veldur því m.a., að ýmsar greinar atvinnurekstrarins fara mun verr út úr fyrningum en fyrir gildistöku laganna frá í vor, og vil ég þar m.a. benda á fasteignir í fiskiðnaði, sem höfðu fyrir lagabreytinguna í vor 20% fyrningar á ári fyrstu 3 árin. Þessu var breytt í vor, þannig að 10% var hæsta fyrning og gert ráð fyrir, að þau gætu nýtt flýtifyrninguna og bæru þannig ekki skarðan hlut frá borði. Vel má vera, að það sé rétt sjónarmið, að flýtifyrninguna skuli fyrirtæki ekki fá að nota alla á einu ári. Ég held þá þar í móti, að of langt sé gengið að heimila flýtifyrninguna á 5 árum, og vel mætti reyna, þegar málið fær athugun í fjhn., hvort ekki væri hægt að fara þarna bil beggja til þess að fyrirbyggja, að áðurnefndar atvinnugreinar þurfi að líða fyrir þá breytingu, sem hér er lögð til.

Þá er tekið upp nýmæli í þessu frv., þar sem um er að ræða óheina fyrningu, sem skal fara eftir sérstakri vísitölu, sem gert er ráð fyrir, að reiknuð verði út. Samkv. orðanna hljóðan í brtt. verður ekki fullkomlega skilið, hvernig sú vísitala á að geta fullnægt þeim sjónarmiðum, sem ég ímynda mér, að liggi á bak við þennan tillöguflutning,. þ.e. að fyrirtæki fái að fyrna samkv. endurkaupsmati, en þetta hefur verið till. ýmissa hv. þm. úr stjórnarflokkunum á undanförnum árum. Samkv. till. á þessi verðhækkunarvísitala að miðast við þær fyrningar, sem áður hafa verið notaðar, þannig að þegar langt er liðið frá því, að viðkomandi tæki er keypt, og farið er að vinna með vísitölu, liggur það í hlutarins eðli, að grundvöllurinn fyrir vísitölunni eru fyrningar, sem eru löngu liðnar og því ekki á raunhæfu verði, ef ætlunin er á annað borð, að hér sé um að ræða fyrningu á endurkaupsverði. Eins og till. er sett hér fram, verður ekki annað skilið, og sýnist mér þá, að hún komi lítið ef nokkuð til móts við þá hugsun, sem ég imynda mér, að sé að baki henni.

Þá er lagt til, að felld verði niður úr frv. heimild til þess að fyrna samkv. byggingasamningum, sem gerðir hafa verið. Þetta var tekið upp í lögin í vor og hefur þar af leiðandi ekki gilt nema í ár, og þess vegna spyr ég hæstv. fjmrh., hvernig farið verði með þá aðila, sem hafa gert slíka samninga í ár í trausti þess, að þeir fái fyrningar af þeim, eins og lögin hafa gert ráð fyrir. Ef þetta ákvæði á að falla niður, verður að líta til þeirra aðila, sem gert hafa ráðstafanir, byggðar á gildandi lögum, og leysa verður vanda þeirra.

Þá kem ég að till. um breytingu á skattlagningu fyrirtækja. Um leið og horfið er frá því að leggja tekjuútsvar og eignarútsvar á félög, er gert ráð fyrir því, að tekjuskattur og eignarskattur verði stórhækkaðir. Mér sýnist á þeim tölum, sem eg hef haft fyrir framan mig, að hækkunin verði mun meiri en sem svarar niðurfellingu útsvara. Ég skal hins vegar viðurkenna það, að allar þær tölur, sem notaðar eru í sambandi við útreikninga, geta verið með mismunandi hætti, og a.m.k. hefur ekki verið lögð fram með þessu frv. nein tafla, sem sérfræðingar ríkisstj. hafa gert og hægt er að byggja á fullkominn samanburð á þessum tölum. Fyrir skattalagabreytinguna s.l. vor námu tekjuskattur og tekjuútsvar félaga um 43% af skattskyldum tekjum, þegar tekið hefur verið tillit til þess, að útsvarið er frádráttarbært. En samkv. þessu frv. hækkar samsvarandi álagningarprósenta upp í 53%. Samkv. skattalögunum frá s.l. vori skyldi eignarskattur félaga vera 0.7% af hreinni eign, jafnframt því að eignarútsvörin skyldu niður falla. Í þessu frv. er hins vegar ætlazt til þess, að skatturinn verði 1.2%, og þegar haft er í huga, að hið nýja fasteignamat mun hækka hreina skattskylda eign verulega frá því, sem verið hefur, virðist hér vera um að ræða mjög íþyngjandi hækkun. Auk hins háa skatts á skuldlausa eign kemur svo verulegur skattur á fjármuni, sem hrein eign er bundin, þ.e. fasteignaskatturinn, sem verður 1% af nýja fasteignamatinu. Á móti kemur hins vegar aðeins niðurfelling hálfs aðstöðugjaldsins, eða a.m.k. í 1 ár.

Þá kem ég að endurmatsreglu þessa frv., sem er að mínum dómi gerð af hégóma einum, ef ætlunin er, að fyrirtæki fái tækifæri til þess að endurmeta sína fjármuni. Hæstv. ráðh. gerði grein fyrir því hér áðan, að heimilt væri að endurmeta hluti um 20% miðað við kostnaðarverð á sínum tíma. Menn geta séð, hvers konar endurmat það er á vélum og tækjum, sem í dag eru 10, 15 eða 20 ára gömul. ef heimilað er að bæta 20% ofan á kostnaðarverð þess tíma. Ef menn hugsa sér að búa til réttlátar fyrningarreglur með tilliti til endurkaupsverðs, er að sjálfsögðu frumskilyrðið, að hægt verði að endurmeta eignirnar í byrjun með tilliti til þess, hvert verðið mundi verða að frádregnum fyrningum, sem eðlilegar þættu vera.

Ég hef nú rakið nokkur atriði í þessu frv., sem lúta að félagarekstri, og ég held, að ég hafi bent á ýmsa hluti, sem betur þurfa að athugast og sem ég geri ráð fyrir, að teknir verði til sérstakrar athugunar í fjhn. þessarar d. Ég vil sérstaklega benda á, að hér er farið inn á braut, sem ég tel mjög óæskilega, en það er mismunun á milli rekstrarforma. Ég held, að það sé hið eðlilega og skynsamlega, að rekstrarformum verði ekki mismunað í skattlagningu. Þannig getum við bezt bætt samkeppnisaðstöðuna.

Ég vil þá örlítið ræða þær till., sem gerðar eru um breytingar á skattlagningu einstaklinga. En áður en ég geri það, langar mig til að varpa einni spurningu til hæstv. fjmrh. og biðja hann að svara mér, ef hann sér ástæðu til, en spurningin er þessi: Tölurnar í fjárlagafrv. tekjumegin, þ.e. um tekjuskatt einstaklinga og félaga, eru þær ekki byggðar á gildandi lögum? (Gripið fram í.) Tekjuskatturinn er byggður á gildandi lögum. Tekjuskattur einstaklinga, 1 468 128 þús., er byggður á þeim lögum, sem gilda í dag? (Gripið fram í.) Já, takk fyrir.

Hér kom fram m.a. í ræðu hæstv. fjmrh. áðan ýmis tölulegur útreikningur í sambandi við eignarskatta og tekjuskatta einstaklinga. Og þar er satt bezt að segja, að allir þessir útreikningar hæstv. ríkisstj. í sambandi við fjárlögin, í sambandi við skattana, í sambandi við millifærslu frá sveitarfélögum til ríkisins og allt það, eru tölur, sem erfitt er að henda reiður á. En ég held, að í ræðu ráðh. hafi komið fram villandi útreikningar. Ég er ekki að segja visvítandi, heldur að hér hafi ekki verið nægilega að gáð. Á fyrstu 50 þús. kr. skattskyldra tekna einstaklinga verður skattur 25%. Af því, sem þar er fram yfir, er gert ráð fyrir, að skattur verði 45%. Ráðh. gaf okkur upplýsingar um það, að skattar samkv. frv., eignarskattar og tekjuskattar, mundu verða 3 141 millj. Ég heyrði ekki, að hann gerði þar mun eða skildi á milli skatta félaga og skatta einstaklinga, e.t.v. hefur ráðh. ekki þá skiptingu. En ef tölur frv., eins og það liggur fyrir nú, eru skoðaðar, kemur í ljós, — og það frv. er byggt á þeim lögum, sem gilda í dag, — að hækkunin er u.þ.b. 100%, miðað við gildandi lög og skattalagafrv. ríkisstj. En tekjuskattur samkv. frv. er 1 697 millj., en samkv. upplýsingum ráðh. verður hér um að ræða 3 141 millj. Ég held, að það fari ekki á milli mála, að þetta frv. þýðir töluverða skattahækkun. Hvernig svo sem dæmið er sett upp, held ég, að við komumst ekki hjá því að gera okkur grein fyrir því, að skattarnir samkv. þessu frv. hækka um 100% frá því, sem núgildandi skattalög gerðu ráð fyrir, skattalögin, sem samþ. voru í vor. En fjárlagafrv. fyrir árið 1972 byggir einmitt á þeim lögum.

Ég skal ekki gera hér samanburð á því, hvort og hvernig einstaklingar eða fjölskylda með mismunandi mörg börn koma út í einstökum dæmum. Það munu e.t.v. aðrir gera, sem eru kunnugri þeim útreikningum, sem um það gilda.

Þá er lagt til í frv., að persónufrádráttur hjóna hækki úr 188 þús. í 220 þús. kr. Ef till. hv. 4. þm. Reykv., Þórarins Þórarinssonar, hér á undanförnum árum hefði notið velvilja hjá núv. hæstv. ríkisstj., hefði þessi frádráttur sjálfsagt orðið hærri. En þá er spurningin: Af hverju skyldi núv. hæstv. fjmrh. ekki hafa viljað taka tillit til síns ágæta flokksbróður í þessum efnum? Ég minnist þess einmitt, að þessi hv. þm. hefur á undanförnum árum álasað fyrrv. ríkisstj. fyrir þessa hluti, en þar hittir nú gagnrýnin þá sjálfa, þegar ekki er tekið tillit til þess, sem svo þýðingarmikill og þekktur þm., formaður þingflokks Framsfl., hefur barizt fyrir á mörgum þingum.

Þá liggur það ljóst fyrir, að samkv. þessu frv. verður mikil hækkun á eignarskatti. Ég held, að það muni lenda tiltölulega þyngst á því fólki, sem á sína íbúð skuldlausa, og koma tilfinnanlegast niður þar. Hvort sem við reiknum með 60 eða 80 fermetra íbúð, geri ég ráð fyrir að þetta segi til sín, þegar eignarskattarnir verða reiknaðir út, en hér er um að ræða lækkun á eignarskattslausum eignum úr 3 millj. í núgildandi lögum niður í 1 millj. Á sama tíma er gert ráð fyrir verulegri hækkun á fasteignasköttum, og að mér skildist í útvarpinu í gær, þá boðaði hæstv. fjmrh. enn meiri hækkun á fasteignasköttum á næsta ári.

Í sambandi við fjárlagafrv. í ár og tölulegan útreikning ráðh. hér áðan langar mig til þess að vekja athygli á því, sem hann hélt fram í sambandi við 30% flýtifyrninguna, en hann taldi, að tekjur fyrirtækja, ef sú flýtifyrning hefði gilt við skattlagningu fyrir árið 1971, hefðu orðið 300–500 millj. minni, — tók ég rétt eftir? Ég veit nú ekki, hvernig þetta getur átt sér stað, því að í fjárlögum fyrir árið 1971 er tekjuskattur félaga aðeins 149 millj. kr. Ég á bágt með að trúa því, að það skattalagafrv., sem samið var í vor, hefði, ef flýtifyrningin hefði ekki verið þar í, hækkað skatta á félögum úr 150 upp í 500 millj., sem síðan hefðu afskrifazt með 30% flýtifyrningu. Þetta dæmi get ég ekki fengið til þess að ganga upp. En vel má vera, að það séu á því skýringar, sem gætu síðar meir komið fram og leiðrétt þá þann misskilning, sem hjá mér er.

Þá vék hæstv. fjmrh. að því ákvæði, sem hér er nýtt í sambandi við ríkisskattanefnd og það fyrirkomulag, sem lagt er til, að tekið verði upp í þeim efnum. Ég held, að hér sé ekki farin rétt leið, og ég vil benda á 2–3 atriði í þessum efnum. Ríkisskattstjóri er nú formaður ríkisskattanefndar. Hann er sá aðilinn, sem veitir leiðbeiningar, samræmir vinnu og úrskurði hjá skattstofunum. Það kemur því til hans kasta að vinna úr þeim kærum, sem berast frá einstaklingum í sambandi við skattaálagningu hjá einstökum skattstjórum. Hann hefur sjálfur gefið út leiðbeiningar, og þar af leiðandi verða dómar hans í samræmi við það. Í þessu frv. er ætlazt til þess, að hann sem ríkisskattstjóri gefi út túlkandi leiðbeiningar til skattstofanna í sambandi við álagningu skatta, en þegar svo kæran kemur, verður það ríkisskattanefnd, sem kveður upp úrskurðinn, og það skyldi þó aldrei vera, að það gæti komið fyrir, að úrskurðurinn í málinu gengi gegn ríkisskattstjóranum? Nei, ég held, að hér sé farið út af réttri braut inn á ranga braut. Og ég hef aflað mér upplýsinga um það, hvernig nágrannar okkar hafa þetta. Norðmenn hafa haft þetta mjög svipað okkur um langan tíma, og Svíar hafa nýtekið upp það kerfi, sem við höfum, horfið frá því kerfi, sem hér er lagt til, að farið verði inn á.

Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu og mun að sjálfsögðu í n. gera till. um breyt. þar á, ef ekki verða fram bornar röksemdir, sem sannfæra mig um, að hér sé lagt til að taka upp betra kerfi en við höfum haft.

Ég vil geta eins ákvæðis sérstaklega, sem tekið er upp í frv. Það er í 3. gr., 4. tölul., varðandi söluhagnað af íbúðarhúsnæði, þegar einstaklingur kaupir annað í staðinn, en hv. 9. landsk. þm. hefur flutt brtt. við skattalögin, sem gengur í sömu átt. Hér er till. hans tekin upp, og ég held, að reynslan hafi einmitt sýnt, að það hafi verið fullkomin ástæða til þess að gera það. Þegar frv. var afgreitt hér á Alþ. s.l. vor, töldu menn, að þetta mundi ekki koma að sök, þar sem árafjöldinn var færður úr 5 niður í 3, en hjá ungu fólki, sem byrjar með kaup á minni íbúðum, en stækkar svo við sig kannske tiltölulega fljótt, þá mundi þetta ákvæði koma mjög illa við það.

Ég hef hér gert aths. við ýmsar gr. þessa frv. Ég hef aðeins haft tækifæri til þess að kynna mér frv. núna í 2–3 daga, en það er nú svo, að málið mun ekki eiga að afgreiða fyrir jól, svo að það gefst betra tækifæri til þess að skoða frv., en eins og hæstv. fjmrh. sagði hér áðan, þá verða það fjárlögin, sem ákveða, hvað út úr þessu dæmi á að koma. Án þess að hafa nokkra hugmynd um, hvernig frv. endanlega verður, þá er sett ákveðin tala inn í fjárlögin, og það dæmi verður að ganga upp, hvort sem mönnum líkar betur eða verr.

En hvað er verið að gera með þessu öllu saman? Það eru gerðar breytingar á tekjustofnafrv. og skattalögunum, og það er lagt til, að farið verði inn á þá braut að leggja niður nefskatta hjá almenningi, fella niður almannatryggingagjöldin, fella niður sjúkrasamlagsgjöldin. Þetta hljómar ákaflega vel, og það verður margur glaður, þegar hann þarf ekki að greiða þessi gjöld. En hvaða þýðingu hefur það fyrir einstaklinginn, að almannatryggingagjaldið og sjúkrasamlagsgjaldið falla niður? Það hefur þá þýðingu, að launin hans lækka líka. Það hefur þá þýðingu, að vísitalan lækkar, og við fengum að heyra það hér áðan hjá hæstv. fjmrh., hvernig hann hyggst nota þessa vísitölulækkun. Það verður með þeim hætti, að hann ætlar að minnka niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum, þannig að landbúnaðarvörurnar hækka. Fyrir mér sýnist dæmið vera þannig, að það er aflað tekna með tekjuskattsfrv., tekna, sem ekki koma inn og ekki eru reiknaðar í vísitölugrundvellinum, en þær tekjur verða einstaklingarnir að borga, en þurfa ekki lengur að borga almannatryggingagjaldið og sjúkrasamlagsgjaldið. En þá skatta fær fólkið ekki inn í vísitöluna. Það er sem sagt verið að taka út úr vísitölunni ákveðna þætti, afla tekna hjá sama fólki, bara með öðrum hætti, til þess að greiða þau gjöld, sem það greiddi áður. Það eru sömu aðilar, sem greiða, en í stað þess lækka launin þeirra. Hér mun vera um að ræða 4 vísitölustig, ég hef ekki um það svo nákvæma tölu. Hæstv. ráðh. minntist í ræðu sinni áðan á 3.72 stig, en þá mun ekki um það að ræða, sem þegar er niðurgreitt í sambandi við sjúkrasamlagsiðgjöldin. Og þetta þýðir að sjálfsögðu, þegar öllu er á botninn hvolft, a$ fólkið hefur minni laun, kaupmátturinn minnkar. Þetta sýnist mér vera niðurstaða þessara frv., sem hér eru flutt, niðurstaða þeirrar stefnu, sem þessi ríkisstj. boðar, því að hún hefur boðað stefnubreytingu í flutningi þeirra frv., sem hér um ræðir.

Ég held, að við komumst ekki hjá því að átta okkur á því, að skattalagafrv. þýðir eitthvað á annan milljarð í nýjum sköttum, samtímis því að vísitalan er fölsuð. Það er tekinn út úr henni nefskattur, sem fólkið borgar og hefur verið reiknaður í vísitölugrundvellinum, og það sama fólk látið borga annan skatt með öðrum hætti, sem er ekki reiknaður í vísitölugrundvellinum.

Skoðun mín er sú, að þetta frv. þurfi verulegrar athugunar við í hv. fjhn., og það, sem ég hef hér sagt í sambandi við þetta frv., sé þess eðlis, að afgreiðsla fjárlaga, byggð á slíku frv., geti ekki talizt afgreiðsla, sem Alþ. sæmir.0