16.12.1971
Neðri deild: 27. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í B-deild Alþingistíðinda. (559)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Pétur Pétursson:

Herra forseti. Ég má til með í byrjun að nefna það mál, sem hæstv. fjmrh. nefndi síðast í sambandi við lækkun á niðurgreiðslum um 450 millj., að því er ég skildi án vísitölubreytingar. Eins og hv. síðasti ræðumaður tók fram, sýnist mér þetta ekki geta þýtt annað en raunverulega hækkað vöruverð eða verri afkomu fyrir alla neytendur í landinu, og þetta kemur nú, þegar fyrir nokkrum dögum er búið að semja við verkalýðshreyfinguna, og mér kemur það undarlega fyrir sjónir, ef forustumenn verkalýðshreyfingarinnar fallast á þessi vinnubrögð. Einu sinni var talað um vísitölufals og gert þó nokkuð mikið úr einu eða tveimur vísitölustigum, og það eru ekki nema nokkrir mánuðir síðan. Ég held, að þetta sé alveg beint vísitölufals og geti ekki kallazt neitt annað. Ég held, að þarna fari góð sneið af þeirri kauphækkun, sem verkalýðshreyfingin fékk hér um daginn. Eru annars til nokkrir útreikningar um þessa hluti? Ég verð að játa það, að það kemst ekki inn í minn koll, hvernig svona vinnubrögð geta í reyndinni farið fram, að einn mánuðinn er verið að semja og gert mikið úr því, hvað hækkun er mikil. Næsta mánuð er þetta bara svo einfaldlega tekið til baka. Það hefði einhvern tíma ekki þótt góð ráðsmennska.

Hæstv. fjmrh. talaði um það áðan, að hann teldi, að hér væri ekki um neina verulega skattahækkun að ræða með því frv., sem hér liggur fyrir. Ég hef engar tölur séð um þetta. Ég heyrði hæstv. ráðh. að vísu lesa langan lista, en hefði ekki verið hyggilegra og hefði ekki verið tiltækilegt að láta fylgja frv. rækilegt yfirlit um það, hvað þessi mál í raun og veru þýða, sem hér er verið að biðja um? Eru hv. stjórnarþm. svo miklu snjallari en ég, að þeir séu búnir að átta sig á því, hvað hér er um að ræða í raun og veru, sem ætlazt er til af þeim að styðja nú í gegnum þingið? Ég efast um það. Mér finnst, að frv. og þær skýringar, sem með því eru, hefði verið hægt að setja miklu betur fram og miklu aðgengilegar fyrir okkur þm.

En ég hef örfáar spurningar, sem mig langar til þess að beina til hæstv. fjmrh. Í fyrsta lagi: Dugar þessi skattahækkun? Er þetta endirinn, eða er meira eftir? Er þessi heildarhækkun, sem þarna kemur fram, nóg til þess að mæta þeim stóru upphæðum, sem við höfum verið að tala um? Ég held, að það sé alveg bráðnauðsynlegt fyrir okkur þm. að fá þessar tölur alveg hreinar. Og ég álít, að það eigi að vera hægt. Mig langar sem sagt til að vita, hvort hér sé lokatalan.

Mig langar líka til að vita í eitt skipti fyrir öll frá hæstv. fjmrh., hvað pakkinn sé stór samtals. Þarna er verið að reyta þetta í smáskömmtum til okkar, svona hálfan milljarð og einn milljarð hér og þar. En ég held, að það sé bezt að fá heildarmynd af öllu málinu og reyna svo að átta sig á því, hvað hægt sé að gera.

Enn fremur langar mig til að vita, hvað þessir nefskattar, sem falla niður, séu mikil upphæð í heild. Hæstv. ráðh. las upp tölur um vissa nefskatta, en ég er ekki nógu klókur til að átta mig á því, hvað þessi fúlga er stór.

Svo langar mig til að vita, hvernig þessir skattar skiptast á milli fyrirtækja annars vegar og hins vegar einstaklinga í stórum dráttum eða öllu heldur, hvorum megin hækkunin hafi komið fyrst og fremst niður.

Ég á von á því, að það sé tiltölulega auðvelt að fá þessar upplýsingar, en mér hefði þó þótt miklu aðgengilegra, ef þær hefðu verið með frv. sjálfu, þegar það var lagt fram.

Hér er um að ræða frv„ sem sannarlega snertir flesta landsmenn. Frv. er auðvitað liður í nýrri efnahagsstefnu núv. hæstv. ríkisstj. Og þess vegna finnst mér, að það sé ástæða til að gera þessa efnahagsstefnu ofurlítið að umtalsefni í beinu sambandi við þetta mál, enda hef ég ekki haft aðstöðu til þess að sökkva mér niður í þetta frv. á þeim tveimur dögum, sem það er búið að liggja frammi, því að mér skilst, að það þurfi að bera saman við eldri lög og virkilega liggja yfir því talsvert mikið, til þess að menn geti áttað sig á því nægilega vel, hvað hér er í raun og veru að gerast. Fljótt á litið sýnist mér þó, að það séu þó nokkur atriði, sem eru þess eðlis í frv., að mér finnst, að ég gæti vel samþykkt þau. En ég álít, að það sé nauðsynlegt í þessu, og það verður vafalaust gert, að hv. fjhn., sem fæst væntanlega við málið, fari mjög rækilega niður í öll atriði málsins. Þetta snertir svo marga og er svo margþætt, að ég held, að það hljóti að verða mjög mikil vinna, en það verður vafalaust farið vel ofan í það.

Það liggur alveg ljóst fyrir, m.a. í frv. sjálfu, að það er aðeins hluti af sjálfri efnahagsstefnunni. Þess vegna er ómögulegt að ræða um þetta frv. nema sem einn hluta þeirrar stefnu, sem meiningin er, að verði ríkjandi hér í bili. Ég fagna því, að tryggingafrv. gerir ráð fyrir margs konar endurhótum, sem við Alþfl.-menn metum mikils. Mér finnst afgreiðsla fjárlaga hins vegar vera kæruleysisleg og allt of mikið bera á því, að það sé sjálfsagt að gera allt fyrir alla. Auk þess finnst mér, að málefnum sé ekki raðað í rétta röð og alveg sérstaklega, að það sé lítið hugsað um það, hvernig eigi að afla peninganna til þess, sem meiningin er að gera. Það er sjálfsagt fátt í fjárlögunum, sem hægt er að segja um, að sé óþarft. En það er nú einu sinni svo, að það er tiltekin peningafúlga til, og það er þessi peningafúlga, sem Alþ. er að ráðstafa þessa dagana. Stjórnarflokkarnir þurfa náttúrlega ekki á neinni aðstoð að halda frá stjórnarandstöðunni, og þess vegna hera þeir einir ábyrgð á efnahagsstefnu hæstv. ríkisstj. og engir aðrir. Og ég vil líka ætla, að hæstv. ríkisstj. sé þess albúin að bera þessa ábyrgð ein.

En má ég ekki biðja hæstv. ríkisstj. um að líta ofurlítið fram í tímann, bara eitt eða tvö ár, og væri ekki ráð að reyna að átta sig á því, hvað sé fram undan? Er ekki líklegt, að stórhækkuð fjárlög séu verðbólguaukandi, og margar aðrar ráðstafanir, sem hæstv. ríkisstj. er að gera? Mér finnst nefnilega öll vinnubrögð hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum þess eðlis, að það sé reiknað með vaðandi verðbólgu á næstu árum, jafnvel á næstu mánuðum. Og við allt þetta bætist svo, að fréttir frá útlöndum herma, að gengi þar sé sums staðar að falla og annars staðar að hækka. Og er ekki trúlegt, að þetta atriði geti haft veruleg áhrif á efnahagsmál okkar.

Alþfl. gerir sér vel grein fyrir því, að það alversta, sem getur komið fyrir sem afleiðing af stjórnarstefnu núv. hæstv. ríkisstj., er hömlulaus verðbólga, meiri og stærri en nokkurn tíma hefur þekkzt. Fólkið í landinu, allur almenningur, verður hér að hamla á móti. Ef nú heldur sem horfir, verður þessi þróun miklu verri og alvarlegri en komið hefur upp a.m.k. síðustu 30 árin.

En ég vil reyna að vera sanngjarn, þegar ég ræði þessi mál. en ég held, að það sé alveg ljóst, að það eru takmörk fyrir því, hve hægt er að leggja mikla skatta á atvinnufyrirtækin, án þess að það hái þeim rekstrarlega. Væntanlega eru allir sammála um það, sama með hvaða formi fyrirtækin eru rekin, að þau beri að reka á heilbrigðum grundvelli. En þegar litið er á efnahagsmálastefnu hæstv. ríkisstj. í heild, verður ekki sagt, að það sé yfirleitt gert ráð fyrir því. Og ég er afar hræddur um, að fjöldi fyrirtækja gefist upp og hætti starfsemi, þegar öll áhrif þessarar efnahagsstefnu eru komin til framkvæmda. Og ef fyrirtækin gefast upp, þá verður ekki langt í atvinnuleysið.

Ég hef rætt þessi mál nokkuð almennt og um efnahagsmálastefnu hæstv. ríkisstj. Eins og ég sagði í upphafi, eru mörg meginatriði þessa frv. þess eðlis, að Alþfl. vill standa að framgangi þeirra. Hins vegar er frv. hluti af óábyrgri efnahagsstefnu hæstv. ríkisstj., sem Alþfl. vill ekki eiga neinn hlut að. Það frv., sem hér er til umr„ er þannig, að öll vinnubrögð, alveg sama hvert litið er, virðast byggjast á því, að aukin verðbólga sé sjálfsögð og óhjákvæmileg. Hæstv. ríkisstj. fer auðvitað sínar leiðir. Við því er hreint ekkert að segja. En þó að við Alþfl.-menn séum fáir hér, mættum við kannske minna á, að sú augljósa verðbólgustefna, sem nú er framkvæmd, verður alvarlegt áfall fyrir þjóðina alla. Ég segi því við hv. stjórnarsinna í þessari hv. d.: Væri ekki rétt að taka efnahagsmálastefnuna alla til endurskoðunar? Er ekki of mikill verðbólgusvipur á mörgum málum þingsins? Er ekki loforðalistinn í bókinni góðu heldur stór biti fyrir hæstv. ríkisstj:?