16.12.1971
Neðri deild: 27. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 763 í B-deild Alþingistíðinda. (560)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., um breyt. á lögum um tekju- og eignarskatt, verður ekki rætt, nema nokkuð sé minnzt á frv. til l. um breyt. á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, enda beinlínis að því frv. vikið í aths. með frv. þessu. Þegar saman fer einnig breyting á verkefnaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga, eins og hér á sér stað, verður ekki hjá því komizt að ræða þessi tvö frv. í nokkru samhengi, auk þess sem hér er um að ræða í báðum tilfellum þær álögur, sem sóttar eru beint í vasa borgaranna til þess að standa undir hluta af sívaxandi umsvifum hins opinbera. Og eins og við var að búast, þegar mynduð var vinstri stjórn í landinu, fara þau umsvif og afskipti stórvaxandi. Það, sem skattgreiðendur vilja vita, er, hvað þeir þurfa að greiða til hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga. Þeir láta sig minna varða, hver hlutur fer í ríkissjóð og hver í sveitarsjóð. Þeir vilja vita, hver heildarskattbyrði þeirra er. Ég vona því, herra forseti, að mér verði virt það til vorkunnar, þótt ég drepi hér lítillega á tekjustofnafrv., sem var til 1. umr. í hv. Ed. í dag.

Þótt lítill tími hafi unnizt til þess að gera sér grein fyrir þeim breytingum, sem af lögfestingu þessara frv. mun leiða, er samt auðvelt að nefna fjölmörg atriði, sem benda til þess, að hæstv. ríkisstj. hafi einnig verið í tímahraki. En hér sannast enn sem fyrr það eindæma gáleysi, sem einkennir vinnubrögð þessarar hæstv. ríkisstj. Fyrst er ákvörðunin tekin, og síðan er reynt að finna forsendur fyrir ákvörðuninni. Ákvarðanirnar um það, sem gera skal, er, eins og allur landslýður veit, að finna í málefnasamningi stjórnarflokkanna. Það kemur betur og betur í ljós með hverju máli, sem hæstv. ríkisstj. leggur fram, á hve traustum grunni sá málefnasamningur er byggður. Undanfarna daga hefur fjárlagafrv. verið til meðferðar hér á hv. Alþ. Nægilega hefur verið á það hent, að teknahlið þess er ekki enn gerð, þótt 2. umr. sé lokið, og ætla ég ekki að bæta neinu við þær umr. Hins vegar hefur það ekki verið dregið fram í umr., að ég held, að tekjuöflun samkv. lögum um tekju- og eignarskatt, samkv. fjárlagafrv., virðist ekki einu sinni byggð á þeim lögum, sem í gildi eru, þegar frv. er samið og það lagt fram, heldur á lögum um það efni, sem breytt var í verulegum atriðum á s.l. vori.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um það, hvernig ríkisstj. hefur staðið að þeim breytingum, sem hér eru boðaðar. Eitt fyrsta verk hæstv. fjmrh. var að víkja frá störfum þeirri nefnd, sem unnið hafði að endurskoðun skattalaga og ætlað var að starfa áfram. Skipaði hann síðan nýja nefnd til að vinna að þessu verkefni. Nefnd þessi, sem aðrar slíkar, er að sjálfsögðu launuð af almannafé. Það getur því ekki verið til of mikils mælzt, þótt þess sé farið á leit, að alþm. fái að sjá nál. Þess er getið í aths. við frv., að nefndin hafi aðstoðað við samningu þess. En að hve miklu leyti er frv. þetta ávöxtur af störfum nefndarinnar, og túlkar það skoðanir nm., eða er það e.t.v. samið af ríkisstj:? Það breytir hér engu um, þótt endurskoðun skattalaga sé í miðjum kliðum, eins og jafnframt segir í aths. með frv. Það er lágmarkskrafa, að álit nefndarinnar komi fram og útreikningar þeir, sem ætla verður, að hafi verið gerðir.

Svipuð voru vinnubrögðin varðandi endurskoðun tekjustofnalaganna. Eitt fyrsta verk hæstv. félmrh. var að skipa sérstaka nefnd til þess að endurskoða þau, eftir að starfsbróðir hans, hæstv. fjmrh., hafði losað sig m.a. við fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga og raunar fleiri úr skattanefndinni, en þar átti sambandið tvo fulltrúa. Í málefnasamningnum, sem ég skil nú raunar aldrei við mig, þótt ég lesi hann að vísu ekki kvölds og morgna, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Endurskoða her skiptingu verkefna og valds á milli ríkis og sveitarfélaga í því skyni að auka sjálfsforræði byggðarlaga. Haft verði samráð við Samband ísl. sveitarfélaga og samtök sveitarfélaga í einstökum landshlutum um þessa endurskoðun“, o.s.frv.

Með tekjustofnafrv. er að vísu farið eftir fyrri óskum sveitarfélaganna varðandi löggæzlukostnað, almannatryggingagjöld og sjúkrasamlagsgjöld, en sveitarfélögin voru ekkert sérstaklega tilkvödd að þessu sinni, og þau höfðu margar fleiri óskir fram að færa. Auðvitað á það sama að gilda, þegar endurskoðuð eru lög um tekjustofna sveitarfélaga, jafnvel þótt þess sé ekki sérstaklega getið í stjórnarsamningnum. Ég átel því, að ekki skuli haft samráð við stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, þegar skipað var í nefndina. Það var óviturlegt og hefur líka sætt gagnrýni. Þessi aðferð gerir málið allt erfiðara úrlausnar og er til þess fallin að skapa tortryggni.

Annars ætla ég ekki að ræða sérstaklega tekjustofnafrv. nú, til þess gefst tækifæri síðar, en ég vil þó láta þess getið, að í því eru ýmis athyglisverð ákvæði, ákvæði sem eru sveitarfélögunum að skapi, og fyrir það vil ég þakka hæstv. ríkisstj. Ég trúi því, að ríkisstj. sé sveitarfélögunum velviljuð, og ég vona, að gott samstarf megi takast milli sveitarfélaganna og ríkisstj.

Jafnvel við skjótan yfirlestur þessa frv. sést, hversu fljótfærnislega það er unnið á allan hátt. Hæstv. fjmrh. nefndi hér í umr. í dag í ræðu sinni, að ákvæðin um arðjöfnunarsjóð væru felld niður, en það hefur gleymzt að fella út ákvæðin um hann í D-lið 7. gr., 2. mgr., eldri laga, svo að dæmi séu nefnd. Sömuleiðis í B-lið 11. gr. laganna. Arðjöfnunarsjóður er ekki lengur til í skattteknisku tilliti og því fásinna að tala um hann í frv. Þá er enn talað um tekjuútsvar í þessu frv., sbr. 4. gr. og 8. gr., 2. mgr., þótt ekkert raunverulegt tekjuútsvar verði lagt á félög hér eftir.

Þá má nefna ákvæðin um ríkisskattanefnd. Það virðist mikið liggja á, að ríkisstj. komi þar inn sínum mönnum. Út af fyrir sig er meira en lítið vafasamt að skylda Hæstarétt til þess að skipa sex menn, sem ráðh. á svo að velja tvo úr, en auk þess hefur hann vald til þess að skipa varaformann og formann. Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti því, að skipulagsbreyting verði gerð, en skipulagsbreytingu verða að fylgja ákveðnar forsendur. Hin nýja ríkisskattanefnd á að taka við 1. okt. 1972 samkv. frv. Þangað til skal ríkisskattstjóri vera formaður nefndarinnar, en þess er ekki gætt, að hann kemur fram fyrir hönd fjmrh. gagnvart nefndinni til þess tíma, samkv. öðrum ákvæðum frv. Slíkt finnst mér ekki geta gengið. Það kann líka að geta þvælzt fyrir Hæstarétti að finna hæfa menn, sem tilnefndir verði í ríkisskattanefnd. Þeir verða að vera öllum óháðir. Þeir mega ekki gegna ábyrgðar- eða trúnaðarstörfum við stjórn samtaka atvinnurekenda, stéttarfélaga eða á sviði fjármála og skattheimtu hjá ríki og sveitarfélögum. Í aths. við frv. er talað um, að hér sé nýmæli á ferðinni, til þess ætlað að gera ríkisskattanefnd sem óháðastan úrskurðaraðila og ákvæðin sett til að tryggja henni það traust almennings, sem hverjum dómstóli er nauðsynlegt. Ég vil gjarnan spyrja, hvort hér sé verið að bæta úr einhverju sérstöku óréttlæti, sem látið hefur verið viðgangast, þar sem í nefndinni eru nú þeir menn, sem ekki fullnægja þeim skilyrðum til skipunar í nefndina, sem í frv. greinir. Hæstv. fjmrh. vottaði hér í dag ríkisskattstjóra fyllsta traust, og er ég í sjálfu sér ekki hissa á því. En það gegnir kannske öðru máli með nefndina?

Þá verður að átelja það, að ekki skuli fylgja útreikningar á því, hver tekjuöflun ríkissjóðs verður samkv. frv. Það er fyrst hér í framsöguræðu hæstv. ráðh„ sem tölur eru birtar. Svona útreikningar fylgja ekki heldur tekjustofnafrv. Það er að vísu ljóst orðið eftir upplýsingarnar í dag, að tekjuöflun og þar með skattbyrði borgaranna verður til muna hærri samkv. frv. en hún er á yfirstandandi ári.

Nokkur þeirra ákvæða frv., sem vita að breytingum á verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga, horfa tvímælalaust til bóta. Þar er um að ræða, eins og ég drap á áðan, að ríkissjóður taki við greiðslu alls löggæzlukostnaðar, alls hluta sveitarfélaganna í lífeyristryggingum almannatrygginga og helmings útgjalda sveitarfélaga til sjúkratrygginga. Þessi ákvæði eru sjálfsögð, og ber að fagna þeim, svo sjálfsagt sem það er að létta af sveitarfélögum greiðslum vegna málaflokka, sem þau ráða ekkert yfir.

Hins vegar vil ég leggja áherzlu á það, að með frv. þessum er ekki mörkuð sú stefna, sem sveitarfélögin hafa viljað móta og til heilla er fyrir stjórnkerfið í landinu og þar með einnig til hagsbóta fyrir allan almenning. Hér á ég við það, að sveitarfélögunum á að fela meiri verkefni en þau hafa í dag. Þau eiga að fá meira sjálfstæði, meiri ábyrgð á lausn hinna ýmsu mála. Valdið á að vera úti í hinum ýmsum byggðum landsins. Það á ekki allt að vera hér í Reykjavík. En þetta kallar hins vegar á aðra skiptingu teknanna milli ríkis og sveitarfélaga. Það er skoðun mín, að þetta spor hefði átt að stiga stærra nú.

Með breytingum á tekjustofnalögunum er talið, að tekjuöflunarkerfi sveitarfélaganna sé gert tiltölulega einfalt. Það má e.t.v. til sanns vegar færa, að sumar breytingarnar horfa til einföldunar, en aðrar gera það ekki. Tekjuútsvarið, eins og það var, var lagt í aðalatriðum á sama gjaldstofn og tekjuskattur. Hið fyrirhugaða útsvar er hins vegar lagt á sérstakan stofn, sem verður að reikna út, og grundvöllur hans er í mörgum tilfellum afar óljós. Á það má einnig henda, að í hinum nýja útsvarsstiga eru hvorki meira né minna en 26 þrep, auk barnafrádráttar og fleiri atriða, sem taka þarf tillit til, eftir aðstæðum gjaldenda. Öllum ætti að vera ljóst, að þetta er ekki til einföldunar á kerfinu. Í aths. með frv. er rík áherzla á það lögð, að með breytingum sem boðaðar eru, verði tekjustofnar sveitarfélaga mun öruggari en áður. Til þess að tryggja þetta öryggi eru þau t.d. losuð við þá fyrirhöfn að skattleggja fyrirtæki, og skattlagning þeirra á að vera í höndum ríkisins og skattur fyrirtækja á að renna til ríkissjóðs. En hverjar verða hinar raunverulegu breytingar samkv. frv. á áhættu sveitarfélaganna? Jú, sveitarfélögin hafa ekki lengur tekjuútsvar af atvinnurekstri, sem rekinn er á félagslegum grundvelli. Samkv. útsvarsálagningu 1971 má ætla, að tekjuútsvör félaga í landinu hafi verið 10–15% af heildarálagningu útsvara í landinu og 5–7% af heildartekjuöflun sveitarfélaga. Ríkisstj. ætlar að svipta sveitarsjóði þessum 5–7% tekna sinna til að gera tekjuöflun þeirra einfaldari og öruggari. Þetta má að vísu kalla mikla rausn. Hins vegar hafa sveitarfélögin áfram tekjuútsvar af atvinnurekstri í einkaformi, en mér þykir sennilegt, að sá atvinnurekstur sé yfirleitt sveiflukenndari og áhættumeiri en rekstur í félagsformi. Ég tel mjög varhugavert að fara inn á þá hraut, sem hér er ætlað, þ.e. að svipta sveitarfélögin að verulegu leyti hagsmunum af því, að rekin séu arðbær félög innan þeirra marka. Það kann að hafa ófyrirsjáanleg áhrif á atvinnuuppbyggingu sveitarfélaganna í landinu.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að breytingu skattbyrðarinnar. Þegar rætt er um það efni, verður enn að skoða bæði frv. í samhengi. Ljóst er af þessum frv., að um verulegar hækkanir verður að ræða á skattbyrði einstaklinga eða almennra launþega í landinu. Hafi það ekki verið ætlun ríkisstj., hefur henni eða reiknimeisturum hennar hrapallega mistekizt. Að þessu verð ég að víkja nokkru nánar. — Ég vil alveg sérstaklega biðja hv. stjórnarsinna að hlýða á mál mitt og hugleiða, hvort þeir séu reiðubúnir að samþykkja hugmyndir stjórnarinnar í þessum efnum. — En hvernig á að reikna breytingu skattbyrðarinnar? Um þetta eru menn sjálfsagt ekki sammála, en ég vil benda á þá einu leið, sem ég fullyrði, að raunhæf sé í þessum efnum. Hugtakið skattbyrði er í aðalatriðum þeir skattar, sem gjaldandinn verður að greiða af tekjum sínum. Ef skattarnir eru reiknaðir sem hlutfall af tekjum, fáum við eina nothæfa mælikvarðann á skattbyrðina. Skattbyrði gjaldandans þyngist ekki, þótt skattar hækki í hlutfalli við hækkun tekna, en hækki skattar hlutfallslega meira en tekjur, þá þyngist skattbyrðin. Þetta er ósköp einfalt, og ég vona, að um þetta geti allir verið sammála. Ég ætla þó að nefna einfalt dæmi til að skýra mál mitt. Árið 1970 hafði gjaldandi 500 þús. kr. í brúttótekjur og greiddi skatta til ríkis og sveitarfélaga að meðaltali 20% eða 100 þús. kr. Árið 1971 hefur gjaldandi 600 þús. kr. í tekjur og greiðir þá 120 þús. kr. í skatta. Skattarnir hækka um 20%, en þar sem tekjurnar hækkuðu um sama hlutfall, þá breytist skattbyrðin ekki.

Hæstv. fjmrh. hefur í hljóðvarpi og hér raunar í dag skýrt frá breytingum skattbyrðarinnar miðað við boðaðar breytingar með nokkrum dæmum. Þessi dæmi eru svo villandi og beinlínis röng, að ekki verður hjá því komizt að ræða þau nokkuð. Ég held því þó ekki fram, að hæstv. ráðh. sé vísvitandi að blekkja almenning í landinu, og því verði að fyrirgefa honum, vegna þess að hann einfaldlega viti ekki, hvað hann er að gera. Hann hefur sjálfsagt ekki reiknað þessi dæmi sjálfur. Virðist því ástæða fyrir hæstv. ráðh. að setja ofan í við reiknimeistara sína. Dæmi hæstv. ráðh. virðast, eftir því sem næst verður komizt, byggð á samanburði milli þeirra skatta, sem gjaldendur koma til með að greiða 1972, samkv. boðuðu kerfi annars vegar, og þeim sköttum, sem hefðu verið á lagðir 1972, samkv. eldra kerfi. Við útreikninga á skattbyrði samkv. eldra kerfi gefur ráðh. sér forsendur, sem sýna stefnu ríkisstj. í skattlagningu á almenning. Fjárlagafrv. staðfestir þá viljayfirlýsingn ríkisstj. að hækka tekjuskatta einstaklinga samkv. eldra kerfi um 30–40% frá árinu 1971. Sú aðferð að reikna með 6.5% hækkun skattvísitölu, meðan tekjuhækkun er áætluð 23%, leiðir til 30–40% hækkunar tekjuskatta. Skattbyrði þyngist stórlega. Niðurstaða þessara útreikninga er síðan notuð til samanburðar við skatta samkv. nýja kerfinu. Sá samanburður sýnir ekki miklar skattahækkanir, enda er hækkunin þegar komin inn í samanburðargrundvöllinn. Þá verður ekki séð, að reiknað sé með hækkun fasteignaskatta í dæmum hæstv. ráðh., en ráð er þó fyrir því gert, að tekjuöflun sveitarfélaganna með fasteignasköttum fari stórlega hækkandi samkv. tekjustofnafrv.

Eina raunhæfa leiðin til að gera samanburð á skattbyrðinni samkv. nýju og eldra kerfi er að reikna út þá skatta, sem lagðir voru á 1971 eftir þeim reglum, sem þá giltu og fyrirhugað er að breyta, og hera þá saman við álagningu samkv. nýju kerfi 1972. Hækki skattarnir hlutfallslega meira en' áætluð tekjuhækkun, sem er 23%, þá þyngist skattbyrðin. Eftir þessari aðferð hef ég reiknað út dæmi ráðh. og sýna niðurstöður þeirra útreikninga aðra og raunhæfari mynd af því, sem hér er að gerast. Miðað er við álagningu 1971 í Reykjavík, reiknað með 23% tekjuhækkun milli áranna 1970 og 1971, eins og gert er í fjárlagafrv., og ná útreikningarnir til eftírfarandi skattgjalda: Gjaldár 1971: tekjuskattur með 1% álagi í Byggingarsjóð, tekjuútsvar ásamt kirkjugarðsgjaldi, sjúkrasamlagsgjald og almannatryggingagjald og fasteignaskattur. Gjaldár 1970: tekjuskattur með 1% álagi, útsvar með kirkjugarðsgjaldi og fasteignaskattur, en almannatryggingagjald og sjúkrasamlagsgjald hafa þá verið felld niður. Ég ætla þá að leyfa mér að koma hér með endurreiknuð dæmi hæstv. ráðh., dæmin, sem hann nefndi í hljóðvarpi fyrir nokkrum dögum.

Það er í fyrsta lagi hjón með 2 börn og 257 þús. kr. brúttótekjur. Álagðir skattar 1971 voru 21 290 kr., ekki 33 900 kr. 1972 verða þeir 22 634 kr., en ekki 14 þús. kr. Hækkun skatta er því 6.3%, en lækkun skattbyrðar úr 10.2% í 8.8% af brúttótekjum. Útreikningar ráðh. sýndu lækkun skatta um 20 þús. kr.

Þá var annað dæmi ráðh. um hjón með 2 börn og 380 þús. kr. brúttótekjur. Álagðir skattar 1971 voru 35 094 kr. 1972 verða þeir 45 139 kr. Ég hirði ekki um að telja hér upp það, sem hæstv. ráðh. fékk út úr dæminu. Hækkun skatta er um 28.6% og hækkun skattbyrðar úr 11.4% í 11.9% af brúttótekjum. Útreikningur ráðh. sýndi lækkun skatta um 22 þús. kr.

Þriðja dæmið: Hjón með 6 börn og 770 þús. kr. í brúttótekjur. Álagðir skattar 1971 97 007 kr., en verða 1972 159 865 kr. Hækkun skatta er um 64.8% og hækkun skattbyrðar úr 15.5% í 20.8% af brúttótekjum eða um 34.2% Útreikningur ráðh. sýndi lækkun skatta um 9 þús. kr.

Fjórða dæmið: Hjón með 2 börn og í 230 þús. kr. í brúttótekjur. Álagðir skattar 1971 302 556 kr., verða 1972 448 985 kr. Hækkun skatta er því 48.4% og hækkun skattbyrðar er úr 33.3% í 36.5% af brúttótekjum eða um 20.4%. Útreikningur ráðh. sýndi hækkun skattbyrðar um 27 þús. kr. eða 16.5%.

Og að lokum fimmta dæmi ráðh. Það er einhleypur karl með 510 þús. í brúttótekjur. Álagðir skattar 1971 102 604 kr., 1972 171 380 kr. Hækkun skatta um 67% og hækkun skattbyrðar úr 24.7% í 33.6% eða um 36%. Útreikningar ráðh. sýndu hækkun skatta um 11 þús. kr. eða 6.5%.

Ég ætla ekki að þreyta hv. alþm. lengur með tölum, en öll þessi dæmi sýna hækkun skattbyrðar fyrir utan fyrsta dæmið, en það er naumast hægt í svona útreikningum að reikna með 257 þús. kr. hrúttótekjum hjóna, þegar ófaglært verkafólk hefur almennt brúttótekjur að fjárhæð 430–490 þús. kr. Hvað þá að koma með dæmi, eins og hæstv. ráðh. gerði í dag, um hjón með 6 börn og með 100 þús. kr. í nettótekjur. Það getur verið, að ég hafi misskilið það. Hann talaði um, að við nettótekjur, sem hann nefndi, mætti alltaf bæta 25%. Það eru þá 125 þús. kr. Ef hins vegar væri búið að draga persónufrádrátt frá, þá heita þetta skattgjaldstekjur, en ekki nettótekjur. Ég veit ekki fyrir víst, við hvað ráðh. átti, en ég held, að hjón með 6 börn og 125 þús. kr. tekjur finnist nú vart.

Ég er reiðubúinn að leggja fram þessi dæmi til frekari athugunar og mörg önnur, sem öll eru á sama veg. Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. sé einnig reiðubúinn að leggja fram útreikninga sína. Þetta væri gagnlegt fyrir hv. fjhn., sem fær þetta frv. til athugunar.

Það virðist svo sem hæstv. ríkisstj. geri sér enga grein fyrir tekjum almennings í landinu, en einfaldast er að fletta upp í Hagtíðindum, sem birta tekjur hinna ýmsu atvinnustétta í landinu. Reikna má með, eins og ég sagði áðan, að brúttótekjur ófaglærðs verkafólks hafi verið 350–400 þús. kr. árið 1970. Þær verða því 430–490 þús. kr. árið 1971. Það er rétt, að þeir þjóðfélagsþegnar, sem ekki hafa greitt tekjuskatt, verða nú lægri í sköttum vegna niðurfellingar almannatryggingagjalda og sjúkrasamlagsgjalda. Hitt er ljóst, að skattbyrðin þyngist hlutfallslega mest á miðlungstekjum og tekjum láglaunafólks, en hlutfallsleg hækkun verður minni, eftir því sem tekjurnar hækka.

Ráðizt er að öldruðu fólki mjög hastarlega með frv., og verða skattahækkanir sennilega hvað mestar hjá því. Þannig er felldur út úr lögunum sérstakur frádráttur til handa gjaldendum, sem náð hafa 67 ára aldri, samkv. 16. gr. laga nr. 68/1971. Þá er á það að benda, að niðurfelling almannatryggingagjalds og sjúkrasamlagsgjalds kemur ekki þessu fólki til góða, vegna þess að það greiðir ekki þessi gjöld nú, heldur leggst skattahækkunin, sem mæta á þessum niðurfellingum, með fullum þunga á aldrað fólk. Er þetta vilji hæstv. ríkisstj? Ég held varla eftir orðum hæstv. ráðh. hér í dag. Eða eru svona viðamikil mál lögð fyrir hv. Alþ. í slíku flaustri, að aðstandendur þeirra og ábyrgðarmenn gera sér ekki grein fyrir því, hvað snýr upp og hvað niður á hlutunum?

Herra forseti. Ég fer nú að ljúka máli mínu. Ég hef ekki rætt hér einstakar gr. frv. nú, en til þess gefst eflaust tækifæri síðar. Satt að segja býst ég við og vona, að hæstv. ríkisstj. átti sig á þessu máli öllu nú yfir hátíðarnar og komi sjálf með brtt., þegar þing kemur saman að nýju eftir áramót. Annars verður að virða það við hæstv. fjmrh., að hann skuli, svona rétt fyrir jólin, gleðja fólkið í landinu með loforðum um lækkun skatta. Það má segja, að hann hafi pakkað þessu frv. inn í nokkurs konar jólaumbúðir. En því miður fyrir skattgreiðendur þá verða þeir ekki aðnjótandi skattalækkunar, ef þetta frv. verður að lögum. Mér þykir leitt að þurfa að segja þetta, en þetta er rétt. Sem betur fer þá gefst tími til að athuga þetta mál betur, þar sem frv. verður ekki afgreitt fyrir jól. Ég hvet alla hv. þm. til þess að kynna mér málið ofan í kjölinn og gera það fordómalaust.

Það er mikill munur á þeim niðurstöðum, sem hæstv. ráðh. hefur lýst, og þeim, sem ég hef komið hér fram með. Þetta er ekki í fyrsta skipti, sem menn greinir á um, hvernig eigi að reikna dæmi, eða kannske öllu heldur, hvernig eigi að setja þau upp.

Hv. fjhn. þarf því að kanna þá útreikninga, sem gerðir hafa verið, og gera sjálfstæðar athuganir. Hér er um svo viðamikið mál að ræða, mál, sem varðar hvern borgara í landinu, að enginn vafi má á því leika, hvaða afleiðingar lögfesting frv. hefur.