16.12.1971
Neðri deild: 27. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 778 í B-deild Alþingistíðinda. (564)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég hafði nú ekki ætlað að hlanda mér í þessar umr., en viss ummæli hv. siðasta ræðumanns get ég nú ekki látið fram hjá mér fara án þess að gera aths. við þau, svo einkennileg virðast mér þau vera.

Hv. síðasti ræðumaður, 9. landsk. þm., lét svo um mælt, ef ég tók rétt eftir, og það ætla ég, að ég hafi gert, að það virtist vera markmið þessarar ríkisstj. að beina spjótum sínum að atvinnurekendum og atvinnulífinu og atvinnurekstrinum í landinu. Ég held nú, að engin ríkisstj. muni hafa slík markmið, og ég held, að menn ættu svolítið að stilla málflutningi sínum í hóf, áður en þeir fara að láta sér svona ummæli um munn fara. Ég held, að það hljóti að vera markmið hverrar ríkisstj. að búa svo að atvinnurekstri í landinu, að landsmönnum öllum geti vegnað sem bezt. Hitt er svo annað mál, hvernig tekst til. Mönnum getur sýnzt sitt hvað um leiðir, og þeir geta valið rangar leiðir, en að menn vilji vitandi vits stefna að því að beina spjótum sínum gegn undirstöðunum í þjóðfélaginu, — ég get ekki séð, hvaða tilgangi slíkur málflutningur þjónar.

En úr því að ég er staðinn hér upp, þá er rétt að ég bæti nokkrum orðum við í tilefni af þeim málflutningi, sem stjórnarandstæðingar hafa haft hér uppi. Og þá er nú líka þess að minnast, að þeir hafa æði oft verið að beina ýmsum spurningum til okkar í ríkisstj., og ég held þess vegna, að það væri ekki úr vegi að fara að hema nokkrum spurningum til þeirra stjórnarandstæðinga.

Þeir tala um það, að háski sé á næsta leiti, verðbólga fram undan, hækkanir miklar í vændum. Ég vil nú segja það, að ég hef aldrei sagzt ætla að stöðva verðbólgu. Ég hef þvert á móti sagt, að ef verulegar kauphækkanir yrðu, þá yrði ekki komizt hjá því, að þeirra gætti eitthvað í verðlagi. En nú langar mig til að spyrja þessa hv. stjórnarandstæðinga: Telja þeir, að komizt verði hjá því, að þeirra kauphækkana, sem um hefur verið samið, gæti eitthvað á næsta ári í verðlagi, eða vilja þeir rígbinda verðstöðvun áfram næsta ár?

Það er talað mikið um fjárlög í þessu sambandi, sem vænta má, og menn óskapast mjög yfir því, hve fjárlög verði nú há og útgjöld séu há. Það er rétt, að fjárlög eru há og útgjöld eru há og útgjöld hafa hækkað mjög mikið. Ég skal alveg hreinskilnislega játa það, að mér er það mikið áhyggjuefni. En er ekki rétt að athuga það, hvers vegna fjárlög hafa hækkað, hvers vegna útgjöldin hækka svo mjög sem raun ber vitni um, og er ekki ósköp einfalt að átta sig á því, hvaða póstar fjárlaganna það eru í raun og veru, sem aðallega valda þeirri hækkun, sem hér er um að tefla? Og þá finnst mér líka, að ástæða sé til að spyrja hv. stjórnarandstæðinga: Eru þeir og hafa þeir verið á móti þessum útgjaldapóstum, sem valda aðallega hækkun fjárlaganna? Ég nefni þá fyrst launahækkun opinberra starfsmanna. Voru hv. stjórnarandstæðingar á móti því, að laun opinherra starfsmanna væru hækkuð? (Gripið fram í.) Ég var ekki á móti því, og ég tek afleiðingunum af því möglunarlaust. Eru stjórnarandstæðingar andstæðir því, að tryggingabætur séu hækkaðar svo verulega sem nú er gert ráð fyrir? Það er óhætt að svara þeirri spurningu strax neitandi, en ég vona, að þeir komi hér upp og staðfesti það. Það er þegar staðfest í nál., sem útbýtt hefur verið hér, að þeir skrifa undir þá breytingu á tryggingalögunum, sem væntanlega verður samþ. innan skamms. Það eru ýmsir aðrir útgjaldaliðir fjárlaga, sem hækka. Útgjöld hækka mjög verulega til skólamála, útgjöld hækka mjög verulega til heilbrigðismála, og útgjöld hækka nokkuð til verklegra framkvæmda. Um það verður a.m.k. ekki deilt, að þau hækka í krónutölu. Eru eða hafa hv. stjórnarandstæðingar verið á móti þessum hækkunum? Ég minnist þess ekki, að þeir hafi mælt gegn neinum þessum hækkunum. Ég minnist þess ekki að hafa séð neina till. hér frá þeim um það að lækka nokkurn útgjaldapóst fjárlaga. Okkur getur öllum sýnzt þetta mjög ískyggilegt, hvernig þetta vex í höndunum á okkur, en ég held, að við verðum allir að játa, að við berum ábyrgð á þessu og að við erum þessu samþykkir, að svona sé þetta haft. En ef við erum það, þá hljótum við að vera menn til að játa það, að það verði að afla tekna á móti.

Um hitt getur menn greint á, hvernig þeirra tekna skuli afla, ég vil heyra og hlusta á með mikilli athygli till. hv. stjórnarandstæðinga um það, hvernig þeir með öðrum hætti en gert er ráð fyrir af ríkisstj. hálfu, vilja afla tekna til að standa undir þeim útgjöldum, sem við erum allir í stórum dráttum sammála um, að óhjákvæmileg séu. Og það endurtek ég, að ég skal sannarlega hlusta, hvernig þeir vilja afla þessara tekna með öðrum hætti en við. Það er sú spurning, sem ég vil bera fram til hv. stjórnarandstæðinga.

Það er mikið vandamál að afla tekna, og má lengi og með miklum rökum deila um það, hvernig réttlátast sé að afla þeirra og hver sé réttasta aðferðin í því efni þannig, að það komi rétt niður. En ég held, að það hljóti að vera tvö aðalatriði, sem verður að hafa í huga við fjáröflun ríkisins: Í fyrsta lagi, að byrðarnar komi, eftir því sem nokkur kostur er, réttlátlega niður og í samræmi við greiðslugetu skattþegnanna, og í öðru lagi þannig, að það séu sem minnstar leiðir til þess að skjóta sér undan réttum sköttum, að skattarnir komi til skila. Það held ég, að hljóti að vera þau meginsjónarmið, sem jafnan verður að hafa í huga við skattheimtu.

Það var verið að minnast hér áðan af hv. síðasta ræðumanni á málefnasamninginn og hann taldi, að því er mér skildist, að það væri farið að vanefna eitthvað í þeim málefnasamningi. T.d. nefndi hann það, að það væri víst farið að vanefna það, að Framkvæmdastofnun hefði samvinnu og samráð við atvinnurekendur og einstakar greinar atvinnulífsins um það, hvernig hægt væri að lækka tilkostnað fyrir atvinnugreinar. Ég spyr nú bara: Hvernig á Framkvæmdastofnunin að geta þetta, áður en hún er komin á fót? Nei, svona mega menn nú ekki tala. Fyrst er að koma henni á fót og sýna þá vilja sinn í því efni og sjá svo til, hvort hún stendur ekki við þetta.

Og í annan stað er það þessi kerfisbreyting, sem hér er farið inn á með þeim tekjuöflunarfrv., sem lögð hafa verið fram. Hvort sem menn hafa fleiri eða færri aths. við þá leið, þá er hún ómótmælanlega í algjöru samræmi við þá stefnu, sem boðuð er í málefnasamningnum, algjörlega.

Viðvíkjandi því, sem hann minntist á, hv. síðasti ræðumaður, að lítið færi fyrir því, að létt hefði verið einstökum álögum af atvinnuvegunum, þá vil ég í fyrsta lagi segja það, að þennan málefnasamning, — svo að ég fari nú að kenna, — ber nú ekki að skilja á þá lund, að það sé framkvæmt allt, sem í honum stendur, á fyrstu fimm eða sex starfsmánuðum ríkisstj. Þetta er stefnuskrá, sem vitaskuld er miðuð við heilt kjörtímabil, hvort sem okkur endist svo tími til þess að sitja út það kjörtímabil eða ekki, það mun nú reynslan sýna.

Hv. 3. þm. Sunnl. var að tala um það, og fleiri hafa reyndar verið að víkja að því, að kaupgjaldssamningar hefðu verið gerðir, og í þeim fælust þvílíkar hækkanir, að augljóst væri, að atvinnureksturinn í landinu gæti ekki undir þeim staðið, nema sérstakar aðgerðir væru gerðar. Það er rétt, að það hefur verið samið um hækkanir, hækkanir í áföngum, hækkanir, sem eiga að koma til á tveimur árum. Það hefur með þessum samningum, vona ég, verið tryggður vinnufriður á víðtæku sviði í tvö ár. Það ætla ég, að sé nokkurs virði. Það ætla ég, að atvinnurekendur meti nokkurs. En víst var samið um hækkanir, og sjálfsagt er erfitt að fullyrða um það á þessu augnabliki, hvort atvinnureksturinn í raun og veru getur staðið undir þessu á þessu tímabili eða ekki. Þar eru svo mörg óviss atriði, sem enginn veit um, og þannig er það alltaf, þegar samið er um kaup og kjör, að það eru auðvitað mörg atriði, eins og okkar atvinnulífi er háttað, sem viðsemjendur þá vita alls ekki nákvæmlega um, hvernig út muni koma á því samningstímabili, sem samið er um, t.d. verðlag á útfluttum afurðum o.m.fl. En þessum áfanga hefur verið náð, að samið hefur verið um kauphækkanir í áföngum og vinnufriður tryggður, eins og ég sagði, að ég vona, á þessu víðtæka sviði í tvö ár, án verkfalla. Ég vil spyrja þennan hv. þm. Það þarf ekki að spyrja hann um það, það er ljóst af hans máli, að hann telur, að umsamdar kauphækkanir hafi verið of háar, eða ég skildi hann svo, en ef ég hef misskilið hann, þá er rétt, að hann lýsi því yfir. En þá vildi ég spyrja hann: Hvernig vildi hann fara að? Vildi hann láta koma til verkfalla og reyna, sem ekki er víst, að tekizt hefði, að fá eitthvað hagstæðari samninga frá sjónarmiði atvinnurekenda? En talsvert hefðu þeir nú mátt vera hagstæðari eftir t.d. svo sem þriggja vikna eða mánaðar verkfall, til þess að það hefði borgað sig. Hvað vilja þeir gera, hvað vildu þeir gera? Það er það, sem þeir þurfa að segja til um. Hvernig ætluðu þeir að komast hjá því, að kaup hækkaði nú? Og ef kaup hækkar, hvernig ætla þeir að komast hjá því, að þess gæti eitthvað í verðlagi?

Verðbólga er hættuleg, um það deilir enginn, en það getur verið erfitt að afstýra henni og af tvennu illu eða af tveimur kostum, ef um væri að velja, þá verð ég að segja það, að ég vil heldur fulla atvinnu í landinu og vinnufrið, þó að því fylgi nokkur verðbólga, heldur en algera verðstöðvun, kyrrstöðu, ef henni fylgja verkföll og atvinnuleysi.

Ég skal svo ekki blanda mér í þessar umr. frekar og ætla ekki að ræða sérstaklega um þetta skattafrv. Það má sjálfsagt sitthvað um það segja, og það er ekkert undarlegt, þó að menn greini þar á um einstök atriði. Það er svo auðvitað um skattafrv., ekki síður en önnur, að þau geta lengi staðið til bóta. En hitt ætla ég að vona, — og vil sérstaklega taka fram vegna þeirra ummæla, sem féllu líka hjá hv. síðasta ræðumanni, þar sem mér fannst, a.m.k. á tóninum, hann vera að furða sig á því, að hæstv. fjmrh. hefði verið að lýsa yfir því, að hann ætlaði ekki eða vildi ekki, að fjárlög væru afgreidd með greiðsluhalla, — að allir hv. þm. geri sér grein fyrir því, að það verður ekki hjá því komizt að afla tekna til þess að standa undir útgjöldum og að það mundi áreiðanlega ekki draga úr verðbólguhættu, það mundi auka verðbólguhættu, ef menn ætluðu að fara að stefna í þá átt að afgreiða fjárlög með greiðsluhalla og synja um öflun nauðsynlegra tekna til þess að standa undir útgjöldum. Ég veit, að hver einasti þm. gerir sér þetta ljóst, þó að þeir svo hafi skiptar skoðanir á því, með hvaða hætti á að afla teknanna. En hitt hljótum við öll að vera sammála um, að það verður að afla tekna og að fjárlög má ekki afgreiða með greiðsluhalla. Og þegar útgjöld eru aukin svo mikið sem nú er gert, þá hlýtur auðvitað að þurfa að afla meiri tekna í krónutölu, hvað svo sem menn meina um það, hvort skattbyrðin sé í raun og veru aukin eða ekki. Um það geta menn sjálfsagt lengi deilt og verður lengi deilt.