16.12.1971
Neðri deild: 27. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 796 í B-deild Alþingistíðinda. (573)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Það er augljóst, að það er gert ráð fyrir því, að við stjórnarandstæðingar búum yfir mikilli þolinmæði, enda höfum við sýnt mikla þolinmæði. Ég er ekki að fjargviðrast yfir því, þó að það sé hert á sprettinum rétt fyrir jólin, eins og venja hefur verið hjá næstum því öllum ríkisstj., að ég hygg. En hitt er annað mál, að það er kastað í okkur svo illa gerðum frv., svo óunnum, að furðu sætir. Og það er þess vegna, sem umr. þurfa að verða miklu meiri hér á þinginu en ef frv. væru úr garði gerð eins og hver ríkisstj. ætti að sjá sóma sinn í að gera frv. úr garði. Hvernig er hægt að leggja fram frv. um tekjuskatt og eignarskatt og frv. um tekjustofna sveitarfélaga og hafa naumast nokkur skýringaratriði í grg. um slík frv:? Það er ekki svo, að það sé verið að gera grein fyrir því, hvað sé ætlað að ná miklum tekjum. Nei, nei. Ég held, að sé alveg einsdæmi, að skattafrv. séu lögð fyrir þingið í slíkri mynd.

Að öðru leyti er ákaflega lítið gert til þess að gera grein fyrir, hvernig skattbyrðin er. Ráðh. hins vegar bregða á leik og taka spretthlaup upp í Ríkisútvarp og gera þar sína grein fyrir því, hvað felist í þessum ágætu frv., og það með þeim hætti, að allur almenningur fær auðvitað allt aðra mynd af því, hvað í frv. raunverulega felst, allt aðra mynd af því í þessum ræðum en það, sem sjálf frv. segja raunverulega til um, þegar farið er að athuga þau.

Sá venjulegi háttur hér í þingi er sá, að þegar frv. eru lögð fram, stjfrv. og önnur, tekin á dagskrá og rædd af stjórn og stjórnarandstöðu, þá eru sagðar þingfréttir af þessu, bæði af stjórninni og stjórnarandstöðunni. Þetta gerðist nú sama daginn sem hæstv. forsrh. lagði megináherzlu á, að stjórn og stjórnarandstaða hefðu sambærilega aðstöðu til þess að koma málum sínum að í fjölmiðlum, enda var þetta síðar leiðrétt af hálfu Ríkisútvarpsins, og kann ég því þakkir fyrir, með því að gefa fulltrúum stjórnarandstöðunnar tækifæri til þess að koma fram sínum sjónarmiðum í stuttu máli nokkrum dögum seinna.

En hjá öllu þessu brambolti hefði verið hægt að komast og öllum þessum löngu umr. hér, ef málatilbúnaðurinn hefði verið betri, og það hefði auðvitað verið miklu sæmra, og það kom mér í hug, eftir að hv.

11. landsk. hafði flutt ræðu sína, sem sýndi svo augljóslega, hversu illa gert plagg þetta frv. er, að sæmst væri fyrir hæstv. fjmrh. að draga frv. til baka og vinna svo að þessu í hléinu að búa út sómasamlega gert frv. um tekju- og eignarskatt og leggja það fyrir þingið. Ég geri ekki ráð fyrir, að hann geri það og finnist það særa eitthvað metnað sinn, en hitt er jafn ljóst, að það verður geysimikið verk að vinna í þinghléinu til þess að kafa niður í það, hvað í þessu frv. felst, og gera till. um breytingar á því, af hálfu okkar stjórnarandstæðinga, um leið og við leggjum mikla áherzlu á það að fá miklu meiri upplýsingar en við höfum fengið frá hæstv. fjmrh. Og ég kann honum þakkir fyrir það, að hann hefur látið í ljós það álit sitt, að hann muni að sjálfsögðu ekki verða neitt tregur til þess að færa ýmsa hluti í þessu frv. til betri vegar, ef honum væri sýnt fram á það, að svo mætti gera.

En það, sem ég að öðru leyti vil leggja áherzlu á og tel ástæðu til, að menn taki eftir, er, að það byrja alltaf allar spurningar svo í Ríkisútvarpinu, hvort sem það er í sjónvarpi eða hljóðvarpi, til ráðh.: „Er ekki einhver stefnubreyting í þessu máli, hæstv. ráðh:?“ „Jú, jú, það felst í þessu mikil stefnubreyting. Nú verður þó breytt um stefnu.“ Svona byrjuðu spurningarnar hjá báðum hæstv. ráðh. s.l. mánudag, og hér í kvöld segir hæstv. samgrh„ að nú sé verið að breyta um stefnu, og áður hafi það verið þannig, að fyrrv. stjórnarsinnar hafi sagt: Þetta er sú stefna, sem við höfum, og það er engin önnur leið til. Þess vegna sé nú eðlilegt, að nú komi þeir og sýni það, að þegar ný stjórn er komin til valda, fyrrv. stjórnarandstæðingar, þá sé verið að breyta um stefnu. Hæstv. fjmrh. byrjaði sína ræðu með þessu. Hvað eftir annað fléttaði hann inn í ræðuna, að nú væri verið að breyta um stefnu, og hann endaði ræðuna með því, að nú væri verið að breyta um stefnu.

En ef litið er fram hjá álagningarprósentunum í þessu frv., þá má segja, að hugmyndirnar að haki þessu nýja skattakerfi séu engan veginn frumlegar og á engan hátt ný stefna. Og þær eru alls ekki frumsmíð núv. ríkisstj. Allar meginhugmyndirnar voru settar fram í des. 1970 í skýrslu nefndar, sem starfaði á vegum fyrrv. fjmrh., Magnúsar Jónssonar. Og í almennum aths. við skattalagafrv. s.l. vor var skýrt tekið fram, að þar væri um að ræða skref í heildarendurskoðun stefnunnar í álagningu beinna skatta yfirleitt. Og till. nefndarinnar voru í megindráttum sem hér segir, í tíð fyrrv. ríkisstj., og nú skulu menn bera það saman við þessa nýju stefnu, sem menn telja sér til ágætis að vera að móta hér:

1. Breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga m.a. að því leyti, að á sveitarfélögum yrði létt gjöldum til almannatrygginga, enda skyldi ríkið eitt sjá um að koma á eða viðhalda eftirsóttri jöfnun tekna og eigna meðal þjóðfélagsþegnanna. Sveitarfélög skyldu leggja á útsvör, sem skyldu vera lág, föst hundraðstala af tekjum einstaklinga, en með tilteknum persónufrádrætti.

Í frv. ríkisstj. nú er enginn slíkur persónufrádráttur, en útsvörin eru lág eða föst hundraðstala af tekjum einstaklinganna. Að öðru leyti er þetta allt saman eins að formi til og efni varðandi verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og það er frv., sem liggur nú fyrir Ed.

2. Afnám eignarútsvara, enda skyldi ríkinu einu ætlaður sá álagningarstofn, sem hrein eign er. Hér er líka um það að ræða.

3. Tekjuskattlagning félaga skyldi færast öll yfir til ríkisins.

4. Aðstöðugjöld verði afnumin, en í þeirra stað skyldu fasteignaskattar hækkaðir, enda yrði að telja, að fasteignaverðmæti væru betri mælikvarði á þá þjónustu, sem sveitarfélög veita þegnunum, en sá stofn, sem aðstöðugjald hefur verið lagt á, sem eru heildargjöld fyrirtækjanna.

5. Nefskattur til almenna tryggingakerfisins skyldi felldur niður. Almenna tryggingakerfið yrði að verulegu leyti fjármagnað með launaskatti, sem síðar gæti samlagazt virðisaukaskatti, sem jafnframt mundi, þegar stundir liðu fram, taka að sér það hlutverk í tekjuöflun, sem söluskattur hefur gegnt.

Ég þarf ekki að taka það fram, menn hafa tekið eftir því, að það er engin ný stefna að þessu leyti mörkuð í því frv., sem hér liggur fyrir. Það er bara spurningin um það, hvernig farið er að því.

Þegar við afgreiddum frv: um skattalagabreytinguna á s.l. þingi, þá snerist það, eins og þm. muna, fyrst og fremst um fyrirtækjaskattinn og atvinnureksturinn, en síðan var haldið áfram að vinna eftir þessum meginlínum, og þá var embættismannanefndinni falið að vinna áfram, en í millitíðinni höfðu fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna fengið fulltrúa í nefndinni, sem unnu að þessu máli, og þeir höfðu þess vegna aðstöðu til að fylgjast með undirbúningnum fyrir síðasta þing fyrrv. ríkisstj., sem, eins og réttilega hefur verið bent á hér, eru gagnólíkar vinnuaðferðir og allt aðrar en nú eru viðhafðar, en áreiðanlega hefðu þær verið farsælli og til bóta.

Það er gert ráð fyrir því að stórauka greiðslur úr almannatryggingakerfinu, og um leið og látið er í veðri vaka, að ríkisstj. ætli að draga úr skattlagningu hinna tekjulægri og efnaminni, mun hún ætla sér að stórauka tekjur hins opinhera í heild af aðeins þremur álagningar- eða gjaldstofnum: 1) Tekjum einstaklinga og félaga, á þær leggja bæði ríki og sveitarfélög, 2) hreinni eða skuldlausri eign einstaklinga og félaga, á hana leggur ríkið einungis, og 3) fasteignaverðmætum, til sveitarfélaga einungis.

Nú mætti ætla, að ef ríkisstj. þykist geta sýnt fram á, að skattbyrði hinna miður settu yrði léttari, þá ætti hún að geta sýnt með dæmum, að skattaálögur á meðalborgara, á allan þorra þegnanna, verði mun þungbærari en verið hefur, en það er ekki það, sem hefur verið látið í veðri vaka. Ég hef fullyrt, að skattbyrðin á meðalborgarana, á millistéttina í þjóðfélaginu, muni stórkostlega þyngjast, en sýndarmennskan er í þessum málum eins og svo mörgum öðrum þannig, að fólkið á að halda, að eitthvað allt annað felist í þessum pakka, en í honum felst.

Það er oft búið að tala um það hér í kvöld í þingsölunum, að það sé verið að leggja niður persónuskattana, nefskattana. Þeir eru lagðir niður sem slíkir, það er rétt, sem nefskattar, en auðvitað þarf að afla teknanna, og borgararnir í þjóðfélaginu þurfa að borga þetta, og þeir borga það bara með nokkuð öðrum hætti.

Það var ung stúlka, sem kom heim til sín og sagði við pabba sinn: „Elsku pabbi, þetta er bara líklega góð ríkisstj., því að nú þarft þú ekki að borga fyrir mig sjúkrasamlagsgjaldið og almannatryggingasjóðsgjaldið.“ (Gripið fram í: Þú sagðir okkur þessa sögu um daginn.) Já, var hún ekki góð? Það er óhætt að segja hana aftur. — En blessaður maðurinn sagði eins og var: „Nei, nei, ég þarf ekki að borga þetta fastagjald, en ég þarf auðvitað að borga það, bara miklu meira virði, elskan mín. — Það heitir núna tekjuskattur.“

Hins vegar, eins og ég sagði, þá hefur oft verið um það talað að flytja þetta til svona, og það var markað sem hugsanleg stefna af hálfu fyrrv. ríkisstj., og við höfum heyrt, að fulltrúar Alþfl. hafi tekið mjög vel í þetta. Út af fyrir sig höfum við heldur ekki verið á móti þessu, en ég vil þó vekja athygli á því, að að vissu leyti breytir tryggingakerfið um eðli við slíkar breytingar. Frá því að vera tryggingakerfi með eðlilegum iðgjöldum allra þá breytist það á vissan hátt í það að verða að vissu leyti framfærslukerfi, og það hefur sína sálrænu þýðingu. Þótt það sé rétt, að maður geti viðurkennt, að það sé yfirleitt eðlilegt, að þeir, sem eru betur settir, borgi meira en þeir, sem minna mega sin, þá var það vissulega fyrir hendi í okkar þjóðfélagi, þó að þessi stofngjöld væru hjá öllum, því að mismunurinn kom auðvitað fram í þeim mismunandi tekjusköttum, stighækkandi útsvörum og sköttum, sem við höfðum áður haft.

Það hafa nú komið fram ýmsar aðfinnslur, sem ég skal ekki endurtaka í sambandi við þetta mál. og alveg sérstaklega vil ég segja, að það er mjög bagalegt, að menn þurfi að halda hér uppi löngum ræðuhöldum um það, hverjir skattar, samkv. skattalagafrv., sem fyrir liggur, verði á fjölskyldu af tiltekinni stærð með tilteknar tekjur o.s.frv. Þetta ætti að vera nokkuð ljóst. Það getur vel verið, að þetta sé einn liðurinn í þessari framþróun okkar, þar sem Háskólinn hefur eignazt reikningsheila, að þá sé ómögulegt að komast að réttri niðurstöðu í þessum málum, því að hæstv. fjmrh. segir: „Ekki reiknaði ég þetta út, heldur nefnd, sem mataði einhverja tölvu, sem reiknaði út hlutina.“ Ég endurtek að sjálfsögðu ekki neitt af því, sem kom fram í útreikningum hv. 11. landsk., en þessi dæmi voru svo gjörólík þeim dæmum, sem hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir, að ég var alveg undrandi á því. Nú veit ég hins vegar, að hv. 11. landsk. er sveitarstjóri og þaulkunnugur þessu og hefur aðstöðu til að reikna þessi mál rétt, og það er mjög líklegt, að honum skjátlist ekki mikið í því efni.

En í Ed. í dag fór hv. 2. þm. Reykv., borgarstjórinn í Reykjavík, þar með dæmi, sem var eiginlega alveg sama dæmið og hæstv. fjmrh. var með hér. Það voru hjón með 350 þús. kr. nettótekjur, 440 þús. kr. brúttótekjur, og þessi hv. þm., hv. 2. þm. Reykv., gerir grein fyrir því, — ég geri ráð fyrir því, að hann hafi nokkuð góða aðstoðarmenn til að reikna það út fyrir sig, — að þessi hjón mundu greiða 64 715 kr. eftir þessum nýju lögum, en hefðu greitt 49 661 kr. með 61/2% hækkaðri skattvísitölu, en hér eru ekki í dæminu reiknaðir persónuskattarnir, sem þarna kannske gætu verið um 18 þús. kr. eða 20 þús. kr., sem, eins og ég sagði, eru teknir út úr dæminu, vegna þess að í mjög mörgum tilfellum missa aðilar svo mikið af tekjum sínum vegna breytinga á kaupgjaldsvísitölunni, að það fer í sumum tilfellum hátt upp í það að éta sig upp sem minnkandi tekjur miðað við þau hlunnindi, sem af því eru að þurfa ekki að greiða þessa beinu skatta sem slíka. En hæstv. fjmrh. sagði hér, að þau mundu greiða 90 þús. kr. eftir nýja kerfinu, eftir gamla kerfinu, eins og hann kallaði það, 92 þús. kr.

Auðvitað skal ég ekki lengja umr. hér með því að fara með fleiri svona dæmi, þótt ég hafi þau hér í höndum. En það er næsta furðulegt, hversu geysilegur mismunur er hér á. Þetta eru aðilar, sem stýra sveitarstjórnarmálum og hafa aðstöðu til þess að vera kunnugir og aðstöðu til þess að hafa kunnáttumenn til aðstoðar. Það er einkennilegt, hve mikið ber á milli. Látum það nú vera, þótt þetta standist ekki allt saman nákvæmlega.

Hæstv. fjmrh. taldi, að skattlagningin á fyrirtækin væri alveg vel viðunandi, og þá má vel vera, að þau þurfi ekki að kvarta undan því, þótt hún sé nokkru hærri en hún hefði orðið eftir eldri skattalögum. En þó er rétt, að við gerum okkur grein fyrir helztu breytingunum á þeim reglum, sem hér gilda og gilt hafa, og þær eru helztar þær, að um leið og horfið skal frá því að leggja tekjuútsvar og eignarútsvar á félög, skulu tekjuskattar og eignarskattar stórhækkaðir, og virðist hækkunin nema mun meiru en sem svarar til niðurfellingar útsvaranna. Fyrir skattalagabreytinguna s.l. vor nam tekjuskattur og tekjuútsvar félaga samtals um 43% af skattgjaldstekjum, þegar tekið hefur verið tillit til þess, að útsvarið var frádráttarhæft, en samkv. frv. um tekjuskatt hækkar samsvarandi álagningarprósenta upp í hvorki meira né minna en 53%. Samkv. skattalögunum frá s.l. vori skyldi eignarskattur félaga vera 0.7% af hreinni eign, jafnframt því sem eignarútsvör skyldu afnumin.

Í frv. er ætlazt til þess, að þessi skattur verði 1.2%, og þegar haft er í huga, að hið nýja fasteignamat mun hækka hreina skattskyldu einnig verulega frá því, sem verið hefur, þá virðist hér vera um mjög íþyngjandi hækkun að ræða. Að vísu var samtala eignarskatts og eignarútsvars félaga áður samtals 1.7%, en þá reiknað af ólíkt lægri stofnkostnaði en verður í framtíðinni. Auk hinna háu skatta á hreina eða skuldlausa eign þá kemur verulegur skattur, eins og bent hefur verið á, á fjármuni, sem hrein eign er bundin í, nefnilega fasteignaskatturinn, sem skal vera a.m.k. 1% af nýju fasteignamati. á móti kemur núna niðurfelling aðeins helmings aðstöðugjalds, a.m.k. fyrsta árið eftir þessa fyrirhuguðu breytingu.

Heimildir samkv. ákvæðum skattalaganna frá s.l. vori til sérstaks endurmats framleiðslutækja vegna verðhækkana undanfarinna ára hafa verið skertar til mikilla muna og þar með afskriftarmöguleikar, og ég held, að það væri ástæða til þess að athuga vel í n. að lagfæra eitthvað frá því, sem gert er ráð fyrir í frv. Enda þótt mönnum finnist kannske, að endurmatið hafi gengið of langt til hags fyrir fyrirtækin, ef menn eru þess sinnis, í fyrri skattalöggjöf, þá held ég, að það sé gengið of skammt núna, og það mætti fara bil beggja.

Ég skal svo koma nokkrum orðum að ákvæðum laganna frá því í vor um svo kölluð A-hlutafélög, sem skyldu mega leggja tekjuafgang í svo kallaðan arðjöfnunarsjóð og skyldu mega greiða arð, sem gæti orðið skattfrjáls að vissu marki. Þessi ákvæði hafa verið þurrkuð út, og þeim hefur verið fundið mikið til foráttu. Það hefur verið vitnað í próf. Ólaf Björnsson, fyrrv. alþm., í þessu sambandi, sem hafði spurt einhverja spekinga, sem þá höfðu unnið að þessu máli, þ.e. spurt nefndina, hvort hún þekkti nokkur dæmi til þess, að þetta væri nokkurs staðar annars staðar, og það er upplýst hér, að sú nefnd hafi sagt, að hún vissi ekki til þess. Norðmenn voru þá nýbúnir að taka þetta í lög hjá sér, og mér finnst næsta ótrúlegt, að það geti staðizt, að nefndin, sem undirbjó skattalögin þá, hafi upplýst próf. Ólaf Björnsson um það, að þeir nefndarmenn þekktu ekki nokkur dæmi til þessa í öðrum löndum. Mér þykir miklu líklegra, að það séu mörg dæmi fyrir þessu, kannske með öðrum hætti. Hér var um vissa takmörkun að ræða, eins og ég sagði áðan. Sumir sögðu hættu á því, að þetta mundi leiða til þess, að einstaklingar eins og lögfræðingar færu að mynda hlutafélög og skammta sér laun og allt því um líkt. Ég held, að ástæðulaust hafi verið að bera nokkurn kvíðboga fyrir því, en hins vegar mega menn ekki gleyma því, að þessum ákvæðum var ætlað alveg sérstakt hlutverk, að örva almenning til þátttöku í atvinnurekstri með áhættufjármagni hér á landi eins og í öðrum iðnþróuðum löndum, þar sem það hefur gefizt mjög vel, og að dómi nefndarinnar, sem undirbjó frv. að þessum lögum, voru hér á ferðinni mjög merkileg ákvæði, eins og hún sagði sjálf, sem skyldu stuðla að tvennu í senn, þróun heilbrigðari fjármagnsmarkaðar og iðnþróun með atbeina stórfyrirtækja í formi einkarekstrar. Ég held, að það liggi í augum uppi, að þótt þetta hafi verið ágætismenn í þessari nefnd, þá fundu þeir ekki upp púðrið. Það voru fleiri, sem höfðu fundið upp þetta atriði en þeir.

Hitt vil ég svo segja: Auðvitað þarf ekki að deila mikið um þetta atriði nú, því að ég held sjálfur, að þetta hafi litla þýðingu, meðan ekki er búið að koma á almennum verðbréfamarkaði í landinu. En það var líka beinlínis gerð grein fyrir því, að þetta atriði mundi stuðla að því að koma á almennum verðbréfamarkaði í landinu, og meginmarkmiðið, sem ég tel vera með almennum verðbréfamarkaði í landinu, er að fá einstaklinga til að vera beinir þátttakendur í atvinnurekstrinum með skuldabréfakaupum í sjálfum atvinnufyrirtækjunum og meta atvinnufyrirtækin eftir því, hvernig þau ganga o.s.frv. varðandi það, hvað þeir vilja gefa mikið fyrir hlutabréfin o.s.frv. Núna höfum við ekkert annað kerfi en það, að einstaklingur, sem hefur eitthvað aflögu, leggur það í sparisjóði og banka, og svo eru það bankastjórarnir, sem lána atvinnufyrirtækjunum þetta fé. Þetta gæti einstaklingurinn gert sjálfur, ef við hefðum kerfi, sem þróast hjá öðrum iðnþróuðum þjóðum og hefur gefizt bezt. Og til að örva þetta varð þetta ákvæði til. Ef það dregur úr því, að almennur verðbréfamarkaður verði til hér, þá er slæmt að hafa fellt það niður. Ég tel enga sérstaka hættu hafa stafað af því. Um það var talað, að það væri verið að opna allar gáttir o.s.frv., eins var talað um að ná svo og svo miklu úr fyrirtækjunum, í sambandi við flýtifyrninguna, sem mjög er skert. Ég get vel fallizt á, að það getur vel verið, að það hafi verið of mikil hlunnindi í flýtifyrningunni í lögunum frá síðasta vori, en skerðingin er líka mjög mikil núna, þar sem það verður að dreifa henni á 5 ár, þessum 30% og fyrna þá aðeins 6% árlega. En það er algjör misskilningur, að flýtifyrningin verði til þess, að fyrirtækin verði skattlaus. Þótt flýtifyrning væri tekin í því tilfelli, að fyrirtæki verði skattlaust það ár, þá var þetta til þess að byggja upp fyrirtæki. Fyrirtækið varð miklu sterkara fyrirtæki og miklu líklegra til þess að geta borgað meiri skatta á komandi árum í rekstri sínum, í blómlegri rekstri, með aukið eigið fé í fyrirtækinu, minna lánsfé, minni vaxtabyrði og allt því um líkt. Það er allt of einhliða litið á það mál að álíta, að þótt fyrirtæki jafnvel með geysilegri flýtifyrningu losni við skatta eitt ár, séu það einhver sérstök hlunnindi fyrir félagið og tapað fé fyrir þjóðfélagið, því að þjóðfélagið á kannske eftir að græða þetta fé upp í miklu ríkari mæli í blómlegum rekstri fyrirtækisins í framtíðinni.

Það er ein breyting, sem er til þess að bæta starfsskilyrði fyrirtækja, og hér er um að ræða ákvæði í 4. tölul. 6. gr. frv. um tekju- og eignarskatt um heimild til sérstakrar aukafyrningar, þegar endurkaupsverð fastafjármuna hækkar, og ákvæði þetta er að mínum dómi athyglisvert og ætti að geta orðið til verulegs gagns.

Ég held, að það, sem vekur mestan ugg í hugum okkar, sem erum á móti þessum frv. að ýmsu leyti, — þótt við séum alls ekki á móti heildarstefnunni, heldur aðeins hvernig um hana er búið, — sé þessi stórhækkaða tekjuskattsprósenta, eins og síðasti hv. ræðumaður tók fram, þar sem nærri allir lenda í 45% skattprósentu, og hækkun eignarskatts í kjölfar bæði hækkaðrar álagningarprósentu og hækkunar sjálfs álagningarstofnsins vegna hækkaðs fasteignamats.

Ég held, að það sé ómögulegt annað en að gera ráð fyrir, að stórkostlegar skattahækkanir leiði af þessum lögum, og ef það á ekki að verða, þá veit ég ekki, hvernig hæstv. ríkisstj. ætlar að komast í gegnum afgreiðslu fjárlaganna. Hæstv. fjmrh. gerði ráð fyrir tvöföldun á tekjuskattinum úr u.þ.b. 1 600 millj. kr. upp í rúmar 3 þús. millj. kr. Það er auðvitað töluvert mikil álagning. Hann hefur hins vegar gert grein fyrir því, að síðan verður ríkið að taka að sér aðrar skuldbindingar, þannig að það, sem ríkið fær nettó af þessu, er um 1 000 millj. kr.

Við þurfum að gera okkur grein fyrir því, hvort landsmenn greiði hærra hlutfall af tekjum sínum í skatt til ríkis og sveitarfélaga samkv. hinu nýja kerfi en þeir gerðu 1971, og þegar málið er skoðað og gerður raunhæfur samanburður á þessu tvennu, þá kemur í ljós, eins og glöggt kom fram í máli hv. 11. landsk., að raunveruleg skattabyrði þyngist, og hún þyngist verulega. Hún þyngist mismikið, það er alveg rétt, en sennilega þyngist hún mest á miðlungstekjunum, eins og reyndar hafa verið sýnd dæmi um.

Ég skal svo að lokum víkja dálítið að því, sem talað hefur verið um áhrifin á vísitöluna. Hæstv. fjmrh. segir, að þörf sé á að fella niður nefskattana. Nú eru nefskattarnir ekki felldir niður nema sem slikir, eins og ég sagði áðan, heldur er þeim breytt í annað form, og borgararnir verða bara að borga þá í annarri mynd, svo að það er að vissu leyti villandi að vera alltaf að tala um niðurfellingu á þessum gjöldum. En eins og okkar kerfi er, þá er gert ráð fyrir allt að 4% lækkun kaupgjaldsvísitölu, og það þýðir, að laun borgaranna verða svo og svo miklu minni. Spurningin er þá: Hvað er mikill mismunur á launalækkuninni og þessum beinu gjöldum, sem þeir losna við, þegar meta á, hvað mikil hlunnindi eru í þessu? Nú er það að vísu sagt um leið, að vísitalan lækkar ekki, því að það á að lækka niðurgreiðslur, og við það fer vísitalan víst upp um hið sama eða eitthvað svipað. Launin verða hin sömu, og þá verða borgararnir að borga helztu neyzluvöru sína miklu hærra verði. Ég held, að af þessum 450 millj., sem á að lækka niðurgreiðsluna um, gangi 350 millj. inn í landbúnaðarvöruverðið, sem þá hækkar. Þá verða menn að borga 350 millj. krónum meira á ári fyrir kjöt og mjólk og aðrar landbúnaðarafurðir. Þetta er auðvitað baggi á borgarann, sem hann verður að borga fyrir að losna við almannatryggingagjaldið og sjúkrasamlagsgjaldið. Ég ráðlegg hæstv. ríkisstj. að reyna ekki að hlekkja almenning um það, hvað í þessum frv. felst, því að skattseðlarnir verða sendir út á sínum tíma og almenningur í landinu mun, áður en langt um líður, geta metið það sjálfur, hvernig skattabyrði hans er miðað við það, sem áður hefur verið.

Ég hef áður átalið það hér og talið það óverjandi að ganga frá afgreiðslu fjárlaga, áður en afgreidd eru tekjuöflunarfrv., sem eru jafn óviss og í jafn mikilli þoku eins og þetta frv., sem hér um ræðir. Frá því verður nú ekki snúið úr þessu, að ég hygg, og aðalatriði málsins er þá að nota tímann vel til þess að vinna að endurbótum á þessu frv.

Mér er alveg ljóst, að margir gallar á þessu frv. stafa af einhverjum klaufaskap, eins og vegna einhvers flýtisverks, þannig að það er mjög auðvelt að færa það til betri vegar og án þess að haggað sé nokkuð við þeirri stefnumótun, sem gert er nú svo mikið úr. Við munum að sjálfsögðu nota aðstöðu okkar, þegar málið fer til n., og ég geri ráð fyrir, að það verði eftir þessa umr., enda er það alveg óhjákvæmilegt, vegna þess að þetta er svo margbrotið mál, að ef vel á að vera, þarf það að sæta meðferð í n. í þinghléinu, og það legg ég mikla áherzlu á. Þegar málið er komið í n., þá hefur stjórnarandstaðan einnig aðgang að embættismönnum, sem unnið hafa að þessu máli, sem hún ekki hefur áður. Því vil ég að lokum enda mál mitt með því að leggja áherzlu á, að n. starfi í þinghléinu, sem fyrirhugað er, og með því móti gefist stjórnarandstöðunni tóm til þess, þótt seint sé, að koma að sínum aths. og till., sem ég hygg, að yrði til mikilla bóta við meðferð málsins.