17.12.1971
Neðri deild: 28. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í B-deild Alþingistíðinda. (576)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég vona, að mál mitt hér verði ekki til þess að tefja þingstörfin, og ég held, að það, sem ég hef hér að segja, eigi ekki að gefa tilefni til umr.

S.l. fimmtudag fór hér fram í hv. Nd. 1. umr. um frv. um breyt. á lögum um tekju- og eignarskatt. Í máli mínu þar lagði ég fram dæmi um það, hvernig skattbyrði gjaldenda breyttist miðað við gildandi skattalög og þau, sem boðuð eru. Hæstv. fjmrh. hafði áður í Ríkisútvarpinu greint frá nokkrum dæmum og einnig í framsöguræðu sinni hér s.l. fimmtudag. Ráðh. hefur skýrt frá því, að Reiknistofnun Háskólans hafi reiknað út hans dæmi, og ég dreg alls ekki í efa, að útkoman úr þeim dæmum er rétt. En það, sem mér finnst skipta öllu máli, er, á hvaða forsendum útreikningarnir eru byggðir. Og forsendurnar hlýtur Reiknistofnun Háskólans að hafa fengið einhvers staðar.

Það er kannske oflæti, þegar ég segi, að ég telji mig sjálfan vita nokkuð um skattamál og treysti mér til að reikna, og ég efast ekki um, að það getur ráðh. líka. En það er svo alvarlegur munur á niðurstöðum okkar, og þessi dæmi eru nú farin að birtast í dagblöðum, að ég held, að almenningur eigi rétt á því að fá að vita hið sanna og það sem fyrst. Þess vegna finnst mér, að það sé ekki hægt að bíða eftir niðurstöðum eða áliti hv. fjhn., sem fær þetta mál til meðferðar.

Ég get ekki látið hjá líða að lýsa nokkurri undrun minni yfir því, að þeim stofnunum, sem annast skattlagninguna í landinu, skuli ekki vera falið að gera samanburð á skattlagningunni eftir mismunandi kerfum. Þessir aðilar sitja þó uppi með mestu þekkinguna, held ég, að allir geti verið sammála um. Það eru þess vegna tilmæli mín til hæstv. fjmrh., að hann hlutist til um það, að ríkisskattanefnd verði falið að gera samanburð á þeim útreikningum, sem lagðir hafa verið fram, og ríkisskattanefndin leggi sína útreikninga fram sem allra fyrst, þannig að þm. geti fengið þá í hendur, og þetta gerist þá helzt, áður en afgreiðsla fjárlaga fer fram. Þessir útreikningar þurfa að sýna, hver breyting verði á raunverulegri skattbyrði einstaklinga milli áranna 1971–1972, en það er einmitt þar, sem munurinn kemur fram í þeim dæmum, sem lögð hafa verið fram. Að sjálfsögðu verður að taka inn í þessa mynd alla þá skatta, sem fyrirhugað er að breyta, ýmist til hækkunar eða lækkunar, og þá skatta sem sagt, sem áhrif hafa á greiðslubyrði einstaklinga eða gjaldabyrði þeirra. Ég vænti þess og raunar veit ég það, hæstv. ráðh. hefur lýst því yfir, að hann muni leggja fram útreikninga sína og forsendur þeirra. Ég vænti þess, að þetta komist bæði í hendur þm. og ríkisskattanefndar, ef hæstv. ráðh. felst á að láta hana annast þessa útreikninga.