07.03.1972
Neðri deild: 47. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í B-deild Alþingistíðinda. (584)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Um fá mál hefur verið meira rætt manna á meðal í vetur en um skattafrv. nýju, tekjustofna sveitarfélaga og breytingar á tekju- og eignarsköttum. Og allir hafa spurt: „Er þetta til bóta eða er þetta til skaða?“ Hér var því lýst áðan af frsm. meiri hl. n., að frv. væru ætluð til þess að stefna að réttlátari dreifingu skattbyrðarinnar, og hæstv. fjmrh. tók þannig til orða hér áðan, að þetta væri ugglaust til bóta, því að það ætti að leggja á tekjur, þar sem tekjur eru, og eignir, þar sem eignir eru.

Nú langar mig að segja hér örlitið frá því, sem menn hafa verið að velta fyrir sér, bæði þeir, sem eru í stjórnarandstöðu, og stjórnarsinnar úti á landsbyggðinni. í framsöguræðu þess, sem talaði fyrir meiri hl. n., virtist mér koma fram, að hann bæri aðallega saman tekju- og eignarskatta og útsvör annars vegar við það, sem áður hefði verið, en í ræðu hæstv. fjmrh. virtust fasteignaskattarnir teknir inn í þetta. Það skiptir geysilega miklu máli, hvort þeir standa utan eða innan við þennan samanburð, því að einmitt eru það fasteignaskattarnir, sem munu hækka hvað mest við þessar breytingar vegna hins nýja skattmats, sem nú er komið til framkvæmda.

Það hefur verið mikið látið af því, hve það væri góð breyting að fella niður nefskattana, og ekki skal ég andmæla því. En mér virðist stundum, að það sé gert nokkuð mikið úr þeim gæðum, sem af því hljótast, og vil þess vegna minna á það, sem hér hefur ekki komið fram, að allir, sem voru 67 ára, borguðu engin almannatryggingagjöld. Þess vegna eru engar breytingar gerðar varðandi þá. Og það hefur verið talað um unga fólkið í skólunum, það hafi verið felldir niður nefskattar á því. Rétt er það, að samkv. almannatryggingalögunum átti hver, sem orðinn var 17 ára, að greiða iðgjald til trygginganna, en það var jafnframt í þeim lögum, að væri maðurinn ekki í ákveðnu tekjumarki, þá var viðkomandi sveitarfélagi skylt að greiða fyrir hann tryggingaiðgjöldin, og það var gert í mjög mörgum tilfellum, þannig að þær bætur, sem þetta gerir gagnvart öldruðu fólki og ungu fólki, eru ekki að öllu leyti eins miklar og hér er talað um.

Hitt er annað mál, að ég tel þetta vera samt sem áður örugglega til bóta og vil í því sambandi benda á, að áður voru þetta kannske fremur heimildarákvæði, hvað varðaði unga fólkið, og var þess vegna ekki alls staðar notað, sums staðar og sums staðar ekki, þannig að af þessu skapaðist misræmi. Í þessu sambandi vil ég hér minna á, að mér sýnist í þessum nýju frv. vera ýmis heimildarákvæði, sem vafasamt er, að verði notuð nema sums staðar, en sums staðar ekki, og þannig geti þau valdið margs konar misrétti eftir því, hvar menn eru búsettir á landinu.

Hér var áðan sagt, ég held, að það hafi verið hæstv. fjmrh., að það hefði ekki verið hægt að framkvæma tryggingalöggjöfina nema breyta tekju- og eignarskattslögunum. Alþfl. er einmitt að benda á í sambandi við nál. sitt hér, að vel hefði þetta mátt með því að leggja á sérstakan skatt til þess að ná inn tekjum vegna tryggingalöggjafarinnar. Og þegar hæstv. fjmrh. ræddi hér um það áðan, hve þetta mundu hafa verið geysilega háar tölur, sem lagzt hefðu t.d. á hjón, mig minnir, að hann nefndi 22 þús. kr., ef þessu hefði ekki verið breytt, og 15 þús. kr. fyrir einhleypan karlmann og einhleypa konu 14 þús. kr., þá datt mér í hug í þessu sambandi, að það hefur verið reiknað út, hve vísitalan hefur verið látin lækka með því að taka inn í dæmið nú, að fella eigi niður nefskattana, sem kallaðir eru, og einnig sú breyting, sem gerð var rétt um áramótin, að tryggingafélög bifreiða máttu ekki hækka sín iðgjöld, en máttu á móti láta menn taka á sig ákveðna sjálfsábyrgð. Það voru ekki hækkuð tryggingaiðgjöldin, vegna þess að það hefði haft áhrif á vísitöluna, og nefskattarnir eru færðir til í skattbyrðinni og koma nú ekki inn í vísitöluna. Samtals skilst mér eftir þeim útreikningum, sem hér hafa legið fyrir undanfarið, að um 6 vísitölustig mælist ekki í vísitölunni nú, sem annars hefðu mælzt eftir áður gerðu og áður notuðu kerfi.

Hvað eru 6 vísitölustig á kaup? 6 vísitölustig á t.d. kaup verkamanns, sem hefur 20 þús. kr. tekjur á mánuði, eru það mikið á ársgrundvelli, að það er verið að taka af slíkum manni gegnum vísitöluna jafnháa upphæð og fjmrh. nefndi hér áðan, þegar hann var að nefna, hver iðgjöld hefðu þurft að vera á einhleypan einstakling, eða 15 þús. kr. Það er því ekki allur munurinn á því, sem þarna er gert, þó að ég skuli manna fyrstur viðurkenna, að mér finnst að ýmsu leyti hafa verið haldið hreinlegar á spilunum en annars hefði verið. En það er ekki alls staðar verið að lækka á mönnum gjöldin, eins og stjórnarliðar vilja halda fast fram. Einhver mundi kannske segja hér: Grundvelli vísitölunnar hefur ekki verið breytt með því að taka nefskattana út úr. En það er ekki rétt. Útreikningurinn er hafður eins, en grundvellinum hefur verið breytt. Vísitölunefskattarnir hafa verið felldir niður, en færðir annars staðar í skattkerfið. Menn verða að greiða nefskatta sína, en á annan hátt og annars staðar og kannske ekki allir á sama hátt og áður, en þetta er greitt eftir sem áður, og þess vegna er þarna verið að leika sér með vísitöluna. Um það er ekki blöðum að fletta.

Fjmrh. sagði hér áðan: „Það á að leggja tekjuskattinn á, þar sem tekjur eru, og eignarskattinn, þar sem eignir eru.“ Við skulum athuga þetta ofurlítið nánar. Hvernig er farið með unga fólkið, sem nú er að byggja? Margan veit ég íbúðarbyggjandann, sem byggir um tveggja millj. kr. íbúð og á sama og ekkert í henni. En það á að leggja hækkaða fasteignaskatta á þetta fólk. Mig grunar, að því þyki ekki vel með sig farið eftir þessar skattabreytingar. Og hvernig er farið með aldrað fólk? Margt af því hefur kannske mjög litlar tekjur, en á sínar fasteignir, og það hafa hækkað verulega gjöld á þeim. Þannig sýnist mér, að hefði ríkisstj. viljað fara vel að þessum málum, hefði hún þurft að athuga miklu betur, hvernig þetta leggst á unga fólkið, sem er að koma upp íbúðum yfir höfuðið á sér, og líka athuga, hvernig þessar skattabreytingar fara með eldra fólkið, sem hefur orðið litlar tekjur, en á kannske fasteignir og verður nú að greiða af þeim gjöld. Að öllu þessu athuguðu hef ég ekki getað komizt að öðru en því, sem mér sýnist flestir komast að þessa dagana, hvort sem þeir eru í stjórnarandstöðu eða eru stjórnarliðar, að gjöldin munu hækka verulega á flestum stéttum þjóðfélagsins.

Hv. 4. landsk. þm. var að ræða um það hér áðan, að hann kæmi ekki auga á það, hvernig ætti að skipta tekjum milli hjóna, ef konan ynni ekki úti, og þá yrði hún eins konar þerna eiginmannsins, ef svo yrði gert. Ég held, að flestir viti, að til eru ýmsar svo kallaðar óbeinar tekjur. Við skulum taka t.d. húsaleigu manns, sem er í sinni eigin húseign. Við skulum taka ýmislegt annað, t.d. vinnu eiginkonunnar í heimilinu, hvað hún sparar geysilega mikið í útgjöldum og auðveldar eiginmanninum tekjuöflun hans, og enginn vandi ætti að vera að finna eitthvert kerfi, sem sanngjarnt þætti, til að meta þessa vinnu inn í sambú hjónanna. Sumar konur geta unnið úti, vegna þess að heimili þeirra er svo létt, kannske barnlaust eða með 1–2 börn. En aðrar konur geta ekki unnið úti, vegna þess að margt barna er á heimilinu. Hjón í síðara dæminu hafa þyngri skattbyrði hlutfallslega en hjón, þar sem konan vinnur líka úti. Ég hef aldrei getað fundið neitt réttlæti í þessu. Þess vegna tel ég, sem ég hef raunar heyrt ýmsa ræðumenn hér taka undir í dag, að þá fyrst væri komið meira réttlæti og miklu meira réttlæti í skattlagningu hér á landi, þegar hver einastí þegn er sjálfstæður skattgreiðandi.

Það var ekki annað en þetta, sem ég vildi koma hér á framfæri. Það var að sýna fram á, að þó að ég telji margt í frv. til bóta, þá vantar mikið á, að um vissa hluti sé hugsað. Ég undirstrika það alveg sérstaklega varðandi ungt fólk, sem er að byggja yfir sig eða kaupa sér íbúð. Ég álít, að það muni koma mjög harkalega niður á því, bæði að það á að fella niður vaxtafrádrátt, hvað útsvar snertir, og eins hvað því er ætlað að bera háan fasteignaskatt, eins og nú horfir. Og svo hitt varðandi aldrað fólk, þegar það er komið yfir 67 ára aldur og er þó með fasteignir, sem kannske gefa ekki raunverulega neitt af sér nema húsaleiguna til þess, meðan það býr í því, en viðhald e.t.v. allmikið. Ég veit allmörg dæmi þess, að því hefur orðið nógu erfitt með fasteignaskattinn, eins og hann hefur verið, hvað þá þegar hann hækkar, og ef það eiga aðeins að verða heimildir í lögum, að það megi fella fasteignagjöld niður gagnvart þessu aldraða fólki, þá efast ég um, að það verði nema sumir, sem fái að njóta þeirra heimilda, eins og þetta hefur oft verið framkvæmt, en sumir njóti þeirra ekki.