07.03.1972
Neðri deild: 47. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 884 í B-deild Alþingistíðinda. (592)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Vilhjálmur Hjálmarsson:

) Herra forseti. Ég skal nú ekki fyrir mína parta lengja þessar umr. mikið, úr því sem orðið er. Ég vil, út af því sem hv. síðasti ræðumaður kom að, þar sem hann vefengdi, að fulltrúum atvinnuveganna hefði blöskrað frágangur frv. í fyrra, árétta það, sem ég sagði hér áður, að þeir lögðu það til í sínu erindi, að flýtifyrningar af endurmatsheimildunum yrðu felldar niður. Það er þetta atriði, sem við er átt, þegar þessu hefur verið slegið hér fram, og að þessu getur hv. þm. gáð við tækifæri.

Hann er óánægður yfir því, hv. frsm. 1. minni hl., að ég fann að því jafnhliða því, sem ég benti á aðrar veilur í þeirra málflutningi, að þeir leggja það helzt til að vísa þessum málum frá og að þeir ekki hefðu tilbúnar sínar brtt. nú, þegar hann var búinn að halda hér langa ræðu um þann seinagang og þær tafir, sem málið hafði orðið fyrir af völdum stjórnarinnar. Ég vil bara endurtaka það, að mér finnst, að á þeim 21/2 mánuði, sem liðinn er, frá því að frv. var lagt hér fram, þá hefðu þessir hv. þm. getað verið búnir að gera sér svo mikla grein fyrir málinu, að þeir hefðu tilbúnar brtt. sínar nú. Ég vil einnig minna á, að það var jafnframt það, sem olli því, að ég fann að þessu, að fyrir nokkrum dögum var stungið upp á því af hálfu sjálfstæðismanna að haga þessum umr. þannig hér, að taka 2. umr. málsins í dag og 3. umr. á morgun, að það var búið að tala um þetta á milli þm. eða forustumanna flokkanna.

Það er nú eiginlega broslegt og sýnir, að það er orðið smátt, sem þeir finna sér til, hv. sjálfstæðismenn, í sambandi við málflutning hér, þegar tveir þm. taka sig til og leggja út af því í alllöngu máli, að ég hafi sagt í ræðu minni, að nú héldi endurskoðun málsins áfram! Hvað þýðir að vera að tala svona, eins og menn hafi hvorki séð eða heyrt að undanförnu? Fyrst og fremst liggur nú þetta frv. hér fyrir, og það er aðeins um afmarkaða þætti tekju- og eignarskattslaganna. Þar að auki er það margyfirlýst af hálfu ríkisstj. og stuðningsmanna hennar, að þeirri endurskoðun, sem hafin var í haust og er stíluð upp á heildarendurskoðun á kerfinu öllu, verður að sjálfsögðu haldið áfram. Og þetta, sem nú er verið að gera, er nánast til þess að afnema sárustu agnúana, sem ómögulegt var að búa við áfram, og að breyta lögum um tekjuskattinn til samræmis við það, sem búið er að gera á öðrum sviðum löggjafar. Það sýnir ekki merkilega málefnastöðu, þegar farið er að gera atriði úr svona hlutum og reyna að snúa út úr á þennan lítilfjörlega hátt.

Ég vil líka segja það út af lestri hv. 2. þm. Vestf. áðan um störf n., að ég hef nú verið í fjhn. áður hér í hv. d. Og ég man ekki betur en að þar sé allt ósköp svipað eins og það hefur gengið til. Það er engin ný bóla, að n. hafi samstarf við ríkisstj. um þessi mál. Ég held, að þetta sé ákaflega líkt og það hefur verið og sé ekki nokkur ástæða fyrir þennan hv. þm. eða aðra að fjargviðrast út af þeim vinnubrögðum, sem í vetur hafa verið um hönd höfð í n.

Hv. 5. þm. Norðurl. v. taldi, að flati skatturinn, sem nú er tekinn upp í sambandi við útsvörin, yrði til þess að flækja skattakerfið. Það á vafalaust eftir að vinna út ákvæðin um flata skattinn ítarlegar en gert er nú, þegar hann er upp tekinn. Af ástæðum, sem áður hefur verið skýrt frá, var óhjákvæmilegt að fara yfir í þetta nú, en draga það ekki. Það á vafalaust eftir að vinna þetta nánar, en ég vil leyfa mér að halda því fram, og það er mín skoðun, að það sé einmitt hagfellt að setja lög um þetta efni nú og fá reynslu á þetta fyrirkomulag við álagninguna hjá sveitarfélögunum nú í sumar. Og ég get ómögulega fallizt á það, að slíkur flatur skattur eigi að þurfa að verða til þess að flækja álagningarkerfið eitthvað sérstaklega, gera það flóknara.

Þeir eru enn þá að basla við skattvísitöluna og segja, að hún hafi verið hækkuð um 20% við afgreiðslu fjárlaga 1971. Það var ósköp auðvelt að hækka hana um 20% með því að skilja eftir heilan milljarð af útgjöldum ríkissjóðs utan við fjárlögin. Með svona kúnstum er hægt að gera ýmsa hluti sér til hagræðis, þegar kosningar fara í hönd. En það er varla til þess að hrósa sér af því.

Hv. þm. Ólafur Einarsson flutti hér ágæta ræðu vafalaust, en ýmislegt var þó á misskilningi byggt hjá þessum hv. þm. Hann hélt því fram, að ég hefði sagt, að það væri þegar búið að breyta verkaskiptingunni á milli sveitarfélaga og ríkis. Þetta kom alls ekki fram í þeim atriðum, sem ég taldi, að búið væri að gera. Það er hægt að fletta upp á því, og ég ætla ekki að vera að eyða tíma í að endurtaka það, sem ég sagði um þetta. Það er á bls. 5–6 í handriti mínu, en ræða mín var skrifuð, að því er þetta snerti. Svo er verið að tala um, að það hafi verið tekin verkefni af sveitarfélögunum, sem minnki þeirra sjálfstæði. Hvað er það, sem búið er að gera? Það er búið að létta því af sveitarfélögunum að innheimta hluta af tryggingagjöldunum með útsvörum, og það er búið að taka af þeim löggæzluna að fullu. En einmitt sú skipting, sem var á löggæzlukostnaðinum, er eitt af þessum dæmum um óljósa, og ég vil, segja, óeðlilega skiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga, eitt af ótal mörgum, sem verður að taka til athugunar og skoðunar við áframhaldandi endurskoðun þessara mála.

Það er svo ástæða til að minna á það í sambandi við þetta tal hv. þm. um, að verið sé að rýra hlut sveitarfélaganna, að nú á þessu byrjunarstígi heildarendurskoðunarinnar er, eins og ég vék að í framsöguræðu, búið að ákveða landshlutasamtökunum starfsfé, sem þau hafa nánast ekkert haft, og því mjög barizt í bökkum, þótt sum þeirra hafi reynt að hafa starfsmann og skrifstofu, og það er líka búið að gera ráðstafanir til þess að tryggja þeim eðlilegan sess í landslögum. Nú þegar er búið að gera ráðstafanir til að tryggja þeim slíkan sess, a.m.k. til bráðabirgða, þótt e.t.v. þurfi síðar að breyta þeim ákvæðum eins og fleiru, þegar þessi mál þróast meira.

Hv. þm. ræddi enn mikið um það, hvort skattar hækkuðu verulega, greiðslubyrðin þyngdist við þessa kerfisbreytingu, sem nú er verið að gera. Og hann heldur því auðvitað fram til samræmis við það, sem hann hefur áður sagt, að greiðslubyrðin þyngist. En ég vil segja það, að í sínum útreikningum miðar hann við rangan grundvöll. Og ég vil aðeins enn vitna til þess, sem segir hér í áliti frá hagrannsóknadeild, sem dagsett er 6. þ. m. Þar segir orðrétt, að „eftir breyt. á frv. er heildarskattbyrði nánast óbreytt frá eldra kerfi.“

Það er náttúrlega fullyrðing, sem hægt er að slá fram hér, en er ákaflega hæpið að gera og ég hef enga trú á að standist, þegar þessi hv. þm. segir, að fjölmörg sveitarfélög muni innheimta fasteignagjöld með álagi og 11% í útsvörum. Þessu er hægt að slá fram hér í umr., en þetta er algjörlega út í bláinn, álít ég, að það verði fjölmörg sveitarfélög, sem þurfi til þess arna að grípa.

Hann var aðeins að fitla við það, að Hæstiréttur hafi dæmt breytingar skattalaga ólöglegar, þegar um afturvirkni íþyngjandi ákvæða í skattalögum var að ræða. Ég gerði svo ítarlega grein fyrir þeim dómum, sem hér mun átt við, að ástæðulaust er að fara út í það frekar hér, enda var þetta aðeins ákaflega veik tilraun til þess að halda í horfinu, hvað þetta atriði snertir.

Þá skal ég aðeins minnast á eitt atriði enn í ræðu þessa hv. þm. Hann hélt því fram, að það skapaðist óeðlilegt ástand í sambandi við ríkisskattanefnd frá gildistöku laganna og til septemberloka. En ég held, að hv. þm. ætti að líta á gildistökuákvæði í frv., þar sem það er tekið fram, að ákvæðið um ríkisskattanefnd og önnur skyld ákvæði taki alls ekki gildi fyrr en eftir septemberlok, þ.e. 1. okt., þannig að áhyggjur hans út af þessu atriði eru algjörlega ástæðulausar, og ég skil eiginlega ekkert i, hvað hann virðist hafa lesið illa frv., hvað þetta snertir.

Ég verð að segja það að lokum, að mér finnst málflutningur stjórnarandstæðinganna í þessu máli hér í dag og í kvöld hafa verið ákaflega linur. Það hefur margt verið talað um vinnubrögðin, og ég sé ekki, að þar standi eiginlega eftir steinn yfir steini. Það er öllum ljóst, að það hefur verið gripið til þess ráðs af óhjákvæmilegri nauðsyn að byrja á breytingum skattkerfisins nú, en síðan verður endurskoðuninni haldið áfram.

Aftur á móti hefur verið bent á það hér, og þeir hafa ekki getað hrakið það, að vinnubrögðin áður, á 12 ára tímabili viðreisnarstjórnarinnar, voru með þeim hætti, að þegar upp var staðið, þá varð árangurinn eins og fyrrv. hæstv. fjmrh. þeirrar stjórnar hefur lýst, sbr. þau ummæli, sem ég vitnaði til hér áður í dag.

Það hefur verið gert töluvert mikið úr afturvirkni skattalaganna í blöðum og hér í umr. Það hefur verið rækilega sýnt fram á, að þetta stenzt ekki, þegar á heildina er litið. Mér sýnist alveg sama uppi á teningnum, ef litið er á þau einstök atriði, sem hér hefur verið töluvert deilt um, eins og eignarskattana, sem sýnt hefur verið fram á, að eru eðlilegir, ekki sízt í verðbólguþjóðfélagi, og einnig það, sem rætt hefur verið um, ýmis einstök atriði önnur varðandi einstæða foreldra, ungmenni í skólum o.s.frv.

Og það, sem ég greindi hér frá og hæstv. ráðh. hafa komið inn á líka, um jafnvægispunktana í álagningunni, eftir heimildum frá hagrannsóknadeildinni, sýnir, svo að ekki verður á móti mælt, að á lægra tekjubilinu léttist skattbyrðin, þar léttist hún. Einnig kemur það fram í áliti þessarar sömu stofnunar, að það er lítil breyting á sjálfri heildarbyrðinni, að því er þessa skatta varðar, sem hér er um fjallað. En meginatriðin í þessu öllu saman eru sem sagt þessi. að það er horfið frá nefsköttunum, sem voru komnir í hreinar ógöngur, og það er létt á lægstu launaflokkunum.

Ég endurtek það og árétta, að fyrstu viðbrögð ríkisstj. eru fyllilega í samræmi við það, sem segir í stjórnarsáttmála. Sá áfangi, sem nú er verið að fara, er það líka. En ég legg áherzlu á það eins og áður, að þetta er aðeins áfangi, og það verður síðan haldið áfram að vinna í þessa stefnu, annars vegar að endurskoða skiptingu verkefna og valds milli ríkis og sveitarfélaga í þeim tilgangi að auka sjálfsforræði byggðarlaganna og gera skiptingu verkefna milli þessara aðila einfaldari og ákveðnari. Og það verður líka haldið áfram fullum fetum þeirri endurskoðun, sem nú er hafin á tekjuöflunarleiðum hins opinbera með það fyrir augum, að skattabyrðinni verði dreift réttlátlegar en verið hefur.