09.03.1972
Neðri deild: 49. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 900 í B-deild Alþingistíðinda. (598)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Ástæðan til þess, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, er flutt, er sú, að ríkissjóður þarf að afla aukinna tekna, og það er ekkert smáræði, sem á að auka tekjur ríkissjóðs um, heldur á tekjuskatturinn, sem rennur í ríkissjóð, meira en að tvöfaldast. Það eru fyrst og fremst útgjöld ríkisins, sem því valda, að þetta frv. liggur nú fyrir. En það gerðist í lok s.l. árs, að samþ. var fjárlagafrv., sem fól það í sér, að útgjöld ríkissjóðs hækkuðu um sem næst 50% frá árinu á undan eða úr rúmum 11 milljörðum kr. upp í tæpa 18 milljarða. Ég skal taka það strax fram, að því fer fjarri, að réttmætt sé að ásaka hæstv. ríkisstj. fyrir þessar hækkanir að öllu leyti. Það er auðvitað margt, sem var óhjákvæmilegt að hækka, og sumt gat hún ekki ráðið við. Annað var, eins og hún hefur sjálf kallað það, arfur frá fyrri stjórn. Þar má nefna samningana um laun opinberra starfsmanna, sem að sjálfsögðu hlutu að segja til sin. Þar má nefna almannatryggingarnar, sem allur þingheimur er sammála um, o.s.frv.

En þetta segir ekki nema hluta af sögunni. Aðalatriðið er, að við verðum að líta á stóru línurnar og staldra við og hugleiða: Þolir þjóðfélagið íslenzka, að útgjöld ríkissjóðs á einu ári hækki úr rúmlega 11 í nærri 18 milljarða kr.? Án þess að fara frekar út í það mál hér vil ég fullyrða, að þessi fjárhæð er orðin of stór. Hún er orðin of há, sú fjárhæð, sem ríkið þarf að sækja til skattborgaranna. Og þessi fjárhæð, sem ríkissjóður heimtir, er of stór hluti af þjóðarframleiðslunni. Hér er ekki tími til þess á þeim stutta tíma, sem er til umráða til lokaumr. þessa frv. hér í d., að ræða þessi mál frekar.

Það má vera, að hér komi einhver í ræðustólinn á eftir og heimti till. frá mér eða stjórnarandstöðunni um það, hvað eigi að skera niður. Slíkar röksemdir eru úreltar, úrelt brögð, og ég ætla, að þau ár, sem ég var í sæti fjmrh., hafi ég aldrei gert þá kröfu til stjórnarandstæðinga, að þeir legðu á ráðin um það, hvernig ætti að draga úr kostnaði við ríkisbúskapinn. Á hverjum tíma hlýtur það auðvitað að vera ríkisstj., sem ábyrgð ber á fjárstjórninni. Hún verður að hafa þar alla forustu og forgöngu um. Aðalatriðið er það, að allir alþm. verða að hugleiða og í rauninni þjóðin öll, að þessi stórfellda útgjaldaaukning ríkisins fær ekki staðizt, og hér verður að staldra við og endurskoða málin.

Hitt er svo annað mál, að vitanlega þarf ríkið á miklu fé að halda, sérstaklega þar sem við erum öll sammála um, að miklu fé þurfi að verja til verklegra framkvæmda, til félags- og fræðslumála, og svo mætti lengi telja. Við viljum, að þjóðfélag okkar sé byggt á félagslegri samhjálp, vaxandi velmegun og miklum framkvæmdum, og vitanlega þarf til þess mikið fé til handa hinu opinbera. En hvernig er þá æskilegast að afla þessa fjár? Og ég vil þá strax koma að því meginatriði, hvort leggja eigi megináherzlu við fjáröflun ríkisins á beina eða óbeina skatta.

Það er skemmst frá að segja, að við sjálfstæðismenn erum þeirrar skoðunar, að meginhluti af fjáröflun ríkisins eigi að verða með óbeinum sköttum en ekki beinum. Og liggja til þess margar ástæður. Háir, beinir skattar eru á margan hátt skaðlegir fyrir þjóðfélagið, vegna þess að þeir draga fremur úr starfslöngun manna og vinnuþrá en auka hana. Þegar svo er komið, að t.d. önnur hver króna eða jafnvel tvær af hverjum þrem, sem maður vinnur sér inn, fer í skatt, þá er hætt við, að fólkið sleppi heldur aukavinnunni og umframálaginu, sem verður auðvitað til tjóns fyrir þjóðfélagið í heild. Og þetta sjónarmið á ekki við fyrst og fremst einhverja auðkýfinga, heldur við allan almenning.

Í öðru lagi er ég sannfærður um, að það særir réttarvitund fólks, þegar skattar eru svo háir sem ég nefndi. Því finnst sem því sé refsað fyrir framtak og dugnað. Ég ætla, að á því sé enginn vafi, að allur þorrí manna sættir sig betur við það að greiða opinber gjöld sin, þegar þau eru tekin á annan veg en með beinum sköttum, innifalin í vöruverði, eins og óbeinir skattar eru yfirleitt.

Í þriðja lagi kemur hér til valfrelsi fólksins. Með óbeinum sköttum á það þess kost að verulegu leyti sjálft að draga úr kaupum á þeim vörum, sem hæst eru tollaðar eða skattaðar, og á þann hátt hefur það meira valfrelsi um það, á hvern hátt greitt sé til þjóðfélagsins heldur en með háum, beinum sköttum. Háir, beinir skattar draga úr sparnaði og sparifjármyndun. Þeir valda meiri hættu á undandrætti og skattsvikum, og síðast en ekki sízt er það sannað, að álagning og innheimta beinna skatta er miklu dýrari en óbeinna.

Nú var það svo hér áður fyrr, bæði á síðustu öld og fyrri hluta þessarar aldar, að það var skoðun margra stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka og þá fyrst og fremst sósíalískra flokka, að megináherzlu ætti að leggja á hina beinu skatta. Með þeim hætti væru skattarnir lagðir á breiðu bökin, eins og kallað er, en alþýðu manna fremur hlíft.

Það gerðist hér merkur atburður einmitt í þessum sal fyrir um það bil 15 árum. Það var haldið hér þing Þingmannasambands Norðurlanda, og aðaimál til umr. var beinir eða óbeinir skattar. Frsm. var þáv. fjmrh. Norðmanna, núv. forsrh., Trygve Bratteli. Hann flutti stórmerkilegt erindi, þar sem hann sýndi það með glöggum rökum, að undangengnum mjög rækilegum rannsóknum, að miklu hyggilegra væri fyrir þjóðfélagið að leggja áherzlu á óbeina skatta, en draga úr hinum beinu sköttum. Hann taldi fram fyrir því margvísleg rök, m.a. sum þeirra, sem ég raktí hér áðan. Þessi ræða vakti mikla athygli, m.a. vegna þess, að hér var brotið í blað varðandi stefnu jafnaðarmanna eða sósialista. Og af hálfu Brattelis var þetta mjög glögglega rökstutt og skýrt með þeirri staðreynd, að þjóðfélagíð hefði gerbreytzt á undanförnum áratugum. Sem betur fer væri að verulegu leyti úr sögunni sú örbirgð, sem áður hefði verið, og öreigum og snauðum mönnum hefði stórfækkað. Við stefndum óðfluga í áttina að svo kölluðu velferðarríki, og þegar þessi gerbreyting hefði orðið á allri tekjuskiptingu innan þjóðfélagsins, þá væru full rök til að breyta hér til.

Þessi stefna, að ríkið skuli fremur leggja áherzlu á óbeina skatta en beina hefur rutt sér mjög til rúms, ekki aðeins á Norðurlöndum, heldur í Vestur-Evrópu og víðar á undanförnum árum og áratugum. Og ég er sannfærður um, að við Íslendingar eigum einnig að stefna í þessa sömu átt. Ég tel, að því miður sé stefnt mjög í öfuga átt við þetta skynsamlega markmið með þeim frv., sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt fyrir þetta þing.

Þegar ríkisstj. Alþfl. og Sjálfstfl. var mynduð í nóv. 1959, var það eitt af samningsatriðunum, að létt skyldi tekjuskatti til ríkisins af almennum launatekjum. Stefnan var sú að fara fremur inn á braut hinna óbeinu skatta. Þetta var gert með þeim hætti, að tekinn var upp 3% söluskattur á síðasta stigi viðskipta, en það fé, sem inn kæmi af honum, skyldi notað á tvennan hátt, annars vegar til þess að gera ríkissjóði kleift að létta tekjuskatti af öllum almennum launatekjum, og hins vegar til þess að gera sveitarfélögunum kleift að lækka stórlega tekjuútsvör. Sveitarfélögin voru þannig látin fá hluta af þessum söluskatti í gegnum Jöfnunarsjóð. Þessi gerbreyting, sumir munu vilja kalla það byltingu, í skattamálum okkar hafði að sjálfsögðu margvísleg áhrif, og ég ætla, að allur almenningur hafi tekið þessari breytingu vel. Ef við lítum í stórum dráttum á það, hvernig þessi skattalagabreyting verkaði, þá má geta þess, að við skattalagabreytinguna 1960 fækkaði tekjuskattsgreiðendum úr 62 þús. niður í IS þús. manna. Af þessu má sjá, hvílíkur fjöldi manna hefur orðið tekjuskattslaus við þessa breytingu. Ég kem hér síðar nokkuð að þróuninni, hvernig hún hefur orðið s.l. áratug í sambandi við skattvísitöluna. En það má einnig benda á það í þessu sambandi, að árið áður, 1959, voru beinir skattar til ríkisins 131/2 á% af heildartekjum ríkissjóðs, en árið 1960 lækkaði það niður í 6% af heildartekjum ríkisins og varð þannig svipað á næstu árum á eftir.

Sú röksemd hefur verið höfð á móti óbeinum sköttum, að þeir kæmu þyngra niður á láglaunafólki en beinir skattar. Með þessu væri verið að hlífa hátekjumönnum, en leggja skatta eða tolla til ríkisins þeim mun meira á láglaunafólkið. Þetta gæti virzt svo við fyrstu sýn, en svo er þó ekki. Í fyrsta lagi má geta þess, að undanþágur er auðvitað hægt að gera varðandi óbeina skatta um þær nauðsynjar, sem almenningur notar mest. Þó er þetta í framkvæmd miklum örðugleikum bundið, því að það dregur mjög úr gildi hinna óbeinu skatta, ef undanþágur eru að ráði frá þeim. En þennan ókost við óbeinu skattana gagnvart láglaunafólkinu er tiltölulega auðvelt að laga eða draga úr honum. Og það er með því að bæta láglaunafólki þetta upp á annan hátt, t.d. með verulegum fjölskyldubótum, fjölskyldubótum, sem koma láglaunafólkínu og fjölskyldufólkinu til góða, en þær ná ekki til þeirra, sem ekki þurfa á þeim að halda, hálaunamannanna~ Til þess að ná hér félagslegu jafnvægi og bæta upp gagnvart láglaunafólkinu það, sem hinir óbeinu skattar kynnu að leggjast þyngra á það, má beita félagslegum ráðum, m.a. á þennan veg, sem ég nefndi.

Það var stefna ríkisstj. Alþfl. og Sjálfstfl. að afnema tekjuskatt af almennum launatekjum. Og það, sem þá var miðað við, var Dagsbrúnarkaup. Sú fjárupphæð, sem skyldi vera skattfrjáls sem persónufrádráttur var miðuð við árslaun Dagsbrúnarverkamanns, þó þannig, að gert var ráð fyrir einnar stundar yfirvinnu á dag. Með þessum hætti varð tekjuupphæð Dagsbrúnarverkamanns á þessum tíma tæplega 70 þús. kr., og var persónufrádrátturinn fyrir hjón ákveðinn nokkru hærri eða 70 þús. kr. og síðan frádráttur fyrir börn 10 þús. kr. o.s.frv.

Þegar þetta var ákveðið, var hins vegar ekki tekin í lög ný skattvísitala, og sú vísitala skatta, sem áður hafði verið í lögum í nokkur ár, var ekki tekin upp í þessi nýju skattalög. Áður fyrr hafði það verið um allmörg ár þannig, að umreikna skyldi á hverju ári skattupphæðina, bæði persónufrádrátt, skattaprósentu og skattaþrep miðað við hækkandi verðlag frá ári til árs. Ástæðurnar til þess, að skattvísitala var ekki tekin inn í tekjuskattslögin 1960 voru aðallega þessar:

1. Hér var um svo stórfellda lækkun tekjuskattsins að ræða og niðurfellingu á öllum almennum launatekjum, að af þeirri ástæðu þótti ekki nein tilsvarandi þörf á skattvísitölu eins og áður.

2. Kaupgjaldsvísitalan var tekin úr sambandi og bönnuð með lögum á þeim tíma, og var það einn liður í efnahagsaðgerðunum, og m.a. af þeirri ástæðu þótti ekki rétt að binda svo skattalögin við skattvísitölu.

3. Því er ekki að neita, að menn voru svo bjartsýnir þá, þegar hinar róttæku efnahagsaðgerðir voru ákveðnar í ársbyrjun 1960, að vonast eftir því, að sæmilegt jafnvægi kæmist á í efnahagsmálum okkar, og þess vegna yrði þörfin fyrir skattvísitölu og umreikning skatta ekki nándar nærri eins brýn og verið hefði.

Nú er það svo, að í þessu efni eins og hjá öllum öðrum ríkisstj. urðu veruleg vonbrigði um jafnvægi í efnahagsmálum. Þó fór það nú svo, að í full þrjú ár og jafnvel á fjórða ár tókst að halda sæmilegu jafnvægi í efnahagsmálunum, a.m.k. meira jafnvægi en Íslendingar hafa þekkt í annan tíma á síðari áratugum. Þessar voru meginástæður til þess, að skattvísitala var ekki sett í lög.

Á þinginu 1963 þótti hins vegar sýnt, að nú yrði að endurskoða þær upphæðir persónufrádráttar og skattþrepa, sem ákveðnar höfðu verið vegna verulegra launabreytinga á þessum árum. Og á þinginu 1963 voru gerðar gagngerar breytingar þannig, að persónufrádrátturinn, sem miðaður var við hinar almennu launatekjur verkamanns, var hækkaður um 30%. Auk þess var skattstigum og skattþrepum gerbreytt, og m.a. var skattþrepum stórfækkað. Þessi 30% voru miðuð við það, að það væri launahækkun verkamanns á þessu tímabili frá því að lögin voru sett 1960. M.ö.o.: Með skattalagabreytingunni, sem samþ. var vorið 1964 og notuð var við skattálagningu það ár, voru því launamenn settir jafnt á sama bekk og þeim sköpuð sama aðstaða og verið hafði með breytingunni miklu 1960.

Hitt er svo annað mál, að sumarið eða haustið 1964, þegar lagt var á eftir þessum nýju reglum, urðu ákaflega margir fyrir vonbrigðum, svo að vægt sé til orða tekið, með sína skatta. Einn hv. þm. orðaði það nú svo, hv. 4. þm. Reykv., að þetta hefði allt saman endað með sprengingu. Það er nú kannske fullfast að orði kveðið. En meginástæðurnar til þeirrar megnu óánægju, sem þá varð, voru tvær. Önnur var sú, hversu miklar kauphækkanir höfðu orðið þá hjá ýmsum stéttum og hjá sumum launastéttum meiri en þessi 30%, sem verkamenn höfðu fengið. Er þess skemmst að minnast, að opinberir starfsmenn höfðu þá á miðju ári 1963 fengið í fyrsta sinn verulega réttingu sinna mála. Þess vegna varð það þrátt fyrir þessa breytingu á skattalögunum, að töluverður hópur launamanna lenti í hærri skattstigum, hærri prósentum en hefði mátt segja, að eðlilegt hefði verið. En önnur ástæða kom hér líka til. Og hún var sú, að frádráttarregla í útsvarslögunum, um að greidd útsvör skyldu dregin frá, áður en lagt var á útsvar næsta árs, hjálpaði hér að mjög litlu leyti, enda var það svo, að aðalóánægjan þá var vegna útsvaranna, en ekki tekjuskattsins.

Á næsta ári, árinu 1965, varð hins vegar útkoman sú, að margir þeir, sem mest höfðu kvartað yfir háum útsvörum árið 1964, fengu lægri útsvör en þeir höfðu búizt við á árinu 1965, þegar af þeirri ástæðu, að þá kom hinn mikli útsvarsfrádráttur frá árinu 1964 til framkvæmda. En hins vegar var það nú þannig, enda er það lögmál í þessu þjóðfélagi, að þeir, sem telja sig verða illa úti eitt árið og kvarta hástöfum, láta ekki til sin heyra næsta ár, þó að þeir njóti þá verulegra hlunninda.

Árið 1964–1965 var svo tekin inn skattvísitala að nýju, og var þá í fyrsta lagi sýnt, að það jafnvægi í efnahagslífinu, sem hafði verið hér á árunum 1960–1962, hafði gengið úr skorðum og full nauðsyn var að taka skattvísitöluna inn að nýju, og það var gert. Þessari skattvísitölu var svo fylgt á hinum næstu árum og allt fram til ársins 1969. Á árinu 1968 var skattvísitalan notuð að fullu, og þegar ég tala hér um skattvísitölu, þá á ég við það, hverjar breytingar verða á árstekjum Dagsbrúnarmannsins, sem byggt var á í upphafi.

Hins vegar þótti á árinu 1969 ekki fært að láta skattvísitölu koma að fullu til framkvæmda, og það stafaði, eins og öllum er kunnugt, af þeim miklu örðugleikum, sem yfir landið gengu í efnahagsmálum og þá að sjálfsögðu einnig í fjármálum ríkissjóðs. Árið 1968 var vísitala hinna almennu launatekna um 128 stig, en skattvísitala var ákveðin og framkvæmd 129 stig. Árið 1969 var henni haldið óbreyttri, en hún hefði átt að vera 137.6, ef fylgt hefði verið hinum almennu launatekjum. Og þannig var það líka 1970, að hún varð töluvert lægri en launavísitalan. Á árinu 1971 var svo að vísu tekið myndarlegt skref til þess að lagfæra þetta, þannig að vísitalan var hækkuð um 20%. Hins vegar nægði það ekki til að ná hinni almennu vísitölu eða komast til jafns við það, sem var 1960 og aftur frá 1964 og árin þar á eftir.

Vegna mjög mikils misskilnings og villandi upplýsinga um þróun þessara mála hefur mér þótt nauðsyn að rekja þetta mál svo rækilega sem gert hefur verið.

Varðandi undirbúning þessa frv. og þeirra tveggja frv., sem eru nú nátengd, þetta og tekjustofnafrv. sveitarfélaga, þá verður ekki hjá því komizt að láta í ljós óánægju og gagnrýni á þessum vinnubrögðum, sem hér hafa verið höfð. Og sú gagnrýni beinist auðvitað fyrst og fremst að því, að of skammur tími hefur verið ætlaður til svo gagngerðra breytinga eins og hér er um að ræða. Árið 1960, þegar hin mikla skattalagabreyting var hafin, var að vísu gerð mikilsverð breyting þá strax eftir nokkurra mánaða setu ríkisstj. En þær breytingar voru einfaldar og auðskiljanlegar. Það var 3% söluskatturinn, það var lækkunin á tekjuskattinum og lækkunin á útsvörunum. Þessi meginatriði voru svo augljós, að í rauninni var engin nauðsyn að fresta þeim. Hins vegar var heildarendurskoðun skatta- og útsvarslöggjafarinnar frestað, að vísu ekki frestað í þeirri merkingu, að hún væri ekki hafin strax. Hún var hafin þegar í stað, og var unnið sleitulaust að henni á þriðja ár. Til þessa starfs voru valdir að minu áliti mjög hæfir menn. Í því felst ekki, að ég vilji á nokkurn hátt kasta rýrð á þá ágætu menn, sem hafa undirbúið þessi frv., sem hér liggja fyrir. En varðandi tekjustofna sveitarfélaga vil ég sérstaklega taka fram, að frá öndverðu var haft náið samráð við Samband ísl. sveitarfélaga og það svo, að í nefndina voru skipaðir strax í byrjun bæði formaður og varaformaður Sambands ísl. sveitarfélaga. Eftir að þessi undirbúningur hafði staðið og verið vandað mjög til hans í full tvö ár, voru frv. lögð fyrir Alþ. um skatta- og tekjustofnalög til nokkurrar framhúðar.

Nú er allt annan veg farið. Nú eru borin fram frv. um gerbreytingar í fjölmörgum atriðum á þessum lögum, hvorum tveggja og síðan er okkur tjáð, að út af fyrir sig sé vel hægt að samþykkja þetta. Við skulum svo sjá, hvernig það reynist, og það megi breyta því síðar, og endurskoðun muni haldið áfram. Ég tel, að hér séu ákaflega óheppileg vinnubrögð. Ef hæstv. ríkisstj. hefði borið fram nú fáeinar, einfaldar og auðskildar breytingar, sem ekki þyrftu ýkja mikils undirbúnings og ekki þyrftu að valda miklum deilum, þá býst ég við, að það hefði ekki staðið á stjórnarandstöðunni að fallast á slíkt. En jafn víðtækar breytingar, gerbreytingar, eins og hér er um að ræða, er ekki frambærilegt að bera fram eftir svo stuttan tíma og ætlast til, að þær verði lögfestar nú.

Í rauninni hefur aðeins komið fram ein röksemd til varnar þessum vinnubrögðum hæstv. ríkisstj., og hún er frá hæstv. fjmrh., sem segir: „Vegna tryggingalaganna, vegna hinna miklu umbóta á tryggingalögunum var nauðsynlegt að fella niður nefskattana. Þeir hefðu annars orðið óbærilegir. Og til þess að gera þetta var nauðsynlegt að flytja þessi frv. um breytingar á tekjuskatts- og útsvarslögum.“ Ég er hæstv. ráðh. alveg sammála um hið fyrra, að það var aðkallandi nauðsyn að breyta tryggingalöggjöfinni og bæta aðstöðu aldraða fólksins, öryrkja og annarra, sem njóta trygginganna. Og ég er honum alveg sammála um það, að rétt hafi verið og að því komið, að afnema varð nefskattana. Að vísu felst ekki í því, að það þurfi að fara þá leið að fella niður með öllu greiðslur hinna tryggðu beinlínis til trygginganna. Náttúrlega mætti, þótt nefskattar væru felldir niður, haga því á annan hátt, t.d. að menn greiddu ákveðinn hundraðshluta af útsvari sínu eða tekjuskatti, en hinu atriðinu vil ég alveg mótmæla og get engan veginn á það fallizt, að til þess að fá tryggingalögin afgreidd og nefskattana fellda niður hafi allar þessar umbyltingar verið nauðsynlegar. Það er alger misskilningur. Það hefði verið tiltölulega einfalt og auðvelt að afla fjár til þessara hluta með allt öðrum hætti, og ég býst við, að stjórnarandstaðan hefði verið mjög til viðræðu um einfaldar leiðir í því efni. Ég tel, að þessi röksemd hæstv. ríkisstj. fái alls ekki staðizt.

Í sambandi við þetta frv. hefur það verið nokkuð rætt, hvert mundi verða hámark hinna beinu skatta, ef þau væru samþ., borið saman við núgildandi lög. Ég vil fyrst taka það fram, að ég tel, að í framtíðinni eigum við að stefna að því, að beinir skattar verði aldrei hærri en svo, að um það bil þriðjungur verði greiddur í beina skatta af hinum hæstu tekjum eða síðustu krónunni, ef maður má orða það svo. Sumir hafa orðað, að væri hugsanlegt að fara upp undir 50%, og það væri náttúrlega mikil bót frá því, sem gert er ráð fyrir í þessum frv., en ég tel, að að því bæri að stefna að draga svo verulega úr hinum beinu sköttum, að alls ekki yrði farið yfir þriðjung. En í þessum umr. hefur því verið haldið fram, að hámark skattanna, hámarkshundraðshluti, yrði ekki hærri samkv. þessum frv. en nú er. Við skulum líta aðeins nánar á þetta mál. Ef við athugum fyrst félögin, sem fyrst og fremst hafa atvinnureksturinn með höndum, þá er samanlagður opinber eða beinn skattur þeirra, tekjuskattur og útsvar, nú í reynd um 43%, þegar er reiknað með frádráttarbærni útsvara í sambandi við útsvör, þá er þessi reyndin. Hámarkið er um 43%, en samkv. frv. er það 53%. Hér er því um töluverða hækkun að ræða. En við þetta bætist, að afskriftamöguleikar félaga og fyrirtækja eru stórlega rýrðir, að eignarskattar og fasteignaskattar eru mjög þyngdir, og loks varðandi það fyrirheit, sem hæstv. ríkisstj. í rauninni gaf atvinnurekstrinum með flutningi þessara frv., að aðstöðugjöldin yrðu skorin niður um helming þegar á þessu ári og felld niður með öllu á næsta ári, hefur þessu nú verið gerbreytt og ekki við það staðið, heldur er lagt til, að breytingin verði sú, að á þessu ári megi leggja á aðstöðugjöld, 65% af því, sem gert hefur verið á s.l. ári, en síðan er ekkert í frv. um, að þau eigi að falla niður, heldur virðast þau eiga að halda áfram. M.ö.o.: Það, sem notað var til þess að milda þetta mál allt saman í augum atvinnurekstrarins, að hækkuð er svo mjög skattprósentan og eignar- og fasteignaskattur, er nú í rauninni tekið aftur með afgreiðslu málsins í hv. Ed. í gær.

En annað er það, sem er ástæða til þess að benda enn á, þótt því hafi verið gerð góð skil af ýmsum ræðumönnum áður hér í þessum umr. Og það er sú víllandi staðhæfing, að nú með samþykkt þessara frv. fari hámark hinna beinu skatta á einstaklingum aðeins upp í 54%, þ.e. 44% tekjuskatturinn og 10% útsvarið. Þetta er auðvitað ákaflega villandi samanburður og í rauninni rangur með öllu. Þetta hefur verið rakið hér áður, því að hér er um að ræða tvenns konar grundvöll, sem alls ekki er sambærilegur. Núgildandi hámark skatta er að nafninu til 57%, þegar tekjuskattur og útsvar er lagt saman, en vegna þess að útsvörin eru frádráttarbær, þá verður þetta í reynd ekki hærra en rétt um 50%. En sú regla er felld niður með þessu frv. Hins vegar eru þessi 10% í útsvar lögð á brúttótekjur. Í umr. hér í fyrradag benti hv. 5. þm. Norðurl. v. á þetta atriði, hversu hér væri um gersamlega ósambærileg atriði að ræða. Og hann gizkaði á, að 10% brúttóútsvar mundi samsvara væntanlega a.m.k. 20–25% útsvari á nettótekjum. Þó að ákaflega sé erfitt að reikna þetta út og ógerningur að fullyrða neitt um það, þá tel ég, að hér hafi hv. þm. farið mjög nærri sanni og þetta 10% brúttóútsvar mundi, ef allt er tekið með, nærri samsvara þessari tölu, 20–25, eða jafnvel 20–30% á nettótekjur. Í staðinn fyrir 50% hámark beinna skatta nú í dag í framkvæmd, þá mundi hér vera um að ræða samkv. frv. 44% plús 20–30%, m.ö o. má reikna með 65–70% eða þar yfir, og er næsta furðulegt, að menn skuli halda því fram, að hér sé ekki um hækkun að ræða, heldur jafnvel lækkun frá því, sem er.

Varðandi aðbúnaðinn að atvinnurekstrinum í landinu skal ég aðeins þessu til viðbótar nefna það, að í þeirri grg., sem send hefur verið fjhn. þessarar hv. d. frá Félagi ísl. iðnrekenda, Landssambandi iðnaðarmanna, Landssambandi ísl. útvegsmanna, Verzlunarráði Íslands og Vinnuveitendasambandi Íslands, er mjög varað við þessari þróun. Þessa hækkun skattprósentunnar, upp í 53% á félögum, telja samtökin óeðlilega og benda á, að slíkt hlýtur m.a. að leiða til versnandi samkeppnisaðstöðu íslenzkra atvinnuvega, og síðar í lok þessarar umsagnar segir: „Samtökin geta ekki sætt sig við, að skattaleg aðstaða íslenzkra atvinnufyrirtækja verði gerð stórlega lakari en samkv. gildandi lögum og þar með kippt stoðum undan samkeppnisaðstöðu þeirra gagnvart erlendum keppinautum.“

Varðandi samanburðinn á þessu nýja kerfi og hinu eldra, þá skal ég ekki ræða hér þá margvíslegu útreikninga, sem gerðir hafa verið. En ég vil aðeins taka það fram, að í rauninni er ákaflega örðugt að átta sig á því í einu og öllu, hvernig samanburðurinn verður. Hann verður ákaflega einstaklingsbundinn vegna þess, hve aðstæður manna eru ólíkar. Ég get tekið eitt sem dæmi. Það er afnám vaxtafrádráttar við útsvarsgreiðslur, þar sem á að leggja útsvarið á brúttótekjur. Það er fjöldi ungra manna, sem byggt hefur sér íbúð eða keypt íbúð og skuldar a.m.k. 1 millj. kr. og jafnvel meira, og vextir af því eru þá kannske 100 þús. eða á 2. hundrað þús. Þó að prósentan sé nú ekki nema 10% í útsvar, þá er þarna um að ræða kannske á milli 10 og 20 þús. kr., sem útsvarið leggst þyngra á þetta fólk að þessu leyti en ella. Hins vegar eru skuldir manna vegna íbúðakaupa svo ákaflega mismunandi, að hér er auðvitað allur samanburður mjög svo örðugur, auk fjölda annarra atriða, sem til greina koma.

En í rauninni er aðalatriðið það í sambandi við þennan samanburð allan, að hæstv. ríkisstj. hefur því miður farið inn á þá hraut að búa sér til forsendur, sem eiga enga stoð í raunveruleikanum og eru aðeins orðnar til í hugarheimi hennar sjálfrar. Ef miðað er við skattvísitöluna 100 á s.l. ári, en gert var ráð fyrir að breyta henni í þann grunn, þá telur ríkisstj., að gamla kerfið svo kallaða eigi þá að miðast við 1061/2% vegna þess að fjárlögin eru á því byggð og það sé hækkun framfærsluvísitölunnar. Nú er þess fyrst að geta, að í sambandi við skattvísitöluna og tekjuskattsálagningu núna í rúman áratug, eða frá því að nýja kerfið var tekið upp 1960, þá hefur alltaf verið miðað við almennar launatekjur verkamanns. Ef við miðum við þær nú, þá ætti því hækkunin að vera um það bil 14% frá síðasta ári, en ekki 61/2%. Ef hins vegar miðað er við almenna tekjulækkun í landinu, þá er, eins og bent er á greinilega í nál. hv. 1. minni hl. fjhn., hækkunin 21/2%. Ef hins vegar væri farin sú leið að fara nú í ár alveg til jafns við það og gera launamenn jafnsetta eins og þeir voru 1960 og 1964 og næstu ár þar á eftir, þá þyrfti þetta að hækka um 33%. M.ö.o.: Þær þrjár vísitölur, sem mætti með fullum rétti nefna í þessu sambandi, væru 114 miðað við hækkun launa Dagsbrúnarmanns frá í fyrra, 121/2 eins og hv. 1. minni hl. fjhn. leggur til og byggt er á útreikningum Efnahagsstofnunar, eða 133 miðað við það að stíga nú skrefið fullt út, þannig að almennar launatekjur verði skattfrjálsar. Þessar þrjár vísitölur geta allar komið til greina. En sú, sem ríkisstj. byggir alla sína útreikninga á, er fjarstæða ein. Ég held, að í rauninni geti engum manni blandazt hugur um það, að þetta er hugarburður einn saman.

Ef fyrrv. ríkisstj. hefði verið nú við völd, ef Sjálfstfl. og Alþfl. hefðu haldið stjórnartaumunum áfram, þá held ég, að engum manni detti í hug, að sú ríkisstj. og sá þingmeirihluti hefði farið að ákveða skattvísitöluna 1061/2. Ríkisstj. og þingmeirihlutinn ákvað að hækka vísitöluna um 20% á s.l. ári, og yfirlýst var af hæstv. fyrrv. fjmrh., að að því yrði stefnt sem allra fyrst að ná markinu, hinu gamla marki, að gera almennar launatekjur skattfrjálsar. Það er ákaflega leitt að þurfa að horfa upp á allar þessar deilur um þennan samanburð, þar sem annars vegar af hálfu ríkisstj. er um að ræða tilbúning, hugarburð, sem hefur enga stoð í raunveruleikanum. Ef hins vegar samanburður væri gerður á grundvelli einhverra hinna talnanna, þá vitum við, að útkomur verða allt aðrar en hæstv. ríkisstj. hefur látið í veðri vaka.

Skattamál hjóna hefur borið hér mjög á góma, enda liggja fyrir brtt. um það mál frá ýmsum aðilum. Hv. 4. landsk. þm., Svava Jakobsdóttir, flytur brtt. á þskj. 411, sem var nú tekin aftur við 2. umr., og má vænta þess, að hún verði tekin upp aftur nú. Þó veit ég það ekki með vissu. En hún sýndi mér þann sóma hér við 2. umr. að vitna í þingræðu, sem ég hafði haldið 1957, og þakka ég henni að sjálfsögðu þá sæmd. Ég tel nú kannske ekki úr vegi að rifja þá upp örfá orð fleiri úr þessari ræðu, því að það vill nú stundum verða þannig, að ein setning tekin út úr ræðu gefur ekki alveg þá réttu mynd, sem óskað er eftir að fá. En svo er mál með vexti, að 1957 voru hér til meðferðar skattalagabreytingar. Þá höfðum við fyrri eða fyrstu vinstri stjórnina, og var þá mjög rætt um skattamál hjóna m.a. Þá fluttum við Sigurður Bjarnason, nú sendiherra, brtt. m.a. við það ákvæði, sem snerti skattamál hjóna, og hljóðaði hún svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Samanlögðum skattskyldum tekjum hjóna, sem samvistum eru, skal skipta til helminga og reikna skatt af hvorum helmingi fyrir sig.“

Í umr. um þessa till. rökstuddi ég þetta nokkuð og taldi, að sú skipan, sem þá væri í lögum, væri ekki æskileg, og ég taldi, eins og hv. 4. landsk. rakti hér, ekki æskilegt að örva og hvetja giftar konur frekar til að vinna utan heimilis í staðinn fyrir, að þjóðfélagið ætti fremur að stuðla að hinu gagnstæða. Aðalinntak í minni ræðu var auðvitað það, að ég teldi, að allar konur ættu að njóta hér jafnréttis, og giftar konur ættu að njóta þar fulls jafnréttís, hvort sem þær sjálfar ynnu útí fyrir tekjum eða ynnu á sínu heimili og tækju þannig þátt í tekjuöflun heimilisins.

Nú var það svo, að nokkrum árum áður hafði verið flutt á Alþ. frv. um breytingar á skattalögum, margvíslegar breytingar, sem fólu í sér nákvæmlega þetta sama atriði. Það var flutt árið 1952 af þeim þm. Jóhanni Hafstein og Magnúsi Jónssyni. Og í fskj. með því frv. var grg. eftir núv. ríkisskattstjóra, Sigurbjörn Þorbjörnsson, og víkur hann þar m.a. að þessu atriði, sem ég vildi leyfa mér að rekja hér, vegna þess að mér finnst sá rökstuðningur svo skýr og glöggur, að hann stendur í fullu gildi enn. En þar segir svo í grg. Sigurbjörns, Þorbjörnssonar um skattlagningu hjóna:

„Hvort sem eiginmaður eða eiginkona eða bæði færa heim peningatekjur til heimilisins, þá afla þau lífsgæða sér til handa beint eða óbeint í sameiningu og að mínu áliti fyllilega að jöfnu, og í flestum tilfellum njóta þau þess að jöfnu. Skipting á tekjum hjóna til helminga til skattlagningar er því réttlætismál á þeim grundvelli, að tveir afla teknanna beint eða óbeint og tveir njóta. Að mínu áliti er því hér ekki um að ræða neinn afslátt til handa hjónum, heldur réttláta skattlagningu þeirra sem tveggja einstaklinga, og kemur því ekki til mála að takmarka slíka skiptingu við neitt sérstakt mark. Lágtekju- eða hátekjuhjón eru hér í sama bát.“

Það sjónarmið, sem kom fram í frv. þeirra Jóhanns Hafstein og Magnúsar Jónssonar og sem var endurtekið í tillögu okkar Sigurðar Bjarnasonar, er enn í fullu gildi sem stefna sjálfstæðismanna í þessum efnum. Og ég vil taka það fram, vegna þess að stundum gætir nokkurs misskilnings í þessu efni, að þetta stefnumið er allt annað en það, sem hv. 4. landsk. þm. flytur um endurskoðun skattakerfisins og er orðað þannig í brtt. hennar á þskj. 411:

„Við þá endurskoðun verði að því stefnt, að hver maður, sem aflar tekna og/eða á skattskyldar eignir, verði sjálfstæður skattþegn án tillits til hjúskaparstéttar.“

Ég ætla, að eins og þessi till. var skýrð í umr. og eins og hún er rétt skilin, þá mundi með henni verða mjög mismunað giftum konum, eftir því hvort þær vinna á heimili sínu eingöngu eða hvort þær vinna einnig úti. Ég vil svo aðeins taka það fram, að að sjálfsögðu er það æskilegt, að eiginkonur vinni á heimilum sínum að uppeldi barna sinna, eftir því sem tök eru á, og er það vafalaust þjóðfélaginu hollast. Hitt er svo sjálfsagt, að þær konur, sem hafa af einhverjum ástæðum til þess tíma og aðstöðu, vinni úti að vild og afli tekna þannig. En aðalatriðið er það, sem Sjálfstfl. leggur áherslu á, bæði nú og áður fyrr og mun gera, að allar konur njóti fulls jafnréttis í þessu efni.

Nú vil ég aðeins í þessu sambandi minnast á það, að nú verður spurt um það, hvers vegna þetta hafi ekki komizt í framkvæmd við hina miklu endurskoðun skattalaganna 1960. Og því er fljótsvarað. Ástæðan var fyrst og fremst sú, að við þá geysilegu lækkun tekjuskatts og tekjuútsvars, sem framkvæmd var, þótti ekki fært sveitarfélaganna vegna að framkvæma þessa breytingu. Það var nokkuð almennt álit sveitarstjórnarmanna þá, að stærri stökk í þessu efni væri ekki hægt að taka í einu.

Í þessum umr. hefur það oft komið fram af hálfu málsvara hæstv. ríkisstj., að með þessum frv. sé um einföldun á skattakerfinu að ræða, og m.a. sé það nauðsynlegt og gagnlegt sem undirbúningur að staðgreiðslukerfi, sem mjög margir hafa áhuga á. Nú er það þannig, að ég held, að allir séu sammála um, að æskilegt sé að gera skattkerfið einfaldara en það er, og af hálfu fyrrv. ríkisstj. var að því unnið. Það var t.d. varðandi tekjuskattsstigana, þrepin voru orðin þrjú. Varðandi útsvörin var á árinu 1964, held ég, tekjuskattsþrepunum fækkað úr 8 niður í 2. Þeim var síðar fjölgað upp í 3 aftur eftir eindreginni ósk verkalýðssamtakanna og þá ekki sízt núv. hæstv. félmrh. Það höfðu þá um skeið verið tvö þrep, tvær prósentur, 20% og 30%, en eftir eindreginni ósk Alþýðusambandsins var bætt við þriðja þrepinu, 10%. Nú er það þannig í sambandi við þessa einföldun, að þegar hæstv. ríkisstj. leggur nú frv. fyrir, segir hún, að það sé eitt þrep, ein prósenta, varðandi útsvörin. Það sé 10%. En þegar nánar er skoðað og betur lesið, þá reynast nú þessi þrep vera 27 að tölu, hvorki meira né minna. Vissulega var þar ekki um einföldun að ræða, heldur þvert á móti, og mundi skapa margvíslega örðugleika í framkvæmd, ég tala nú ekki um, þegar staðgreiðslukerfið kæmi. Nú hefur þessu hins vegar í meðförum hv. Ed. verið breytt og fallið frá þessu, og er það vissulega til bóta. Hins vegar eru þar samt sem áður og komu m.a. inn við breytingar þar viss atriði, sem gera nú málin flóknari en áður. Skal ég ekki fara út í það hér. Gefst tækifæri til þess við umr. um það frv. hér síðar.

Hins vegar stendur eitt eftir, sem gerir skattakerfið ekki einfaldara, heldur miklu erfiðara viðfangs, og að þessu leyti færir það okkur fjær draumsýninni um staðgreiðslukerfi en æskilegt væri. Og það er þetta að þurfa nú að breyta sjálfum grunninum, í staðinn fyrir, að útsvör og tekjuskattur voru reiknuð af sama grunni, nettótekjum. Þetta hefur verið þannig, að þar hefur verið reiknaður sami grunnur, það er aðeins að vísu mismunandi persónufrádráttur varðandi tekjuskatt og útsvar, en þetta er allt svo einfalt í sniðum, að þegar búið var að reikna út þennan nettógrunn, þá var hægt að setja þetta inn í hinar margumtöluðu skýrsluvélar eða reikniheila og láta þá vinna úr þessu. Nú er þetta gert allt saman miklu flóknara, þar sem hjá hverjum gjaldanda er um að ræða tvenns konar grunn, nettótekjur fyrir tekjuskattinn og brúttótekjur fyrir útsvarið. Allir, sem eitthvað þekkja til skattamála, vita, að þetta torveldar mjög alla vinnu, og ég er eindregið þeirrar skoðunar, að þetta sé mjög til hins verra. Ég fyrir mitt leyti er algerlega andvígur því að fara inn á þessa leið með brúttótekjur og miða að því. Ég held, að við eigum að halda okkur við nettótekjurnar.

Ég held, að þegar þessi mál eru skoðuð nánar, þá sé ákaflega örðugt að koma auga á það, að með þeim sé verið að gera skattakerfið einfaldara. Það má vera, að það sé svo í einstökum atriðum, en ég held, að þar á móti komi ýmis atriði, þar sem það er gert flóknara og erfiðara en áður var. Og ef stjórnin trúir því sjálf virkilega, að hún sé að gera kerfið einfaldara, þá bendir það fremur til einfeldni hennar en kerfisins.

Það er nú nauðsynlegt, að ég fari að stytta mál mitt, og skal ég gera það. En það eru tvö atriði, sem ég á hér eftir og mun þá geyma til umr. um tekjustofnafrv., sem eins má væntanlega koma þar að. Annað er staðgreiðslukerfið, sem ég tel mjög æskilegt, að við reynum sem allra fyrst að koma á. Það mál er búið að vera mjög lengi á döfinni og búið að undirbúa það mjög rækilega af fyrrv. hæstv. ríkisstj. og er í rauninni aðeins eftir meginákvörðun Alþ. í því efni. Ég skal sleppa því máli hér og ekki ræða kosti þess og galla, en ég skal aðeins benda á eitt: Þegar frá sumum aðilum koma andmæli gegn staðgreiðslukerfinu, þá er ég ákaflega hræddur um, að það sé byggt á misskilningi og þau andmæli séu byggð á því, að menn hafa þá aðallega fyrir augum alla þá erfiðleika, sem komið hafa fram við framkvæmd þessa kerfis í Danmörku og jafnvel víðar á Norðurlöndum. En í þeim till., sem undirbúnar hafa verið af ríkisskattstjóra og koma fram í nál. því, sem var lagt fyrir Alþ. í ársbyrjun 1970, að ég ætla, kemur það, held ég, nokkuð skýrt fram, að þær till. um kerfi, sem ætlað er að taka upp hér, eru byggðar fremur á ameríska og þýzka kerfinu, þar sem reynslan er góð, ég held, að það sé óhætt að segja, mjög góð af staðgreiðslukerfinu. Það er annað kerfi, sem Norðurlöndin hafa notað, og því miður hafa komið fram mjög alvarlegir annmarkar og erfiðleikar þar, og ég er hræddur um, að þeir, sem andvígir eru staðgreiðslukerfinu hér, muni mikla um of fyrir sér þá örðugleika, sem sérstaklega í Danmörku hafa fram komið.

Ég vil svo að lokum aðeins nefna í sambandi við það, sem ég ræddi hér í upphafi míns máls um óbeina skatta, sem við ætlum að leggja höfuðáherzlu á, að þá komum við að því, að söluskatturinn hefur að vísu marga kosti, en líka marga ókosti, og vafalaust er æskilegt að fara þar inn á aðrar brautir, og ég tel fyrir mitt leyti, að við eigum að taka þar upp svo kallaðan virðisaukaskatt, sem flestar hinar norrænu og vestrænu þjóðir hafa upp tekið á s.l. árum, sem er tegund af söluskatti eða veltuskatti og hefur hins vegar marga kosti umfram núverandi söluskatt, m.a. þann stóra kost, að hann hefur innibyggt í sér sjálfum sjálft kerfið, eftirlit og aðhald, þannig að undandráttur ætti tæplega að eiga sér stað, eða a.m.k. er miklu meiri trygging en ella fyrir góðum skilum.

Ég skal, herra forseti, vegna þess hversu mjög er áliðið fundartímans, ekki lengja þetta um of, en ég vil aðeins taka það fram, að í fyrsta lagi tel ég, að alþm. þurfi að gera sér grein fyrir því, að ríkisútgjöldin eru í heild orðin hærri en svo, að þjóðarbúið geti undir því staðið til lengdar, svo að vel fari, og þetta bitnar auðvitað þannig á skattgreiðendum, að skattarnir verða of þungir. Í öðru lagi eigum við að fara miklu meira inn á braut hinna óbeinu skatta en hinna beinu skatta, sem hér er svo mjög stefnt að með þessu frv. Ég tel einnig, að við eigum sem allra fyrst að koma hér á staðgreiðslukerfi skatta. Ég tel, að við eigum að breyta söluskattinum í svo kallaðan virðisaukaskatt, og ég hefði talið, að langæskilegast hefði verið, að þessi frv. yrðu ekki afgreidd á þessu þingi, heldur gæfi stjórnin sér tóm til þess að skoða þessi mál nokkru nánar, því að það er vissulega orð að sönnu, sem hv. frsm. meiri hl. fjhn. sagði hér í fyrradag á þessa leið:

„Þessi frv. voru með vissum hætti nokkuð snöggsoðin.“