15.03.1972
Efri deild: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í B-deild Alþingistíðinda. (615)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 1. minni hl. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. 1. minni hl. fjhn., við hv. 2. þm. Norðurl. e., Magnús Jónsson, höfum ekki treyst okkur til, eins og raunar mátti búast við, að standa með meiri hl. fjhn. að þeirri till. að samþykkja þetta frv. um tekjuskatt og eignarskatt óbreytt. Það er fjarri, að svo sé. Við leggjum til eins og flokkshræður okkar í Nd., að frv. verði vísað frá með rökst. dagskrá, þar sem undirbúningur þessa frv. og efni þess er í meginatriðum gersamlega óviðunandi og samþykkt þess mundi hafa í för með sér verulega aukna skattbyrði á meginþorra gjaldþegna þjóðfélagsins.

Ég vil nú í eins stuttu máli og mér er unnt rökstyðja þetta álit okkar enn frekar, þótt bæði ég og aðrir formælendur Sjálfstfl. höfum raunar gert það í umr., bæði hér í d. í umr. um frv. um tekjustofna sveitarfélaga, svo og í Nd. varðandi þetta frv., sem nú er hér til 2. umr.

Það er svo, að ekki einasta hefur þetta frv. sætt ákaflega óvandaðri meðferð og undirbúningi, áður en það var sýnt hér í þingsölunum, eins og hv. 2. þm. Norðurl. e. skýrði frá hér við 1. umr., heldur hafa og verið höfð vettlingatök á meðferð málsins, eftir að það birtist hér á þingi. Þess er skemmst að minnast, að þinghlé var ekki að einu eða neinu leyti notað til þess að fara yfir þetta frv. í fjhn., og eftir að þing kom saman, voru nokkrir sameiginlegir fundir, þar sem mönnum gafst kostur á að hlýða á álit embættismanna. En almennt má segja um það, að meiri hl. fjhn. lét sig engu eða litlu máli skipta, hvað þessir embættismenn höfðu fram að færa, sem þó hafa mjög mikla reynslu á sviði skattamála. Og hér í þessari hv. d. hefur n. aðeins farið yfir frv. til málamynda. Fundur var boðaður í fjhn. Ed. kl. 10 í gærmorgun, og þegar að því var fundið, að 2. umr. gæti tæpast verið samdægurs, þá var skotið á skyndifundi í gær með klukkutíma fyrirvara til þess að slíta umr. um málið milli umr.

Í morgun var svo aftur fundur fjhn. Ed. ásamt með fulltrúum atvinnuveganna, sem komu þá á fund n. og birtu n. bréf, sem ég tel rétt, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér. Bréfritarar eru Gunnar J. Friðriksson fyrir hönd Félags ísl. iðnrekenda, Ottó Schopka fyrir hönd Landssambands iðnaðarmanna, Kristján Ragnarsson fyrir hönd Landssambands ísl. útvegsmanna, Hjörtur Hjartarson fyrir hönd Verzlunarráðs Íslands og Jón H. Bergs fyrir hönd Vinnuveitendasambands Íslands. Bréfið hljóðar svo:

„Þar sem hv. fjhn. Ed. Alþ. mun í þann veginn að fá til meðferðar frv. til l. um breyt. á I. nr. 68 frá 15. júní 1971, um tekjuskatt og eignarskatt, leyfa undirrituð landssamtök atvinnuveganna sér að vekja athygli á sameiginlegri álitsgerð samtakanna, sem dags. er 12. jan. s.l. og send var fjhn. Nd. Í álitsgerðinni er fjallað um þau ákvæði frv., sem snerta skattlagningu atvinnufyrirtækja í landinu og lýst afstöðu samtakanna til þeirra. Samtökunum þykir miður, að ekki skuli hafa verið haft frekara samband við þau og samráð varðandi fyrirhugaðar breytingar á skattlagningu atvinnurekstursins í landinu, sérstaklega þar sem sú varð raunin á í sambandi við þær breytingar á skattalögum, sem gerðar voru á s.l. ári. Þá var samtökunum gefinn kostur á að fylgjast náið með afgreiðslu þn. á breytingunum og koma að ábendingum og aths., sem í mörgum atriðum var tekið tillit til. Slíkur háttur á afgreiðslu málsins er mjög æskilegur að dómi samtakanna, og því þykir þeim miður, að frá honum er horfið. Samtökin harma það, að svo virðist sem ekkert tillit hafi verið tekið til þess, sem þau settu fram í fyrrgreindri álitsgerð. Óska þau eftir því, að n. kynni sér hana og vilja ítreka þær aths., sem þar eru settar fram. Sérstaklega vilja samtökin þó undirstrika eftirfarandi:

1. Ekki er annað vitað en sú stefna stjórnvalda sé óbreytt, að íslenzk atvinnufyrirtæki skuli vera jafnsett skattalega og atvinnufyrirtæki í öðrum EFTA-löndum. Þær breytingar, sem frv. gerir ráð fyrir, virðast ganga þvert á þá stefnu og gera skattalega aðstöðu íslenzkra atvinnufyrirtækja slíka, að stoðum sé kippt undan samkeppnishæfni þeirra við erlenda keppinauta.

2. Valfrelsi milli svo nefnds arðjöfnunarsjóðsfyrirkomulags og varasjóðsfyrirkomulags var eitt af þeim atriðum, sem áttu að opna fleiri möguleika fyrir atvinnufyrirtækin til eigin fjármyndunar. Vilja því samtökin halda þessu valfrelsi, en frv. gerir ráð fyrir afnámi þess.

3. Með skerðingu ákvæða gildandi laga um flýtifyrningu er gildi fyrningarheimilda þeirra stórlega skert og það svigrúm, sem ákvæðunum er ætlað að veita, m.a. á tímum nauðsynlegra fjárfestinga, stórlega rýrt.

4. Engar lagfæringar hafa verið gerðar á ákvæðum frv. um endurmat lausafjár í atvinnurekstri, þrátt fyrir að frv. gerir því sem næst að engu þýðingu ákvæða gildandi laga þar um.

5. Frv. gerir ráð fyrir mjög verulegri hækkun virkrar skattprósentu frá því, sem er í gildandi lögum. Hlýtur þetta að leiða til versnandi samkeppnisaðstöðu íslenzkra atvinnuvega gagnvart erlendum keppinautum.

Í áðurnefndri álitsgerð samtakanna er sett fram sú skoðun, að ákvæði frv. feli í sér verulega íþyngjandi áhrif á skattlagningu atvinnurekstrar í landinu. Er sú skoðun síðan rökstudd í álitsgerðinni. Því þykir samtökunum það mjög miður, að svo virðist sem alls ekkert tillit hafi verið tekið til ábendinga þeirra. Hins vegar hefur t.d. eignarskattsprósenta verið hækkuð frá því, sem vat í frv. Samtökin vilja að endingu fara þess á leit við n., að hún kynni sér þær ábendingar, sem fram eru settar í fyrrgreindri álitsgerð samtakanna, og treysta því, að n. velti sér fyrir breytingum á frv. til samræmis við þau sjónarmið, sem þar eru sett fram, svo að atvinnuvegir landsmanna verði ekki ruglaðir og gerðir ósamkeppnisfærir með óhóflegri skattlagningu.“

Síðan fylgja undirskriftir. — Það kom mjög greinilega fram hjá formælendum atvinnuveganna á fundi fjhn. í morgun, að þeir voru vonsviknir og bentu á mörg þau atriði, sem rétt er að skýra nokkru nánar. Það var í fyrsta lagi, eins og fram kemur í því bréfi, sem ég hef lesið, að lögð var áherzla á af þeirra hálfu, að áfram væri í lögum val hlutafélaga milli arðjöfnunarsjóðs og varasjóðs, og sé um arðjöfnunarsjóðsleiðina að ræða, þá sé opnuð leið til þess að safna fjármagni margra aðila til hlutafjárstofnunar í landinu.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að það hefur farið mjög í vöxt víða um land í kaupstöðum og sjávarþorpum, að fólkið sjálft hefur bundizt samtökum um það að safna fé í atvinnufyrirtæki til þess að tryggja atvinnuöryggi á staðnum. Það er þess vegna hagsmunamál slíkra staða og þess fólks, sem á þeim stöðum býr m.a., að leið sé opnuð til stofnunar hlutafélaga, þar sem hvort tveggja í senn er gert kleift: að stofna til arðjöfnunarsjóðs til þess að jafna arðgjöf á milli ára, og ekki síður hitt, sem nú er numið úr lögum, að nokkurt skattfrelsi sé veitt arði úr hlutafélögum, en í gildandi lögum er skattfrjáls arður 30 þús. kr. á einstakling og 60 þús. kr. á hjón, sem samsvarar, að arður af 300 þús. kr. hlutafjáreign er skattfrjáls. Þetta er mjög hóflega í sakirnar farið, þegar á má benda skattfrelsi sparifjár án takmörkunar að öllu leyti. En fjárfesting í atvinnufyrirtækjum og hlutafélögum er brýnasta mál okkar Íslendinga til þess að treysta atvinnuvegi okkar og atvinnuöryggi.

Þá kom það og fram, að formælendur atvinnuveganna bentu á, að með því að jafna flýtifyrningu á fimm át, eins og gert er með gildandi lögum, sé í raun og veru verið að lækka fyrningarprósentur frá því, sem gilti samkv. lögunum frá 1965. En eins og kunnugt er, var hin venjulega árlega fyrningarprósenta í lögunum lækkuð á s.l. vori með tilliti til þess, að fyrirtækin hefðu heimild til flýtifyrningar, allt að 30%, eftir eigin vali að tíma til. Þetta hefur það í för með sér m.a., að það er veruleg lækkun orðin nú á fyrningarákvæðum, að því er snertir vinnslustöðvar landbúnaðar og sjávarútvegs. Þetta er gert á sama tíma og t.d. frystiiðnaðurinn stendur frammi fyrir óvenjulegum fjárfestingarkröfum, eins og kunnugt er, vegna þeirra skilyrða, sem frystiiðnaðinum og raunar matvælaiðnaðinum einnig eru sett af hálfu kaupenda okkar erlendis. Það skýtur skökku við málefnasamninginn, sem birtur var á s.l. sumri, þar sem talað var um, að létta ætti álögum á atvinnureksturinn í landinu og afnema og lækka gjöld á atvinnuvegunum.

Þá var í þriðja lagi af formælendum atvinnuveganna lögð áherzla á, að endurmatsheimild varðandi lausafé væri svo skert, að óviðunandi væri. Í stað þess, að endurmat var heimilt með tilvísun til endurkaupsverðs, þá er nú aðeins leyfð 20% hækkun á upphaflegu kaupverði lausafjár. Það er á þessu mjög mikill munur, og það segir sig sjálft, að þegar um verðhækkanir er að ræða, eins og hafa t.d. átt sér stað á skipum, sem teljast til lausafjár í þessum skilningi, er þessi endurmatsheimild hvergi nærri nægileg. Það verður seint sótt um endurnýjun fiskiskipaflotans, ef fyrningarheimildir og endurmatsheimildir eru ekki rýmri í lögum en þessu svarar. Enda er það svo, að núv. hæstv. ríkisstj. hefur að vísu lengt lánstíma lána, sem veitt eru út á fiskiskip, og gerir almennt ráð fyrir, að þau greiðist ekki nema á 18 árum. Þetta er vísbending um þann rekstrargrundvöll, sem þessi hæstv. ríkisstj. ætlar sjávarútvegi landsmanna, að fiskiskip þeirra endist í 18 til 20 ár. Með þessum hætti fáum við aldrei eðlilega endurnýjun fiskiskipaflotans árlega jafnt og þétt, heldur verður um slík stökk að ræða eins og borið hefur á á síðasta ári, og það er út af fyrir sig óæskilegt. En meginatriðið í þessu efni er, að atvinnuvegirnir, ef þeir eiga að halda í við samsvarandi atvinnuvegi nágrannaþjóða og samkeppnisþjóða, verða að búa við samsvarandi fyrningarreglur og endurmatsheimildir eins og gerist og gengur í nágrannalöndunum. Það er álit formælenda atvinnuveganna, að með þessum breytingum, sem nú eru ráðgerðar á tekju- og eignarskattslögunum, sé töluvert frá því, að því marki sé náð, sem raunar hafi verið grundvöllur þess, að við tókum upp samninga við EFTA og Efnahagsbandalagíð.

Í fjórða lagi benda svo formælendur atvinnuveganna á það, að skattprósentan sjálf er hækkuð úr 43% í 53%. Raunar var skattprósentan heldur lægri en 43% í þeim sveitarfélögum, sem gáfu afslátt frá tekjuútsvari. Hér í Reykjavík hygg ég, að raunveruleg skattprósenta á tekjur hafi verið 41%, en hún er án undantekninga 53% nú.

Frsm. meiri hl. fjhn. taldi, að tekjuskattar fyrirtækja samkv. samanburði skattkerfa á fskj. II í nál. meiri hl. sýndi, að tekjuskattar fyrirtækja hækkuðu ekki samkv. skattalögunum miðað við þau lög, sem giltu við álagningu á s.l. ári. Við þetta vil ég gera þá aths., að þar sem rætt er í yfirliti hagrannsóknadeildar Framkvæmdastofnunar um gamla kerfið, tilvik I, er þetta tilvik í í raun og veru byggt á því, að fyrirheit voru í fjárlagafrv. á s.l. hausti um, að skatttekjur af félögum skyldu vera óbreyttar frá því fyrir breytinguna á skattalögunum s.l. vor. Það er e.t.v. nálægt því, sem hefði orðið miðað við sams konar álagningarreglur, en það er ekki nein nákvæm rannsókn, sem leiðir til þeirrar niðurstöðu. Hér er sem sagt eins og í svo mörgu öðru í sambandi við þær skýrslur og gögn, sem formælendur ríkisstj. hafa lagt fram til þess að reyna að draga úr þeirri staðreynd út á við, að skattbyrði bæði atvinnuveganna og einstaklinga eykst með tilkomu þessara skattafrv., að menn ákveða fyrst, hvaða niðurstöðu þeir vilja fá í þessum samanburði, og gefa sér síðan forsendur, sem geta leitt til þeirrar niðurstöðu.

Formælandi iðnaðarins taldi á fundi fjhn. í morgun það mjög mikilvægt, að iðnaðinum væri veittur möguleiki til þess að afskrifa vélar og tæki og endurmeta þær, til þess að þoka íslenzkum iðnfyrirtækjum til vélvæðingar og aukinnar hagræðingar. Formælandi Landssambands ísl. útvegsmanna benti sérstaklega á, að verðhækkun á fiskiskipum hefði leitt til þess, að þau væru almennt hátt metin í bókum útgerðarfyrirtækja, en það þýddi aftur á móti ekki, að til væru sjóðir, sem nægilegir væru sem eigið fjárframlag til kaupa og endurnýjunar á fiskiskipastólnum.

Ég vildi láta þessi atriði koma fram, benda á, að álögur, að því er tekjuskatta fyrirtækja snertir, meira en tvöfaldast frá gildandi lögum með tilkomu þessara laga, og ég tel þó áætlun Efnahagsstofnunarinnar ekki raunhæfa, að því er tekjuskatta fyrirtækja snertir, þar sem þeir eru áætlaðir samkv. hinum nýju lögum 555 millj. kr., en samkv. hinum gömlu lögum, fyrir breytinguna s.l. vor, 543 millj. kr. Samkv. gömlu lögunum voru hæstu tekjuskattar 43%, nú eru þeir 53%, og ef gert er ráð fyrir til viðbótar þessari hækkun á tekjuskattsprósentu félaga, sem nemur um 23–24% hækkun, og ef til viðbótar er gert ráð fyrir einhverri hækkun á tekjuafgangi félaga, t.d. eitthvað í áttina við það, sem átt hefur sér stað hjá einstaklingum, eða um eða yfir 20%, kemur fram, að hér eru tekjuskattar fyrirtækja eftir hinu nýja lagafrv. mjög vanmetnir, jafnvel þótt takmarkaðar flýtifyrningar og endurmatsheimildir, sem ráðgerðar eru, verði nýttar.

Áður en ég skilst við þann þátt þessara mála, sem lýtur að skattlagningu félaga, tel ég nauðsynlegt að benda enn á atriði, er snertir mismunun félagsforma, sem ráðgerð er samkv. þessum frv. Þess var áður getið, að gildandi lög gerðu ráð fyrir skattfrelsi arðs af hlutafé, 30 þús. hjá einstaklingi og 60 þús. kr., að því er hjón snertir. Á sama hátt átti að vera skattfrelsi vaxta af stofnfé að sömu takmörkunum. Nú er búið með þessu frv. að afnema skattfrelsið, að því er tekur til arðs af hlutafé, en skattfrelsi af vöxtum af stofnfé er haldið í lögunum og gildir bæði fyrir einstaklinga og félög, þannig að t.d. samvinnufélög eru skattfrjáls af vöxtum af stofnfé, sem þau eiga í öðrum samvinnufélögum. Ég tel þetta óeðlilega mismunun félagsforma og brot á því jafnrétti, sem ríkja á í lýðfrjálsu landi. Sams konar mismunun er á ferðinni, að því er snertir skattlagningu samvinnufélaga af viðskiptum við utanfélagsmenn. En í gildandi lögum er ákveðið, að ef félög geta ekki gert grein fyrir viðskiptum sínum við utanfélagsmenn, skuli allar tekjurnar skattskyldar. Nú er hins vegar gert ráð fyrir að breyta þessu á þann veg, að félögin geti endurgreitt eða lagt í stofnsjóði 15 hluta hreinna tekna sinna. Af þessu sést, þegar haft er í huga, að varasjóðsfrádráttur er 25%, að ekki verður mikið eftir til skattlagningar, þegar varasjóðsframlagið hefur verið dregið frá til viðbótar, m.ö.o., að samvinnufélög eru sem slík algjörlega skattfrjáls, nema að því er snertir fasteignaskatta og aðstöðugjöld.

Ég vil þá víkja að ýmsum ákvæðum fyrirliggjandi frv. og áhrifum þeirra á skattlagningu einstaklinga og drepa nokkuð á, hvernig þær skýrslur eru til komnar eins og t.d. sú, er við sjáum sem fskj. í nál. meiri hl. fjhn. Þar er fyrst og fremst sú forsenda gefin, að skattvísitalan sé ákveðin 106.5. Það er varið með því, að það svari til hækkunar framfærsluvísitölu á milli ára. Nú er það ekki heldur alveg nákvæmt, því að hækkun skattvísitölu mun vera nokkru hærri, 6.7 eða 6.8 stig, og það hefur einnig komið fram, að ekki er heldur miðað við að ná því upp, sem skattvísitalan var á eftir framfærsluvísitölunni, vegna þess að ekki var unnt að halda í horfinu á erfiðleikaárunum 1967 og 1968. En stjórnarsinnar hefðu átt, ef þeir hefðu viljað vera sjálfum sér samkvæmir, að vinna skattvísitöluna upp, því að það er nú ekki lengra síðan en á löggjafarþinginu 1970–1971, að í Nd. fluttu þeir frv. til l., þm. Þórarinn Þórarinsson, Halldór E. Sigurðsson, Jón Skaftason, Vilhjálmur Hjálmarsson og Eysteinn Jónsson, um það, að skattvísitalan skyldi þá færast í það horf að fylgja framfærsluvísitölunni fullkomlega. Hér í hv. Ed. fluttu þeir shlj. till., þm. Einar Ágústsson, Björn Jónsson og Steingrímur Hermannsson. Ef þessir stjórnarsinnar vildu nú vera sjálfum sér samkvæmir, ættu þeir að ákveða skattvísitöluna ekki 106.5 og ekki 121.5, eins og við höfum rætt um sjálfstæðismenn, heldur 124.

Frsm. meiri hl. fjhn. ræddi um, hvað væri réttlát skattvísitala, og gerði þar að umtalsefni, hvort ætti að fylgja hækkandi verðlagi eða hækkandi kaupgjaldi. Nú er það að vísu svo, að fyrrv. stjórn setti sér það að markmiði, að skattvísitalan væri sem nánast í samræmi við dagkaup Dagsbrúnarverkamanns með svo sem einni eftirvinnustund á dag. Því miður tókst ekki að halda í horfinu, þegar erfiðleikaárin gengu yfir, og heldur ekki í horfinu við framfærsluvísitöluna, en við getum sparað okkur að ræða um, hvort sé réttlátari viðmiðun hækkandi framfærsluvísitala eða kaupgjaldsvísitala. Við getum í bili alla vega sætzt á það sjónarmið, sem þessir hv. stjórnarsinnar báru fram í fyrra um það að miða við framfærsluvísitöluna, og við getum jafnvel líka verið þess sinnis, að það þurfi að taka það skref í áföngum. Í fyrra var það yfirlýst stefna þáv. fjmrh. að ná því, sem menn höfðu dregizt aftur úr, í áföngum, og þá hækkaði hann skattvísitöluna um 20% og framfærsluvísitalan hafði aðeins hækkað um 14%. Nú er það till. okkar að hækka hana um 21.5%, þótt hin hafi aðeins hækkað um 6.5%, en við geymum okkur síðasta áfangann upp í 24% þar til á næsta ári, ef svo horfir, sem útlit er fyrir nú. Við viljum gjarnan halda áfram og miða við það, sem upphaflega var markmiðið, daglaun Dagsbrúnarverkamanns með eftirvinnukaupi, en til þess þyrfti skattvísitalan að vera ákveðin 133 stig, þannig að það er ljóst, að við sýnum fullkomlega ábyrgðartilfinningu með þessari stefnumörkun okkar. Hún er í raun og veru á þann veg, að hún er varlegri nú einu ári síðar en stefnumörkun hæstv. fjmrh. var í fyrra, og hefur þó allt horfið til betri vegar, að því er viðskiptakjör og aflabrögð snertir, á því ári, sem síðan er liðið, þótt annað hafi gengið oss í móti eins og stjórnarskiptin og annað því um líkt.

Það urðu nokkrar orðræður hjá hv. frsm. meiri hl. fjhn. um það, að það væri eðlilegt að miða við framfærsluvísitölu, því að eftir því hækkuðu persónufrádrættirnir, og persónufrádrættirnir miðuðust við útgjöld til brýnustu lífsnauðsynja. Það væri aðalatriðið, að sá frádráttur hækkaði. En hins vegar væri ekkert óeðlilegt við það, að skattbyrðin ykist hlutfallslega að öðru leyti, eða þannig skildi ég hv. frsm. Hann sagði eitthvað á þá leið, að samneyzlan yrði að vaxa í sama mæli og einkaneyzlan. Það tel ég eðlilega viðmiðun. En ef við miðum eingöngu við framfærsluvísitölu og ekki við tekjur manna eða kaupgjaldsvísitölu, eykst auðvitað samneyzlan, ef kaupgjaldið hækkar meira en framfærslukostnaður. Þá ætlum við meira af þjóðartekjunum í samneyzlu. Ég er ekkert að útiloka að svo geti farið, að við val á ýmsum eftirsóknarverðum markmiðum teljum við, að samneyzlan þurfi á einhverju tímabili að aukast meira en einkaneyzlan. En við skulum ekki blekkja okkur í þeim efnum, að skattbyrðin hlýtur að aukast í sama mæli og um leið. Það er talið samkv. upplýsingum hæstv. fjmrh., að skattbyrðin muni aukast miðað við þjóðarframleiðslu úr 32% í 34%, aðeins miðað við árin 1971 og 1972, og það er þó nokkuð.

Ég vildi láta þetta koma fram, að því er skattvísitöluna snertir, en í framhaldi af því vildi ég leyfa mér að benda á, að ef miðað er við skattvísitölu 121.5, eins og við sjálfstæðismenn höfum hent á, að eðlilegt sé, er aukin skattbyrði samkv. framlögðum gögnum Efnahagsstofnunarinnar yfir 700 millj. kr., og þegar tekið er tillit til minnkaðra niðurgreiðslna á landbúnaðarvöru, má bæta við a.m.k. 400 millj. kr. til viðbótar, eins og hv. 2. þm. Norðurl. e. benti hér á við 1. umr. um þetta frv. En þá er eftir enn fremur að taka tillit til þess, að í þessum samanburði er ekki gert ráð fyrir, að sveitarfélög landsins þurfi að gripa til álagsheimilda þeirra, sem þau hafa samkv. tekjustofnalögum sveitarfélaga. Ef um það er að ræða, bætast við milli 500 og 600 millj. kr. í skattbyrði, svo að þegar allt þetta kemur heim og saman, er skattbyrðin orðin býsna miklu þyngri samkv. þeim fyrirliggjandi lögum en samkv. þeim, sem verið hafa í gildi.

Það er einnig vert að leggja á það áherzlu, að í þessum samanburði Efnahagsstofnunar er ekki tekið fullt tillit til frádráttarhæfni ýmissa gjalda eins og t.d. útsvara og nefskatta, sem skiptir mjög miklu máli. Þá er og gengið út frá því, að nefskattar mundu hafa hækkað miðað við, að gamla kerfið hefði áfram verið í gildi, en svo hefði ekki þurft að vera,,því að frá 1. ágúst s.l. til ársloka 1971 voru sjúkrasamlagsgjöld niðurgreidd um sem nam um 150 kr. á mánuði, og frádráttarbærnin er ekki í dæminu og ekki niðurfelling þeirra á kaupgjaldsvísitölu, sem nemur svo háum upphæðum, að þeir, sem hafa 30 000 kr. mánaðarlaun, mundu á þessu yfirstandandi ári tapa í tekjum upphæð, sem svarar til nefskatta á hjón, eða á milli 21 og 22 þús. kr. Þess vegna er þessi samanburður mjög villandi og blekkjandi á allan hátt. Þá er gjarnan í blöðum stjórnarsinna ekki tekin með hækkun fasteignaskatta og því siður álag á þá eða hækkun á stofni fasteignamatsins, en allt þetta getur leitt til þess, að fasteignaskattar verði 0.9% af fasteignamati.

Þegar ég tel mig nú hafa sýnt fram á, að það fari ekki á milli mála, að samkv. öllum gögnum og staðreyndum málsins sé um mikla aukningu skattbyrðarinnar að ræða í heild, þá er út af fyrir sig athyglisvert að kynna sér, með hvaða hætti ríkisstj. hyggst dreifa skattbyrðinni, og e.t.v. má taka aðeins smádæmi til að byrja með um það, hvernig hæstv. ríkisstj. hefur breytt frv. sínu í meðförum þingsins, og hafa þá í huga þá yfirlýsingu stuðningsblaðs ríkisstj., að meira en helmingur framteljenda hafi undir 300 þús. kr. brúttótekjur á s.l. ári. Þá kemur í ljós, að sé um einhleypinga að ræða með brúttótekjur 200 þús. og 300 þús. kr., þá hafa breytingar á frv. í meðförum stjórnarsinna í þinginu orðið til þess, að skattbyrði þessara tekjuflokka þyngist, en léttist aðeins á þeim, sem hafa brúttótekjur 400 þús. og 600 þús. kr. og þar yfir, og þá er ég aðeins að tala um upphaflegt frv. og það, sem við sjáum nú með breytingum. Að því er snertir hjón, þá er sama sagan, að skattbyrði þeirra hjóna, sem hafa 200 þús. og 300 þús. kr. brúttótekjur, þyngist frá upphaflega frv., en hún léttist aðeins hjá þeim, sem hafa hærri tekjur.

Þetta var nú útúrdúr. En ég vildi þó aðeins geta um, hvernig skattbyrði einstakra skattþegna breytist samkv. frv., og gera samanburð á því og því, sem var á s.l. ári og mundi hafa orðið eftir óbreyttu kerfi og skattvísitölu 121.5 á þessu ári.

Ef við tökum fyrst einhleypan karlmann með 200 þús. kr. tekjur, þá var skattbyrði hans á s.l. ári 14%, en mundi verða með sama kerfi 14.7%. Nýja kerfið er með 11% útsvarsstiga, — sem ég geng yfirleitt út frá vegna takmarkaðra tekjustofna sveitarfélaga og með því einnig, að tekjuskattar voru lækkaðir úr 45% í 44% með tilliti til þess, að sveitarfélög gætu nýtt 11%, — þá er skattbyrðin orðin 15.63%. Ef við reiknum inn í dæmið áhrif nefskattanna á launin, þá er skattbyrðin orðin 19.58%. Það vill segja, að skattbyrðin hefur aukizt um 40% á einhleypum karlmanni með 200 þús. kr. tekjur frá því, sem var á árinu 1971.

Ef við tökum einhleypan karlmann með 400 þús. kr. tekjur, þá var skattbyrðin á árinu 1971 23%, en yrði með óbreyttu skattkerfi sú sama, með nýja kerfinu án kaupgjaldsvísitöluáhrifa 30.5% og með kaupgjaldsvísitöluáhrifum 34.4%, eða skattbyrðin eykst um 49%.

Ef við tökum einhleypan karlmann með 600 þús. kr. tekjur, þá var skattbyrði hans á s.l. ári 29.4%, en yrði með óbreyttu kerfi lík, með nýju kerfi án kaupgjaldsvísitöluáhrifa 36.6% og með kaupgjaldsvísitöluáhrifum 40.6%, eða skattbyrði eykst um nær 38%.

Ef við tökum barnlaus hjón með 200 þús. kr. tekjur, var skattbyrði þeirra á s.l. ári 12.5%, en yrði með óbreyttu kerfi 13.7%, en með nýja kerfinu án kaupgjaldsáhrifa 11.6% og nýja kerfinu með kaupgjaldsáhrifum 15.5%. Aukning skattbyrðar er 24.2%.

Ef við tökum barnlaus hjón með 400 þús. kr. tekjur, þá var skattbyrði þeirra á s.l. ári 14.8%, með óbreyttu kerfi 15%, með nýja kerfinu án kaupgjaldsvísitöluáhrifa 17.3%, en með áhrifum kaupgjaldsvísitölu 21.2%. Aukning skattbyrðar er 43.8%.

Og ef við tökum barnlaus hjón með 600 þús. kr. tekjur, þá var álagningin á síðasta ári 21.3%, og yrði sú sama, ef sama kerfi yrði nýtt, en með nýja kerfinu án kaupgjaldsvísitöluáhrifa 26.4% og með kaupgjaldsvísitöluáhrifum 30.3%. Aukning skattbyrðar er 42%.

Þetta sýnir það, að skattbyrði einstakra skattþegna, einstaklinga og hjóna, eykst mjög verulega. Þá er mjög mikil ónákvæmni til staðar, að því er snertir ákvæði um skattlagningu einstæðra mæðra. Þannig sýnast meðlagsgreiðslur til einstæðra mæðra verða útsvarsskyldar, og sömuleiðis eftir því, sem tekjustofnalögin segja um aukafrádrátt fyrir einstætt foreldri, sýnist ekki vera um að ræða, að hann sé frádráttarbær á tekjum til útsvars. Þetta getur leitt til þess, að hagur þessa hóps skattþegnanna sé fyrir borð borinn.

Ég vil þá koma að enn einum hópi í þjóðfélaginu, sem löggjafinn hefur hingað til séð ástæðu til að hafa sérstök ákvæði um, en það eru sjómennirnir. Ef við tökum sjómann með 470 þús. kr. brúttótekjur á árinu 1971, sem samsvarar 352 þús. nettó, áður en til sjómannafrádráttar kemur, þá var skattbyrði hans af brúttótekjum 6.38% í Reykjavík 1971, en yrði með óbreyttu kerfi og vísitölu 121.5 6.72% eða nær hin sama. Samkv. frv. mundi þessi skattbyrði verða, að því er farmenn snertir, 12.45%, og að því er fiskimenn snertir, 12.12%. Skattbyrði sjómanna tvöfaldast því miðað við gamla kerfið.

Ef við lítum nánar á þá hópa, sem löggjafinn hefur viljað taka sérstakt tillit til hingað til, þá er dæmið á þennan veg, að því er aldrað fólk snertir. Við skulum fyrst taka einhleypan, aldraðan mann með 200 þús. kr. brúttótekjur, þ.e. 120 þús. kr. launatekjur, annað er ellilífeyrir og eigin húsaleiga. Þá mundi skattbyrði hans á síðasta ári hafa verið 3.35%. Ef gamla kerfið héldi áfram og persónufrádráttur 67 ára og eldri 2/5 af persónufrádrætti einstaklings, þá mundi skattbyrði hans verða 2.58% eða lækka. Samkv. nýja kerfinu mundi skattbyrðin verða 11.49% og launaskerðing vegna kaupgjaldsvísitölu 4 700 kr.

Ef við tökum einhleypan, aldraðan mann með 300 þús. kr. tekjur þá var skattbyrði hans 10% á síðasta ári, en yrði samkv. óbreyttu kerfi vegna sérstaka frádráttarins, sem samþykktur var á s.l. vori, 7.36%, en samkv. fyrirliggjandi frv. 22.69%, og til viðbótar kæmi launaskerðing vegna kaupgjaldsvísitölu 8 600 kr.

Ef við tökum síðan einhleypan, aldraðan mann með 400 þús. kr. tekjur, þá var skattbyrði hans á s.l. ári 17.3%, samkv. gamla kerfinu með þeim frádrætti, sem samþykktur var í fyrra, 13%, en yrði samkv. fyrirhuguðum lögum 29.25% og launaskerðing vegna kaupgjaldsvísitölu 12 600 kr.

Ef við tökum síðan gömul hjón með 200 þús. kr. brúttótekjur, þá var skattbyrði þeirra á s.l. ári 0.82%, og hefði fallið niður í 0.65% á þessu ári að óbreyttum lögum, en nýja kerfið leiðir til þess, að skattbyrðin hækkar í 3.67%, og launaskerðing vegna kaupgjaldsvísitölunnar er 2 700 kr.

Þá eru það öldruð hjón með 300 þús. kr. tekjur. Skattbyrði þeirra var á s.l. ári 2.23%, en hefði orðið á þessu ári 1.52%, en verður 8.64% eða nær þreföldun skattbyrðarinnar, og auk þess verður launaskerðing vegna kaupgjaldsvísitölunnar 6 600 kr.

Ef við lítum á fullorðin hjón með 400 þús. kr. brúttótekjur, þ.e. launatekjur auðvitað 269 þús. kr., þá var skattbyrði við álagningu 1971 6.73%, samkv. óbreyttu kerfi 4%, en verður nú 16.65%, auk launaskerðingar vegna kaupgjaldsvísitölu, 10 600 kr.

Það var, að mig minnir, samdóma álit þm. á s.l. vori, að aldrað fólk, sem komið væri á ellilífeyrisaldur og hefði unnið allt sitt líf hörðum höndum, ætti það inni hjá samfélaginu að fá nokkra tilhliðrun á efri árum. Nú er gengið í þveröfuga átt, og skattbyrðar þessa fólks auknar, ekki eingöngu með þessum hætti, eins og ég hef hér sýnt fram á, heldur og með stórhækkuðum fasteignasköttum, sem koma mjög illa við þennan hóp í þjóðfélaginu.

Herra forseti. Ég fer nú að stytta mál mitt og vil þó bæta við það, sem ég hér hef rakið um einstök dæmi þess, hve illa þessi fyrirhugaða skattalöggjöf kemur niður á ýmsum hópum skattþegna, því, að ég tel nær óhugsandi, að núv. ríkisstj. hafi í raun og veru ætlazt til, að þessi yrðu áhrifin. Ég hygg, að það séu velviljaðri menn en svo, sem þá ríkisstj. skipa, og stjórnarsinnar séu það almennt. Ég tek þetta miklum mun frekar fram sem dæmi um lélegan undirbúning þessara skattalagafrv.

Hefði ríkisstj. gert sér grein fyrir áhrifum skattalaganna, eins og þau liggja fyrir í dag í þessari hv. d. og í Nd., þá er ég viss um, að hún hefði skoðað hug sinn betur og vandað undirbúning málsins á þann veg, að slíkir agnúar væru af lögunum sniðnir. Þess vegna er það álit okkar sjálfstæðismanna, að ekkert annað úrræði sé fyrir hendi, eins og dæmið stendur í dag, en að fresta því að leiða slík ákvæði í lög og búa við gamla kerfið með þeirri skattvísitölu, er við höfum lagt til, og vanda betur lagasmíðina. Um það er ekki ágreiningur, að rétt sé að endurskoða bæði lög um tekjuskatt og eignarskatt og lög um tekjustofna sveitarfélaga, en slíka endurskoðun verður að vanda, og hún verður að miðast við það að örva sparnað manna og viðleitni til öflunar tekna.

Hæstv. fjmrh. lét þess getið í framsöguræðu sinni hér í d., að þessi lög gerðu ráð fyrir því að skattleggja eignir, þar sem eignir væru fyrir hendi, og tekjur, þar sem tekjur væru fyrir hendi. Ég býst nú við, að þetta sé meira eða minna markmið allra skattalaga, en spurningin er, hvernig að þessu er farið. Það er skoðun okkar sjálfstæðismanna, að mjög varlega beri að fara í skattlagningu eigna, hvort heldur eru fasteignir eða hreinar eignir til þess að koma ekki í veg fyrir eignamyndun í þjóðfélaginu. Efnahagslegar framfarir byggjast á slíkri eignamyndun, byggjast á því, að menn leggi nokkuð til hliðar til þess að kaupa ný framleiðslutæki. til þess að skapa sér og fjölskyldu sinni og atvinnufyrirtækjum sinum betri möguleika til aukins starfsárangurs. Með þessum hætti einum eykst verðmætasköpunin í þjóðfélaginu, sem er undirstaða kjarabóta fyrir allan almenning. Ef við í heild teljum, að tekjuskiptingin í þjóðfélaginu sé sæmilega réttlát, þá liggur og í augum uppi, að skattar á tekjur almennt eiga að vera hóflegir, og það er skoðun okkar, að skattar, sem fara yfir það, að jaðarskatturinn nemi meira en helmingi síðustu krónu í tekjum manna, séu til þess fallnir að draga úr framtaki manna og vilja til þess að leggja eitthvað á sig, bæði sjálfum sér til góðs og þjóðarheildinni um leið. Spyrja má, hvort nauðsyn sé til tekjujöfnunar. Við sjálfstæðismenn teljum, að slik nauðsyn sé ekki fyrir hendi í þjóðfélaginu í dag, slík nauðsyn leiði ekki til þess, að jaðarskattar þurfi að fara yfir 50%, og sannleikurinn er sá, að skattafrv. ríkisstj. hafa ekki það í sjálfu sér að markmiði að leiða af sér tekjujöfnun, því að tekjuskattur til sveitarfélaga er jafn, hlutfallslegur skattur, 11% í raun, eftir því sem ég tel, að muni verða, og ef litið er frá persónufrádráttum, sem ganga yfir alla í tekjusköttum, þá er sami tekjuskattur á alla, sem ná ákveðnum tekjum, 44%. Raunverulega má því segja, að allir búi við 55% skatt, ef undan er tekinn persónufrádrátturinn og 75 þús. kr. teknabil, sem lægra er skattlagt. Ég er ekki út af fyrir sig að gagnrýna þetta, en ég nefni þetta til að sýna fram á það, að um tekjujöfnun er ekki að ræða nema að því leyti, sem persónufrádrættir segja til um. Ég tel líka, að þegar komið er upp í 55% jaðarskatt, þá sé ekki efni til tekjujöfnunar umfram það, og sannleikurinn er sá, að það er óeðlilegt, að menn séu komnir upp í hæstu skatttaxta þegar í meðaltekjum, eins og raun ber vitni um í þessu frv. Það sýnir, að leið beinna skatta er algjörlega tæmd, og það væri langtum áhrifameira og betri skattheimta og eðlilegri, — að svo miklu leyti, sem tekjuþörf hins opinbera segir til um og er viðurkennd, en það er annað mál. — að fara leið óbeinna skatta, eins og við sjálfstæðismenn höfum bent á. Með þessum frv. er stigið í öfuga átt. Hlutfall beinna skatta í tekjuöflun ríkisins hækkar úr 19.2% í 25.7%. Það er einnig til þess fallið að draga úr tekjuöflunarviðleitni, draga úr eignamyndun, og ef nokkuð er, að örva eyðslu. Hér er öfugt að farið við það, sem við viljum, og við það, sem er grundvöllur að framförum í þjóðfélaginu.