15.03.1972
Efri deild: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 967 í B-deild Alþingistíðinda. (617)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég skal ekki fara að halda hér langa ræðu eða fara mikið út í það, sem fram hefur komið í umr. hér, vegna þess að það hefur áður verið rætt, bæði af mér og öðrum hv. þm. En ég vildi við þessa umr. leyfa mér að þakka hv. fjhn. fyrir afgreiðslu á þessu máli, sem hefur verið með skjótum hætti. Mér er ljóst, að það var lítill tími, sem n. hafði til þess að athuga málið sérstaklega, en hins vegar höfðu n. bæði í Nd. og Ed. unnið saman áður, og bætti það úr, eins og oft vill verða, þegar slík afgreiðsla fer fram, eins og hér á sér nú stað.

Út af því, sem hv. 5. þm. Reykn. sagði hér áðan og spurði um. mun það vera rétt hjá honum, að þegar ég gerði grein fyrir þessu máli hér í hv. d., mun hafa fallið niður hjá mér að víkja að þeirri breytingu, sem gerð er á ríkisskattanefnd. En ég vil segja það í sambandi við skipun hennar, að skilningur minn er sá, að hún sé öll skipuð til fjögurra ára. Vil ég láta það koma fram hér, að þannig mundi ég framkvæma þetta, ef til þess kemur. Ég vil líka segja, að ég tel, að með þeirri breytingu, sem þar er gerð, vinnist tvennt: Í fyrsta lagi á að vera visst öryggi í því fyrir gjaldendurna í landinu, að þarna komi til sérstakur úrskurðaraðili, sem ekki fjallar um skaflamálin að öðru leyti. Eins og nú er, er ríkisskattstjórinn úrskurðaraðilinn, en hann verður í þessu tilfelli sóknaraðili fyrir þá, sem eiga að njóta skattanna. Þetta er ekki sagt með tilliti til þess embættismanns, sem gegnir því starfi, heldur til formsins, sem ég tel, að tryggi þetta betur. Ég mundi líka telja, að með þessum hætti væri að því stefnt að hraða afgreiðslu í úrskurðarmálum betur en tekizt hefur nú vegna þess annríkis, sem þeir aðilar eiga við að búa, sem að þeim málum vinna.

Í sambandi við það, sem hv. 5. þm. Reykn. sagði um skattalöggjöfina frá í fyrra og afstöðuna til atvinnurekstrarins, vil ég taka undir það með honum, að það er skoðun mín og ég vil vinna að því. að skattlagning á fyrirtæki verði ekki meiri en svo, að rekstur þeirra geti orðið með sómasamlegum hætti. Ég held, að þótt menn kunni að deila um nokkur atriði í sambandi við skattaálagninguna á fyrirtæki nú, sé það líka ljóst, að sumu er þar verulega breytt til batnaðar frá því, sem áður hefur verið, og þeim atriðum, sem fyrirtækin hafa ekki lagt minna upp úr en sumum öðrum, sem deilt er um. Ég vil líka minna á það, að það kom fram í ræðu hjá hv. þm. Braga Sigurjónssyni í útvarpinu í fyrravor, að þegar þessi skattalög hefðu verið afgreidd á þinginu í fyrravor, hefði Alþfl. raunar orðið að kaupa breytingar á tryggingalöggjöfinni með því að standa að þessari skattalagabreytingu. Og hv. þm. Benedikt Gröndal hélt þessu mjög á lofti á framboðsfundum á Vesturlandi í sumar. Ég vil líka minna á, að það kom fram í ræðu hjá hv. 1 þm. Reykv. í Nd. fyrir jólin, þegar þetta frv. var lagt fram fyrir hv. d.. að hann taldi, að of langt hefði verið gengið í ýmsum ívilnunum fyrir atvinnureksturinn í landinu með skattalagabreytingunni í fyrra. Hér er raunverulega stefnt að því að draga úr þessu, en ekki að koma í veg fyrir, að fyrirtækin njóti eðlilegra skattalaga, en að þau búi ekki við nein vandræði í því.

Um það, hvort skattar séu lagðir á nauðþurftir eða ekki, má alltaf deila, en ég hygg þó, að því sé náð með þessum frv. að leggja ekki á slíkar nauðþurftatekjur í sambandi við tekjuskattinn, því að persónufrádráttur tryggir, að svo er ekki. Og ekki sízt, þegar það er haft í huga, að búið er að fella niður nefskattana, er þetta betur tryggt en áður hefur verið.

Út af því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði hér í framsöguræðu sinni áðan og hv. 2. þm. Norðurl. e. fjallaði einnig um hér við 1. umr. málsins, skal ég ekki fara nema út í litinn hluta af því. Talið um óvandaðan undirbúning og meðferð þessa máls er ég búinn að heyra svo oft í þessum umr., að ég kippi mér nú ekki upp við það. Ég vil aðeins minna á, að þegar skattafrv. voru lögð hér fram í fyrravor, sem áttu nú að vera af annarri gerð um undirbúning en þetta frv., var enginn útreikningur með þeim frv. um, hvaða áhrif þau hefðu á tekjur ríkissjóðs. Ég hef ekki séð hann enn þá í sambandi við það mál. þó að Efnahagsstofnunin hafi hins vegar í útreikningum sinum nú reynt að finna það, hvað hann raunverulega kostaði. En það var ekki talin ástæða til þess þá að gera grein fyrir því.

Ég vil líka segja það, að ég vék við 1. umr. þessa máls að muninum á skattfrelsi sparifjár og hlutafjár, en ekki er eðlilegt að telja, að þetta fari saman, því að a.m.k. eins og stefnan hefur verið í efnahagsmálum þjóðarinnar á síðari árum, hefur máttur sparifjárins alltaf verið að rýrna. En í sæmilegum fyrirtækjum hefur máttur hlutafjárins aukizt, þar sem þær eignir, sem hlutafélagið hefur eignazt, hafa fylgt verðlaginu, þegar spariféð gerir það ekki, því að venjulega eru þessar eignir verulega bundnar í fasteignum og öðru því, sem hefur haldið verðmæti sínu í verðbólgunni.

Ég tek undir það, að það er réttmætt að fylgja þeirri stefnu að endurmeta verðmæti í sambandi við verðbólguna, en að gera það með þeim hætti, sem gert var ráð fyrir í lögunum í fyrravor, þegar fyrirtækin fengu svo rúmar hendur í því efni, tel ég of langt gengið og ekki rétta stefnu, þó að grundvöllurinn sé í sjálfu sér réttur. Í þessu frv. er reglan viðurkennd, þó að hún sé ekki gerð eins takmarkalaus eins og þar var.

Í sambandi við tekjur af stofnfé í samvinnufélögum og arð af hlutabréfum er ólíku saman að jafna. Ef arður í samvinnufélögunum væri útborgaður, væri það hliðstætt og ætti að skattleggjast alveg eins. En það er ekki um það að ræða. Ég fæ ekki þann arð, sem ég fæ af viðskiptum mínum við samvinnufélagið, útborgaðan. Hann er bundinn í sjóði félagsins og er ekki til ráðstöfunar frá minni hendi, nema ég segi mig úr félaginu, flytji burt af svæðinu eða á einn eða annan hátt hætti að vera félagsmaður. Þetta form í arðjöfnun eða arðsútgreiðslu samvinnufélaga hefur verið frá upphafi og er enn þá, og það gerir það að verkum, að þarna er ekki um sambærilega hluti að ræða. Hins vegar er það svo, að við endurskoðun á samvinnulögum, sem nú fer fram, geri ég ráð fyrir, að þetta verði eitt af því, sem verði athugað og endurskoðað, og þá gæti farið svo, að um útborgun á þessum arði yrði að ræða, og þá á auðvitað að telja hann til tekna og greiða af honum skatt eins og af arði af hlutafé, þegar um hann er að ræða. Þess vegna, ef hann væri hliðstæður, þá ætti það að gerast, en vegna þess að hann er ekki hliðstæður, þá er það ekki réttmætt, að það sé gert.

Það er búið að ræða hér mikið um framfærsluvísitöluna og skattvísitöluna og þær till., sem hafa komið þar fram. Það er að vísu að bera í bakkafullan lækinn að fara að bæta þar miklu við, en ég vil þó benda á, að sú skattvísitala eða sá persónufrádráttur, sem reiknað er með gagnvart hjónum í þessu frv., nær því takmarki, að tekjur Dagsbrúnarmannsins með einum eftirvinnutíma eða 15% álagi eru hliðstæðar þessu. Miðað við tekjuárið í fyrra þá er þetta svipuð upphæð, og þessar upplýsingar hef ég fengið frá Framkvæmdastofnunni eða hagdeild hennar. Og það nær því marki, sem m.a. fyrirrennari minn talaði um í ræðunni í fyrra, þegar hann gerði grein fyrir skattafrv., að væri það, sem þeir höfðu ætlað sér að stefna að. Ég vil segja það í sambandi við skattvísitöluna, að það má vel vera, að fyrrv. stjórnarflokkar hefðu bætt sig í þeim efnum. En ég hef verið að leita í ræðu hv. 2. þm. Norðurl. e., þegar hann kynnti skattafrv. í fyrra, og ég finn ekki, að það komi fram yfirlýsing þar um, að það eigi að halda áfram að færa sig eftir þeirri línu inn á það að ná því, sem tapazt hafði áður fyrr. Hins vegar er þar talað um það, að sú skattvísitala, sem þá er búið að leiðrétta verulega frá því, sem áður hefur verið, er þá gerð 100, og sú breyting, sem hér hefur verið fylgt í sambandi við þetta skattafrv., er breytingin, sem varð á þessu síðar.

Í sambandi við nefskattana og vísitöluna, sem hefur verið hér allverulega til umr. og kom fram í ræðu hv. 2. þm. Reykv., þá vil ég geta þess, að í sambandi við afgreiðslu kauplagsnefndar á vísitöluútreikningnum um daginn, sem hún stóð einróma að, þá var skattapakkinn tekinn fullkomlega með, þannig að þó að ekki sé í lögunum gert ráð fyrir því, að tekjuskattur verki á vísitöluna, þá var hann látinn gera það í sambandi við afgreiðslu kauplagsnefndar á vísitöluálaginu um daginn. Þar var tekið tillit til breytinganna, bæði á nefsköttunum og tekjuskattinum, og það, sem út af stóð, var tekið inn í vísitöluna nú, en það voru 0.9 stig. Og fyrirvari var gerður af hendi nm. um það, að ef á þessu yrði breyting, þá áskildu þeir sér rétt til þess að taka það til athugunar á nýjan leik. Tal um óeðlileg áhrif þessara breytinga á vísitöluna er því fjarri öllu lagi. Það er ekki til staðar. Hins vegar er það svo, að vísitala getur lækkað, ef úr útgjöldum hefur dregið, og það er það, sem gerðist í sambandi við útreikninginn á vísitölunni um daginn. Þess vegna er það mjög fráleitt að setja upp útreikninga, eins og hv. 2. þm. Reykv. gerði áðan, þar sem hann kom m.a. með viðbótarálag, vegna þess að vísitalan hefði lækkað.

Ég hef áður bent á og get bætt því við hér, þegar verið er að ræða, eins og hv. 2. þm. Reykv. gerði, um gamla fólkið, að það tapaði á vísitölulækkuninni. Hverju tapar þetta sama fólk á fjölskyldubótunum? Ekki fær það fjölskyldubætur. En vísitalan lækkar um 4.2 stig, vegna þess að fjölskyldubæturnar eru reiknaðar inn í vísitöluna, og einhleypir og þeir, sem ekki hafa börn á framfæri sínu, tapa, ef á að orða það svo, úr sínu kaupi þessum 4.2 stigum, sem vísitalan lækkar vegna fjölskyldubótanna. Þess vegna er hægt að finna út alls konar útreikning á vísitölukerfinu, þar sem hægt er að tala um tap hjá þessum eða hinum, ef út í það er farið með þessum hætti.

Ég vil líka segja það í sambandi við aldraða fólkið, sem hér hefur verið vikið að, að um fasteignaskattana er nú heimild til þess að fella þá niður, ef sveitarstjórnum þykir ástæða til þess. En ég tek líka undir það, sem kom fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. e. í fyrra, þegar hann ræddi um þetta í sambandi við skattafrv., að það, sem mestu máli skiptir í sambandi við aldraða fólkið, eru tryggingarnar og þau lágmarkslaun, sem er nú búið að ákveða þeim gegnum tryggingalöggjöfina.

Það er hægt að fá hið fyllsta ranglæti út úr því, ef á að miða skatt aðeins við aldur. T.d. er hæstv. félmrh. orðinn meira en 67 ára gamall, og hvaða ástæða væri til þess, að hann fengi sérstakan frádrátt af sínum tekjuskatti fremur en til dæmis unga fólkið, sem er að reyna að koma sér upp heimili og á fyrir börnum að sjá og nýbyggðu húsi? Þess vegna held ég, að það verði ekki rétta leiðin að miða þetta við aldur, heldur að miða það við tekjur og á þann hátt að jafna um á milli þegnanna. Og það kemur fram í því yfirliti, sem ég hef fengið frá Efnahagsstofnuninni eða hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunarinnar, að þótt haldið væri í ákvæðið frá í fyrra, þá mundu af 14 þús. ellilífeyrisþegum 4 þús. njóta þess arna, en 10 þús. ekki. Og þessi 4 þús., sem nytu þess, er sá hlutinn, sem bezt er settur. Ég veit, að það er ósköp auðvelt að tala fyrir þessu á þann veg, að betur mætti gera, en það er líka jafn auðvelt að benda á. að þarna er hægt að finna dæmi og það mjög mörg dæmi um mikið misræmi í skattálagningu með því að auka ívilnanir þar.

Ég vil svo í sambandi við það, sem hv. 5. þm. Reykn. sagði hér um það atriði, sem hefur verið til umr. um skattlagningu hjóna, lesa hér upp úr ræðu, sem ég flutti í hv. Nd. um þetta, sem ég vék að, áður en sú yfirlýsing var gefin, sem ég gaf við atkvgr. þar, en þar kemur fram sú skoðun, sem ég hef á þessum málum. Þar segir svo m.a., með leyfi hæstv. forseta, þegar ég er búinn að ræða um þá framhaldsathugun, sem verði á þessum málum:

„M.a. kemur þá til athugunar mál, sem einnig hefur borið hér á góma í þessum umr., en það er skattlagning hjóna. Það er mál, sem þarf að athuga betur en gert hefur verið til þessa, hvernig við eigum að komast út úr þeim vanda, sem við erum komnir í, í sambandi við skattlagningu hjóna. Við erum þar að fást við vissan vanda. Það er rétt, sem fram kemur hjá einstæðum mæðrum, að þegar konur hafa misst mann sinn, fara þær að greiða af öllum sínum tekjum, en ef þær eru giftar og vinna úti, þá er dreginn frá helmingur. Það verður ekki hægt að komast út úr þessu kerfi nema með því að taka þetta mál í heild til sérstakrar athugunar, og að líkindum verður niðurstaðan sú, að hjónin verði skattlögð sitt í hvoru lagi. Ég vil undirstrika það, að við framhaldsathugun á þessum málum verður þetta tekið til athugunar eins og aðrir nauðsynlegir þættir skattamálanna. Það var mín ósk, að þetta yrði gert við athugunina í haust, en það vannst ekki tími til þess, eins og svo oft hefur verið lýst yfir.“

Ég vil svo að lokum segja, að mér er ljóst, að mikið er ógert í skattamálunum, enda eru þau umfangsmeiri en svo, að hægt væri að gera ráð fyrir að ljúka endurskoðuninni á þeim skamma tíma, sem þessi ríkisstj. hefur haft til meðferðar. Hins vegar hef ég áður gert grein fyrir því, hvaða nauðsyn ég taldi bera til, að þessu máli yrði komið á þann rekspöl, sem það er nú komið á. Ég vil líka undirstrika það og vekja athygli á því, að með þessum frv., bæði um tekju- og eignarskatt og tekjustofna sveitarfélaga, er brotið í blað og komizt út úr þeirri sjálfheldu, sem skattamálin voru komin í, enda þótt ekki sé komið þar nema skammt á veg í þá átt, sem stefna á í til þess að gera kerfið einfaldara og auðveldara í framkvæmd og til þess að koma því í verk, sem ég tel mikið atriði. að skaflar verði innheimtir jafnharðan og teknanna er aflað. Hér er málinu komið verulega áleiðis, og a.m.k. má með góðum rökum um þetta segja, að hálfnað er verk. þá hafið er.