15.03.1972
Efri deild: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 971 í B-deild Alþingistíðinda. (618)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 1. minni hl. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mjög mikið, en vildi aðeins nefna nokkur atriði, sem hæstv. fjmrh. hafði orð á hér í ræðu sinni áðan. Ég hjó eftir því, að hann sagði, að það væri ólíku saman að jafna, skattfrelsi hlutafjár og skattfrelsi sparifjár. því að sparifé rýrnaði að verðgildi með vaxandi verðbólgu, þar sem aftur á móti hlutafé í vel reknum fyrirtækjum gæti fylgt verðlaginu fremur. Að vissu marki er þetta rétt. En þarna er þá um annað að ræða. sem einnig ber að taka með í reikninginn. og það er það. að þar sem sparifé er ríkistryggt, þá er hlutafé áhættuframlag. Og það getur verið mjög vafasamt, hvort þetta áhættuframlag tapast ekki í ýmsum þeim atvinnurekstri, sem einmitt er verið að reyna að koma upp nú á Íslandi. Það er víða verið að brjóta nýjar leiðir í atvinnurekstri, bæði að hefja landnám í nýjum atvinnugreinum og einnig að hefja rekstur atvinnugreina á ýmsum stöðum í landinu, þar sem slíkar atvinnugreinar hafa ekki verið stundaðar áður. Ég held, að skattfrelsi hlutafjár að því marki, sem lögin frá því í vor gerðu ráð fyrir. mundi hafa haft örvandi áhrif á eignamyndun almennings í atvinnurekstri og gert almenning sjálfstæðari og fært yfir á ein yfir fjármagninu í þjóðfélaginu út til fólksins í hinum dreifðu byggðum landsins. Ég vek athygli á því. að þetta skattfrelsi var eftir mínum skilningi bundið við það, að um arð væri að ræða af svo kölluðum opnum hlutafélögum, en til þeirra voru gengar ákveðnar kröfur, þannig að bæði að upphæð og tegund hlutafjár varð þetta skattfrelsi mjög takmarkað. gagnstætt því sem er um spariféð, sem hefur útakmarkað skattfrelsi.

Að því er endurmatið snertir, þá er auðvitað reginmunur á því. hvort endurmatið byggist á endurkaupsverðmæti eigna eða hvort það byggist á upphaflegu kaupverði eigna, að viðbættum 20%. Þetta getur gert gæfumuninn um það. hvort unnt sé í fyrirtækjum og atvinnurekstri að safna nægilegu fjármagni til þess að endurnýja atvinnurekin eða ekki. Ef við Íslendingar eigum að fylgjast með tímanum og reka arðbæran atvinnurekstur og vera samkeppnisfærir og geta bætt lífskjör í landinu, þá verðum við að endurnýja atvinnutækin. Og til þess þurfa skattalögin að vera þannig úr garði gerð. að þau skapi skilyrði til þess. að slík eignamyndun eigi sér stað í atvinnurekstrinum sjálfum, að hann sé megnugur undir slíkri endurnýjun að standa.

Þá taldi hæstv. ráðh. ólíku saman að jafna arði af stofnfé samvinnufélaga annars vegar og arði af hlutafé hins vegar, vegna þess að arður af stofnfé væri fastbundinn í rekstri samvinnufélaganna sjálfra og fengist ekki þaðan nema með tilteknum skilyrðum. Í þessu sambandi er um það að ræða, að slíkur arður er aldrei þá skattskyldur. en aftur á móti er slík eignamyndun í öðrum tilvikum skattskyld. Þarna ætli þá um það tvennt að vera að velja, að skattleggja slíkan arð hjá félagsmanni eða samvinnufélaginu sjálfu. Hitt er annað mál, að ég tel það ekkert óeðlilegt, að arður af stofnfé að sama marki og arður t.d. af hlutafé sé skattfrjáls.

Þá er e.t.v. ekki vert að lengja umr. mjög mikið varðandi umr. um ákvörðun skattvísitölunnar. Ég held, að það fari eitthvað á milli mála hjá hæstv. fjmrh. og mér, þegar ég er að tala annars vegar um það að miða persónufrádráttinn við Dagsbrúnartaxta með eftirvinnutíma, og ég tel, að það þurfi að ákveða skattvísitöluna 133 stig, til þess að það náist. En hins vegar telur hann, að núverandi persónufrádráttur nægi til þessa. Það, sem ég miða við, er kaupgjaldsvísitala, sem á upphaf sitt í persónufrádrætti, sem leiddur var í lög á árinu 1961, að því er ég tel mig fara rétt með, og miðaðist við ákveðinn taxta Dagsbrúnarkaups og einn eftirvinnutíma 6 daga vikunnar, sem þá var algengur. Það er samsvarandi kaup, sem ég á við núna og byggi á nauðsyn ákvörðunar skattvísitölu 133. En út af fyrir sig er ekki nauðsynlegt að gera út um þetta deiluefni, eins og ég sagði í minni fyrri ræðu, heldur er alveg nægilegt á þessu stigi málsins að halda sig við framfærsluvísitöluna. Það er alveg ljóst, að hæstv. fjmrh. gerði það að till. sinni í fyrra, að framfærsluvísitölunni væri fylgt við ákvörðun skattvísitölu. Ef hann í ár vildi vera sjálfum sér samkvæmur, þá ætti hann að ákvarða skattvísitöluna 124 stig. En það, sem hann hefur gert, er að ákveða hana núna eftir meðferð Alþ. á frv. 8–9%, 11% og hæst 17%, að því er snertir persónufrádrátt hjóna. Það liggur því alveg ljóst fyrir í þessu máli, að hæstv. fjmrh. er ekki sjálfum sér samkvæmur. Hann gerir ekki sömu kröfu til sín og sinna samherja, eins og hann gerir til annarra. Aftur á móti erum við sjálfstæðismenn sjálfum okkur samkvæmir, vegna þess að við höfum ávallt sagt, að við teldum ekki unnt að ná þessu markmiði, að skattvísitalan fylgdi framfærsluvísitölunni, nema í nokkrum áföngum. Hæstv. fjmrh. vildi ná þessum áfanga í einu í fyrra. Núna tekur hann tveimur skrefunum styttri áfanga til fullnaðarárangurs og telur okkur ábyrgðarlausa við ákvörðun skattvísitölu 121.5. Þetta tel ég ekki að vera samkvæmur sjálfum sér í málflutningi eða gerðum.

Þá held ég, að það sé mjög orðum aukið hjá hæstv. fjmrh., þegar hann segir kaupgjaldsnefnd hafa tekið fullkomlega tillit til breytinga á nefsköttum og tekjuskatti. Hið eina, sem segja má í þessum efnum, var að kaupgjaldsnefnd hafði fyrirvara um. að vera kynni. að nauðsynlegt reyndist síðar á árinu, þegar Alþ. væri búið að afgreiða skattafrv., bæði tekjustofnafrv. sveitarfélaga og tekjuskattsfrv., að meta greiðslubyrðina að þessu leyti. Segja má, að kaupgjaldsnefnd hafi að vissu marki haldið dyrunum opnum fyrir einhverri ákveðinni leiðréttingu, en hún tók engan veginn tillit til breytinga á tekjuskatti, og kaupgjaldsvísitalan lækkaði vegna niðurfellingar á nefsköttum. Þó var haldið einhverju broti, skilst mér eftir útreikningum kaupgjaldsnefndar, til seinni tíma. En meginlækkunin er nú þegar í gildi og er þegar orðin þess valdandi, að launþegar í landinu fá lægra kaup en ella. Og þess vegna segi ég, að það væri algjörlega eðlilegt, þegar verið er að bera saman skattabyrði, að taka nefskattana inn í dæmið yfirleitt, vegna þess að hækkun þeirra mundi vera uppi borin með hækkuðum launum launþega. Í hækkun nefskattanna mundi þess vegna ekki hafa falizt þynging skattabyrðanna að einu eða neinu leyti. Hins vegar hefði hið hækkaða kaupgjald komið sem aukinn kostnaður atvinnuveganna í landinu, en það er annar handleggur. Gagnvart launþegunum var hér ekki um hækkun skattbyrðanna að ræða. Hitt er svo annað mál. að ég vonast til þess, að hæstv. fjmrh. á grundvelli þessara ummæla sinna sjái svo um. að hagsmunum launþega verði fullur sómi sýndur, þrátt fyrir það, að úr því sem komið er, er tap þeirra alltaf þó nokkurt, þó endurskoðun vísitölunnar gæti leitt til einhverra bóta þeim til handa.

Ég skal svo aðeins segja það að gefnu tilefni vegna ummæla hæstv. ráðh„ þegar hann sá ofsjónum yfir því að taka sérstakt tillit til aldraða fólksins, að jafnvel hæstv. félmrh. nyti slíks skattfrádráttar. Ég sé síður en svo ofsjónum yfir því, að hæstv. félmrh. fái nokkra viðurkenningu fyrir það eins og aðrir menn og konur á hans aldri að hafa starfað allt sitt líf í þágu þessa þjóðfélags og þjóðfélagið viðurkenni það með þeim hætti að veita honum aukafrádrátt, sem nemur 2/5 hlutum persónufradráttar einstaklings. Mér finnst sannast hest að segja, að við getum ekki gert minna slíkum til handa eins og hæstv. félmrh. og hans kynslóð. (Gripið fram í.) Svo er það annað mál, hvort hæstv. fjmrh. vill svipta hann ellilaunum. Það gæti komið til greina í framhaldi af ofsjónum yfir því, að hann fái slíka ívilnun.

Það er svo rétt, að það er ávallt vafasamt í skattalögum að gera undantekningar og mynda sérreglur til að taka sérstakt tillit til ákveðinna hópa í þjóðfélaginu. Mat á slíku er vissulega vandasamt. En það hefur verið, held ég, ágreiningslaus stefna hingað til á Alþ. að taka ákveðið tillit til hópa eins og einstæðra foreldra, aldraðs fólks og sjómanna vegna ýmissa forsendna, sem ég þarf ekki að ræða hér eða rekja. Spurningin er þá þessi: Er hæstv. fjmrh. á því að afnema allar slíkar sérreglur og taka skattalögin upp á þeim grundvelli? Við fáum e.t.v. svarið við því við endurskoðun skattalaganna, sem á að halda áfram.

Hæstv. fjmrh. sagði eitthvað um það, að þessi skattalög boðuðu það, að brotizt væri úr þeirri sjálfheldu, sem skattakerfið hefði verið komið í. Ég er hræddur um. að þessi skattalög, sem nú er stefnt að að samþykkja, séu einmitt stefnan í sjálfhelduna og að við losnum ekki úr þeirri sjálfheldu, fyrr en efndir verða á fullkominni, vandaðri endurskoðun skattalöggjafar, hvort sem það eru tekjuskattslögin og eignarskattslögin eða tekjustofnalög sveitarfélaga. Ég vonast til þess, að það loforð sem gefið hefur verið í þessum umr. um þá endurskoðun, verði haldið, og bendi á, að það loforð er gefið hér í þessum umr. sem nauðvörn, þegar verið er að verja vonlausan málstað, að sýna fram á ágæti þess frv., sem nú er til umr. því miður er svo langt frá því, að málsvörum stjórnarinnar hafi tekizt að sýna fram á ágæti þeirra laga eða endurbót þeirra laga á ríkjandi skattkerfi, að ég held, að það fari ekki á milli mála, að þetta loforð um endurskoðun skattalaganna í heild er nauðsynlegt til að friða almenning í landinu, og vafasamt er raunar, hvort það tekst, þegar skattseðlarnir verða gefnir út í sumar.