16.03.1972
Efri deild: 57. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í B-deild Alþingistíðinda. (622)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 1. minni hl. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Það er svo mikill hraði á afgreiðslu þessa máls, að nýverið hefur farið fram atkvgr. eftir 2. umr. um það frv., sem hér liggur fyrir, og því styttri tími gefizt en skyldi til að kanna frv., eins og það nú er orðið, en við í I. minni hl. fjhn. viljum freista þess, þótt till. okkar um frávísun frv. hafi verið felld við 2. umr. og þótt við séum á móti efni frv. og teljum það til skaða, að flytja hér nokkrar brtt., sem eru mjög á sömu lund og þær brtt.. er 1. minni hl. fjhn. flutti í Nd„ í þeim tilgangi að leitast við að sníða nokkra agnúa, e.t.v. suma verstu agnúana. af frv.

Fyrsta brtt. okkar er sú, að kveða skýrt á um það, að það sé ekki skilyrði til þess, að hjón geti talið fram sitt í hvoru lagi. að þau séu bæði sammála um það, heldur sé nægilegt, að annað hjóna óski þessa. Þá er og það efnisatriði í þessari brtt„ að ábyrgð annars hjóna á skatti hins skuli í slíkum tilfellum aldrei ná til séreigna. Þá þykir okkur augljóst, að eðlilegra sé, að annar frádráttur en persónuleg gjöld teljist við útreikninginn hjá því hjóna, er hefur hærri tekjur, en það sé ekki sérstaklega tekið fram. að annar frádráttur en persónuleg gjöld konunnar teljist við útreikninginn hjá eiginmanninum. Hér viljum við ekki gera greinarmun á því, annan en í brtt. greinir, að það hjóna, sem hærri tekjur hafi, fái frádráttinn.

Í annarri brtt. okkar, sem er við 3. gr. frv., er fellt niður niðurlag 2. tölul. í samræmi við aðrar brtt., sem síðar verður getið.

3. brtt. okkar, a-liður, er að tvennu leyti breytt frá því, sem er í frv. Þar er í upphafi bætt inn, að eigendur sameignarfélags og aðilar samvinnufélags eigi þarna áð koma inn í greinina ásamt með hluthöfum. stjórnendum félags eða öðrum. Og síðan er sú efnisbreyting eða sú skýring sett, að þessum félögum sé heimilt að kaupa opinber verðbréf ríkis, sveitar- og sýslufélaga, þar með talin skuldabréf með ríkisábyrgð. Eins og frvgr. er núna, sýnist okkur það vera hæpið eða jafnvel algerlega óeðlilegt að ráðstafa fjármagni varasjóðs með þeim hætti að kaupa opinber verðbréf, ríkis, sveitar- og sýslufélaga. Það teljum við óeðlilegt og gæti orðið bæði félögum og hinu opinbera til skaða.

Þá er það aðeins orðalagsbreyting, sem er í 3. brtt., b-lið, þess eðlis að það sé gert skýrt, að hlutafélögum sé heimilt að greiða hærri vexti en 10%, án þess að það teljist ráðstöfun á varasjóði. Eins og gr. er orðuð nú, má skilja það svo, að hlutafélagi sé ekki heimilt undir neinum kringumstæðum að greiða hærri vexti eða hærri arð af hlutafé en 10% öðruvísi en svo, að það teljist ráðstöfun á varasjóði og þau sektarákvæði eða íþyngjandi ákvæði, sem því eru samfara, komi til. Það er svo, að hlutafélög greiða mismunandi háan arð eftir því, hver afkoma þeirra er. Sum árin greiða hlutafélögin e.t.v. engan arð, og því er ekkert óeðlilegt, að þau greiði önnur ár hærri arð en 10%.

Þá er í e-lið 3. brtt. okkar heimild fyrir hlutafélög að leggja helming varasjóðsins við höfuðstól sinn án þess, að sú ráðstöfun varasjóðs teljist til skattskyldra tekna félagsins.

Í 4. brtt. okkar er fjallað um sjómannafrádráttinn. Í upphaflega frv. var gert ráð fyrir óhreyttum sjómannafrádrætti í krónutölu frá gildandi lögum og ekki gert ráð fyrir neinni breytingu á honum í samræmi við breytingu á skattvísitölu gagnstætt því, sem gildandi lög gerðu ráð fyrir. Við meðferð málsins hefur verið bætt inn í frv., að fiskimenn fái frádrátt, sem nemur 8% af tekjum sínum. En hér í brtt. okkar er í fyrsta lagi gert ráð fyrir því, að gildandi sjómannafrádráttur breytist að krónutölu í samræmi við skattvísitölu 121.5, og enn fremur er gert ráð fyrir ákveðnum frádrætti, í 10 þús. kr., til allra sjómanna, bæði fiskimanna og farmanna, en eins og lögin eru núna, þá nær 8% frádráttur af tekjum sjómanna eingöngu til fiskimanna og ekki til farmanna. Sjómannafrádrátturinn er bæði rökstuddur með því að auðvelda, að skipaflotinn sé mannaður, og hins vegar með því, að tekið sé sérstakt tillit til þess, að sjómenn dveljast fjarri heimilum sinum lengi og hafa þess vegna óhjákvæmilega aukinn kostnað. Við teljum, að þessar málsástæður báðar taki til fiskimanna og farmanna og ekki sé ástæða til að skilja þar á milli.

Þá er í 5. brtt. okkar gert ráð fyrir því. að persónufrádráttur sé ákveðinn eins og þar greinir, og er þá í höfuðatriðum miðað við gildandi persónufradrátt við álagningu á síðasta ári, sem breytist miðað við skattvísitölu 121.5, í stað þess, að í gildandi lögum er um breytingu að ræða, um 8–9%, 11% og 17%, eftir því hvort um einstaklinga, hjón eða barn er að ræða. Það er svo umrett mál, skattvísitalan og ákvörðun persónufrádrátta í samræmi við skattvísitölu og verðlagsbreytingar, að ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um rökin fyrir þessari brtt. okkar, enda gerði ég það við 2. umr. málsins.

Þá er tekinn inn í þessa brtt. okkar sá sérstaki frádráttur. sem er í gildandi lögum fyrir ellilífeyrisþega, og er gert ráð fyrir því í þessari brtt., að á sama hátt megi draga 2/5 hluta af fjárhæð einstaklingsfrádráttar frá hreinum tekjum örorkulífeyrisþega. Það er engum vafa bundið, að ef þetta verður ekki í lög leitt, þá mun skattbyrði ellilífeyris- og örorkulífeyrisþega mjög þyngjast, eins og ég gat um í ræðu minni við 2. umr. og greindi frá þar.

Þá er 6. brtt. okkar um breytingu á skattlagningu þeirri, sem ráðgerð er gagnvart samvinnufélögum og meðferð viðskipta þeirra við utanfélagsmenn. Við teljum óeðlilegt, að 2/3 hlutar arðs sé frádráttarbær hjá samvinnufélögum undir þeim kringumstæðum, og leggjum því til, að 5. mgr. 9. gr. frv., eins og það er núna, orðist eins og í brtt. okkar segir.

Í 7. brtt. okkar er gerð breyting, að því er snertir útreikning tekjuskatta. Þar er að vísu ekki um umfangsmiklar breytingar að ræða, en fullkomin ástæða hefði verið til þess að dreifa skattþrepunum með öðrum hætti en þeim, sem gert er ráð fyrir í frv., að mismunandi skattstigar ná í raun og veru aðeins til 75 þús. kr. teknaupphæðar. Við gerum þó ekki breytingu að þessu leyti, en teljum eðlilegt, að skattstiginn hreytist úr 25 í 20% á lægsta skattþrepinu á tekjuþrepinu og úr 35% í 30% á því næsta, og enn fremur er í þessari brtt. gert ráð fyrir því, að þegar hún er skoðuð ásamt með tekjustofnalögum sveitarfélaga, fari jaðarskattur ekki yfir 50%. Að vísu er það svo, að heimilt er að leggja á 11% útsvar, og í því falli mundi jaðarskatturinn fara í 51%. Það er einnig gert ráð fyrir því, að skattgjald félaga og stofnana skuli vera 20% af skattgjaldstekjum í stað 53%, og er það í samræmi við brtt„ sem við fluttum hér um tekjustofnalögin, og fluttum í því falli, að samsvarandi brtt. nái fram að ganga við meðferð tekjustofnalaganna í Nd.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða mjög um þær brtt., sem hér á eftir fara. Þær eru meira og minna varðandi tæknileg efni, framkvæmd laganna og annað því um líkt. Ég vil aðeins vekja athygli á 13. brtt. um það, að ákvæði þar til greindra greina taki ekki gildi fyrr en 1. okt. 1972. Ég held, að þetta sé nauðsynleg brtt., til þess að það sé ljóst, hvenær kerfisbreyting í raun og veru taki gildi.

Að lokum vil ég, herra forseti, vekja athygli á 14. brtt., þar sem því er beint til ríkisstj. að halda áfram athugun á skattakerfinu og leggja niðurstöður þeirrar athugunar fyrir næsta Alþ. Loforð hefur að vísu verið gefið um þetta efni, en það er nauðsynlegt, svo sem meðferð þessa máls hefur verið varið, að taka þetta sérstaklega fram og í því efni vil ég leggja áherzlu á, að til athugunar komi það stefnumál okkar sjálfstæðismanna, að hvort hjóna um sig verði sérstakur skattgreiðandi. Það er svo, að í umr. um þetta mál hafa, held ég, margir þm. úr flestum flokkum þingsins tjáð sig samþykka þessu í grundvallaratriðum, og það er því ástæða til þess að leggja að lokum áherzlu á, að þetta komist í framkvæmd.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þessar brtt. Þær eru fluttar sem tilraun til að sníða mestu agnúana af þessu frv., eins og það nú er orðið. En ég verð að taka það fram. að þótt þær verði samþykktar, þá erum við sjálfstæðismenn andvígir þeim lögum um tekjuskatt og eignarskatt, sem fram næðu að ganga með samþykkt þessa frv., sem nú er hér til 3. umr., og teljum það á flestan hátt vera afturför og til þess fallið að draga úr framtaki landsmanna og eignamyndun í þjóðfélaginu og tekjuöflun, sem þjóðfélaginu er svo nauðsynleg, ef við eigum að búa við batnandi lífskjör í framtíðinni.