16.12.1971
Efri deild: 30. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1009 í B-deild Alþingistíðinda. (634)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég stend hér upp til þess að skýra afstöðu mína til þeirrar brtt„ sem mælt var fyrir hér áðan af hv. 11. þm. Reykv., en vil þó leiðrétta misskilning, sem er mín sök og fram kom í ræðu minni við þessa umr. fyrr, að ég á sæti í þeirri n., sem um málið fjallar, og er því einungis mig sjálfan um að saka það, sem ég sagði rangt um það efni í gær.

En varðandi þá brtt., sem hv. 11. þm. Reykv. hefur hér flutt, þá vildi ég segja, að þó að meginhugsunin, sem að baki henni liggur, sé ekki fjarri mínum huga, þá hef ég þó af 14–15 ára starfi að húsnæðismálum töluverða reynslu í sambandi við þau atriði, sem brtt. fjallar um. eða ætti a.m.k. að hafa eftir að hafa starfað svo lengi að þessum málum. Og það er í fyrsta lagi það, að leggja aukinn eignarskatt á þá menn, sem eiga margar eða fleiri en eina íbúð, ég hygg, að hann eigi við það, þó að hann nefndi margar íbúðir. Við þurfum ekki að fara út fyrir þessa þingsali, þó að ekki sé um neina auðmenn að ræða, þar sem þó nokkrir þm. hafa fest kaup á íbúð hér í Reykjavík vegna langrar veru sinnar hér við þingstörf og kannske ekki siður vegna þess, að þeir vildu gjarnan festa fé sitt eða fjármuni í íbúð hér. Þessir þm. eiga einnig íbúðir á öðrum stöðum. Brtt. yrði því að ná til þessara manna einnig eða gildistaka hennar, þó að færa mætti rök fyrir því, að af starfsástæðum væru til komnar tvær íbúðir frekar en af einhverjum öðrum ástæðum.

Ég bendi á þetta, vegna þess að þetta varð okkur æðioft að fótakefli við framkvæmd þágildandi reglugerðar og laga um Húsnæðismálastofnun ríkisins, þegar við þurftum að velja á milli. Þar stóð skýrum stöfum, ef ég man rétt, að þeir, sem eiga aðra íbúð fyrir, skuli mæta afgangi um ákvörðun til lánveitingar, og ég hygg, að þetta hafi verið meginreglan í starfsemi Húsnæðismalastofnunar ríkisins allt frá því, að hún var stofnsett 1955.

Ef við tökum hina hlið málsins, sem eru gömlu hjónin, sem búa í of stórri íbúð, þá eru þau með sama hætti útilokuð frá lánum. vegna þess að biðröð eftir lánum var alltaf það mikil, að henni varð ekki fullnægt fyrr en löngu síðar með auknu fjármagni. Þeim var, þótt vilji væri fyrir hendi, nánast gert ómögulegt að skipta um íbúð. Við skulum einfaldlega hugsa okkur hjón, sem áttu 3–5 börn og þurftu á ákveðnu aldursskeiði að hafa þá íbúð til umráða, en ef öllum hefur heilsazt vel í þeirri fjölskyldu, þá er það tímans saga, að börnin flytjast að heiman og eftir sitja hjónin ein í allt of stórri íbúð. Þó að þessi eldri hjón hefðu nú haft löngun til að minnka við sig, eftir að börnin voru farin, þá gátu þau enga opinbera aðstoð fengið í því efni. Þetta hef ég talið einn af megingöllum húsnæðismálalaganna allt frá fyrstu tíð, ekki vegna þess, að vitanlega hefur þetta fólk átt að geta selt sínar eignir á töluvert hærra verði vegna þarfarinnar, heldur vegna hins, að það opinbera hefur ekki með lögum sínum og reglum, og um það hefur ekki náðst samstaða milli stjórnmálaflokkanna, auðveldað mönnum þessi skipti. Eldri hjónin urðu, til þess að selja sína allt of stóru íbúð, til þess að gera hana seljanlega, að lána svo og svo stóran hluta í henni, oft það stóran. að þeim voru íbúðaskiptin nánast ógerningur. Það þýddi, að betra var fyrir þau að sitja áfram í of stórri íbúð, að ekki sé hér farið inn á þá tilfinningahlið málsins, að erfitt er að yfirgefa heimili, sem menn hafa langdvölum dvailzt á og vilja gjarnan halda áfram að dveljast á. Af ríkisins hálfu var þetta nánast bannað með gildandi lögum, og eiga þar allir stjórnmalaflokkar hlut að. Þeir hafa allir á þessum tíma setið hver með öðrum í ríkisstjórn til skiptis og haft hér þingmeirihluta til þess að breyta þessu, án þess að það hafi verið gert.

Nákvæmlega eins, en þó nokkru auðveldara, var að hjálpa ungu hjónunum, sem barnlaus voru. Enginn vissi, hvað mörg börn gátu til orðið í þeirra hjúskap, en ákveðinn fermetrafjöldi skyldi gilda fyrir fjölskyldumeðlim, þegar umsóknin var lögð inn, en ekki fundin út einhver lágmarksstærð, sem ætla mætti, að dygði hjónum. þó að 1–2 börn fæddust. Fyrir því hefur heldur ekki verið gert ráð í gildandi lögum allan þennan tíma. Erlendis eða á Norðurlöndunum, svo að vitnað sé til þeirra einu sinni enn, þá eru þessi íbúðaskipti gerð mun auðveldari heldur en við höfum treyst okkur til. Rökin gegn því að breyta hafa ávallt verið fjármagnsleysi húsnæðismálastjórnar. Hún yrði fyrst og fremst að sinna brýnustu þörfunum, sem er út af fyrir sig rétt, en þetta er einn af þeim göllum, sem koma hvað berlegast í ljós, þegar aukizt hafa fjárráð Húsnæðismálastofnunarinnar.

Hv. flm. þessarar brtt., 11. þm. Reykv., taldi, að um þessa hluti mundi verða mest að ræða, of stórar íbúðir, eins og hann nefndi, menn byggðu sér allt of stórar íbúðir, langt umfram þarfir á svæðinu hér í Reykjavík og á Reykjanesi. Það kann að vera, að mestur fjöldi þeirra sé á þessum stöðum, en af fyrrnefndum kynnum mínum af þessum málum er það nú svo, að utan þessa svæðis. Reykjavíkur, Hafnarfjarðar, Kópavogs og Akureyrar er nánast vart til, og það tekur til Ísafjarðar líka, þá er vart til nokkuð, sem heitir fjölbýlishús. Það var varla finnanleg sú lánsumsókn á þessum árum, sem ég átti sæti í húsnæðismálastjórn og síðan hafði afskipti af þeim sem ráðh., að menn byggðu sér minna en 120 fermetra íhúðir utan þessa svæðis. M.ö.o., fólk fékkst ekki til þess að búa í fjölbýlishúsum og þeir, sem út í þá baráttu lögðu að byggja sér íhúðir, hyggðu sér nánast allir einbýlishús. Vitanlega er það æðsta ósk hverrar fjölskyldu að eignast einbýlishús, og sjálfsagt hafa flest hjón það sem sitt lokatakmark, að svo geti orðið. En með byggingu fjölbýlishúsanna hefur verið langtum auðveldara að draga úr óhóflegri stærð íbúða heldur en með byggingu einbýlishúsa, þannig að þó að ég sé mjög hlynntur þeirri meginhugsun, sem að baki brtt. liggur, þá taldi ég mér skylt að benda á, sem ég hef nú sjálfsagt tækifæri til síðar í hv. heilbr.- og félmn., að benda á þá annmarka, sem á þessari framkvæmd eru, sem eru einfaldlega þessir, að gömlu hjónin eða eldri hjónin, sem börnin eru farin frá, eru með opinherum aðgerðum neydd til að sitja í of stórri íbúð og ungu hjónunum. sem eru að hefja sinn búskap, er bannað að byggja nema mjög takmarkaða stærð, meðan þau eru ein, og eiga eftir það að bíða í allt að fimm ár til þess að mega stækka við sig, þó að fjölskyldustærðin hafi þá gefið tilefni til þess. Þetta vildi ég, að kæmi fram. því að það er mjög nauðsynlegt, að menn viti um ákvæði annarra laga, þegar verið er að breyta lögum, sem geta gripið þar inn í, sem þessi brtt. gerir óhjákvæmilega. Það er hægt að hugsa sér slíka framkvæmd, ef fullnægt væri í dag öllum þeim. sem um lán biðja og löglegar stærðir af íbúðum hafa, en meðan svo er, að biðröðin sífellt lengist og biðtíminn eftir lánum, þá er vart hægt að hugsa sér þá framkvæmd, sem hér er um að ræða, án þess að níðzt sé á því fólki, sem þó vill ganga þennan réttlætisveg, ef ég mætti svo kalla, að búa ekki óþarflega stórt.

Þetta taldi ég nauðsynlegt, að kæmi fram hér við umr., þannig að þær yrðu ekki bókaðar, án þess að menn vissu, hvers vegna fólk býr í of stórum íbúðum og hvers vegna því sama fólki eru nánast allar bjargir bannaðar, ef það vill skipta um, hefur vilja til að minnka við sig.