16.12.1971
Efri deild: 30. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1025 í B-deild Alþingistíðinda. (637)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. lauk máli sínu með því að óska eftir að fá að heyra, hver afstaða okkar væri til þessa frv., sem hér er til umr. Ég taldi, að ég hefði skýrt þá afstöðu í ræðu minni í d. hér í gær, og ég vonast til þess, hafi hæstv. félmrh. ekki getað ráðið í afstöðu mína til frv. af þeim orðum, að hann verði þá nokkurs vísari af því, sem hér fer á eftir.

Það kom ljóst fram í minni ræðu hér í gær, raunar það sama, sem ég hygg að félmrh. hæstv. hafi haft eftir formanni Sjálfstfl. úr umr. í Nd., að þetta frv., sem hér er lagt fram, byggir að miklu leyti á undirbúningsstarfi, sem unnið var á vegum fyrrv. ríkisstj., og ég get alveg sagt það, að ég tel það mjög eðlilegt og sjálfsagt og virðingarvert af núv. stjórn að byggja á þessu undirbúningsstarfi. Að því leyti til er flest gott um þá þætti frv. að segja, sem þetta kemur heim og saman við. Það er rétt stefna, að mínu viti, megintilgangurinn, sem í frv. felst, en ég tek þann mikla og stóra fyrirvara, að nauðsynlegt er, að frv. hafi inni að halda þau ákvæði, sem tryggi eðlilega og sanngjarna tekjustofna sveitarfélögum landsins til handa, og óbreytt gerir frv. það ekki að mínum dómi. Þess vegna get ég ekki fallizt á frv. í óbreyttri mynd og ég vonast til þess, að tími gefist til og undirtektir hæstv. félmrh. verði slíkar, að breytingum fáist framgengt á frv., sem lagfæri þennan annmarka, meginannmarka frv.

Í öðru lagi hlýt ég að endurtaka og ítreka, að svo slæmt sem það er, að sveitarfélögum landsins er ekki séð fyrir nægilegum tekjustofni til þess að standa að þeim verkefnum, sem sveitarfélög hafa nú og gert er ráð fyrir að þau hafi áfram samkv. þessu frv., þá er það jafnvel ekki síður galli, e.t.v. ekki fyrst og fremst á þessu frv., en þegar litið er á þetta frv. í tengslum við frv. um tekjuskatta til ríkisins, að skattabyrði almennt eykst á öllum almenningi, jafnvel á þeim aðilum, sem teljast til láglaunastétta.

Loks hef ég minnt á og minni enn á, að með þessum lögum eru ekki gerð skil á verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga eins og ég tel að þurfi að standa að þeim málum, og beini ég þeirri áskorun til hæstv. félmrh. að láta hendur standa fram úr ermum að því leyti til.

Hæstv. félmrh. sagði, að samráð hefði verið haft við Samband ísl. sveitarfélaga og það væri ekkert óeðlilegt við það, að undirbúningsnefnd í slíku máli væri skipuð flokkspólitískt. Ég vil nú minna hæstv. félmrh. á það, að flokkur hans markaði þá stefnu, að of mörg mál væru í höndum hinna svo kölluðu stjórnmálaflokka, hinna pólitísku flokka, og það ætti að gefa almenningssamtökum meiri aðild að undirbúningi mála, meðferð þeirra og ákvörðunartöku og stefnumörkun í ýmsum málaþáttum. Ég minni hæstv. félmrh. enn fremur á það, að þegar hann nefnir fyrri venjur hjá fyrrv. ríkisstj., þá er einmitt mikill munur þar á og á hætti þeim, sem hann viðhafði á undirbúningi þessa frv. Þegar tekjustofnafrv. var síðast í heillegri endurskoðun 1962–63, að því er ég hygg, þá fór sú endurskoðun sameiginlega fram á vegum þáv. ríkisstj. og Sambands ísl. sveitarfélaga, og það er þetta samráð og þessi samvinna, sem á hefur skort að þessu sinni hjá hæstv. félmrh. og hjá núv. ríkisstj. Það var haldinn einn fundur, sagði hæstv. félmrh., með fulltrúum stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, en í kjölfar þessa fundar var framið trúnaðarbrot og þá var upplýst að einhverju leyti um þær fyrirætlanir, sem hæstv. ríkisstj. hafði um að gera breytingar á tekjustofnalögunum, og auðvitað voru þá ekki haldnir fleiri fundir, bætti hæstv. félmrh. við, þ.e.a.s. að þá var rofið, að því er mér skildist á honum, samstarf og samráð við Samband ísl. sveitarfélaga. Sambandi ísl. sveitarfélaga var þannig refsað fyrir trúnaðarbrot, ef ég hef skilið hæstv. félmrh. rétt. En við skulum nú kanna það, hver hafi framið þetta trúnaðarbrot. Ég skal ekkert segja annað en það, sem ég veit, að einn nm., sem hæstv. félmrh. skipaði í nefndina, hélt erindi um þessar fyrirætlanir nefndarinnar um breytingar á tekjustofnalögunum á fundi í allfjölmennum félagsskap norður á Húsavík um það leyti, sem þessi sameiginlegi fundur var haldinn, eða nokkru áður en þessi sameiginlegi fundur með Sambandi ísl. sveitarfélaga var haldinn. Enginn á þeim fundi var neinum trúnaðareiði bundinn og ég get um þetta, að þarna var þó opinber fréttaöflunarleið til staðar og þess vegna þurfti frétt Morgunblaðsins ekki að koma frá þessum sameiginlega fundi með stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga. En alla vega er það fyrir neðan virðingu hæstv. félmrh. að láta að því liggja, að hann hafi refsað heildarsamtökum íslenzkra sveitarfélaga fyrir trúnaðarbrot, sem hann telur þá væntanlega á ábyrgð þeirra, með því að halda ekki fleiri fundi með þeim um þetta mál. En þetta heyrðu hv. þdm. hér áðan, að voru orð hæstv. félmrh., og þá er rétt að spyrja hæstv. félmrh.: Hve lengi stendur þessi refsing og hve lengi mega heildarsamtök íslenzkra sveitarfélaga búast við, að hæstv. félmrh. landsins gangi fram hjá þeim?

Það var sagt, að hafi nú ekki samráðið verið til enda haft við Samband ísl. sveitarfélaga, þá hafi þó alla vega verið haft mjög gott samráð við fulltrúa Reykjavíkurborgar og það meira að segja við sjálfan varaborgarstjórann og skrifstofustjóra borgarstjórnar. Ég verð nú að segja það, að ég ber fram þá gagnrýni m.a., að ekki hefur verið haft samráð við fulltrúa Reykjavíkurborgar vegna umkvartana þessara manna um þetta efni. Einstök símtöl áttu sér stað, en dæmið eða réttara sagt sönnun um vöntun á slíku samráði er fólgin í þeirri upplýsingu hæstv. félmrh. hér í ræðu hans áðan, sem ég veit, að er rétt, að félmrn. byggði tölur sínar og tillögur um tekjustofnana á upplýsingum, sem voru rangar. Það voru upplýsingar, sem félmrn. átti að vísu ekki sök á að voru rangar, en það voru upplýsingar, sem félmrn. fékk, að því er hæstv. félmrh. upplýsir núna, frá fasteignamatinu. Ef fullkomið samráð hefði verið haft t.d. við fulltrúa Reykjavíkurborgar, var hægt að upplýsa þennan misskilning langtum fyrr en ella, og að því leyti hefði undirbúningur málsins eða alla vega forsendur fyrir frv. legið ljósar fyrir en ella. Það er því engan veginn rétt, að á öllum stigum hafi verið haft samráð við fulltrúa Reykjavíkurborgar. Í aðeins einstaka tilvikum, og það teljandi á fingrum annarrar handar, voru gerðar einhverjar fsp. eða slegið á símastreng til þess að afla einhverra upplýsinga, en það var allsendis ónóg bæði gagnvart fulltrúum Reykjavíkurborgar, gagnvart fulltrúum sveitarfélagasamtakanna í heild og ég býst við gagnvart fulltrúum annarra sveitarfélaga. Það er alveg rétt hjá hæstv. félmrh„ að menn þeir, sem skipaðir eru í þessa undirbúningsnefnd, eru úr hópi sveitarstjórnarmanna, en þeir eru ekki fulltrúar heildarsamtaka þeirra. Heildarsamtök sveitarstjórnarmanna hafa verið blessunarlega laus við flokkspólitík og menn hafa þar sameinazt í starfi að heill sveitarfélaganna almennt í landinu, og ég skil raunar ekki í hæstv. félmrh. að hafa látið slíkt tækifæri úr greipum sér ganga að njóta aðstoðar, ráða og reynslu þessara heildarsamtaka sveitarfélaga í landinu. Þótt einn fundur eða e.t.v. tveir fundir hafi verið haldnir með stjórn þessara samtaka, eins og ég gat um í ræðu minni hér í gær, þá er það ekki sama og ef þessi heildarsamtök hefðu átt aðild að sjálfum undirbúningnum og þau skoðanaskipti og upplýsingaskipti, sem nauðsynleg eru til undirbúnings slíku stórmáli sem þessu, hefðu þá verið til staðar.

Hefði þessi háttur verið hafður á um undirbúning málsins, þá er ég víss um, að helztu gallar frv. væru af því sniðnir, áður en það er lagt fram hér á Alþ., og þá hefði verið hægt að vera afdráttarlausari í yfirlýsingu sinni um stuðning við frv. En eins og nú er, þá verður að hafa fyrirvara á stuðningi við frv., þann fyrirvara, að unnt verði að ná fram breytingum á frv., svo að viðunandi verði.

Það er alveg rétt, að mestu máli skiptir, hvernig þetta verk er. Ég hef þegar sýnt fram á ýmsa galla á þessu verki, eins og það er núna, og vonast til, að úr þeim göllum megi bæta og afmá þá, þannig að viðunandi verði fyrir sveitarfélögin, og ég treysti á hæstv. félmrh., að hann sé opinn fyrir slíku.

Það var á það drepið hér af hæstv. félmrh., að það væri ekki eingöngu skortur á framlagningu þessa frv. eða seinkun á framlagningu þessa frv., sem ylli því, að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar er ekki samþ. fyrir áramót, og vitnaði hann til einkasamtala okkar þar að lútandi. Það er alveg rétt, að ég var að leita allra ráða til þess að ganga frá fjárhagsáætlun Reykjavíkur eins og lög mæla fyrir um fyrir áramót, eins og gert hefur verið alla tíð, sem ég hef átt sæti í bæjarstjórn, bæði meðan ég hef verið borgarstjóri og í tíð fyrirrennara míns, ávallt nema þegar utanaðkomandi óviðráðanleg atvik hafa hamlað, og það hefur aðeins einu sinni komið fyrir í þau 13 skipti, sem ég hef staðið að framlagningu fjárhagsáætlunar.

Ein leiðin, sem ég var að íhuga, var einmitt sú að leggja fram og afgreiða við 2. umr. fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar á grundvelli gildandi laga þrátt fyrir framlagningu þessa tekjustofnafrv. Það hefði hins vegar leitt af sér að byggja hefði þurft á núv. lögum um fasteignaskatta, og þá hefðu fasteignaskattarnir hækkað vegna hækkunar á fasteignamati og óbreyttra skatttaxta úr 82 millj. í nálægt 500 millj., í staðinn fyrir að þetta tekjustofnafrv. gerir þó ekki ráð fyrir hækkun nema í 284 millj. án álaga. Þetta taldi ég og við, sem fjöllum um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar, allt of hátt og of mikla hækkun og vildum ekki að því standa, en með öðrum hætti hefðum við ekki getað afgreitt fjárhagsáætlun borgarinnar. Ég vonast til þess, að þessi ábending hæstv. félmrh. þýði ekki það, að hann neiti Reykjavíkurborg um heimild til þess að fresta samþykkt fjárhagsáætlunar fram yfir áramót og þangað til búið er að ganga frá tekjustofnafrv. hér á Alþ., alla vega bið ég hann þá um að segja mér það tímanlega, svo að unnt sé að ganga frá fjárhagsáætluninni fyrir áramót.

Það er þá rétt að víkja að ummælum hæstv. félmrh., þar sem hann vitnaði í þau dæmi, sem ég gat um, hvernig skattabyrðinni yrði háttað samkv. þessu frv. og tekjuskattsfrv., sem rætt var í Nd. Ég studdist við í þeim dæmum ákveðna útreikninga, sem ég skal afhenda hæstv. félmrh., þegar ég hef látið hreinskrifa þá, þetta voru þrjú dæmi um hjón með tvö börn og mismunandi tekjur, þrjú dæmi að því leyti til. Enn fremur voru tvö dæmi, annars vegar um einstæða móður með tvö börn og hins vegar hjón; ellilífeyrisþega. Þótt dæmin væru öll um skattþegna, sem höfðu mjög hóflegar tekjur, þá leiddu dæmin öll í ljós, að um mjög aukna og sérstaklega aukna skattabyrði var að ræða í tilvikum hinnar einstæðu móður og ellilífeyrisþeganna. Þar var þó tekin inn í dæmið niðurfelling persónuskattanna eða nefskattanna svo kölluðu, sem ekki var gert varðandi hjónin með tvö börn. Ástæðan til þess, að það var ekki gert varðandi hjónin með tvö börn, var sú, að nefskattar, hækkaðir nefskattar, fást uppi bornir með hækkuðum launum, vegna þess að nefskattarnir eru inni í vísitölunni eins og stendur. Ég hef meiri trú á þessum útreikningum heldur en á útreikningum þeim, sem hæstv. ríkisstj. og sérstaklega hæstv. fjmrh. hefur látið frá sér fara. Ég held, að þær forsendur, sem þeir útreikningar eru byggðir á, séu rangar í veigamiklum atriðum, en þó er erfitt að fullyrða um það, vegna þess að forsendurnar eru ekki gefnar upp.

Það er því nauðsynlegt, þegar n. tekur þetta mál til meðferðar, að fara yfir þessa útreikninga og sannreyna þá og komast að raun um, á hvaða grundvelli þeir eru byggðir. Öll þau dæmi, sem ég gat um, bera vitni um meiri skattbyrði eftir samþykkt þessara beggja frv. en áður og heildarstefna frv. hefur í för með sér, að hlutfallslega meiri tekjuöflun fer til ríkisins og samsvarandi hlutfallslega minni tekjuöflun fellur í hlut sveitarfélaga. Þetta hvort tveggja eru megingallarnir á þeirri stefnu, sem hæstv. ríkisstj. hefur markað með framlagningu þessara frv.

Ég er hræddur um, að það þurfi meira en að reikningsheili Háskólans vinni þessi dæmi, það þarf að gera sér grein fyrir, hverjar forsendur slíkra dæma eigi að vera. Mér finnst eðlilegast, þegar rætt er um samanburð á skattbyrði milli ára, að þá verði að taka tillit til þess eða gera sér grein fyrir því, hvort meiri hluti tekna manna fari í greiðslur opinberra gjalda eða ekki, og þetta er meginforsenda í þeim dæmum, sem ég hef þegar getið um. En ég get aðeins til áréttingar þeirri staðhæfingu minni, að skattabyrðin aukist samkv. þessum frv. báðum getið um það, að tekin hafa verið dæmi, raunveruleg dæmi úr skattframtölum um ófaglærðan verkamann með brúttótekjur um 430 þús. kr. 1971 og þá má búast við 17.9% hækkun á skattbyrði milli ára miðað við breytingarnar. Hafnarverkamaður með brúttótekjur 492 þús. 1971, — þetta eru, afsakið, þetta eru ekki raunveruleg dæmi, þetta eru gefnar forsendur. Hafnarverkamaður með brúttótekjur 492 þús. 1971, hækkun á skattabyrði yrði 34.8% og iðnverkamaður með 550 þús. kr. brúttótekjur 1971, hækkun á skattabyrði yrði 35.8%.

Þegar svo er haldið fram, að skattabyrðin sé aðeins aukin hjá þeim, sem hærri tekjur hafa, þá má til samanburðar geta um það, að af 800 þús. kr. brúttótekjum 1971 er aukning skattabyrði 26.2% og af 1230 þús. kr. brúttótekjum 1971 20.4%, þ.e. aukning skattabyrðarinnar fer hlutfallslega minnkandi, eftir því sem tekjur hækka, hún er mest og þyngst á miðlungs- og millitekjum. Ég held þess vegna, að hæstv. ríkisstj. verði að endurreikna þau dæmi, sem hún hefur látið frá sér fara, og það eru mörg atriði þar óupplýst, sem rétt er að hún standi reikningsskap fyrir í þeim n., sem fjalla um þessi frv.

Þá er rétt að víkja nokkuð að því máli, sem hæstv. félmrh. drap á, og þá svaraði hann raunar fsp. minni frá því í gær um það, hvort meiningin væri að falsa vísitöluna, og því miður virðist það vera svo mót von minni og raunar vissu, af því að hæstv. félmrh., sem er fyrrv. forseti Alþýðusambands Íslands, forsvarsmaður launþeganna í landinu á í hlut, þá sýnist svo sem eigi að fara á bak við launþega og fara þannig að, að þeir fái ekki neina uppbót á grundvelli vísitölu, á grundvelli hækkaðs kaupgjalds, þegar nefskattarnir eru niður felldir og felldir inn í beinu skattana. Það var að vísu svo að skilja á hæstv. félmrh., að hann væri þeirrar skoðunar, að skattar, tekjuskattar og tekjuútsvar, væru í vísitölugrundvellinum og vísitöluútreikningnum, ég held ég hafi skilið hann þannig. Það er náttúrlega fjarri sanni. Tekjuskattar og tekjuútsvar eru ekki í vísitölugrundvellinum og ekki í útgjöldum vísitölufjölskyldunnar, sem vísitöluútreikningurinn byggist á. Þess vegna er það svo, að þegar nefskattar eru niður felldir, sem eru í vísitölugrundvellinum og vísitöluútreikningnum og þeir eru færðir í beinu skattana og tekjuskattana, þá um leið eru launþegar sviptir vísitöluuppbótum og launahækkunum vegna þessara útgjalda sinna. Þetta kalla ég fölsun á vísitölu, sem ég bjóst ekki við, að hæstv. félmrh. mundi standa fyrir.

Vísitölugrundvöllurinn byggist á ákveðnum útgjöldum fjölskyldunnar. Hækkanir á þeim útgjöldum birtast í hreyfingu vísitölunnar frá einum tíma til annars. Ef það er svo, að ákveðinn útgjaldaþáttur er tekinn úr vísitöluútreikningi, þá á auðvitað að taka hann úr vísitölugrundvellinum um leið, það á að taka hann beggja vegna burt. Ef það er gert, þá mundi vísitalan ekkert breytast. Fordæmi þessa eru fyrir hendi, að það var um nokkurra ára bil svo, að tekjuskattar og tekjuútsvar var innifalið í vísitölugrundvellinum og vísitöluútreikningi þar af leiðandi. Það var fellt niður við síðustu endurskoðun vísitölunnar, bæði úr grundvellinum og útreikningnum, og þetta verður auðvitað að gera, þegar nú á að fella niður nefskatta. Það er auðvitað ágætt að koma til manna, launþega þessa lands, og segja við þá: Nefskattar eru niður felldir, — þeir mundu hafa hækkað á hjónum úr, að mig minnir, 16 þús. í nær 22 þús. á næsta ári í samanburðartöflum, — að taka þessi 22 þús. kr. útgjöld fjölskyldunnar, en þessa hækkun frá 16 þús. í 22 þús. kr. hefðu launþegar fengið endurgreidda í hækkuðum launum samkvæmt vísitöluhækkunum. Nú þegar launþegar verða að borga þessa hækkun í tekjusköttum, þá fá þeir enga launahækkun til þess að standa undir því. Og eins og dæmi mín hafa sannað, þá mun tekjuskattshækkun lenda á láglaunafólki og fólki með millitekjur eða meðaltekjur í mjög víðtækum mæli og hærri að upphæð til heldur en nefsköttum nemur.

Þetta bið ég nú hæstv. félmrh. að kanna í góðu tómi, vegna þess að ég get vel trúað því, að hann hefði ekki tekið þessa aðferð í mál, hefði hann gert sér grein fyrir því, að skattar, tekjuskattar og tekjuútsvör, eru ekki í vísitölunni. Ef það hefði verið í vísitölunni, eins og mér skildist á hæstv. ráðh., að hann hefði gengið út frá, þá hefði kannske verið öðru máli að gegna.

Þá vil ég aðeins drepa á það, sem ráðh. ræddi um, að væri meginatriði frv. að því er sveitarfélögin snertir, þ.e. að þeim væri séð fyrir nægilegum tekjustofnum. Hann taldi útkomu þá, sem ég gat um hjá Reykjavíkurborg samkv. nýja kerfinu, ekki vera afleita, en hún er nú svo afleit, að Reykjavíkurborg þyrfti að nota allar heimildir að fullu og þ. á m. heimildina um 50% hækkun fasteignaskattanna, þannig að þeir hækkuðu ekki fjórfalt, heldur væntanlega sexfalt. Þegar þetta er borið saman við núverandi tekjustofna, þá kemur munurinn greinilega í ljós. Eins og nú standa sakir, þá hefur Reykjavíkurborg upp á að hlaupa muninn, ekki eingöngu milli 6% afsláttar og gjaldstiga útsvara, útsvarsstigans, heldur allt að 20% álag á útsvarsstigann, og Reykjavíkurborg hefur enn fremur upp á að hlaupa aðstöðugjaldskrána, að fara upp í hámark eða áleiðis að hámarki aðstöðugjaldskrár, lögleiddrar aðstöðugjaldskrár, en það er munurinn milli 60% nýtingar á þeirri hámarksgjaldskrá, sem slík hámarksgjaldskrá mundi gefa, og 100% nýtingar, það er upphæð, sem nemur hátt í 300 millj. kr. Þetta svigrúm, sem Reykjavíkurborg hefur núna, er af henni tekið með nýja frv. Með þessum hætti er verið að skerða sjálfræði þessarar sveitarstjórnar, með þessum hætti er veríð að skerða sjálfstæði þessara sveitarfélaga. Spurningin er þá sú: Er Reykjavíkurborg sérstakt og óvenjulegt dæmi, undantekning? Ég hygg ekki. Hæstv. félmrh. gaf þær upplýsingar í sinni ræðu hér áðan, að það væru mörg sveitarfélög, sem þyrftu samkv. núverandi gjaldskrá að leggja á útsvarsstigann og dygði ekki 20% heimildin eða full aðstöðugjöld, heldur þyrftu þau að fá framlag frá Jöfnunarslóði. Það væru 20 sveitarfélög, sem fengju 20 millj. kr. núna í ár. Það er að tölu til 10% eða því sem næst af öllum sveitarfélögum landsins. Sem betur fer hygg ég nú, að það sé ekki nálægt því 10% af íbúafjölda sveitarfélaganna, sem þar dvelja, en þegar aðstaða sveitarfélaganna er svona misjöfn og þegar núverandi tekjustofnar duga sveitarfélögum þetta illa, við hverju má þá búast, eftír að nýju tekjustofnarnir ganga í gildi miðað við reynslu Reykjavíkurborgar, því að ég vil ekki, og ítreka það, halda því fram, að þessi tekjustofnalög séu samin með það fyrir augum að rýra sérstaklega hlut Reykjavíkur sem sveitarfélags eða tekjur borgarinnar einnar. Ályktunin, sem við drögum af þessum upplýsingum hæstv. félmrh., hlýtur að vera sú, að úr því að jafnvel Reykjavíkurborg, sem stendur tiltölulega vel að vígi miðað við önnur sveitarfélög á grundvelli núverandi tekjustofna sveitarfélaga, er sett í þessa spennitreyju með nýja tekjustofnafrv., hvaða spennitreyja er þá ekki sett á sveitarfélög almennt í landinu. Hæstv. félmrh. sagði, að útreikningar samkv. þessu frv. væru byggðir á árinu 1970, sem væri gott ár, toppár hjá sveitarfélögum landsins. Ég dreg það nú mjög í efa. Við verðum að hafa í huga, að sveitarfélög byggja tekjur sínar á tekjum íbúanna árið á undan, og tekjur manna árið 1969, þótt betri væru en 1968, voru þó ekki komnar það áleiðis upp á við sem síðar hefur orðið, þannig að því miður er viðmiðunin 1970 ekki hagstæð sveitarfélögum almennt.

Mér þótti slæmt, en við því er ekkert að segja, að hæstv. félmrh. gat ekki gefið upplýsingar um, hvert mundi verða endurmat fasteignamatsins, sem boðað hefur verið í grg. frv. og ákvæðum til bráðabirgða, að því er mig minnir. Þar er að vísu sagt, að það sé fjmrn., sem eigi að ákveða þetta skattmat, og þess vegna geti vel verið, að hæstv. félmrh. geti af eðlilegum ástæðum ekki veitt þessar upplýsingar, en hann hlýtur að hafa misskilið mig, þegar hann færði þá ástæðu fyrir skorti á upplýsingum um þetta atriði, færði þeim stað, vegna þess að úr fasteignamatinu hefðu komið aðrar tölur heldur en síðar hefðu reynzt sannar. Þetta eru náttúrlega alveg óskyld mál og endurskoðun á fasteignamatinu sjálfu eða svarið við þeirri spurningu, hver sú hækkun á fasteignamatinu, sem ákvæði til bráðabirgða gera ráð fyrir, og svo hitt, hvað heildarfasteignamat í einu sveitarfélagi eða öðru er hátt. Þetta tvennt er án tengsla í þessu sambandi.

Ég skal nú ekki lengja mál mitt, úr því sem komið er. Ég tók svo eftir hjá hæstv. félmrh., að hann furðaði sig á því, að í Nd. hefði mönnum verið helzt umhugað um að tala um tekjustofna sveitarfélaga og hér í Ed. hefðu menn helzt talað um tekjuskatta. Ég hygg, að það geti haft sínar skýringar. Ég vil segja það eins og er, að ég tel hæstv. félmrh. hafa farið með rétt mál að því leyti, þegar hann sagði, að ég teldi megingallana vera fólgna í frv. um tekjuskatta til ríkisins. Það er alveg rétt. Ég tel þar vera mjög alvarleg ákvæði á ferðinni. Ég tel e.t.v. meginstefnu þessa frv. um tekjustofna sveitarfélaga ekki óeðlilega, en ég geri þann fyrirvara á mjög ákveðinn, að með þessu frv. er sveitarfélögum ekki séð fyrir nægum tekjustofnum og með þessum frv. báðum er verið að auka skattbyrði almennings í landinu, þ. á m. láglaunafólks og fólks með meðaltekjur. Með þessum frv. báðum er verið að marka þá stefnu, að ríkissjóður tekur hlutfallslega meira af tekjum í sinn hlut og skilur hlutfallslega minna eftir í hlut sveitarfélaga heldur en samkv. gildandi lögum og það þrátt fyrir að tekið sé tillit til lækkunar útgjalda sveitarfélaga til ákveðinna málaþátta. Þetta eru megingallar frv., og að lokum hlýt ég að lýsa því yfir, að ég muni ekki fylgja þessu frv., nema bót fáist á því og frv. um tekjuskatta að þessu leyti, að dregið sé úr skattbyrði almennings í landinu í fyrsta lagi og í öðru lagi séu tekjustofnar sveitarfélaga tryggðir betur en gert er með þessu frv., á þann veg að sjálfræði þeirra og sjálfstæði megi njóta sín íbúum sveitarfélaganna til gagns.