16.12.1971
Efri deild: 30. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1034 í B-deild Alþingistíðinda. (639)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég skal nú reyna að hafa ekki mál mitt mjög langt, til þess er ekki ástæða. Hv. þm., sem síðast talaði, hv. 5. þm. Vestf., vitnaði til minna orða um það, að ég hefði áður fyrr ekki verið andvígur því, að mál eins og þetta yrði sent til umsagnar sveitarfélögunum. Það hefur ekkert komið fram í mínu máli, sem bendir til þess, að ég hafi skipt um skoðun að þessu leyti, og ég hef heldur ekki skipt um skoðun á því. Ég tók það fram í minni framsöguræðu, að málið yrði nú sent Sambandi ísl. sveitarfélaga til umsagnar og grandskoðunar í góðu tómi og til þess gæfist fullt tækifæri, þar sem tilhögunin yrði sú að vísa málinu nú til n. og láta það bíða fullnaðarafgreiðslu, þangað til þinghléi lyki. (Gripið fram í.) Samband ísl. sveitarfélaga er samnefnari sveitarfélaganna í landinu og það er sá aðili, sem þau hafa gengið undir sameiginlega stjórn hjá. Hins vegar er alveg sjálfsagt, ef menn leggja kapp á það, að senda hverju einasta sveitarfélagi í landinu frv. til umsagnar, ef þm. ekki hafa svo samband við sveitarstjórnirnar, að þeir komi frv. á framfæri til þeirra, ef þeir telja það mikið skaðræði. Ég gæti þá ætlað þeim það, að þeir kæmu því á framfæri við sveitarstjórnirnar, en það skal ekki standa á því. Landshlutasamtökum sveitarfélaga verður líka örugglega sent frv. til umsagnar.

Já, það má ekki, segir hv. þm., leggja fasteignaskatt á húseignir manna. Á hvað eru lagðir skattar? Skattar: eru lagðir annaðhvort á eignir manna eða tekjur. Annars er ekki að leita, í önnur hús er ekki að venda. Það eru engin rök gegn því að leggja fasteignaskatt á, að svo margir eigi fasteignir. Þar verður að leita skatta, sem skattstofnar eru fyrir, eignir eða tekjur. Þm. hélt því fram, að það mundi draga úr því framtaki manna að byggja, ef lagðir væru skattar á fasteignir. Hann heldur því kannske fram, að það dragi bara úr framtaki manna, að eignir þeirra og tekjur verði skattlagðar, en hjá því komumst við ekki, sveitarfélögin verða að gera það og þjóðfélagið verður að gera það. Og lítinn þegnskap sýna þeir, sem leggjast á lötu hliðina, af því að þeir eigi þess von, að þjóðfélagið verði að fá sitt og sveitarfélögin sitt fyrir þá þjónustu, sem þau inna af hendi.

Hv. 2. þm. Reykv. játaði stuðning sinn við þetta frv., að vísu með nokkrum fyrirvörum, en hann taldi grundvöll þess ekki óeðlilegan og hann viðurkenndi og upplýsti, að þetta væri ekki sem verst, því að það byggði á undirbúningi fyrrv. stjórnar, og mátti því ætla, að að því leyti væri það harla gott. Það er nú slæmt samt, segir hv. 5. þm. Vestf. með höfuðhristingu, þó að það sé úr hinum fyrri herbúðum að grundvelli. Vitnisburðunum ber sem sagt ekki saman hjá Sjálfstæðisflokknum. Ekki óeðlileg stefna og byggir á undirbúningsstarfi, sem fyrrv. stjórn let framkvæma.

Hv. 2. þm. Reykv. heldur því enn fram, að frv. tryggi ekki nægilega tekjustofna, og ég játa það, að ef hann er sannfærður um það, þá hefur hann ástæðu til þess a.m.k. að fara varlega í stuðningi sínum við frv. Ég er hins vegar sannfærður um það, að frv. hefur nægilegt rúm til að tryggja öllum sveitarfélögum nægilega tekjustofna, eins og það er úr garði gert. En þetta verður allt saman nákvæmlega tölulega kannað nú, og við skulum beygja okkur fyrir þeim staðreyndum, sem þá koma í ljós.

Hv. 2. þm. Reykv. fullyrðir, að skattbyrðin aukist á fólki, sem tilheyri láglaunastéttum. Þar getur náttúrlega verið mismunandi mat á, hverjir tilheyra láglaunastéttum, en ég fullyrði, að frv. er þannig upp byggt, að það leggur ekki eins þungar byrðar á láglaunafólk og núverandi kerfi gerir, og er þar mikill þáttur í að losa fólk við nefskatta, sem oft var þung sköttun, þó að ekkert annað kæmi til á fólki með lægstu tekjur. Að borga upp undir 20 þús. kr., án tillits til þess, að um nokkrar verulegar tekjur væri að ræða umfram t.d. bara ellistyrkinn, það er þung skattlagning.

Þá talaði hv. þm. enn um skipun nefndarinnar og taldi, að hún hefði verið flokkspólitískt skipuð. Hún var fyrst og fremst skipuð sveitarstjórnarmönnum víðs vegar að af landinu, og verkefnið var að semja frv. fyrir núv. ríkisstj. í anda hennar stefnu, og þess vegna var fólk valið í hana á þennan hátt. Ég verð ekki um það sakaður að fylgja þeirri reglu að skipa yfirleitt nefndir eingöngu flokkspólitískt. Ég veit ekki betur en ég skipaði tvær nefndir á þessu hausti með mönnum úr flestum eða öllum flokkum, af því að verkefnið var það, sem viðkomandi samtök áttu við samningaborðið að fjalla um, og þá voru settar í þær nefndir menn úr öllum pólitískum flokkum til þess að grandskoða það frá öllum hliðum. En þar var um allt annað verkefni að ræða, og ég fór ekki eftir neinum flokkspólitískum línum um það. Hér átti að vinna verk fyrir ríkisstj. í anda hennar stefnu, og þá voru auðvitað, eins og fyrri ríkisstj. hafði gert, valdir til þess menn úr stuðningsliði stjórnarinnar. Ég harma það hins vegar, að hv. 2. þm. Reykv. sá enga ástæðu til þess að láta í ljós vanþóknun sína á þeim leka, sem upp kom í stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, þegar trúnaður var brotinn, þegar þeir voru til kallaðir til þess að fjalla um þetta mál. Ég hafði vænzt þess af hv. 2. þm. Reykv., að hann harmaði það. En hitt er rangtúlkað hjá honum, að ég hefði á nokkurn hátt gripið til refsingar út af þessu. Ég hafði engin afskipti af þessu og enga vitneskju um það fyrr en löngu eftir að þetta hafði gerzt, en nm. voru sannarlega ekki ámælisverðir fyrir það, þó að þeir boðuðu ekki til fleiri funda til þess að láta útvarpa þessu viðkvæma máli frá degi til dags í Morgunblaðið.

Ég heyrði það, að talað var um, að fundur hefði verið haldinn norður á Húsavík um líkt leyti, og þá átti sá, sem lekanum olli, að skjóta sér á bak við það, að hægt væri að koma skömminni á þann, sem hefði talað um þetta á Húsavík. En það er nú heldur léleg siðfræði í þessu. Það er alveg sannað mál, að það var maður hér af Reykjavíkursvæðinu, sem lak. (GH: Það er rétt, að ráðh. segi, hver maðurinn var.) Ég stend ekki til skrifta við borgarstjórann, sem ekki blygðast sín einu sinni fyrir þetta. (GH: Það er ráðh. að gera það.) Það er ekki mitt að gera það. Það er borgarstjórinn í Reykjavík, hv. 2. þm. Reykv„ sem leggur blessun sína yfir þetta, að trúnaðarbrotið var framið. (GH: Á Húsavík?) Og hann um það. Nei, hér í Reykjavík, rétt.

Um dæmi hans um skattlagninguna endurtek ég það, sem ég áðan sagði, að ég trúi, þar til reynslan sker úr á annan hátt, fremur útkomu frá Reiknistofu Háskólans heldur en frá reiknimeisturum borgarstjórans, og við það situr. Reynslan ein skal svo skera úr um það, hverjir hafa réttara fyrir sér um það, hvort það sé með þessu frv. níðzt á lágtekjufólki eða það, sem ég fullyrði, að skattbyrðin er færð til með þessu frv. yfir á þá með breiðu bökin, og þeim er ætlað að bera þyngri skattbyrði, en það eru ákvæði í frv., sem létta á þeim, sem lægstu tekjurnar hafa. Og ég veit það ósköp vel, að styrinn sem stendur um það, hvernig skattbyrðin skiptist á herðar manna, er ekki út af umhyggju fyrir lágtekjufólkinu. Það er einmitt af gremjunni yfir því, að skattbyrðin færist nú í meiri mæli en áður yfir á hátekjufólk og stóreignamenn.

Í framhaldi af þessu vil ég svo aðeins benda á það, að það stangast illilega á fullyrðingin um það, að sveitarfélögin fái ekki samkv. þessu frv. jafnháar tekjur eins og þau fá með núv. skattkerfi, en samt séu menn skattpíndir, svo að menn halda ekki jafnvægi sínu yfir. Skattpíning á það að vera annars vegar, en ófullnægjandi tekjuöflun fyrir sveitarfélögin hins vegar. Þetta rekst óneitanlega á. Þetta styrkir mig í þeirri trú, að niðurstöðutölur frá Reiknistofu Háskólans séu réttar, en ekki útkomurnar, sem reiknimeistarar borgarstjórans fara hér með.

Nei, það, sem hér verður rækilega skoðað af þn. og þeim stofnunum. sem hún leitar til varðandi það, hvernig skattbyrðin dreifist á gjaldþegnana, kemur í ljós, þegar við hittumst aftur að loknu þinghléi, og álit Sambands ísl. sveitarfélaga skýrir svo hins vegar frá niðurstöðum hennar um það, hvernig frv. fullnægi tekjuþörf sveitarfélaganna. Eftir þessum úrskurðum skulum við bíða rólegir og láta okkar tal að öðru leyti niður falla, þangað til þetta liggur ljósar fyrir. Ég hef ástæðu til þess að byggja á þeim útreikningum, sem ég hef vitnað til, og er sannfærður um, að þar er í flestum tilfellum mjög varlega reiknað, og sveitarfélögin koma sennilega mun betur út en útreikningar míns varfærna ráðuneytisstjóra benda til. Ég er alveg óhræddur um það, að hans niðurstöður munu reynast nokkuð nærri því réttar og þó vera í raun og veru varfærninnar megin.

Það var þetta, sem ég nú hef sagt, sem ég taldi ástæðu til þess að svara af því, sem fram kom í ræðum hv. 2. þm. Reykv. og hv. 5. þm. Vestf. Tal hans,allt um það, að það þurfi að endurbæta löggjöf um húsnæðismál, um raforkumál, um hafnamál og um skólamálin, sem séu svo ruglingsleg, að óviðunandi sé, það á hann allt við sína fyrirrennara, sem að völdum hafa setið á Íslandi s.l. 12–15 ár, en sjálfsagt að verða við ábendingum hans um. að það sé mýmargt í hinum stærstu málaflokkum þjóðfélagsins, sem leiðrétta þurfi, þegar þeir eru farnir úr þessum sessi.