25.11.1971
Efri deild: 17. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í B-deild Alþingistíðinda. (64)

71. mál, innlent lán

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Hæstv. núv. utanrrh. tók jafnan til máls, þegar áður voru hér á dagskrá hliðstæð frv. En má ég vekja athygli hans á því, sem segir í 3. gr. og gerði það að verkum, að ég fór ekki að tala sérstaklega um þá breyt., að nú skyldu skuldabréf og spariskírteini hins vegar skráð á nafn. En 1. málsl. 3. gr. er svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Ríkisskuldabréfin og spariskírteinin, sbr. 1. gr., svo og vextir af þeim og verðbætur, skulu undanþegin skattlagningu og framtalsskyldu.“

Það væri umtalsvert skref að telja fram, það væri umtalsvert skref fram á við. Þá gæti vel verið, að sumir hugleiddu málið andartak, áður en þeir keyptu. Hins vegar segir í 2. gr.: „Heimilt er að verðtryggja skuldabréf“. Og því miður er ástandið ekki þannig í dag, að við getum búizt við öðru, því miður, en að verðbólgan haldi á sæmilegu brokkí áfram, kannske hún fari á stökk, ég skal ekki segja. A.m.k. er sæmilegur brokkgangur í henni. Þó að skuldabréfin séu skráð á nafn, þá eru þau enn hvöt og það góð hvöt að kaupum, því að rétt er, sem fram hefur komið, að þau eru undanþegin framtalsskyldunni. Það er stærsta atriðið. En það gildir sama um spariféð. Ef við værum sammála um að gera þau framtalsskyld, sem ég skal alveg vera með, þá er það allt í lagi. Það er svo annað mál, hvort við setjum þau ákvæði, að þau skuli vera skattlaus sem slík. Það má sleppa því. En það eru rök fyrir því að gera þau framtalsskyld og skrá þau á nafn. Ég skal standa með slíkri breytingu með aðstoð hæstv. ríkisstj. Það er alveg sjálfsagt. Ég vildi aðeins gera þessa aths. Þau eru verðtryggð. Í því liggur áhugi manna fyrst og fremst, að tryggja sparifé sitt.

Fyrst og fremst eru haldnar hér langar ræður af hálfu núv. stjórnarmanna um verðrýrnun á sparifé, og skal ég ekki fara í almennar stjórnmálaumr. um það. En það er stærsta hvötin fyrir almenning í landinu að geta verðtryggt sitt sparifé með einu eða öðru móti, og þetta er einn þátturinn í að koma slíku sparifé í örugga höfn.