16.12.1971
Efri deild: 30. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1037 í B-deild Alþingistíðinda. (640)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég verð að segja, að það kom mér nokkuð á óvart áðan, að hæstv. félmrh. skyldi standa hér upp og hella sér yfir hv. 2. þm. Reykv., hafa uppi alls kyns fúkyrði um stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga fyrir trúnaðarbrot, sem var framið áður. Það var ekki framið neitt. Ég veit að vísu ekki um það, ég veit, að hæstv. félmrh. á ýmis göng inn í Morgunblaðið, en ég veit ekki, hvaðan upplýsingar koma úr hans rn. í þetta ágæta blað, en hitt fullyrði ég og það er hægt að fá staðfest, að þær upplýsingar, sem sá maður, sem hæstv. félmrh. skipaði til þess að endurskoða lög um tekjustofna sveitarfélaga, skýrði frá á fundi norður í landi, komu fram áður en þessi frétt kom í Morgunblaðið. Og ég er hálfundrandi á því, að hæstv. félmrh. skuli hér á hv. Alþ. ekki harma þau mistök, sem þar hafa átt sér stað, og hefði það verið stórum karlmannlegra heldur en sletta svo úr klaufunum sem hann gerði hér áðan og kenna allt öðrum aðilum um það mál.

Erindi mitt upp í ræðustól var ekki annað en þetta eitt, að ég læt í ljósi undrun mína á þessum viðbrögðum ráðh. og hefði talið það karlmannlegra af honum að skipta um mann í nefndinni. Ef þetta trúnaðarbrot, sem þarna var framið, var svo mikils virði sem ráðh. lætur, að ekki mátti neitt leka út, að ekki mætti hafa samráð við þá menn, þá hafði þessi nm. vissulega framið þar trúnaðarbrot, og það hefði verið rétt að hætta að tala við þann mann, alveg eins og hann segir nú, að ástæðan til þess að ekki var talað við stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga hafi verið sú, að hæstv. ráðh. ímyndar sér, að sú stjórn hafi farið illa með þær heimildir, sem henni var trúað fyrir.