07.03.1972
Efri deild: 51. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1045 í B-deild Alþingistíðinda. (643)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. 1. minni hl. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa frv. Við hv. 3. þm. Reykn., sem að nál. n. minni hl. n. stöndum, viljum vísa frv. frá.

Þegar núv. ríkisstj. tók við völdum á síðastliðnu sumri, var í málefnasamningi stjórnarflokkanna boðuð ný stefna í tekjuöflun ríkis og sveitarfélaga. Um samskipti ríkis og sveitarfélaga segir m.a. í málefnasamningnum: „Endurskoða ber skiptingu verkefna og valds á milli ríkis og sveitarfélaga í því skyni að auka sjálfsforræði byggðarlaga. Haft verði samráð við Samband ísl. sveitarfélaga og samtök sveitarfélaga í einstökum landshlutum um þessa endurskoðun.“ Þegar ríkisstj. skipaði svo nefnd til að endurskoða lög um tekjustofna sveitarfélaga, fengu menn nokkurn forsmekk af því, hvernig ríkisstj. ætlaði að efna loforð málefnasamningsins. Nefndin var skipuð pólitískum fulltrúum stjórnarflokkanna einna með þeirri einu undantekningu, að ráðuneytisstjóri félmrn. fékk þar einnig sæti, annað hefur líklega tæpast þótt hlýða. Algerlega var gengið fram hjá þeim samtökum, sem í málefnasamningnum var heitið að endurskoðun færi fram í samráði við, og þeim ekki gefinn kostur á að eiga aðild að samningu þessa frv., sem hér liggur fyrir, enda ber það merki þess, að sniðgengnir hafa verið þeir aðilar, sem nánasta þekkingu og bezta yfirsýn hafa yfir málefni sveitarfélaganna og þarfir þeirra. Lengi dróst, að menn sæju árangur af þessari endurskoðun. Frv. til fjárlaga var lagt fram í þingbyrjun, en vitað var, að útgjaldahlið fjárlaga mundi hækka stórkostlega í meðförum þingsins, án þess að vitað væri, hvernig tekna væri aflað á móti. Sveitarfélögin, sem að lögum ber að afgreiða fjárhagsáætlanir sínar fyrir jól eða fyrir áramót, vissu ekkert, hvað þeirra mundi biða um tekjuöflun, og gátu ekki afgreitt þær á lögmætum tíma, og þau bíða öll enn með fjárhagsáætlanir sínar óafgreiddar. Þegar afgreiðsla fjárlaga var að komast á lokastig, lágu loks á borðum þm. örfáar tölur fyrir þinghlé um jólin, tvö stjfrv., frv. til I. um breyt. á l. um tekju- og eignarskatt og frv. til I. um tekjustofna sveitarfélaga, sem hér er til umr. Þegar fjárlög voru afgreidd fyrir jól með nær helmings hækkun á útgjaldahlið, frá því sem var í fjárlögum síðasta árs, þá var tekjuhlið þeirra að verulegu leyti byggð á frv., sem flutt var inn í þingið á síðustu dögum þinghalds fyrir jól og enginn vissi í hvaða mynd mundi verða endanlega afgr.

Það er athyglisvert og reyndar ámælisvert, hvernig ríkisstj. hefur staðið að undirbúningi þeirra tveggja frv., stjfrv., sem hér er um að ræða, og það er ástæða til að bera aðferðir hennar saman við ráðstafanir fyrrv. ríkisstj. í þessum efnum, en það er rakið í nál. I. minni hl. fjhn. Nd. um frv. til I. um breyt. á I. um tekju- og eignarskatt. Hér skal alveg sérstaklega vítt það athæfi ríkisstj. áð þverbrjóta loforð málefnasamningsins um að hafa samráð við Samband ísl. sveitarfélaga og landshlutasamtök sveitarfélaga um endurskoðun tekjustofnalaganna, andstætt því sem tíðkaðist ávallt í tíð fyrrv. ríkisstj. Í aths. um frv. segir, að ríkisstj. hafi gert á því nokkrar breytingar, frá því að endurskoðunarnefndin skilaði því af sér. Sem dæmi um það handahóf, sem ráðið hefur við undirbúning þessa máls, má benda á 2. mgr. 25. gr. frv., sem upplýst er í heilbr.- og félmn., að ríkisstj. hefur af raðsnilld sinni skellt inn í frv., en verður nú reyndar fyrirsjáanlega að lúta í lægra haldi með. Enda gagnrýnt af öllum að segja má, þ. á m. ýmsum þeim aðilum, sem fengu frv. til umsagnar. Þessi furðulegi stallastigi, sem ríkisstj. setti þarna inn í frv., þýðir það, að bætt er við 25 nýjum útsvarsliðum. Þetta heitir líklega á máli ríkisstj. að gera skattkerfið einfaldara, sbr. aths. við skattafrv., sem nú er til meðferðar í Nd., og þó að það sé kannske ekki ástæða til að fjölyrða um þetta ákvæði frv., sem nú verður senn úr sögunni, sbr. brtt. frá meiri hl. heilbr.- og félmn., þá sýnir það svo ljóslega allt fumið og flaustrið í sambandi við mál eins og þetta, sem svo mjög snertir hag hvers einasta manns í landinu, að útkoman í framkvæmd hefur orðið svo furðuleg, að með ólíkindum er.

Svo að við tökum dæmi, þá hefði t.d. aðili, sem hefði haft 450000 kr. í tekjur eða aðeins liðlega 450000 kr. í tekjur, átt að greiða 45 000 kr., þ.e. 10% í útsvar. Ef þessi maður, sami aðili, hefði haft 449 900 kr. slétt eða mjög nærri því, þá hefði hann átt að greiða 9.8% af því öllu saman til útsvars og hefði þá, reiknast mér, fengið útsvar, sem nam 44 000 kr., m.ö.o. þessar 100 kr. eða svo, sem hann hafði þarna hærra en ég nefndi í síðara tilfellinu, hefðu kostað hann 1 000 kr. hærra útsvar. Þetta var auðvitað skiljanlegt, þegar ekki er gætt þeirrar sjálfsögðu reglu, að tekjur á vissu bili séu skattaðar með sömu prósentu. Það má líka væntanlega skrifa á reikning ríkisstj. það spaugilega ósamræmi, að samkv. 3. mgr. 25. gr. er skylt að lækka útsvar gjaldanda, sem hefur á framfæri sínu fleiri börn en þrjú innan 16 ára aldurs um 2 000 kr. fyrir hvert barn þar umfram. en í staflið a í 27. gr. er sama útsvarslækkun heimildarákvæði, en þó því aðeins, að útsvar gjaldandans sé lægra en 30 000 kr. Þetta er annað dæmi um hroðvirknina, vinnubrögðin í sambandi við undirbúning þessa frv.

Það var ætlun ríkisstj„ að þetta frv. fengi skjóta afgreiðslu, þegar Alþ. kæmi saman aftur 20. jan. eftir þinghlé, en reyndin hefur sannarlega orðið önnur. Það er vitað, að innan stjórnarflokkanna varð megn óánægja með ýmis ákvæði frv., þegar þm. höfðu fengið svigrúm til að kynna sér nánar efni þeirra. Nú eru senn liðnar sjö vikur síðan þing kom saman á ný og allan þann tíma hefur, eftir því sem bezt verður séð, verið karpað innan stjórnarliðsins um þær breytingar, sem á því þurfti að gera, og allt fram á síðasta fund heilbr.- og félmn., sem haldinn var síðastliðinn miðvikudag, hafa brtt. stjórnarliðsins, eða stjórnarinnar réttara sagt, verið að koma fram.

Þá verð ég að segja, að vinnubrögð á síðustu fundum heilbr.- og félmn. hafa verið furðuleg og horið þess ljóst vitni, hvernig samráð og samkomulag innan ríkisstj. og stjórnarflokkanna muni vera. Á fundi n. 25. febr. voru lagðar fram brtt. merktar Minnisblað í frá stjórnarflokkunum. ríkisstj. þó frekar, og var það minnisblað dags. 14. febr. Formaður kvaðst þá mundu halda nefndarfund eftir 8 daga. Ég vil aðeins minna á það, að þá stóð yfir þing Norðurlandaráðs og ýmsir þm. voru fjarverandi, sem þingið sóttu. Formaður kvaðst mundu halda nefndarfund eftir 8 daga, þ.e. þriðjudaginn 29. febr., með það fyrir augum, að frv. yrði þá afgr. í n. Þann 29. febr. fengum við nm. fundarboð, eftir að við vorum mætt hér á fundi í Sþ. þann dag, og var nefndarfundurinn haldinn kl. 4.30 þá um daginn. Þegar á þann fund kom, hafði formaður meðferðis bréf, sem hann opnaði þar og sýndi sig að hafa inni að halda viðbótarbrtt. merktar Minnisblað 2, og var það plagg dags. 22. febr., þ.e. viku áður en þessi fundur var haldinn. Vildi nú formaður afgreiða málið úr n., en fulltrúar stjórnarandstöðunnar í n. létu bóka mótmæli gegn því, að málið yrði afgreitt án þess að þeim gæfist færi á að ræða í þingflokkum sínum þær nýju brtt., sem nú voru fyrst að koma fram. En þá tók nýtt við; einn af nm. stjórnarflokkanna, sem ekki hafði verið á síðasta nefndarfundi þann 21. febr., lýsti því yfir, að hann væri alls ekki reiðubúinn til að taka afstöðu til tveggja tiltekinna atriða í brtt. á Minnisblaði 1 frá fundinum 21. febr. Það var gert fundarhlé og gekk allt stjórnarliðið yfir í annað herbergi, — ég skal taka það fram, að nm. úr heilbr. og félmn. Nd. sátu meira og minna þessa fundi með okkur. Stjórnarliðið gekk sem sé í annað herbergi til að ræða vandann, en við fulltrúar stjórnarandstöðunnar sátum eftir og biðum átekta. Eftir á að gizka 40 mín, mætti stjórnarliðið allt til fundar, og þá var lýst yfir, að fleira yrði ekki gert á þessum fundl. og boðaður fundur kl. 9 að morgni næsta dags. Sá fundur hófst á tilteknum tíma, en lítið varð úr fundarstörfum, því að kl. var orðin 10, þegar loks mætti sá nm. stjórnarliðsins, sem áður hafði staðið á. Var nú aftur gert fundarhlé og gekk allt stjórnarliðið enn af fundi, og við biðum, en árangur var sem fyrr enginn, að því er séð varð, af því að eftir alllanga bið kom stjórnarliðið aftur til fundar og formaður tjáði mönnum, að fleira yrði ekki gert á þessum fundi að svo stöddu, en nm. beðnir að vera viðbúnir enn einum fundi að loknum deildarfundi síðar þennan dag. Þessi fundur var svo haldinn síðdegis, og nú lágu fyrir nýjar brtt. við brtt. á Minnisblaði í frá 21. febr. Lauk þar með þeirri viðureign, og var málið nú afgr. úr n.

Þessar aðfarir samstarfsflokka hygg ég, að séu alveg einsdæmi, og þær gefa auðvitað sína mynd af samstarfinu í ríkisstj. og hjá stjórnarliðinu eða þá algjörum skorti á sambandi milli fólks þar. Ég hygg, að það sé tæpast rétt að skella skuldinni á nm. eða fulltrúa stjórnarflokkanna í heilbr.- og félmn., það hafi frekar aðrir ráðið ferðinni. Þeir þurftu hálfan mánuð til þess að karpa um ágreining og knúðu formann n. og reyndar stjórnarlið þar allt til svo auðmýkjandi vinnubragða.

Þegar meta skal þetta frv., verður að hafa í huga annars vegar áhrif þess á hag sveitarfélaganna og hins vegar áhrif þess á skattbyrði gjaldþegnanna, en um þetta síðara atriði verður frv. að skoðast í samhengi við frv. það til I. um breyt. á l. um tekju- og eignarskatt, sem nú liggur fyrir Nd. Alþ. Þegar heilbr.- og félmn. hóf að ræða þetta frv., þá var fram á það farið, að n. fengi í hendur þá útreikninga, sem endurskoðunarnefndin, sem frv. samdi, hefði stuðzt við. Þessu var eytt og talið, að við mundum hafa af þeim lítið gagn, og ég skal svo sem ekkert rengja það. Hins vegar hafa nm. fengið nokkrar töflur í hendur, sem gerðar eru af hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunarinnar, þar sem gerður er samanburður á tekjum sveitarfélaga samkv. núgildandi lögum og frv., einnig samkv. fyrirhuguðum breytingum með og án nýtingarheimildarákvæða. Þessir útreikningar eru annars vegar fyrir landið í heild og hins vegar fyrir Reykjavík. Þegar Reykjavík er undanskilin, liggja því ekki fyrir neinar viðhlítandi upplýsingar um afleiðingar frv., ef að lögum verður, fyrir einstök sveitarfélög í landinu. Samband ísl. sveitarfélaga lét gera athuganir á afleiðingum frv. fyrir kaupstaðina og nokkur hreppsfélög. Sú athugun sýndi, að mikil tekjuskerðing verður hjá ýmsum sveitarfélögum. Þar má sérstaklega benda á ýmsa útgerðarstaði. þar sem mikil og fjárfrek verkefni eru fram undan, svo sem hafnagerðir, gatna- og holræsaframkvæmdir, að ógleymdum lagfæringum umhverfis fiskvinnslustöðvar, sem áætlað er að muni kosta 500 til 750 millj. samtals í ýmsum þéttbýlissveitarfélögum. Þetta eru verkefni, sem þessi sveitarfélög þurfa að sinna í ár og á næstu árum, og útgjöldin koma þarna til viðbótar öðrum nauðsynlegum framkvæmdum og rekstri sveitarfélaganna. Það er alveg ljóst, að þrátt fyrir þær breytingar, sem nú eru fyrirhugaðar á frv. til víkkunar á tekjuöflun sveitarfélaganna, verða ýmis þeirra hart úti, sum af þeim ná jafnvel ekki saman endum miðað við nauðsynleg útgjöld og öðrum er sniðinn svo þröngur stakkur, að þau geta ekki ráðizt í æskilegar nýjar framkvæmdir og þjónustu við sína íbúa. Þetta eru nú heldur óskemmtilegar efndir á loforðum stjórnarsamningsins um að auka sjálfsforræði byggðarlaga. En jafnframt þessu á svo ríkið að taka í sinn hlut samkv. tekjuskattsfrv. ríkisstj. stórkostlega aukna skatta, þ. á m. tekjuskatt, sem í fjárlögum yfirstandandi árs nemur rösklega 3 001 millj. kr. og er sem sé um það bil þrefalt hærri en var í fjárlögum ársins 1971, þar sem þessi tekjuskattur einstaklinga og félaga var rúmar í 100 þús.

Hér hefur verið af hv. frsm. meiri hl. heilbr.- og félmn. oft vitnað í erindi og umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga, sem heilbr.- og félmn. barst. Ég vil leyfa mér að lesa upp úr ályktun þessa fundar, sem haldinn var núna 18.–20. jan. s.l., lesa upp þau ummæli, sem til er vitnað í nál. okkar, sem skipum 1. minni hl. n., en þar segir m.a. svo:

„Fulltrúaráð Sambands ísl. sveitarfélaga ályktaði á fundi sínum 18.–20. jan. s.l., „að tekjustofnakerfi það, sem í frv. felst, gefi alls ekki nægilegt svigrúm til tekjuöflunar. Miðað við svipaða nýtingu tekjustofna sveitarfélaga og á síðasta ári virðist — samkv. upplýsingum Efnahagsstofnunarinnar og fleiri aðila — vanta talsvert til, að heildartekjur sveitarfélaga verði þær sömu samkv. frv. á þessu ári og þær hefðu orðið samkv. gildandi lögum og álagningarreglum sveitarfélaga á síðasta ári, og er þó fullt tillit tekið til lækkunar útgjalda sveitarfélaga.“

Þá bendir fulltrúaráðið á, „að hinir ýmsu tekjustofnar hafi misjafna þýðingu í hinum ýmsu sveitarfélögum, og að einnig þess vegna er meiri sveigjanleiki í notkun tekjustofnanna í sveitarfélögunum nauðsynlegur en gert er ráð fyrir í frv.“, til að vegið verði á móti mismunandi afrakstri hinna ýmsu tekjustofna í sveitarfélögunum.

„Eigi sveitarfélögin að geta haldið þeim framkvæmdahraða, sem þau hafa haft að undanförnu, hvað þá aukið hann, sem víðast hvar virðist nauðsynlegt, er fullljóst, að ákvæði frv. gefa alls ekki nægilega möguleika til tekjuöflunar. Auknar framkvæmdir á vegum sveitarfélaga hafa almennt mun meiri áhrif til aukinnar velferðar stærsta hluta þjóðarinnar heldur en framkvæmdir ríkisins, þar sem sveitarfélagið skapar einstaklingnum hið nánasta umhverfi, sem hann lifir og hrærist í. Aukning framkvæmda sveitarfélaga hefur því mikil velferðaráhrif og getur meira en flest annað stuðlað að betra lífi almennings. Þetta eru röksemdir fyrir aukinni heimild sveitarfélaganna í ráðstöfun þjóðartekna og þar með auknu ráðstöfunarfé þeirra.“ Lýkur hér tilvitnun í nál. okkar.

Eins og áður er rakið, er í málefnasamningi stjórnarflokkanna boðað að endurskoða beri skiptingu verkefna og valds milli ríkis og sveitarfélaga í því skyni að auka sjálfsforræði byggðarlaga. Engin slík verkaskipting hefur átt sér stað. Einungis hefur verið létt af sveitarfélögunum útgjöldum til málefnaflokka, sem þau hafa nánast engin umráð haft yfir, en ný verkefni hafa þeim ekki verið fengin og þá ekki tekjustofnar í samræmi við það, svo sem oft hefur verið á bent, að rétt væri að gera.

Ef athuguð er sú hlið frv., sem að gjaldendunum snýr, er heildarmyndin sízt sérlega ánægjuleg, þegar hin mikla fyrirhugaða skattheimta ríkisins er höfð í huga. Útsvar af brúttótekjum þýðir álagningu á tekjur allt niður í botn, ef svo mætti að orði komast. Það er lagt á jafnvel lítilfjörlegustu tekjur. Frádráttarliðir, sem áður tíðkuðust, svo sem vaxtagreiðslur, sem hvíla þungt á mörgum og þá fyrst og fremst á ungu fólki, sem er að brjótast í að eignast þak yfir höfuðið, slíkir frádráttarliðir eru burtu felldir. Einnig 50% frádráttur af vinnutekjum giftra kvenna, sem og persónufrádráttur til útsvars. Þótt á móti komi lækkaður útsvarsstigi, 10% með heimild til hækkunar á 11%, og nokkur frádráttur á álagt útsvar, svo sem brtt. meiri hl. n. boða, verður tekjuskattur samkv. tekjuskattsfrv. ríkisstj. svo hár með boðaðri breytingu, 44% af skattskyldum tekjum yfir 75 þús., að skattbyrði skattþegnanna mun hækka hlutfallslega verulega, frá því sem nú er. Hún mun aukast hlutfallslega mest á miðlungstekjum, sem eru þær tekjur, sem allur þorri manna hefur.

Meiri hl. heilbr.- og félmn. flytur við frv. 18 brtt., sem frsm. meiri hl. hefur nú gert grein fyrir. Ýmsar þeirra draga úr annmörkum frv., en aðrar má telja vafasamar. Ég skal ekki að svo stöddu ræða þessar brtt., þær mun vafalaust bera á góma í umr. hér á eftir. En það mætti þó kannske vekja athygli á vinnubrögðum, sem mér sýnast nokkuð einkennileg, með því að benda á það, að samkv. 16. brtt. meiri hl. er heimilað að leggja á aðstöðugjald, samkv. III. kafla núgildandi tekjustofnalaga nr. 51/1964, með vissri takmörkun þó, en í næstu brtt. eru sömu lög felld úr gildi eins og þau leggja sig.

Ég vildi líka vekja athygli á því, að aðstöðugjöldin, sem í frv. er ráðgert að falli með öllu niður, þegar þetta ár er liðið, verða samkv. 16. brtt. komin inn í lagatextann sjálfan og þar með ætlaður blífanlegur samastaður, að maður skyldi ætla, en nú hefur hv. frsm. meiri hl. n. reyndar lýst þeirri skoðun sinni, að svo þurfi ekki að verða, og ég veit nú ekki, hvaða ástæða hefur þá verið til þess að taka þetta ákvæði út úr bráðabirgðaákvæðum og setja það inn í lagatextann, alla vega gefur það þó a.m.k. hugmynd um, að ætlunin sé að aðstöðugjöld verði notuð líka næsta ár.

Ég vil svo aðeins víkja að því, að hv. frsm. meiri hl. tíundaði það, þegar hann var að gera grein fyrir brtt. meiri hl., að þarna og þarna hefðu nú verið teknar upp ábendingar frá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Ég verð nú bara að segja: Var ekki alveg hægt að losna við að þurfa að breyta því, ef haft hefði veríð samráð við Samband ísl. sveitarfélaga eins og lofað var? Hitt er svo annað mál, að það er auðvitað ekki allt, sem Samband ísl. sveitarfélaga bendir á í sinni umsögn, sem hér hefur verið tekið til greina. Það má segja, að mikilvægasta ábending þess og sú sem þyngst vegur, sé sú, að frv. gefi ekki nægjanlegan sveigjanleika til þess að öll sveitarfélög landsins megi við una. Þær brtt., sem hv. frsm. meiri hl. gerði hér grein fyrir áðan, rýmka eitthvað möguleika sveitarfélaganna til tekjuöflunar, en sannast að segja nemur það ekki miklu. Það mun koma misjafnlega út fyrir hin ýmsu sveitarfélög. Þegar við fáum töflu um það, hvað þessar breytingar muni þýða, eru þær upplýsingar miðaðar við allt landið, eins og reyndar annað, án þess að það liggi fyrir, hvernig þetta verki fyrir einstök sveitarfélög. Fari svo að frávísunartill. okkar verði felld, er til athugunar að flytja brtt. við frv. til að sniða af því bersýnilega galla. Mun það þá verða gert við 3. umr. málsins.

Eins og vikið er að í upphafi nál. okkar á þskj. 399, munu þess vart finnast dæmi, að gerðar hafi verið jafnveigamiklar breytingar á ýmsum ákvæðum tekjustofnalaga og hér eru boðaðar og þeim ætlað að vera afturvirkar, jafnframt því að vera íþyngjandi fyrir gjaldendur. Það má telja vafasamt, að slíkar lagabreytingar standist, ef til málaferla kæmi um lögmæti þeirra, og heyrt hefur maður um aðila, sem séu staðráðnir,í að láta á það reyna, ef frv. verður að lögum.

Við, sem að nál. I. minni hl. stöndum, teljum, að undirbúningi þessa frv. sé mjög ábótavant. Það muni, ef að lögum verður, þrengja hag fjölmargra sveitarfélaga og hafa jafnvel hinar alvarlegustu afleiðingar fyrir ýmis þeirra. Endurskoðun verkefnaskiptingar hefur ekki átt sér stað og skattbyrði mun þyngjast á öllum þorra gjaldenda, þegar frv. er skoðað í tengslum við stjfrv. um breyt. á I. um tekjuskatt og eignarskatt. Við leggjum því til, að frv. verði vísað frá, en skipuð verði nefnd til endurskoðunar á tekjustofnalögunum, sem í eigi sæti, væntanlega þó auk annarra, fulltrúar frá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Þingnefnd verði gefinn kostur á að fylgjast með endurskoðuninni, sem fram fari samtímis endurskoðun á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, og störf þeirra nefnda, sem að endurskoðun vinna, verði samræmd.

Við endurskoðunina verði svo þessi meginátriði höfð í huga:

1. Að skattlagningu verði hagað þannig, að hún örvi einstaklinginn til framtaks og sparnaðar og auki áhuga hans á þátttöku í atvinnurekstrinum. Þetta næst bezt með því að skattleggja fremur eyðslu en sparnað. Ég vil bæta því við, að sjálfstæðismenn hafa ávallt haft uppi varnaðarorð, varað við því að ganga svo hart að atvinnurekstrinum, auk að sjálfsögðu einstaklinganna líka, að það dragi úr framtaki manna, sem skapar okkur lífvænlega afkomu í þessu landi.

2. Að dregið verði úr beinum tekjusköttum og lög um söluskatt verði tekin til heildarendurskoðunar og kannað um leið, hvort virðisaukaskattkerfi henti íslenzkum aðstæðum betur en núverandi söluskattskerfi.

3. Í samræmi við það, að dregið verði úr beinum tekjusköttum, verði að því stefnt, að sveitarfélögin ein fái umráð þeirra, en ríkissjóður byggi í framtíðinni tekjuöflun sína eingöngu á óbeinni skattlagningu.

4. Á tekjur einstaklinga og félaga verði lagt tekjuútsvar á grundvelli nettótekna.

5. Verkefnaskipting milli ríkis og sveitarfélaga verði endurskoðuð frá grunni og heimild sveitarfélaga til á lagningar útsvara verði miðuð við fjárþörf þeirra vegna aukinna verkefna, sem þeim verði falið að leysa.

6. Stefnt verði að frekari lækkun aðstöðugjalda. Samfara því verði sveitarfélögum séð fyrir réttlátari tekjustofni vegna þjónustu þeirra við atvinnufyrirtæki.

7. Fasteignaskatti verði í hóf stillt og litið á hann sem þjónustuskatt til sveitarfélaga og hámark hans ákveðið í samræmi við það. Sveitarfélögunum verði ekki gert að skyldu að leggja á fasteignaskatt, heldur verði hér um að ræða heimildarákvæði.

8. Tekjum hjóna verði skipt til helminga og útsvar reiknað af hvorum helmingi um sig. Í sambandi við þetta síðasttalda skal það rifjað upp, að árið 1953 fluttu þeir Jóhann Hafstein og Magnús Jónsson frv. til l. um lækkun skatta á fjölskyldufólki, skattfrelsi á lágtekjum, skattfríðindi o.fl. 2. gr. þessa frv. var svo hljóðandi: „Skattskyldum tekjum hjóna skal skipta til helminga og skattur reiknaður af hvorum helmingi um sig.“

Það er gamalt umræðuefni, hvernig réttlátast verði skipað skattamálum hjóna. Sú regla, sem við nú búum við, heimilar annars vegar, að hjón telji fram sérstaklega sitt í hvoru lagi, en að mestu leyti er þá miðað við, að frádráttarheimildir komi í hlut bóndans. Sú regla, sem hér er lagt til að upp verði tekin, hefur mikla kosti og ég tel, að sá sé hennar mesti kostur, að með henni sé það viðurkennt, að þau störf, sem húsmóðirin vinnur inni á heimilinu, séu jafnmikils virði fyrir fjölskylduna og fyrir þjóðfélagið og störf þeirra, sem vinna utan heimilis, hvort heldur það er kari eða kona.

Þessi skoðun kemur einnig fram í framsöguræðu Jóhanns Hafstein, er hann flutti, þegar þessu áður umtalaða frv. var fylgt úr hlaði í Alþ.

Verði frávísunartillaga okkar 1. minni hl. samþ., munum við leggja fram till. um breyt., sem nauðsynlegt yrði þá að gera á gildandi lögum varðandi fasteignaskatta vegna hins nýja fasteignamats og útsvarsstiga vegna þeirra gjalda, sem ríkissjóður yfirtekur frá sveitarfélögunum.

Ég skal þá aðeins minnast á skattvísitöluna. Hæstv. ríkisstj. byggði fjárlagafrv. sitt fyrir yfirstandandi ár á því, að skattvísitalan yrði 106.5 stig. En við sjálfstæðismenn teljum, að hún eigi að vera 121.5 stig með hliðsjón af hækkun almennra launatekna á árinu 1971 og þeirri stefnu, sem mörkuð var af fyrrv. ríkisstj. og stjórnarflokkum, að vinna upp á þessu ári og því næsta, að skattvísitalan fylgi hækkunum almennra launatekna.

Herra forseti. Ég hef nú lýst afstöðu okkar til þessa frv., sem hér liggur fyrir, og fært rök fyrir því, að því beri að vísa frá. Það er uggur nú í öllum almenningi, hvað hans bíði í skattaálögum til hins opinbera. Þegar mönnum á sumri komanda berast álagningarseðlar og hver einstakur sér svart á hvítu, hvert verður hlutskipti hans í þessum efnum, verða það tæpast hlýjar hugsanir, sem berast til ríkisstj., ef svo fer fram sem nú horfir. Ég held, að hæstv. forsrh. ætti þá, og það með góðum fyrirvara, að biðja menn að láta af þeim sið, sem hann áður hefur ráðlagt landsmönnum, að lesa málefnasamning stjórnarflokkanna kvölds og morgna og bera saman gullin loforð og efndir.